25.12.2009 | 20:06
Og svona fór fyrir rjúpunum; confit du lagopéde, snöggsteiktar og einnig á hefðbundinn hátt með dásemdar meðlæti og enn betra rauðvíni
Eldamennskan er komin á fullt. Hún hófst reyndar fyrir ansi löngu síðan þegar ég að ég lagði í hangilærið fyrir að verða tíu vikum síðan. Það kemur reyndar í ljós á morgun hvort að sá gerningur muni skila tilætluðum árangri. Þá er á dagskrá að taka lærin inn - skola þau undir rennandi vatni og þvo rækilega (eins og segir í leiðbeiningum Helgu Sigurðardóttur) - það tók mig tíma að skilja hvers vegna hún ráðleggur þetta - en þegar ég horfi inn í skúrinn minn og stari á sveppahulinn lambalærin þá skil ég þetta fullkomlega - þau þurfa þvott, þau þurfa skrúbb og svo þurfa þau að vera soðin vel og rækilega. Ég vona að við munum lifa jólahátiðina af!
Annars var aðfangadagskvöld alveg dásamlegt. Valdís las á pakkana og var spennt eins og níu ára börn eiga að vera - annars var hún þolinmóðari en maður myndi ætla. Villi dansaði í kringum hana og var glaður með allt sem hann fékk. Meira að segja vöktu umbúðirnar lukku. Þetta eru önnur jólin okkar hérna í Svíþjóð og það er hálf einkennilegt, en hjá okkur eru jólin ennþá á íslenskum tíma. Mömmu fannst jólin ekki vera komin fyrr en að hún heyrðu í jólaklukkunum í Ríkisútvarpinu og svo söng Dómkórsins á eftir. Lái henni hver sem vill - við vorum eiginlega alveg sammála. Á jólunum kemur þjóðernisástin upp í manni eins og maður vill að hún sé - landið - fólkið - og svo jólamaturinn. Ég veit ekki hvenær það venst af manni - ef það gerir það nokkurn tíma. Þarf þess nokkuð?
Læt fylgja hérna smá myndskeið af Agli Ólafssyni syngja - Ó helga nótt! Rétt svona fyrir jólastemminguna - annars líður nú að því að maður geti slökkt á jólatónlistinni þetta árið. Hversu marga leirburði er búið að semja um jólasveininn - en þessi söngur fjallar nú ekki um hann!
Og svona var nú farið með rjúpurnar: Confit de lagopède, einnig snöggsteiktar og svo auðvitað á hefðbundin hátt!
Matseðillinn verður nokkrun veginn eftir því sem var ráðgert. Og hann er búinn að vera lengi í bígerð. Ég var búinn að leggja graflax í saltpækil gerðan úr blöndu af grófu salti, sykri, pipar og svo heilmiklu af fersku dilli. Þetta er lax sem Snædís veiddi í Álftá á Mýrum í september síðastliðnum þegar hún var í heimsókn á Íslandi. Hún veiddi þrjá góða laxa - tvo sem voru sex pund og sá þriðji fimm pund. Mamma fékk að eiga einn en hina tvo kom Snædís með hingað til Svíþjóðar. Við erum búin að elda annan - það er fátt betra en villtur lax - og auðvitað var sá seinni gerður að graflaxi. Það hvarflaði nú að mér að reykja hann, verandi stoltur reykofnseigandi - en tengdafaðir minn hefur verið svo duglegur að koma með reyktan lax að það var eiginlega ekki réttlætanlegt. Til að gera graflaxinn blandaði ég saman 200 gr af grófu salti, 5 msk af hvítum sykri, 2 msk af möluðum svörtum pipar og mjög vænu búnti af fersku smáttsöxuðu dilli. Blöndunni var svo dreift á rúmlega 3 kíló af villtum íslenskum laxi. Flökin lögð saman eins og samloka og síðan vafin inn í plastfilmu, sett í fat og farg (kannski 1,5-2 kíló) lögð ofan á. Geymd í ísskáp og snúið reglulega. Eftir tvo sólarhringa var laxinn tilbúinn. Pækillinn þurrkaður af, nýtt ferskt dill lagt ofan á. Skorið og borið fram með ristuðu brauði og auðvitað graflaxsósu - sem við gerðum úr blöndu af majónesi, sýrðum rjóma, sinnepi, sírópi, salti og pipar og fersku dilli. Gerðum tvær útgáfur - breyttum sinnepinu úr sætu og grófu sinnepi í Dijon. Báðar voru frábærar. Hvað varðar hlutföll var þetta sirka 2 hlutir af majónesi, 2 hlutir sýrður rjómi á móti 1-2 hlutum sinnepi. Hinu er bætt í eftir smekk.
Þetta var erfiður aðfangadagur. Ég hafði lofað elskunni minni að gera handa henni hefðbundnar rjúpur alveg eins og mamma hennar og pabbi hafa alltaf gert. Eitthvað brást mér bogalistin. Ég gerði þetta nefnilega ekki alveg eins - mér urðu á þau alvarlegu mistök að hafa hlustað á Ríkisútvarpið um morgunn og síðan lesið Matarást Nönnu Rögnvalds þar sem rætt var um að taka bringurnar af fuglinum áður en soðið var gert. Síðar kom á daginn að Hrafnhildur móðir Snædísar hefur steikt rjúpurnar heilar og svo gert rjúpnasoðið. Ég stóð vart af mér þá orrahríð sem fylgdi því að hafa eyðilegt jólin (aðeins ýkt). Mér fannst bara eitthvað bogið við að sjóða þessar litlu rjúpnabringur svona lengi. Svo var það þannig að mínar rjúpur voru ekki mikið hangnar þannig að það þurfti að láta soðið sjóða þeim mun lengur til að mjólka allan kraft úr beinagrindinni.
Ég byrjaði á því á Þorláksmessukvöld að gera Confit de lagopede (rjúpnaconfit). Ég hafði áður verið búinn að kaupa andafitu hjá slátraranum mínum sem ég hitaði í grunnri pönnu með vænni klípu af íslensku smjöri og betri hlutanum af Tuborg jólabjór. Bætti síðan lárviðarlaufi, fersku að sjálfsögðu, fersku timian og bergmyntu, rósapipar og fingurbjörg af grófu salti. Rjúpnaleggirnir voru lagðir í þennan lög og soðnir varlega við lágan hita í nokkrar klukkustundir þannig að þeir urðu lungamjúkir. Þeir voru látnir liggja í leginum þangað til að þeir voru hitaðir stutta stund í ofni og síðan bornir fram á beði af klettasalati með vínberjasneiðum og skreyttir með smá rósapipar.
Mín tilraun með hefðbundnar rjúpur var eitthvað á þennan hátt. Fyrst skar ég niður grænmeti, hvítan lauk, gulrætur, sellerí og hvítlauk fremur smátt og steikti það upp úr blöndu af smjöri og olíu með nógu af salti og pipar - kannski í 20 mínútur þar til að allt grænmetið var mjúkt og gljáandi. Þá tók ég grænmetið úr. Bætti smá olíu í pottinn og steikti beinagrindurnar af rjúpunum í olíunni. Þegar þær höfðu fengið móbrúnan lit var grænmetinu bætt saman við og svo 4 l af vatni hellt í pottinn, saltað og piprað. Kryddvendi bætt útí, lárviðarlaufi, timian og rósmaríni, ásamt nokkrum piparkornum. Soðið góðan part dagsins með lokið á. Síðustu klukkustundirnar var lokinu tyllt á pottinn þannig að það sauð niður um nærri helming. Smakkað til og bragðbætt eftir smekk.
Þá voru rjúpubringurnar, fóarnið og hjörtun velt upp úr hveiti, dustað af, steikt á pönnu, að sjálfsögðu upp úr smjöri. Þegar þær voru orðnar móbrúnar og fallegar voru þær lagðar til hliðar. Smjör brætt í potti - kannski 60 gr og svo 60 af hveiti hrært saman við og smjörbolla búin til - og þegar hún var tilbúin var síað soðið hellt saman við (sirka 2 l af sterku rjúpusoði). Hrært vel saman. Þá er rjúpnabringunum, fóarninu, hjörtunum og öllu af pönnunni hellt saman við sósuna og þessu leyft að sjóða í 45 mínútur við lágan hita. Saltað og piprað. Skv. leiðbeiningum á að hella rjóma samanvið eða bæta sultu samanvið til að bragðbæta en það þurfti ekki að þessu sinni. Sósan var bara það góð bara við þetta eitt.
Ég gerði líka snöggsteiktar rjúpnabringur. Fyrst velti ég þeim upp úr hveiti (til að fá fallega stökkan hjúp utan um þær. Síðan voru þær steiktar á pönnu með knippi af timian. Kannski steiktar tvær mínútur á hvorri hlið. Þær reyndust frábærar!
Með matnum vorum við með sykurbrúnaðar kartöflur sem mamma gerði af sinni alkunnu snilld. Pabbi gerði waldorfsalat eftir kúnstarinnar reglum, með eplum, sellerí og valhnetum. Vorum einnig með brómberjasultu með matnum og svo auðvitað vínið.
Með matnum drukkum við mitt uppáhaldsvín, RODA, kraftmikið Rioja. Vín sem ég var einnig með síðustu jól. Þetta er vín sem að ég kynnist fyrst fyrir ári síðan þegar vinur minn, Harold Köndgen kom til landsins í janúar fyrir ári. Hann er vínáhugamaður fram í fingurgóma og var mjög ánægður þegar hann sá þetta vín í hillum ÁTVR. Hann keypti nokkrar sem við drukkum saman. Þetta er kraftmikið vín. Mikið af dökkum berjum, kannski kirsuberjum, jafnvel dökku súkkulaði og svo munnfylli af eik. Dvelur lengi á tungu með ljúfu eftirbragði. Vínið er unnið úr 100 prósent Tempranillo þrúgum af framleiðendum sem eiga sér ekki langa sögu, hófu víngerð í upphafi níunda áratugarins. Þetta er margverðlaunað vín og sveik ekki í þetta sinn fremur en áður. Hvet alla til að prófa þessa flösku við hátíðlegt tækifæri!
Flokkur: Matur og drykkur | Breytt 17.12.2010 kl. 21:03 | Facebook
Athugasemdir
Christian Glitter by www.christianglitter.com
Guð gefi ykkur gleðileg jól og farsælt komandi ár. Þakka samfylgdina á blogginu.
Kær kveðja/Rósa
Rósa Aðalsteinsdóttir, 26.12.2009 kl. 01:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.