25.1.2007 | 21:43
OMG - Enn og aftur redding
Þetta er búinn að vera nokkuð stressandi dagur. Í gærkvöldi leit hann bara vel út...en klukkan 1130 sprakk á dekki á bílnum mínum og það var erfiðara en andskotinn að losa það af. Þetta setti daginn hálftíma á eftir áætlun - sem ég náði síðan aldrei að leiðrétta fyrr en núna - um það leiti sem maður er að fara í ró.
Það skýrir líka kannski eldamennskuna - öllu má nú nafn gefa - því þetta var engin eldamennska - hráefnum var bara raðað saman í skál. Smá salat útbúið...vesgú. Þegar maður er í tímahraki og allir eru farnir að öskra úr svengd - þá eru bara stundum góð ráð dýr - og ódýr ráð bara nokkuð bragðgóð.
Maður á eiginlega að skammast sín fyrir að láta svona flakka á netinu. Enn ef maður á að reyna að halda nokkuð raunsanna dagbók af eldhúsinu þá þarf líka þetta slappa að fá að fljóta. Ég held að ég hafi látið svipaða uppskrift á netið um daginn.
1 kjúklingur - tilbúinn úr búð - var hreinsaður af beinunum. 1 piparostur var hitaður í örbylgju (ég þoli ekki að nota örbylgju í matargerð - finnst það einhver lágkúra - en hvað um það). Blandað saman við kjúklinginn. Ferskt basil, ca 15 lauk, skorið julienne (varð að skjóta einhverju flottu inn í þessa lágkúru) og timian tekið af 2 greinum. Saltað aðeins og piprað. Smávegis af soðinu af kjúklingum var látið með til að bleyta í blöndunni. 300 gr af pasta var soðið skv. leiðbeiningum og þegar það var tilbúið var því blandað útí í blönduna.
Borið fram með sveitabaguette, og smávegis salati. Sonur minn sem er 18 mánaða var himinlifandi - hann lítur aðallega bara við mjólkurvörum - enda þekktur sem drengurinn sem borðaði bara skyr!
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Athugasemdir
Sæll Ragnar. Frábær umfjöllun í Mogganum í dag og skemmtileg síða. Til hamingju með þetta :) Nú er bara að tækla sushiið ;)
Kveðja frá London
Sigrún og Jóhannes
Sigrún og Jóhannes (IP-tala skráð) 26.1.2007 kl. 08:26
Sæll Ragnar. Mikið rosalega er gaman fyrir matgæðing eins og mig að lesa þetta blogg. Uppskiftirnar þínar hljóma ótrúlega vel og ég á mikið eftir að koma hingað inn og fá hugmyndir, og bæta í uppskriftasafnið mitt, sem telur örugglega tugi, ef ekki hunduð, þúsunda af uppskriftum, en aldrei finnst manni komið nóg :)
Kveðja, frá ókunnugri.
Þorgerður (IP-tala skráð) 26.1.2007 kl. 09:45
Hæ Ragnar
Gaman að lesa um þig í Mogganum í dag, flott síða hjá þér, nú fylgist maður reglulega gamla bekkjarfélaganum.
Kveðja Gilla
Geirlaug (IP-tala skráð) 26.1.2007 kl. 18:39
Hæ Ragnar minn!
Vildi láta þig vita að ég hef aldrei fengið önnur eins hrós fyrir matargerð mína eins og þegar ég kokkaði eftir uppskrift þinni: kjúklingur, rjómasveppasósa, rauðkál, kartöflur með chili og rósmarín og klettasalat með Dalaosti. Hvílík og önnur eins snilld! Haltu áfram þessum skrifum, ég vil svo gjarnan fá meiri innblástur og auðvitað fleiri hrós!
Þín Elva
Elva (IP-tala skráð) 4.2.2007 kl. 18:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.