Færsluflokkur: Matur og drykkur

Gúllas að hætti Snædísar!!!

Eiginkona mín tók að sér eldamennskuna í kvöld - ég og pabbi sáum um frágang. Mun aldrei sjá eftir því að hafa samið um að sjá um eldamennskuna - ekkert eins leiðinlegt og frágangur. Ég hef nefnt það nokkrum sinnum á netinu að Snædís konan mín er ekki mjög framtakssöm í eldhúsinu - en það sem hún eldar gerir hún vel - og gúllas er einn af þeim réttum sem hún gerir vel - það verður ekki frá henni tekið.

Mamma og pabbi komu í mat og ég sá ekki betur en að þau voru afar ánægð með afraksturinn.

500 gr af nautagúllasi, 4 niðursneiddar gulrætur, 1 smátt saxaður rauðlaukur, 250 gr sveppum skornir í fernt steikt á pönnu í ólívuolíu. Á þetta er hellt 1 líter af vatni, 1 lárviðarlaufi og látið malla í 30 mínútur. Svo er 1/2 litla dós af tómatpure, 1 glas af rauðvíní, 5 kartöflur skornar í bita, nautakraftur miðað við vatnmagn (eða bara setja meira kjöt). Kryddað með salti, pipar, hvítlaukssalti, soya sósu. Í lokin var sett hálfur bolli af matreiðslurjóma og látið sjóða áfram í svona 15 mínútur.  

 2 bollar af Basmati hrísgrjónum eða öðrum hrísgrjónum er soðið skv leiðbeiningum í söltuðu vatni og borið fram með gúllasinu.

Salatið var útbúið á flötum disk. 50 gr af klettasalalti var lagt á disk og svo var raðað einum niðurskornum mozzarellaosti ofan á. Einn lítill rauðlaukur var niðursneiddur og dreifður yfir sem og hálfri papriku sem var skorinn í fremur litla bita. Einn tómatur var skorinn í sneiðar og raðaður á salatið. Í lokinn var ferskri steinselju dreift yfir. Smá slettu af jómfrúarolíu var skvett yfir og svo saltað og piprað.

 Þetta var svo borið fram með smá brauðhleif og rauðvíni - Museum Crianza 2001 - spánskt - milt og hæfði matnum vel.


Heimagerð indversk lambakássa með nanbrauði og haldi-basmati

Er ansi ánægður með afrakstur eldhúsins í kvöld. Eina sem ég þurfti að kaupa inn í dag var 2 dósir af hreinni jógúrt - annað var eldað út úr skápunum...og ég náði að elda þennan mat á 45 mínútum (frágangur mun sennilega taka lengri tíma-dow!!!). Okkur hjónunum þykir indverskur matur ákaflega góður. Elda hann alltof sjaldan - á oft í erfiðleikum með að slíta mig frá ítalska matnum (sem er eiginlega bara ýsa og kartöflur okkar kynslóðar).

Maður þarf að eiga svolítið af kryddi í skápnum til að gera indverskan mat - það er gott að fara í matreiðslubækur og oft á fyrstu síðunum er listi yfir krydd sem gott er að eiga. Þetta eru þó nokkrar krukkur til viðbótar í skápinn en þetta geymist von úr viti - þannig að þetta er góð fjárfesting. En betra er að kaupa fræ - þau munu geymast en lengur en muldar kryddjurtir. Mörg indversk krydd eru kryddblöndur (masala = blanda) og eru mörg hver ansi góð þó fátt sé betra en að búa til sín eigin í morteli.

Indversk innblásin lambabollukássa með nanbrauði og haldi-basmati.

500 gr af lambahakki, 1 brauðsneið, tætt, 1/3 búnt steinselja, 1 tsk kóríander duft, 1 tsk paprikuduft, 1 tsk garam masala, 1/2 tsk túrmerik, salt, pipar, 1 egg, 1 smátt saxaður laukur, 5 söxuð hvítlauksrif er blandað saman og hnoðað í kjötbollur (golfboltastærð).

Olía hituð á pönnu og smávegis túrmerik, kóríanderduft og papríkuduft hitað í olíunni. Bollurnar steiktar báðu megin.

Sósan er útbúin á þann hátt að smávegis olía er hituð í potti og 4 söxuð hvítlauksrif, 1 tsk túrmerik, 1 tsk kóríander duft, 1 tsk paprikuduft, 1/2 tsk kúmenduft og smávegis hvítlauksduft er hitað í olíunni. Svo er 2 niðursneiddum laukum (í laukhringjum) bætt við og þeir steiktir þannig að þeir taki aðeins lit. Svo er einni dós af hökkuðum tómötum, 1 dós af hreinni jógúrt bætt út í. Saltað og piprað eftir smekk. Lambabollunum bætt útí og öllum vökva af pönnunni. Blandað vel saman. Oft verður svona kássa aðeins súr á bragðið vegna niðursoðnu tómatanna og jógúrtarinnar og þarf því að sæta aðeins með annað hvort sykri eða bara smá tómatsósu (maður er ekkert verri kokkur fyrir vikið). Látið malla aðeins á meðan restin af matnum er undirbúinn.

Best er að byrja á nanbrauðinu. 500-600 ml af hveiti er sett í skál, smávegis af fínu salti og svo 2 msk af olíu. 3 tsk sykri er leyst upp í volgri mjólk og svo er gerið sett saman við og vakið í mjólkinni. Mjólkurgerblöndunni er svo blandað saman við hveitið og hrært saman. um 200 ml af Ab mjólk (eða jógúrt, eða fiftyfifty mjólk og Ab mjólk) hrært saman við og smávegis mjólk. Deigið er hnoðað þar til það verður mjúkt og meðfærilegt og hætt að klístrast við hendurnar á manni. Látið hefast í 30 mínútur (lengur ef það er hægt). Smábitar eru svo klippnir af deiginu og flattir út með fingurnum í lófastórar þunnar kökur sem eru pennslaðar með smávegisolíu og saltaðar með Maldon salti og svo þurrsteiktar á heitri grillpönnu. 

Basmati hrísgrjón eru soðin eftir leiðbeiningum. Þegar þau eru til er vatninu hellt frá. Svo er 1-2 tsk af olíu af hituð á pönnu og 1 tsk haldi (túrmerik - aðeins að láta þetta hljóma flottar) og 1/2 tsk paprikuduft hitað á pönnunni og hrísgrjónunum svo skellt á pönnuna. Þau munu öll verða fallega gul. Ég bætti svo handfylli af rúsínum og smávegis af hálfum cashew hnetum saman við og steikti í smástund.

Þessi máltíð heppnaðist afar vel - verður án efa elduð aftur. Kássan var alls ekki sterk á bragðið og dóttir mín, sem er sex ara, og vinkona hennar voru mjög hrifnar af matnum.

 


Eldað út úr fátkæklegum ískáp - Tagliatelle somethingorother-ara

Þriðjudagskvöld - mikið á hlaupum í dag. Tveir fundir í dag eftir vinnu og því lítill tími að undirbúa - hvað þá elda mat. Gleymdi að taka út úr frystinum í gær og því var ákveðið að improvisera út úr ískápnum.

Það má segja að Spaghetti Carbonara hafi verið lagt til grundvallar að því leiti að gerð var eggjasósa - en í staðinn fyrir beikon (sem ég átti mjög lítið af) var sett sitt lítið af hverju. Resúltatið var alveg ágæt - en ekki þannig spes að ég kem til með að gera þetta aftur - orginallinn er náttla alltaf bestur.

4 hvítlauksrif, 1 lítill smátt skorinn laukur eru hituð í olíu á pönnu, smávegis (50 gr) af niðurskornu beikoni, 1 púrrulaukur, 150 gr af kastaníusveppum eru svo steikt á pönnunni. Í lokin er handfylli af furuhnetum sett útí. Saltað aðeins og piprað.

4 egg, 50 gr af rifnum parmesanosti, salti, pipar er hrært saman. Pastað, í þetta sinn Tagliatelle, soðið skv leiðbeiningum - al dente. Þegar pastað er soðið er vatninu hellt af og pastað sett svo aftur í pottinn og gumsinu af pönnunni og eggjablöndunni hellt yfir pastað, hrært vel saman. Þetta er látið standa í 2 mín í lokuðum potti. Fann nokkur fjólublá basillauf inní ískáp sem var hrært saman í lokin, ásamt smá steinselju.

Borið fram með smá salati og brauði. Þetta var alltílagi svona vikudagsmatur. Tók ekki nema 15 mínútur að undirbúa - eiginlega bara þann tíma sem pastað var eldað.


Purusteik með eplum, ofnbökuðum kartöflum og soðsósu

purusteikBúinn að eiga meiriháttar dag. Dóttir mín gisti hjá ömmu sinni í nótt - sonur minn svaf til klukkan tíu, við fengum því að sofa út - dásamlegt - alltof sjaldan sem það gerist. Fór í skvass um hádegið - kollegi minn Tómas Guðbjartsson hjartalæknir lamdi mig sundur og saman - aftur meiriháttar - alltaf gaman að skvassa - meirisegja þó að maður tapi. Náði að vinna aðeins seinnipartinn á meðan ég undirbjó matinn.

 Tengdamóðir mín, Hrafnhildur, Mágkona mín, Kolbrún, og svilkona mín hún Inga Dóra, Marteinn sonur þeirra og Petra frænka voru í mat.

Fékk ráðleggingar frá tveimur sálfræðingum um hvernig ætti að elda purusteikina, bæði frá manni frænku minnar, Andrési Magnússyni og hinsvegar Magnús F Ólafsyni kunningja okkar. Uppástungur að aðferðafræði voru algerlega ólíkar - Magnús vildi steikja svínabóginn fyrst á pönnu - puruna niður, pressa hana alveg á pönnuna - Andrés ráðlagði að leggja steikina í sjóðandi vatn með krafti, puruna niður, í 20 mínútur í 200 gráðu heitan ofn - báðir vildu svo salta, pipra og spekka með negul og baka síðan í ofni á hefðbundinn hátt.

Ég ákvað að þiggja ráðlegginar Andrésar - hann hefur eldað svínalæri á gamlárskvöld fyrir fjölskylduna undanfarin tuttugu ár - og hverju ári hefur steikin verið perfekt - ég meina perfekt!!! Þannig að ég gat ekki annað en farið að hans ráðum - maður er þá að byggja á 20 ára reynslu - sem maður hefur smakkað öll nema 4 af þessum 20 árum.

 Svínabógurinn (2,6 kg) var skoruð af starfmanni í Kjötborði Nóatúns - ég nennti því ekki sjálfur. Fyrst 2 L vatni soðnir og hellt útí ofnpott - svo var 2 teningum af krafti leyst upp í vatninu sem var saltað lítillega. Svínabógurinn var svo settur útí puran ofan í vatninu og bakað í 200 gráðu heitum ofni í 25 mínútur. Svo var hann tekin út og salti nuddað vandlega ofan í puruna, einnig piprað aðeins. Í staðinn fyrir negul spekkaði ég bóginn með fersku rósmaríni. Svo var steikin bökuð í 180 gráðu heitum ofni þar til kjarnhiti varð 77 gráður - tók um 2 klst. Steikin er sett á grind fyrir ofan fat sem inniheldur vatnið úr ofnpottinum auk 1 tening af svínakrafi,  20 piparkorn og 2 lárviðarlauf - sem grípur allt sem rennur af steikinni. Þegar 1 klst var liðin af eldunartímanum bætti ég 1/2 líter af vatni útí til viðbótar. Síðustu mínúturnar er yfirhiti/eða grillið sett í gang og þannig "poppast" puran, og verður svona eins og pura á að vera. Þarna verður að passa steikina vel því að það er stutt á milli vel heppnaðar puru og brunarústa.

Þegar 45 mínútur voru eftir af eldunartímanum á purusteikinni raðaði ég 10 kartöflum skornar í 8 skífur með hýðinu á, 2 rauðlauka í 8 bitum, 150 gr af kastaníusveppum, 4 skarlottulaukar og heilan hvítlaukur í rifjum í eldfast mót. 5 msk af hvítlauksolíu hellt yfir og hrært vel saman. Sett í 180 gráðu heitan ofn í 45 mínútur.

 Fjögur græn epli voru flysjuð og skorinn í þunna báta og lögð í sítrónuvatn (þannig verða þau ekki brún). 50 gr af smjöri voru brædd á pönnu og ferskt rósmarín, eins og af 4 greinum, sett útí þegar smjörið var tilbúið. Steikt í smá stund - lyktin gýs á móti vitum manns - eplinn sett útí og steikt þar til þau karmelliserast. Smá dash af Cognac Frapin skvett yfir og soðið niður.

Konan mín bjó til ferskt salat, 1/5 haus iceberg, 1/4 poki klettasalat, 2 plómutómatar, 1/2 rauð paprika, 15 lauf af ferskri myntu, ristuð graskersfræ og smá fetaostur var raðað á disk.

Sósan heppnast vonum framar - Þegar steikin var að ná réttum kjarnhita var hún tekin út úr ofninum (á meðan var kveikt á grillinu og ofnin hitaður í 250 gráður). Vatninu hellt af í stálkönnu. Smjörbolla var undirbúinn í potti  - 40 gr af smjöri brætt og hveiti bætt útí þar til orðið að mjúkum leir - Soðinu svo hellt varlega saman við (í gengum sigti svo piparinn eða lárviðarlaufinn færu ekki með) og hrært stöðugt. Sósan verður fallega gljáandi. Bætti svo við 50 ml af matreiðslurjóma til að fá fallegri lit á sósuna - suðan fékk að koma upp á þá var hún tilbúinn.

Borið fram með Val Sotillo crianza rauðvíni frá 2001. Frábært.

 Í desert var Vanilluís með muldu Nóakroppi (tætti það með töfrasprota) þannig að það varð að grófu dufti. Einnig var útbúinn heimagerð súkkulaðisósa, nokkrir tobleronebitar leystur upp í smá matreiðslurjóma - namminamm.


Fjögurraosta pizza, kartöflupizza og rauðvínssopi

Var á 10 ára endurfundapartíi MHinga í gærkvöldi. Ætlaði rétt að skreppa með Sverri vini mínum og vera kominn snemma heim. Það fór nú annan veg - svona er það þegar maður hittir mikið af skemmtilegu fólki. Vorum fyrst á stúdentakjallaranum og svo á Celtic cross - þetta var alveg ekta djamm, bara svo eins og í gamla daga - hörkugaman og skemmtilegt að sjá öll þessi andlit aftur, mér fannst eiginlega enginn hafa breyst. Var seint á ferðinni í nótt og með smá samkvæmisflensu í morgun - en lét það ekkert aftra mér að eiga góðan laugardag. Maður verður að vera góður við sig á dögum þar sem maður er aðeins framlágur og ákváðum við því að gera heimagerðapitsu - dóttir mín er alltaf hrifinn af því að fá pitsu - sérstaklega þar hún hjálpar mér alltaf að gera deigið og raða á pitsuna.

Hef áður birt uppskrift af pitsubotni og geri eiginlega bara copy/paste - breyti þessu bara aðeins.

Útí 250 ml af ylvolgu vatni er sett 2 tsk þurrger og 30 g af sykur eða hunangi . Blanda saman vatninu, gerinu og sykri (eða hunangi) saman og leyfi gerinu að vakna - þá freyðir svona ofan á vatninu - tekur svona 10-15 mín. 500-700 gr. hveiti er er sett í skál og saltið og olían blandað saman við. Mikilvægt er að leyfa gerinu að vakna vel og rækilega og ekki setja saltið þarna úti - þar sem saltið hamlar aðeins gerjunarferlinu. Blanda vatninu svo hægt saman við hveitið þar til það verður að góðum deigklump. Það er mikilvægt að hræra deigið vel - þannig hefast það mikið betur og bragðast líka betur. Ég vil að deigið dúi vel undan fingri og þegar áferðin er þannig að deigið jafnar sig hratt þegar maður ýtir fingri í það breiði ég viskastykki yfir skálina og leyfi að hefast - eins lengi og maður hefur tíma. Deigið er nóg í tvær pizzur.

Ég er eiginlega alveg hættur að nenna að gera mínar eigin tómatsósur fyrir pitsur - þó að það sé nú eins einfalt og huxast getur - núna nota ég eiginlega bara Hunt roasted garlic tomato sauce. Hún er afar bragðgóð - milt og alls ekki súr.

Fjögurra osta pitsa.

Á fyrstu pitsuna setti ég fyrst smá gouda ost - niðurrifinn. Svo mozzarellaost sem ég skar í kubba. rjómaostur var settur á alla pitsuna. Á annan helminginn setti ég gullgráðaost og á hinn helmingin bláan kastalaost. Parmesan ostur var svo rifinn yfir allt saman.

Það kemur kannski spánskt fyrir sjónir en ég bar ostapitsuna fram með smávegis chillihlaupi sem Þorbjörg hjúkrunarfræðingur á St. Jósefspítala færði mér - hún gaf mér líka uppskriftina, sem ég því miður týndi. Alveg frábær sulta. Hún gaf mér líka chilli og sólberjasultu sem var líka alveg meiriháttar.

Kartöflupitsa - afgangar nýttir fram í ystu æsar. 

Hin pitsan var meira svona afgangapitsa. Ég átti kartöflur frá því í matnum í gær - skar þær niður í sneiðar og raðaði á pitsuna - chillipipar sem var með þeim var einnig dreift yfir. Svo setti ég ferska niðurskorna sveppi og einnig sveppina sem voru afgangs úr kartöfluréttinum í gær. Því næst dreifði þistilhjörtum yfir, svo rifnum osti og í lokinn smávegis af beikoni. Alveg meiriháttar góð - mjög svona - hvað ætti maður að segja... rustico!

Þetta var bakað í ofni í 15-20 mínútur við 180 gráðu hita. Með þessu var drukkið Laderas de El Segui frá 2005 sem er spánskt rauðvín sem Kristinn Grétarson færði mér um daginn. Gott vín - bragðmikið, þurrt og með góðu eftirbragði - passaði vel með matnum.

 


Nautasteik á nýjan máta með salsasósu

steik með salsa 2Núna er verið að reyna að koma sér í gírinn fyrir 31 ára afmælið. Afmá þarf syndirnar. Þegar við hjónin höfum viljað gera vel við okkur er alltaf steik með bernaise en núna var aðeins breytt útaf.

Nautasteik á nýjan máta með salsasósu.

Nautasteikin var að þessu sinni 800 gr af framparti í tveimur sneiðum. 4 msk jómfrúarolíu hellt yfir, 6 maukuðum hvítlauksrifjum, 5 greinar af söxuðum timian, 2 sneiðar söxuðum rósmarín, saltað og piprað. Látið standa í 60 mínútur. Steikt á heitri pönnu í 3 mínútur á hvorri hlið þar til miðju hiti er um 63 gráður. Sett í 100 gráðu heitan ofn í 10 mínútur að jafna sig.

Átta kartöflur, ein flysjuð niðurskorinn sæt kartafla var forsoðinn í 10 mínútur. Kartöflurnar voru skornar í báta og sett í eldfast mót. 250 gr af sveppum voru skornir í fernt og sett með. Vætt með olívuolíu, úrfræjaður chillipipar niðurskorinn sem og 20 niðurskorin salvíulauf dreift saman við. Saltað og piprað. Bakað í 20 mínútur í 200 gráðu heitum ofni.

Sósan með steikinni var með einfaldasta móti og ákveðið að hafa þetta kalda og holla sósu. Einn avocado, 3 plómutómatar, 2 litlir rauðlaukar, 5 hvítlauksrif, 1/2 búnt steinselja er söxuð niður með töfrasprota. Hellt í skál og hrært saman með 3 msk jómfrúarolíu, salti og pipar. Þá er sósan tilbúinn með steikinni.

Salatið var matreitt á þann hátt að klettasalat er lagt á disk. Fersku rauðu basil var rifið yfir. Radísur er skornar í sneiðar og þeim svo raðað á salatið. Því næst er kastalaostur skorinn í sneiðar og hann einnig raðaður yfir salatið. Svo er kúrbítur skorinn í sneiðar á lengdina, panna er hituð, kúrbíturinn er pennslaður með olíu salti og pipar og steiktur á heitri grillpönnu. Tekinn af pönnunni og látinn kólna, því næst skorinn í sneiðar og honum raðað á salatið.

Borið fram með Alejandro Fernadez Dehesa  La Granja 2001 - frábært vín með vel heppnuðum mat.


Í hálfgerðri útlegð - Pastaréttur Nigel Slater

Hugmyndin að þessari heimasíðu er fengin úr bók Nigel Slater - the kitchen daires - bók sem ég eignaðist í fyrra og hefur reynst mér afar vel. Nigel skrifar frábærar bækur (ég held að ég eigi þær allar) og það sést langar leiðir að hann er nautnaseggur fram í fingur góma - hann er svona karlkyns Nigella Lawson. Ég hef einnig séð nokkra sjónvarpsþætti - sem eru líka góðir. Uppskriftirnar hans eru einfaldar og gott hráefni látið bera uppi réttinn. Ástæðan fyrir því að ég er að babla um þetta núna er sú að maturinn sem ég gerði í kvöld var svo slappur/einfaldur að ég verð að láta eina uppskriftum sem er innblásinn af honum fylgja með til að réttlæta færsluna. Ekki það að maturinn hafi verið bragðvondur - því fer fjarri - hann var bara svo einfaldur að það er varla hægt að kalla þetta uppskrift, svona eins og að gefa uppskriftina af brauðsneið með osti.

Fékk mér kjúklingatortillu með tómötum, gúrku og blönduðu salati. Kjúklingabringa steikt (án olíu - engin olía til hér - bara lýsi), smávegis niðursoðnir tómastar, smávegis tilbúinn salsasósa hellt yfir og kjúklingur fékk aðeins að sjóða í tömötunum. Raðað á heita tortillu með smá vegis ferskri steinselju, osti og sýrðum rjóma. Alveg ágætt. En varla hægt að kalla þetta uppskrift.

 Sumarpastaréttur Nigel Slater - við verðum að gera eitthvað til að stytta veturinn.

Þá er best að réttlæta þessa færslu. Sá réttur er einnig einfaldur - en bragðið af honum alveg frábært. Þennan rétt hentar samt best að elda að sumri til þegar tómatauppskeran stendur sem hæst. En núna er vetur - og það verður líka að borða að vetri til. Það er í raun hægt að svindla; kaupa kirsuberjatómata og nokkra plómutómata nokkrum dögum áður en á að elda þá og láta þá standa útí á borði - þannig verða þeir aðeins sætari - og það skiptir máli.

Tveir kassar (250 gramma) af kirsuberjatómötum og kannski nokkrum plómutómötum er raðað í eldfast mót. 4 msk jómfrúarolíu er hellt yfir og 6 smátt söxuðum hvítlauksrifjum dreift yfir. Saltað með Maldon salti og nýmöluðum svörtum pipar. Ofn er hitaður í hámark og kveikt á grillinu. Eldfastamótið sett ca 15 cm frá og eru tómatarnir grillaðir í nokkrar mínútur þar til þeir taka lit. Sumir verða gullbrúnir, sumir örllítið dekkri. Eldfastamótið er tekið út og tómatarnir stappaðir með gaffli - misvel. 30 rifin basilikulauf er blandað saman við og 4 msk af rjóma sömuleiðis. Saltað og piprað eftir smekk.

Gott pasta er soðið í miklu söltuðu vatni skv leiðbeiningu. Þegar pastað . Borið fram með góðu brauði - helst heimagerðu foccacia, með ólívum, góðu salati. Mikilvægt er að hafa nóg af parmesan osti - og ekki sakar að fá sér gott rauðvín með þessu.


My father strikes back - return of the nattemad

Eftir að ég las fyrir pabba hvað ég var að blogga um niðurlög nattemads í sumarbústaðnum - snéri hann hann aftir í eldhúsið og snaraði fram ansi vígalegum næturverði til að gleðja allt heimilisfólkið.

Hann skar niður svartan danskan kastalaost sem hann svo baðaði í hrærðu eggi og brauðraspi og svo steikti á pönnu uppúr heitri olíu. Jafnframt steikti hann sveitabrauð í olíunni.

Þetta var borið fram með heimagerði krækiberjasultu - heimtur frá síðasta hausti - þar söfnuðu foreldrar mínir nokkrum krækiberjum og bjuggu til afbragðssultutoyj. Þessi sulta er afar einföld; 1 kíló af krækiberjum var sett í pott og soðin í nokkrar mínútur. Þar næst eru þau síuð þannig að vökvinn skilst frá og hratið verður eftir í sigtinu. Vökvinn er settur aftur í pottinn ásamt sama magni af sykri (g=ml) og soðið upp með sultuhleypi (skv. leiðbeiningum). 1 msk af acasíusírópi sett saman við. Sett í dauðhreinsaðar krukkur - faðir minn setur alltaf örlítið af víni ofan á sultuna - sherrý eða koníak eftir því hvernig stemmingu hann er í - í þetta sinn smávegis Calvados (sem er eplakoníak).

Sérlega gott.


Í sumarbústað foreldranna - pabbi eldar og eldar

Foreldrar mínir keyptu sér sumarbústað fyrir rúmum 6 árum síðan. Ég held að það sé besta fjárfesting sem þau hafa gert. Bústaðurinn er á Grjóteyrartanga við Meðalfellsvatn - sem er eiginlega vin rétt hjá höfuðborginni. Hérna höfum við fjölskyldan oft varið frábærum helgum með foreldrum mínum þar sem þau galdra fram stórkostlega rétti. Hér var á árum áður alltaf galdraður fram náttverður (nattemad) fyrir svefninn - pate og sultur með grilluðu brauði - sú hefð hefur að mestu lagst af þar sem við erum farin að borða kvöldmat svo seint á kvöldin.

Núna var faðir minn eins og svo oft áður við grillið og útbjó girnilega rétti. Þau hjónin slá aldrei slöku við í matargerðinni.

Í forrétt var hörpuskel sem var vafin parmaskinku og grilluð á heitu grilli og einnig nokkrir humrar sem voru penslaðir með hvítlauksolíu og grillaðir eins og hörpuskelin. Bæði hörpuskelin og humarinn voru að auki smurðir heimagerðu pestói. Forrétturinn var borin fram á beði af klettasalati og með grilluðu sveitabrauði. Algerlega dásamlegt. Pabbi fær 10 í einkunn fyrir forréttinn.

 Ekki gekk þeim gamla verr með aðalréttinn. Ekki var feilnóta slegin þar heldur.  Elduð var nautalaund og lambainnralæri. Nautalundin var söltuð og pipruð og síðan pensluð með Dijon sinnepi. Fékk að liggja við herbergishita í sinnepsbaði í rúmar 2 klukkustundir. Á sama tíma var lambið undirbúið, sem var marinerað í olíu, sítrónusafa, hvítlauk og lambakryddi frá Jónasi í gallerí Kjöt (mér finnst alltaf fremur slappt að kaupa tilbúnar kryddblöndur - en þessi var ansi góð). Kjötið var því næst grillað þar til það var medium rare (kokkar tala um að það sé hægt að elda kjöt á þrjá vegu; rare, medium rare og ruined). 

Með þessum mat var boðið upp á þrennskonar meðlæti. Tvö salöt, annars vegar bláberjasalati sem ég útbjó. Salatið var gert á þá vegu að klettasalat var lagt á flatan disk (ég er afar hrifinn af því að hafa salat á flötum disk - þá er það bæði fallegra á að horfa og jafnframt dreifist dressingin jafnt á salatið en safnast ekki bara á botninn eins og gerist svo oft þegar salat er borið fram í skál). Ofan á klettasalatið lagði ég íslenskan mozzarella ost (sem er oft frekar bragðlaus og krefst eiginlega þess að dressing sé útbúin með). Hellti smávegis jómfrúarolíu yfir, svo svo rauðvínsediki (ætlaði að nota balsamico - en það var því miður búið - but so what) og niðursneiddan graslauk, salt og pipar. Svo skar ég niður tvo plómutómata og stráði síðan bláberjum yfir salatið.

 Hitt salatið var gert á þann hátt að þrír  tómatar voru niðurskornir sem og 2 rauðlaukar. Settir í skál og kryddaðir með nokkrum niðurskornum graslauksstönglum, 3 msk af olíu, 1/6 búnt af steinselju, 1 hvítlauksrif, safi af 1/2 sítrónu, 1/2 msk hlynsírópi og salti og pipar.

Kartöflurnar voru forsoðnar í 10 mínútir. Skornar í helminga og svo penslaðar með hvítlauksolíu, saltaðar og pipraðar og svo grillaðar þar til gullinbrúnar. Ferskri steinselju stráð yfir.

Sósan var gerð með því að steikja einn smátt skorin rauðlauk og þrjú smátt skorinn hvítlauksrif í potti - laukurinn er nánast látin brúnast í pottinum. Svo voru nokkrum litlum þunnt sneiddum sveppum bætt útí og látnir taka aðeins lit með lauknum. Svo var bætt útí 1 glasi af rauðvíní, og svo 1 glasi af vatni ásamt kjötkrafti eftir smekk. Saltað og piprað rækilega og soðið vel niður. Svo er bætt útí rauðvín, rjóma eftir smekk þar til maður er ánægður með niðurstöðuna. Gráðaostur eða annar bragðmikill ostur er oft settur útí þessa sósu - ca 1 msk af osti - þó ekki gert núna.

Með forréttinum var drukkið hvítvín - Glen Carlou Chardonnay 2003 frá Suður Afríku og með aðalréttnum var drukkið rauðvín Benchmark gran burge Shiraz frá Ástalíu frá 2005. Absolutely faboulus.


Besta lasagna í heimi - Konan mín sigrar eldhúsið

Þar sem ég er afar fyrirferðamikill maður - þá sérstaklega í eldhúsinu - hefur það komið til minna kasta að sjá um eldhúsverkin. Þegar við hjónin vorum að byrja okkar búskap þá var það samkomulagsatriði okkar á milli að ég fengi að sjá um eldhúsið og Snædís konan mín tæki að sér þvottanna. Þetta eru sennilega bestu samningar sem ég hef náð. Konan mín er hinsvegar engin liðleskja í eldhúsinu - hún bara kemst varla að fyrir mér. Hún hefur hinsvegar eignast nokkra rétti þar sem ég kemst ekki með tærnar þar sem hún er með hælana. Ég hef talið þetta upp á vefnum mínum. Lasagnaið hennar er frábært en það hefur tekið nokkrum breytingum í gegnum árin. Í fyrstu var borið fram snakk með matnum (saltaðar marud flögur) og einnig hefur hún alltaf gert Bechamel sósu til að nota á milli laga en uppásíðkastið hefur hún sett sýrðrjómasósu.

Sem betur fer hefur snakkið fengið að fjúka og í staðin reynum við að gera bragðgott salat og jafnframt hefur hún fengið hugmynd úr einum af bókum Jamie Oliver - mig minnir að það hafi verið Jamie's dinner's sem er afbragðs góð matreiðslubók - að gerð þessarar sýrðrjómasósu. Nýja útgáfan af lasagna hefur heppnast afar vel, samt í dag ákvað hún að gera gömlu útgáfuna and with a vengance - afar bragðgott.

Í kvöld tókust á þessar tvær stefnur - hefðbundið lasagna Snædísar eða Lasagna Snaedís nouveau. Set inn báðar uppskriftirnar í þessu bloggi - og báðar útgáfurnar eru afar góðar.

Kjötsósan er alltaf hin sama. Í heitri ólíu er steikt einn smátt saxaður rauðlaukur, 3 gulrætur, 1 sellerístöng, 2 hvítlauksrif og 125 gr af niðurskornum sveppum. Saltað og piprað. Svo er 500 gr af nautahakki sett á pönnuna og steikt áfram þar til allt er vel eldað. Kryddað með hvítlaukssalti, og smá pipar. 1 dós af niðursoðnum hökkuðum tómötum, 5 msk tómatsósu, 1/2 búnt af ferskri steinselju, 20 lauf af fersku basil og 1 msk oregano er bætt útí og hrært vel saman. Látið malla í 20-30 mínútur - en meiri tími mun ekki skemma kjötsósuna. Í lokin er bætt útí smá nýmjólk og matreiðslurjómi og látið malla áfram í 10 mínútur.

 Nýja Bechamel sósan

1 stór dós af kotasælu, 1 dós af sýrðum rjóma er blandað saman við 6 sneiðar af hökkuðum ansjósum (í olíu). Saltað og piprað. Raðað á milli laga. Margir munu undra þessar ansjósur - en þær gera réttinn bara betri - þær eru eins og náttúrulegt þriðja kryddið og getur gert kraftaverk í mat (það kemur ekkert fiskibragð af matnum - ég lofa) . Raðað á milli laga eins og gert er með venjulega Bechamel sósu.

Old school Bechamél

100 gr af smjöri er hitað í potti. Þegar það er bráðnað er hveiti hrært útí þar til komin er smá klumpur sem er mjúkur og meðfærilegur. Því næst er farið að bæta mjólk útí,  ca 300 ml, þar til að sósan er orðin eins og þykkt vöffludeig. Stundum er sett múskat útí og stundum er settur smá parmesan - allt eftir smekk.

 Lasagnað er búið til með að raða kjötsósu, Bechamel sósu aðlægt lasagne plötunum hæð eftir hæð þartil að búið er að fylla mótið. Rifnum osti eða parmesan osti er sáldrað yfir og bakað inn í ofni þar til að osturinn er fallega gullinn, ca 20 mínútur.

Borið fram með smávegis fersku salati, litlum baguette (konan mín fékk sér smá snakk). Með þessu var drukkið Val Sotillo crianza 2001. Ágætis vín sem hæfði matnum vel.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband