Pottþétt pastasalat, heitur brauðhleifur og rauðvínglas eftir langan ferðadag

Ég var að ljúka vikufríi í seinustu viku og naut þess í botn. Bróðir minn var að flytjast til Kaupmannahafnar þar sem hann fer í framhaldsnám og það er gott að vita af honum nærri. Það væri yndislegt ef sama væri upp á teningnum með foreldra mína (já, og jafnvel tengdó!). Það er eiginlega bara fjölskyldan sem maður saknar ... jú og kannski Lækjarkots - sumarkots foreldra minna. Allavega þá lögðum við fjölskyldan land undir fót og renndum suður til Berlínar að hitta vini okkar þar. Fórum frá Lundi yfir brúnna til Kaupmannahafnar, þaðan suður til Rodby, með ferju til Puttgarden og svo beina leið til Berlínar. Þar gistum við hjá góðum vinum okkar í suðurhluta Berlínar. Við komum seinnipartinn og okkar beið kaldur bjór, kjöt á grillinu og með matnum var borið fram þetta ljúffenga pastasalat. Maturinn var frábær, kjötið gott ... en sérstaklega þetta pastasalat. Það "hit the spot" eins og sagt er.

Við vorum fimm daga í Berlín í góðu yfirlæti, sáum mikið af borginni; frá Potsdamer Plats, helfararminnisvarðann, Reichstag, Brandenborgarhliðið, menjar múrsins, Schöneberg, Krauzberg, NeuKöln, flóamarkaði, Bergmannsstrassi, fórum að vatninu/ströndina í jaðri borgarinnar. Borðuðum góðan mat, smökkuðum þýskan bjór og sátum frameftir á kvöldin og spiluðum Backgammon. Frábær ferð. Nokkrum sinnum á leiðinni heim frá Berlín varð mér hugsað til þessa ljúffenga pastasalat sem systkynin Anna Lilja og Benjamín Edelstein elduðu handa okkur og ég varð að endurtaka leikinn. Það var ekki síður gott.

potsdplats.jpg

Mér brá dálítið þegar ég steig út úr lestinni og tók eftir leturgerðinni á nafni lestarstöðvarinnar. Það var auðvitað óþarfi, þrátt fyrir að maður tengi þetta óneitanlega tíma nasismans, en þetta á sér lengri sögu en til seinna stríðs. 

brandenburg.jpg

Brandenburgarhliðið er táknrænt fyrir Berlín, margir herir hafa marserað fyrir framan það síðan það var reist af Karl Gotthard Langhans á árunum 1788 til 1791. Fyrst kannski herir Napóleons og seinna Nasistarnir. Það var byggt sem tákn um frið - núna er það auðvitað þekkt sem sameiningartákn Þýskalands. 

domkirkjan.jpg

Allir að slaka á fyrir framan Dómkirkjuna sem liggur við endan á Under den Linden. Allir lúnir eftir langa gönguferð - og reyndar saddir líka þar sem við höfðum stoppað á leiðinni og gætt okkur á Lammchun (Turkish Pizza) sem er algert lostæti. 

Langaði síðan í framhjáhlaupi hvetja alla mataráhugafólk að kíkja á bloggið hjá einum af bloggvinum mínum,  Elínar Helgu Egilsdóttur, sem er matarbloggari eins og ég nema hvað hún er hörkudugleg að blogga. Það er ekki langt síðan að hún byrjaði en hún er með færslur daglega og hefur verið með það síðustu mánuði - hún er uppspretta af innblæstri. Einnig hefur mbl.is farið af stað með áhugavert verkefni - matur og vín - sem verður ábyggilega gaman að fylgjast með. Annars verður að segjast að ég sakna að meira hefur ekki komið frá honum Árna Birni Helgasyni sem byrjaði með verkefnið svangur.is - gerði nokkur metnaðarfull myndbönd sem hann var með á facebook og líka á youtube. Skelli inn einni af bestu færslunum hans að mínu mati; 

Ég hef ekki gert mikið af því að elda pastasalöt í gegnum tíðina - eins og ég er nú hrifinn af pasta. Þetta er svona kalt pasta salat - eða í raun volgt - kannski bara eins og maður vill hafa það. Góða við svona salöt er að þetta er svona þjóðráð til þess að tæma ísskápinn og búa til pláss fyrir það sem verður svo næst á dagskrá - og það er alltaf eitthvað á dagskrá. 

 Ljúffengt blandað Pastasalat, brakandi brauð og rauðvínglas eftir langan ferðadag

undirbuningur_893594.jpgMatargerðin var samvinnuverkefni hjá mér og bróður mínum. Ekki það að svona matargerð sé á nokkurn hátt flókin heldur eigum við bræður okkar bestu stundir í eldhúsinu með bjórglas í annarri, tónlist á fóninum (núna Arcade Fire - bæði Funeral og Neon Bible). Jæja. Back to business. 

Pasta, til dæmis Penne, er soðið samkvæmt leiðbeiningum í söltuðu vatni og svo sett í skál. Niðurskornir sveppir eru steiktir í smá hvítlauksolíu og svo settir í skálina. Gul og rauð paprika, tveir tómatar (kjarnhreinsaðir) og hálfur kúrbítur, er skorin niður og bætt saman við, smátt skorinn Toscana salami pylsa, kannski 250 gr, handfylli af kalamata ólívum, handfylli af steinselju, basil, mulin fetaostur, saltað og pipraö eftir smekk. Kjartan bjó til þessa fyrirtaksdressingu; 2 msk hvítlauksolía (heimagerð), 4 msk sýrður rjómi, skvetta af hlynsírópi, salt og pipar. Þessu hrært vel saman og svo blandað við pasta salatið. Borið fram með heitum brauðhleif. 

Með matnum drukkum við Gallo Sonoma Country Zinfandel frá því 2006. Þetta er ansi kröftugt vín, kannski full kröftugt fyrir þennan mat - en gott engu að síður. Þetta er fremur dökkt á litin, þungur ilmur af dökkum ávexti. Þetta vín er munnfyllir - mikil ávöxtur - sem passaði ágætlega með pylsunni. Passaði síður með pastanu. Var best eftir matinn. Eftir á að hyggja þá eru vín af þessu tagi meira ætlum steikum og svoleiðis ... en við vorum bæði svöng og þyrst og þetta sinnti vel hinu síðar nefnda.

Svona mat munum við gera aftur. Það er á hreinu. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alltaf jafn girnilegt

Sigrún (IP-tala skráð) 13.8.2009 kl. 20:48

2 identicon

Blessaður og þakka þér fyrir að skilja mig eftir slefandi fyrir framan tölvuskjáinn í enn eitt skiptið.

Nú er ég ein af þessum kellum með mömmu þinni í liði sem eldaði ýsu heima á fróni 2-3 í viku og fannst hún prýðileg. Nú þarf ég að læra að elda nýjar fisktegundir og er mjög spennt yfir laxauppskriftunum þínum. Þær verða massaðar ein af annari í góðu tómi. 

Kv. frá nýjasta Gautaborgaranum

Allý (IP-tala skráð) 15.8.2009 kl. 15:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband