Steiktur saltfiskur frá miðjarðarhafinu með ljúffengum steinseljukartöflum

 

Saltfiskur  er sérlega góður matur og hefur fylgt okkur Íslendingum um langt skeið. Þetta var okkar helsta útflutningsvara um langt árabil og hann er vel þekktur í viðskiptalöndum okkar syðst í Evrópu. Ég hef smakkað íslenskan saltfisk bæði á Spáni og á Portúgal eldaðan bæði í tómatsósu og svo hálfdjúpsteiktan í jómfrúarolíu.

 

Ég var svo heppinn að fá að skreppa til Spánar í stuttan heimsókn í byrjun vikunnar þar sem mér bauðst að heimsækja víngerðina Ramón Bilbao, sem er í Rioja héraði, í um klukkustundar fjarlægð frá Bilbao - höfuðborg Baskalands.

 

Við fengum höfðinglegar móttökur, hef greint aðeins frá því á Facebooksíðu minni - hérna. Mun segja betur frá þessari heimsókn fljótlega á blogginu.

 

Eins og nefnt var hérna að ofan þá hefur saltfiskur verið mikilvæg útflutningsvara og lengi vel áttum Íslendingar í vöruskiptasamningum við Spán og Portugúl og við fengum vín af þeim gegn því að þeir keyptu fiskinn okkar. Það er því ekki skrítið að vín frá t.d. Rioja hafa fylgt okkur lengi við góðan orðstír.

 

Steiktur saltfiskur frá miðjarðarhafinu með ljúffengum steinseljukartöflum


Þetta var einkar ljúffengur réttur - og einstaklega fljótlegur. Ég sótti fiskinn til vina minna í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum.

 

Fyrir fjóra

 

1 kg saltfiskur

2-3 msk hveiti

1 msk paprikuduft

1 tsk hvítlauksduft

pipar

150 ml góð jómfrúarolía

1 dós íslenskir sólskinstómatar

1 msk kapers

15 kalamataólívur

8-10 hvítlauksrif

pipar

 

kartöflur

75 g smjör

fersk steinselja

salt og pipar

 

fallegt salat

 

 

Blandaði hveitinu saman við papríkuduftið, hvítlauksduftið og veltið svo saltfiskbitunum vandlega upp úr hveitinu.

 

 

Hitaði olíuna á pönnu og steikti fiskinn fyrst með roðið niður.

 

 

Skar niður eina dós af íslenskum sólskinstómötum sem eru einstaklega ljúffengir. Það mætti að sjálfsögðu líka nota piccolotómata frá Friðheimum en þeir voru ekki til útí Krónunni. Þessir tómatar eru einstaklega bragðgóðir og aðeins sætir.

 

 

Tók pappírinn utan af hvítlauknum. Skolaði saltpækilinn af ólívunum og kapersnum.

 

 

Setti svo tómatana, ólívurnar, hvítlaukinn og kapersins með fisknium.

 

 

Sneri svo fiskinum og steikti aðeins áfram í tvær til þrjár mínútur.

 

 

Lagði svo allt hráefnið í eldfast mót og setti í 120 gráðu heitan ofn í nokkrar mínútur á meðan ég kláraði kartöflurnar.

 

 

Sauð kartöflurnar eins og lög gera ráð fyrir. Velti þeim upp úr bráðnu smjöri, steinselju og saltaði svo með sjávarsalti.

 

 

Mér fannst fiskurinn líta afar girnilega út.

 

 

 

Þetta vín hefði passað fullkomlega með - en ég prófaði það nokkrum sinnum nú í vikunni sem er að líða úti á Spáni. Það er framleitt í Gaulverjalandi við strendur Atlantshafins og er gert úr Albariño þrúgunni. Þetta er einstaklega frísklegt hvítvín með ljúfum epla- og perutónum og mjúku eftirbragði.

 

 

Þetta reyndist einstaklega ljúffengur kvöldverður. 

 

Hvet ykkur til að prófa. 


Lækjarkot - Snöggeldaðar núðlur með grilluðum lambaprimerib og soðnum eggjum

 

Vinnuhelgi að baki. Þó að oftast sé kraðak á spítalanum er samt alltaf gaman að mæta í vinnuna. Það er gott að vinna með góðu fólki, hvort sem um ræðir sjúkraþjálfara, sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga eða lækna. Eins og oft áður er mikið að gera - en loksins er flensutímabilinu að ljúka - þetta er líklega eitt af lengstu flensutímabilum sem við höfum glímt við og það virtist enga enda taka. Svona tímabil reyna auðvitað mikið á starfsfólkið. 

 

Eftir langa vinnuhelgi er líka gott að eiga athvarf úti á landi. Við hjónin búum svo vel að foreldrar mínir hafa búið sér til dásamlegt athvarf í Kjósinni, spölkorn frá Reykjavík, þannig að ekki tekur nema tæp þrjú kortér að aka þangað. Að eiga slíkt athvarf er munaður. Og það er dásamlegt að vera alltaf velkomin í kotið. 

 

Þar sem við komum seint á vettvang var sniðugt að elda eitthvað fljótlegt. Og þessi réttur var kjörinn. Ég stoppaði í stórmarkaði á leiðinni úr bænum og sótti það sem vantaði. 

 

Lækjarkot - Snöggeldaðar núðlur með grilluðum lambaprimerib og soðnum eggjum

 

Fyrir sex

 

600 g lambaprime

4 msk jómfrúarolía

4 msk soyasósa

5 cm engifer

4 hvítlauksrif

1 rauður chili

1 sítrónugras

2 msk thaí-chilisósa

4 vorlaukstoppar

2 msk hökkuð steinselja

salt og pipar

 

200 g kastaníusveppir

1 gul papríka

2 rauðar snakk papríkur

4 vorlaukar

1 box mungbaunir

1 púrrlaukur

1 rauðlaukur

1 pakki heilhveiti núðlur (soðnar í kjúklingasoði)

4 egg

4 msk soyasósa

3 hvítlauksrif

2 cm engifer

1 rauður chili

2 msk thaí-chillisósa

smávegis af lambamarineringunni

salt og pipar

 

 

Lambaprimerifjasteik er að ég held vanmetin kjötbiti. Hún hentar bæði í snögga eldun eins og lundir og lambarifjur sem og langa eldun þar sem fitan nær að bráðna. 

 

Það þarf þó að eiga aðeins við bitann til þess að hann henti vel fyrir snögga eldun eins og þessa. 

 

 

Ég byrjaði á því að "butterfly-a" kjötið". Það gerir maður með því að skera í jaðarinn og fletja það svo út og halda áfram þannig að maður er kominn með jafnþykkan bita. 

 

 

Ég endurtók leikinn með alla þrjá bitana þangað til að ég var kominn með jafnþunnar sneiðar. 

 

 

Svo útbjó ég marineringuna; blandaði jómfrúarolíunni, soyasósunni, hvítlauk, chili og engifer saman. Salt og pipar.

 

 

Lagði svo kjötið saman við og sá til þess að bitanir væru vel hjúpaðir. Skreytti með smátt skornum vorlauksprotum og lét standa til að marinerast í rúma klukkustund á meðan ég skellti mér í pottinn.

 

 

Svo skar ég niður rauðlauk og púrru og steikti í jómfrúarolíu þangað til að það var mjúkt á heitri wok pönnu.

 

 

Skar svo niður afganginn af grænmetinu og kryddinu og blandaði saman við og steikti í um kortér þangað til það var mjúkt, ilmandi og eldað í gegn.

 

 

Sauð svo núðlurnar eins og lög gera ráð fyrir í fjórar mínútur í kjúklingasoði þangað til að þær voru eldaðar í gegn. 

 

 

Þegar núðlurnar voru tilbúnar blandaði ég þeim saman við grænmetið og lét standa á meðan ég grillaði kjötið. 

 

Sauð fjögur egg í söltuðu vatni á meðan ég stóð við grillið.

 

 

 

Það þarf ekki að hafa mörg orð um hvernig á að grilla lambaprimerifjasteik. 

 

 

Ég penslaði kjötið reglulega og snéri því einnig á fimmtán sekúnda fresti þannig að það brinni ekki. Það var talsvert af olíu í marineringunni þannig að logarnir gusu reglulega upp á grillinu. En það skiptir ekki máli hafi maður snöggar hendur í snúningum. 

 

 

Kjötið varð alltént gullfallegt. Gljáð að utan og lungamjúkt að innan.

 

 

Með matnum nutum við Barone Montalto Nero D'Avola Passivento frá 2015. Þetta er vín sem skorar hátt á Vivino þó það sé á talsvert hagstæðu verði. Það kostar undir 2500 kall í ÁTVR. Þetta er bragðmikið vín - sætur og kraftmikill ávöxtur, vanillu keimur og langt og mikið eftirbragð. Stóð sig vel með bragðmiklum matnum. 

 

 

Svo var bara að raða réttninum saman. Setti núðlurnar og grænmetið á stórt fat og lagði skornar lambaprimesteikurnar ofan á. Skreytti með eggjum (sem áttu auðvitað að vera soðinn aðeins minna en myndirnar gefa til kynna) og svo vorlaukssprotum og ferskum kóríander. 

 

Þetta var sannkölluð veisla!

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband