16.4.2012 | 11:34
Croque Madame: Opin samloka "muffins style" með skinku, eggi og bechamél sósu að hætti Rachel Khoo
Við höfum verið dugleg í garðinum í dag! Veðrið hefur verið fallegt og því um að gera að hreinsa til svo hægt sé að fara í að planta og sá næstu helgi. Við keyrðum í morgun í fallegt gróðurhús sem er staðsett í Flyinge og keyptum gróðurmold, nokkur blóm, kartöfluútsæði og nokkrar kryddjurtir. Ég átti ansi glæsilegan kryddjurtagarð síðastliðið sumar en það var ekki mikið sem lifði af veturinn. Mér sýnist þó graslaukurinn, estragonið og timianið ætla að hafa það af!
Það er gaman að skipuleggja garðinn fyrir sumarið. Ég ætla að sá þremur tegundum af kartöflum, möndlukartöflum, asterix og svo Maris Piper. Síðan verður settar niður nokkrar tegundir af káli, kúrbítur og eitthvað fleira. Ég keypti nokkrar tegundir af timian, rósmarín, salvíu, myntu og svo ætla að ég að sá steinselju, kóríander og basiliku. Það er fátt betra en að geta gengið út í garð og sótt kryddið í matinn! Myndin hér að ofan var tekin snemma í júní í fyrra!
Þessi uppskrift í dag er fengin frá Rachel Khoo sem er breskur kokkur sem er búsettur í París sem hefur rekið lítið veitingahús í íbúðinni sinni. Nanna Teitsdóttir, www.eldaðivesturheimi.com, setti hlekk á sjónvarpsþætti sem voru teknir í sýningu á BBC2 nýverið en má einnig nálgast á Youtube. Þarna eldar hún sína útgáfu af þekktum frönskum réttum og meðal annars þessa útgáfu af hinni sígildu samloku, Croque Madame!
Croque Madame: Opin samloka "muffins style" með skinku, eggi og bechamél sósu að hætti Rachel Khoo.
Þetta er auðvitað sáraeinfalt. En ansi sniðugt að gera þetta svona "muffins". Mér skilst að á Íslandi hafi gengið yfir muffinsæði síðastliðin misseri. Ég veit þó ekki hvort ég kem inn í þessa bylgju á hárréttum tíma? Við sjáum hvað setur.
Fyrst er að útbúa bechamélsósuna sem er í raun ekkert nema uppstúfur. Og það er ekkert mál að gera uppstúf. Bræðið 15 gr af smjöri í potti, setjið síðan jafnmikið af hveiti saman við og hrærið. Þarna er maður kominn með smjörbollu (roux). Þá hellir maður 200-250 ml af mjólk saman við og hrærir á meðan. Um leið og mjólkin sýður þykknar sósan. Saltað og piprað. Síðan má bragðbæta með því að mala negul saman við. Rachel setur teskeið af djion sem er alveg ljómandi hugmynd.
Næsta skref er að skera skorpuna af brauðinu og fletja brauðið síðan út. Þá er það penslað með smjöri og sett í muffinsmót, smjörhliðina að mótinu svo auðvelt sé að ná því út. Þá setti ég smá skinkubita ofan í brauðið, svo teskeið af bechamél sósu.
Þvínæst brýtur maður eitt lítið egg ofan í mótið (ef eggið er stórt þá er bara að hella smávegis af hvítunni frá) og síðan aðra teskeið af bechamél sósu.
Til að toppa þetta alveg þá raspaði ég cheddarost yfir.
Bakað í 10-15 mínútur í 180 gráðu heitum ofni.
Borið fram með smáræði af klettasalati og niðurskornum tómötum.
Þetta reyndist vera svo gott að ég var alveg miður mín!
Bon appetit!
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Athugasemdir
Sæll Ragnar,
Mikið er þetta girnilegt og einfalt. Framreiði þetta í næsta Sunnudags brunch.
Með kveðju
Gunnhildur
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir, 16.4.2012 kl. 12:49
Skemmtileg útfærsla á gömlum klassískum rétti
Sverrir Halldórsson (IP-tala skráð) 17.4.2012 kl. 10:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.