22.1.2007 | 19:56
Sunnudagssteikin - The Sunday Roast
Í minni fjölskyldu er mikil hefð að hafa matarboð á sunnudagskvöldum. Yfirleitt er það fjölskyldan sem kemur saman oftast heima hjá mömmu og pabba, mamma eldar lambalæri eða kjúkling, en ég er farinn að bjóða heim í ríkari mæli. Í gær gerði ég undantekningu á og bauð ekki fjölskyldunni heldur bauð góðum vinum mínum í mat sem ég hef ekki hitt síðan einhvern tíma fyrir jól. Við hjónin eigum ansi náinn vinahóp þannig að kannski má segja að maður hafi verið að bjóða fjölskyldumeðlimum.
Börkur vinur minn var að flytja ásamt konu sinni og fyrst var hitað upp með smá húsgagnaflutningum. Við vorum orðin ansi svöng þegar maturinn var snæddur klukkan þá að verða hálf níu. Það voru sex manns í mat.
Ég eldaði kjúkling í matinn í þetta sinn. Kjúklingur er mikill uppáhaldsmatur hjá mér, sérstaklega að steikja heilan kjúkling í ofni, fylla hann með einhverju góðgæti og krydda vel. Maturinn í gærkvöldi helgðist dáldið af því að ég átti talsvert af hráefni eftir frá því matarboðið seinustu helgi og því ber matarboðið dáldin keim af matarboðinu sem var haldið rúmri viku fyrr.
Ég keypti tvo kjúklinga. Undirbúningurinn á þeim var nú frekar einfaldur. Ég átti afgang af ristuðu heslihnetu og kóríandersmjöri sem ég útbjó seinustu helgi. Smjörið fékk að ná herbergishita þannig að það var mjúkt og meðfærilegt og tróð ég því undir skinnið/haminn hjá bringunum og svo gerði ég smá skoru í lærin og tróð smá af smjörinu þar inn. Kjúklingurinn var svo pennslaður með smávegis ólívuolíu og saltaður og pipraður rækilega. Inni í holið setti ég svo hálfan flysjaðan hvítlauk, heilan rauðlauk skorinn í 8 bita og hálfa sítrónu. Þetta var svo sett í forhitaðan ofn og steikt í einn klukkutíma og korter eða þar til hiti í bringunum var orðin 82 gráður (mikilvægt að nota hitamæli þá klikkar aldrei neitt). Hvítlaukurinn sem var bakaður inni í holinu á fuglinum varð mjúkur og sætur - einstaklega góður þegar maður borðar rifin heil - það á víst einnig að verja mann frá kvefpestum - ekki verst á þessum síðustu og verstu tímum.
Ég skar niður 2 sætar kartöflur og 2 bökunarkartöflur í munnbitastærð og blandaði vel saman. Hellti yfir þær um 3 msk af jómfrúarolíu og salti og pipar. Raðaði þessu í eldfastmót. Setti ferskt rósmarín með helmingum og svo ferskan chilipipar með hinum helmingum. Fjarlægði reyndar fræin innan úr honum þau eru sterkasti hluti piparsins. Bakað í ofni í tæplega klukkustund.
1 haus af rauðkáli var sneiddur niður. 1 pakki af beikoni var skorinn í bita og steikt í potti og tveimur söxuðum grænum eplum var því næst sett útí ásamt rauðkálinu. Þetta fékk aðeins að mýkjast í pottinum. Svo var 30-50 ml af Balsamic vinegar bætt saman við sem og 2 msk af Maple sýrópi. Saltað og piprað. Rauðkálið, eplin og beikonið er því nánast soðið niður í edikinu.
Ég útbjó ferskt salat oftast geri ég einföld salöt þetta var engin undantekning það var bara aðeins betra en venjulega. Klettasalat var lagt á flatan disk, niðursneiddar perur lagðar ofan á og svo blá dalayrja í þunnum sneiðum. Því næst var ferskum kóríander stráð yfir.
Sósan með matnum var ansi rich ég geri yfirleitt ekki miklar rjómasósur bæði vegna þess hve fitandi þær eru (maður er alltaf að reyna að grenna sig erfitt þegar aðal áhugamálið er að elda) og líka vegna þess að það er meiri ögrun að gera góða soðsósu það þarf meiri elju til. En rjómi er líka góður...og eyðileggur engan mat. Fjögur maukuð hvítlauksrif og 1 smátt skorin rauðlaukur var hitaður í potti með smá olíu. Þegar laukurinn var orðin gljándi setti ég 250 gr af niðursneiddum sveppum og steikti vel leyfði þeim að taka aðeins lit. Hálfum líter af vatni er bætt útí, og tveimur kjúklingakraftstengingum. Einnig hellti ég því sem lak af kjúklingum útí sósuna. Saltað og piprað vel og soðið aðeins niður kannski í rúman hálftíma. Svo var 300 ml af rjóma bætt í sósuna og soðið áfram niður. Smá gráðaosti var bætt útí og smáttskorinni steinselju. Saltað og piprað þar til gott jafnvægi var komið á sósuna.
Þetta var svo borið fram með Vicars choice Pinot Noir 2005 og Tommasi Ripasso rauðvíni. Maturinn heppnaðist mjög vel og því miður voru engir afgangar til að hafa í kvöld.
Flokkur: Matur og drykkur | Breytt 23.1.2007 kl. 11:06 | Facebook
Athugasemdir
Vá, en töff að vera með matardagbók. Ekki verra að uppskriftirnar eru spennandi og ferskar. Ætla sko aldeilis að fylgjast með.
Bestu kveðjur,
Sóley
Sóley Tómasdóttir (IP-tala skráð) 22.1.2007 kl. 20:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.