Besta opna samlokan: Steikarsamloka með dijon sinnepi, karmelliseruðum lauk, sveppum og steiktu eggi

Eins og kom fram í seinustu færslu þá var ég grasekkill í vikutíma vegna þess að fjölskyldan mín fór viku á undan mér til Íslands. Ég lifði nokkuð góðu lífi á meðan, var oft boðið í mat og hafði það barasta alveg ágætt - þrátt fyrir söknuð og tómlegt hús. Ég hafði reyndar ekki búist við því að fá svona mörg heimboð þannig að ég hafði tekið út entrecote bita sem ég átti í frysti til að gæða mér á. Það gekk bara ekkert að borða bitann vegna heimboða - ekki að ég sé að klaga. Á sunnudagsmorguninn var því brugðið á það ráð að gera steikarsamloku. Þessi matur er því afleiðing þess að vera boðin of oft í mat. Kjötbitinn var ansi stór þannig að ég bauð líka Þóri, Signýju Völu og systur hennar Unni, til að borða með mér.

Annars var ég á Íslandi seinustu helgi - svona extra löng helgi. Þetta var alveg einstaklega vel heppnuð heimsókn -frábær ferð - veðrið var dásamlegt. Lennti á miðvikudaginn í morgunsárið og fór í morgunverð hjá mömmu og pabba. Fórum svo í gönguferð niður laugarveginn, fengum okkur pylsu (að sjálfsögðu Bæjarins bestu). Fórum í mat hjá Sverri og Bryndísi í nýja húsinu þeirra í Hrefnugötunni, á fimmtudaginn fórum við í sund á Álftarnesi og síðan um kvöldið í mat hjá Viggu og Bassa. Helgin fór svo í að undirbúa afmæli foreldra minna í Kjósinni - þetta var stórafmæli eins og þau gerast best - tvöfalt sextugs afmæli. Allur föstudagurinn fór í að undirbúa forréttina með foreldrum mínum og frænkum. Á laugardaginn vorum við bræðurnir að hjálpa Ragnari Blöndal kokki að elda aðalréttinn - ég tók mjaðmabeinuð úr 16 lambalærum. Um kvöldið var síðan meiriháttar veisla á bænum Hjalla í Kjósinni. Mér fannst veislan heppnast alveg stórkostlega. Mamma og Pabbi takk fyrir mig!

Besta opna samlokan: Steikarsamloka með dijon sinnepi, karmelliseruðum lauk, sveppum og steiktu eggi

Þessa opnu samloku er best að gera þegar maður hefur setið aðeins frameftir kvöldið áður með góðum vinum!

IMG_0535

Fyrst er að er að byrja á lauknum vegna þess það að karmellisera hann tekur lengstan tíma. Skera hvítan eða rauðlauk niður í fínar sneiðar og steikja í olíu við lágan hita í um 15-20 mínútur. Hann má brúnast örlíitð, hann á að verða mjúkur og girnilegur. Salta aðeins og pipra. Svo er ekkert verra að hella matskeið af hlynsírópi og blanda saman.

Síðan er að steikja sveppina í smávegis hvítlauksolíu. Þá er næst að steikja kjötið - fyrst þó að skera það í þunnar sneiðar, salta og pipra og síðan steikja örstutt á hvorri hlið. Tekið af pönnunni. Síðan er brauðið steikt á sömu pönnu. Á annarri pönnu er svo eggið steikt. Núna er ekkert annað að gera en að bera á borð.

Fyrst er að smyrja brauðsneiðina með dijonsinnepi eða grófu sætu sinnepi. Síðan að setja smávegis af karmelliseruðum lauk á brauðið, síðan raða kjötsneiðunum. Þá er setja nokkrar sveppasneiðar, svo eggið. Saltað og piprað og síðan sáldra smávegis af smátt skorinni steinselju úr garðinum.

IMG_0536

Bon appetit.

ps. biðst afsökunar á myndunum - þær voru teknar með iphone - og myndavélin er ekki upp á marga fiska.

Sjá hér á miðjunni - stærri myndir og ýmislegt annað áhugavert


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband