Það líður að heimferð. Og við hlökkum öll til að flytja heim til Íslands. Ég verð þó að játa að fyrir nokkrum árum höfðum við hjónin ákveðið að snúa ekki aftur til Íslands, nema sem gestir. Ég var meira að segja harðákveðinn! Svo gerðist eitthvað fyrir tæpu ári - allt í einu togaði bara naflastrengurinn í mig og langaði til að flytja heim aftur. Ætli það hafi verið í einni heimsókninni til Íslands síðastliðið haust þegar ég fór heim til að elda fyrir brúðkaup vinahjóna okkar, Magnúsar og Hafdísar. Í sömu ferð hitti ég mikið af ættingjum og vinum og þá rann það bara upp fyrir mér - þessa hafði ég saknað, eiginlega án þess að hafa gert mér grein fyrir því.
Ákvörðunin hefur verið miserfið fyrir fjölskyldumeðlimi. Við hjónin höfum verið nokkuð samstíga í þessu ferli. Húsið keyptum við á netinu með góðri hjálp mágkonu og svilkonu minnar og svo foreldra minna. Það var skrítin tilfinning að skoða það í síðan eigin persónu í byrjun maí þegar ég kom heim til að fylgja bókinni minni úr hlaði. Valdís Eik man vel eftir Íslandi og á margar góðar vinkonur og frænkur sem taka henni opnum örmum - svo var hún líka að komast inn í Menntaskólann við Hamrahlíð. Ragga Lára er bara þriggja ára og veit lítið um hvað er um að vera. Erfiðast hefur þetta verið fyrir Villa Bjarka sem fluttist til útlanda þegar hann var þriggja ára og þekkir ekkert annað en Svíþjóð og nú England. Fyrir honum er Ísland bara sumarleyfisáfangastaður. En nærvera við frændur sína í næstu götu og svo alla ættingja gerir þetta auðveldara. Við fengum upplýsingar um að nokkrir bekkjarfélagar hans í Ártúnsskólanum búa í götunni okkar. Þetta verður því mjúk lending. Svo verður hreinlega að segjast að árangur íslenska landsliðsins og öll stemmingin sem hefur myndast í kjölfarið, öll samheldnin og fjörið í kringum þetta ævintýri hefur óneitanlega gert mann sérstaklega stoltan yfir því að tilheyra þessari skrítnu þjóð norður í Atlantshafi. Og maður var líka stoltur í kvöld, þó að Ísland hafi beðið lægra haldi gegn frábæru liði Frakka. Ég myndi kalla þetta að tapa með sæmd.
Myndin hérna efst í færslunni er af eldhúsinu okkar eins og það lítur út núna. Við höfum fengið stórkostlega hjálp frá vinum og ættingjum við heimfluttninginn. Allir vilja leggja okkur lið. Við flugum heim síðastliðna helgi og máluðum húsið að innan, ásamt ættingjum okkar og vinum. Snædís sá þá húsið í eigin persónu í fyrsta sinn - sem betur fer var hún yfir sig hrifin. Við ætluðum líka að tæma gáminn en við náðum honum ekki úr tollinum í tæka tíð þannig að við og foreldrar mínir söfnuðum liði og yfir 20 manns mættu og tæmdu hann í fjarveru okkar. Þvílík gæfa að þekkja svona mikið af frábæru fólki - takk allir!
Myndin er því miður úr fókus - en gleðin skilar sér á áfangastað - allavega hjá okkur!
Ljúffengur sítrónu-pipar kjúklingur með einfaldri sósu og vellaukuðu kartöflusalati
Þetta er einföld uppskrift - eiginlega eins og flestar af þeim uppskriftum sem ég ber á borð. Kjúklingabringur og sítrónupipar passa svo ljómandi vel saman.
Fyrir sex
Hráefnalisti
6 kjúklingabringur
2 sítrónur
2 hvítlauksrif
3 msk ferskt timian
2 msk hunang
4 msk jómfrúarolía
salt og nóg af pipar
Fyrir kartöflusalatið
1 kg nýjar kartöflur
1 rauðlaukur
1 vorlaukur
2 skalottulaukar
150 ml sýrður rjómi
100 ml majónes
1 tsk dijon sinnep
1 tsk hlynsíróp
sítrónusafi
handfylli fersk steinselja
handfylli ferskur graslaukur
salt og pipar
Ofureinföld sósa með sítrónu og steinselju
50-75 ml majónes
75-100 ml sýrður rjómi
safi úr einni sítrónu
börkur af sítrónunni
handfylli af steinselju
1 tsk djion
2 tsk hvítlauksolía
salt og pipar
Við kaupum kjúklingin frá slátraranum okkar. Þá vitum við að við erum að kaupa almennilegan kjúkling sem hefur fengið gott uppeldi.
Skerið í kjötið - passið að fara ekki of djúpt.
Þetta er bæði til að fuglinn marinerist betur og eldist hraðar.
Saxið ferskt timian, hvítlauk og börkinn af sítrónunni. Gætið þess að taka bara það gula, því hvítan af berkinum er beisk og bragðvond. Kreistið sítrónuna yfir ásamt jómfrúarolíunni og hunanginu. Saltið og piprið.
Marinerið í klukkustund - það þarf ekkert meira en það.
Grillið yfir óbeinum hita í 20-30 mínútur til að elda fuglinn í gegn og brúnið hann svo yfir beinum hita til að karmellisera hann.
Það er svo auðvelt að finna ljúffengt vín nú til dags. Held barasta að það sé erfiðara að vinna vont vín. Þetta er franskt Syrah frá La Baume - fallegt á litinn í glasinu. Kraftmikill ilmur - krydd og ávextir með sama keim á tungu með þéttu eftirbragði.
Kartöflusalatið er einfalt. Hreinsið og sjóðið kartöflurnar upp úr söltuðu vatni og látið síðan kólna í skál. Saxið laukana smátt og blandið saman við kartöflurnar ásamt sýrða rjómanum, majónesinu, sinnepinu og hlynsírópinu. Skerið kryddjurtirnar smátt og hrærið samanvið. Saltið og piprið vandlega.
Sósan er ennþá einfaldari. Bara að hræra saman sýrða rjómanum og majónesinu. Blanda hvítlauksolíunni og sinnepinu saman við. Raspa börkinn af sítrónunni og hræra saman við ásamt sítrónusafanum og smátt skornum kryddjurtum. Salta og pipra eftir smekk.
Svo er ekkert annað að gera en að njóta fram í fingurgóma - þetta er auðvitað alveg himneskt.
Bókin mín - Læknirinn í Eldhúsinu - Grillveislan er fáanleg um land allt.
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.