Magnað Mesa hlaðborð; Grillaður kjúklingur, rauðbeðu-chilihummus, marinerað agúrku og hnúðkálssalat, flatbrauð og ólífur

 

Þó að mér finnist vika á skíðum í Ölpunum vera eitt það stórkostlegasta sem ég veit um þá finnst mér líka voðalega gott að snúa heim á nýjan leik. Ætli það sé ekki kenniteikn góðs frís - þegar maður snýr sáttur á heimaslóðir. Svo til að gera heimkomuna ennþá ljúfari þá brugðum við okkur í Bláfjöllin á þriðjudagskvöldið að loknum vinnudegi. Frumburðurinn minn, Valdís Eik, stakk upp á þessari ferð, en hún hafði verið svelt af allri skíðamennsku þetta árið sökum anna í skólanum. Bláfjöllin komu mér á óvart - færið og veðrið var einstaklega fínt.

 

Það hefur líka verið nóg um að vera í vinnunni eins og svo oft áður. Álagið á sjúkrahúsið hefur verið svo óeðlilega mikið í svo langan tíma að starfsfólk er að miklu leyti farið að normalisera vandann og telja slæmt ástand eðlilegt. Margir þola þetta ekki til lengdar og segja upp - það er sorglegt að sjá á eftir reyndum heilbrigðisstarfsmönnum. Mér skilst að margar flugfreyjur hafi hjúkrunarpróf í vasanum - og það finnst mér óneitanlega sorgleg staðreynd. Á þeirra starfskröftum þurfum við sárlega að halda. Á föstudaginn kom Óttarr Proppé heilbrigiðisráðherra og var með framsögu á fundi læknaráðs Landspítala. Það vakti mér hjá smá von í brjósti að heyra hann tala, Hann virkaði ærlegur, einlægur og jafnframt auðmjúkur gagnvart því risaverkefni sem hann hefur tekið að sér. Ég vona að hann verði duglegur að leita ráða hjá heilbrigðistarfsfólki sem starfar á gólfina en ræði ekki bara við stjórnendur. Ég óska honum hins besta í sínu starfi!

 

En að málefni dagsins - Mesa hlaðborð á Norður Afríska vísu!

 

Þetta var sannkölluð veisla og það skemmtilega var að hún byrjaði á afgöngum. Við komum heim frá Austurríki kvöldið áður og mamma og pabbi tóku á móti okkur með dásamlegu lambalæri ekkert ósvipað þessu. Það varð smá afgangur sem sjálfsagt var að nýta og áður en ég vissi var ég kominn á flug.

 

 

Magnað Mesa hlaðborð; Grillaður kjúklingur, rauðbeðu-chilihummus, marinerað agúrku og hnúðkálssalat, flatbrauð og ólífur

 

Jæja, byrjum á þessu.

 

Marineraður og grillaður kjúklingur

 

1,3 kg kjúklingalæri (úrbeinuð)

1 tsk broddkúmen

1 tsk kóríanderfræ

1 tsk græn piparkorn

1 tsk salt

1 msk súmac (fæst t.d. í Melabúðinni)

1 tsk þurrkað engifer

safi úr hálfri sítrónu

5 hvítlauksrif

4 msk jómfrúarolía

mynta til skreytingar

 

Agúrku- og hnúðkálssalat

 

2/3 agúrka

1/2 hnúðkál

salt og pipar

1 msk smátt söxuð mynta

1 msk smátt saxað basil

2 msk jómfrúarolía

safi úr hálfri sítrónu

1 tsk hlynsíróp

 

Rauðbeðu- og chilihummus

 

1 dós kjúklingabaunir

1 msk tahini

100 g innlagðar rauðbeður

2 msk chilimauk (að eigin vali)

salt og pipar

75 ml jómfrúarolía

1 hvítlauksrif

 

Einfalt blómasalat

 

3 tómatar

1 rauðlaukur

1/2 papríka

1/3 dalafeti

jómfrúarolía

safi úr hálfri sítrónu

1 tsk rauðvínsedik

salt og pipar

1/4 tsk söxuð bergmynta

1/2 tsk söxuð mynta

 

Flatbrauð

 

10 grófar/fínar tortillur

2 msk heimagerð hvítlauksolía

 

 

Hefjum matseldina með því að byrja á kjúklingnum.

 

 

Ég byrjaði á því að þurrrista broddkúmen, kóríander og græn piparkorn sem ég muldi síðan í mortéli. 

 

 

Ég notaði kjúklingalæri og svo kjúklingabringur sem ég skar í grófa bita.

 

 

Svo bætti ég við salti, súmaci, engifer, sítrónusafa, hvítlauk og jómfrúarolíu. 

 

 

Þessu var öllu blandað vel saman og sett í kæli í rúma klukkustund. 

 

 

Svo gerði ég hummus. Setti eitt stórt hvítlauksrif, 1 dós af kjúklingabaunum, tahini, sítrónusafa, rauðbeður í matvinnsluvél. 

 

 

Þetta var svo maukað vel saman og bragðbætt með salti og pipar. 

 

 

Sett í skál og ljúffengri jómfrúarolíu sáldrað yfir!

 

 

Svo var að skera gúrkuna og hnúðkálið. Ég kjarnhreinsaði agúrkuna og skar niður nokkuð smátt og blandaði við hnúðkálið. Saltaði og lét standa í smástund til að draga vökvann úr grænmetinu. Skar svo fersku kryddjurtirnar niður og hrærði saman við ásamt olíu, sítrónusafa og sírópi. Saltaði svo og pipraði og lét standa í 30 mínútur til að taka sig. 

 

 

Svo var það blómasalatið. Skar niður allt grænmetið í mandólíni til að fá jafnþunnar sneiðar og lagði á stóran disk. Marði fetaostinn með gafli og sáldraði yfir. Blandaði jómfrúarolíunni, edikinu, sítrónusafanum og dreifði jafnt yfir. Skar svo myntuna og steinseljuna fínt niður og dreifði yfir salatið, saltaði og pipraði. 

 

 

Mér finnst þetta salat vera ferlega fallegt. 

 

 

 

Lambakjötinu, sem var í afgang kvöldið áður (og var orsök þessarar veislu) var líka gerð góð skil. Skorið í bita og steikt upp úr hvítlauksolíu og bragðbætt með örlitlu af garam masala (indverskt - þrátt fyrir Norður Afrískt þema - en stundum má svindla). 

 

 

 

 

Marineraða kjúklingakjötinu var þrætt upp á spjót og það grillað. Það er eitthvað sérstaklega skemmtilegt að grilla um miðjan vetur!

 

 

Kjúklingurinn var alveg lungamjúkur!

 

 

Auðvitað hefði ég átt að baka flatbrauð - eins og hérna - en ég lét mér nægja að pensla tortillur með hvítlauksolíu og steikja á pönnu.

 

  

Nóg af steiktu flatbrauði til að moka upp matnum.

 

 

Með matnum drukkum við þetta ágæta rauðvín. Fetzer Anthony Hill Merlot ("I ain't drinking any focking merlot" Sideways) sem er frá Bandaríkjunum. Þetta vín er það sem maður myndi kalla bang for the buck - kostar ekki nema tæpan 1800 kall. Þetta er kraftmikið vín - djúpur rúbínrauður litur, ilmar af smá kaffi og ávexti -ljúft eftirbragð.

 

 

Þetta byrjaði sem matur úr afgöngum en endaði sem sannkölluð veislumáltíð!

 

Bon appetit! 


Stórkostlegur humar vinterdor - með gullosti, rjómaosti og dijon á salatbeði - sælgæti

 

 

Við höfum verið í Ölpunum núna í vikutíma - og dvalið eins og svo oft áður hjá vinum okkar Dodda og Þurí á Skihotel Speiereck. Ég held að við séum búin að koma hingað ellefu eða tólf sinnum síðustu tíu árin. Sumir myndu spyrja af hverju maður breyti aldrei til, en ástæðan er einföld; það er vegna þess að hingað er ótrúlega gott að koma með fjölskyldunnni. Börnin una sér ljómandi vel bæði á hótelinu og svo í skíðaskólanum. Öll börnin okkar hafa lært að skíða í St. Michael Schischule. Núna síðast Ragnhildur Lára sem í dag skíðaði með okkur alveg vandræðalaust með bros á vör. Í þessa ferð vantaði þó frumburðinn okkar, Valdísi Eik, sem ekki komst með vegna skólans. Við söknuðum hennar mikið! 

 

 

Svo elska ég að fara í skíðafrí - þar sem maður fær að leika sér allan daginn. Vakna snemma, borða góðan morgunmat og fara út að leika sér allan liðlangan daginn í snjónum. Það er dásamleg tilfinning að líða niður brekkurnar - einhver barnaleg tilfinning sem heldur manni gangandi allan daginn. Ég held að við séum búin að skíða rúma tvö hundruð kílómetra þessa vikuna. Maður á því inni að borða góðan mat og skála í ljúffengum bjór! Proscht! 

 

En að öðru, þennan rétt eldaði ég helgina áður en við fórum í frí. Ég hafði keypt talsvert af humar fyrir jólin og gerði góðan díl á tæpum þremur kílóum af humri. Ég átti því afgang í frystinum sem þurfti að huga að. 

 

Humar vinterdor - með gullosti, rjómaosti og dijon á salatbeði - sælgæti

 

 

Þessi réttur var í bókinni minni, Veislunni endalausu, sem kom út árið 2014. Þá kallaði ég réttinn Humar um sumar - og var mín útgáfa af Humar Thermidor sem er fræg frönsk uppskrift. Þessi réttur varð til á veitingastaðnum Marie's í París árið 1894. Hann var gerður til heiðurs leikstjóranum Victorien Sardou en hann hafði þá frumsýnt leikverkið Thermidor. Titill verksins er vísan í mánuðinn Thermidor - júlí - en eftir frönsku byltinguna breyttu byltingamenn heitum mánaðanna eftir sínu höfði til að afmá áhrif fyrri valdhafa. 

 

Þessi uppskrift er að sjálfsögðu aðeins breytt - nóg til að skipta um titil. Að þessu sinni ákvað ég að nota uppáhaldsostinn minn - gullost. Gullostur og humar saman geta ekki orðið annað en eitthvað dásamlegt - og það varð það, fullkomlega dásamlegt. 

 

Hráefnalisti 

 

Fyrir fimm sem léttur forréttur

 

10 stórir humarhalar

2 msk rjómaostur

1 msk sýrður rjómi

1 msk mæjónes

1 tsk djion sinnep

50 gr smátt saxaður gullostur

1/2 tsk cayenne pipar

2 eggjarauður

salt og pipar

1 msk smátt skorin steinselja

3 msk brauðmylsna

 

 

 

Blandið eggjarauðum, sinnepinu, mæjónesinu, sýrða rjómanum og rjómaostinum saman í skál. Bætið cayenne pipar saman við.

 

 

Skerið ostinn fínt niður og saxið steinseljuna og hrærið saman við. Smakkið til með salti og pipar. Geymið í kæli á meðan hugað er að humrinum. 

 

 

Hafið 11 ára metnaðarfullt og vandvirkt afsprengi til taks og látið það sjá um að sinna humrinum. 

 

 

Kennið afsprenginu hvernig á að opna humarinn, hreinsa görnina út og stilla upp þannig að humarinn haldi fyllingunni og hún renni ekki út. Líkur á því að afsprengið finni sér maka hafa nú aukist um 15% - að minnsta kosti. 

 

 

Smyrjið fyllingunni í humarskelina. 

 

 

Stráið brauðmylsunni yfir í nokkuð jöfnu lagi. 

 

 

Setjið undir blússheitt grillið og grillið í 3-4 mínútur þangað til mylsnan hefur tekið lit. 

 

 

 

Leggið á disk með nokkrum grænum laufum. 

 

 

Það er ekki úr vegi að skála í smá kampavíni. Ég bauð upp á Mumm Demi Sec kampavín - sem er auðvitað frá Champagne héraðinu - annars mætti það ekki heita kampavín. Þetta vín er frá svæðum í kringum Reims - sem er aðeins norðan við Epernay (höfuðstaður kampavínsins). Þetta vín er blanda úr Pinot Meunier (50%), Pinot Noir (35%), Chardonnay (15%) - og úr verður fallega fölleit freyðandi vín sem ilmar af ávöxtum og er létt og frískandi á tungu. 

 

Þetta lyftir manni upp á vetrarkvöldi. 

 


Ótrúleg ostaveisla par excellence með höfðingja í fílódeigi og innbökuðum gullosti

Þetta eru ljúfir dagar fullir tilhlökkunar. Við erum hægt og bítandi að hita upp fyrir árlegt skíðafrí í Ölpunum. Við fórum um helgina og keyptum skíðafatnað á Röggu Láru og Villa en þau virðast upptekin af því að vaxa upp úr því sem til er. Sem er nú í besta lagi. Nú eru bara nokkrir dagar þangað til við tökum á loft frá Keflavíkurflugvelli og leggjum leið okkar til uppáhaldsstaðar okkar í Austurrísku Ölpunum - Skihotel Speiereck - þar sem vinir okkar Doddi og Þurí hafa tekið vel á móti okkur síðasta áratuginn. 

 

Síðustu átta ár höfum við farið akandi til Alpanna frá heimili okkar í Svíþjóð. Uppáhaldshluti þess ferðalags er án efa þegar maður keyrir inn í Austurríki á leiðinni frá Munchen. Skömmu eftir að komið er yfir landamærin er tekin skörp beygja til suðurs framhjá Salzburg og þá blasa við tindarnir í Ölpunum allt í kring. Síðasti klukkutíminn frá Salzburg til St. Michael í Lungau er án efa sá hluti ferðarinnar sem ég nýt hvað mest - að aka á hraðbraut meðfram og í gegnum fjöllin sem umlykja alla þessa fallegu smábæi. Ég hef margoft bloggað um ævintýri mín í Ölpunum og þeim innblæstri sem ég hef sótt í þá matarmenningu sem blómstrar þar innan um há fjöll og djúpa dali. 

 

Þó að maturinn í þessari færslu eigi ekki rætur sínar að rekja til Alpanna þá er þetta matur sem myndi sóma sér ákaflega vel í því umhverfi, feitur og ríkulegur, ljúffengur og verðlaunandi. Ostur er þannig - hann hjúpar mann að innan og vermir - miklu meira en annar matur! 

 

Ótrúleg ostaveisla par excellence með höfðingja í fílódeigi og innbökuðum gullosti

 

Og þessi réttur er eins einfaldur og hugsast getur. Í raun var það eina sem var krefjandi var að finna smjördeig á sunnudegi í Reykjavík. Ég þurfti að fara í þrjár verslanir til að finna frosið smjördeig! Hvaða rugl er það eiginlega? 

 

Fyrir tíu manns 

 

700 g höfðingi

1000 g gullostur

1 pk fílódeig

1 pk smjördeig

2 msk dijon sinnep

1 msk sænskt sinnep

100 g serranó skinka

3 msk góð sulta

1 egg

1 tsk vatn

salt

 

 

Ætli fyrsta verkið hafi ekki verið að dást að þessum fallega osti. 

 

 

Það er eitthvað bæði fallegt og unaðslegt við að handleika svona stóra osta.

 

 

Höfðinginn fékk að fara í fílódeigið. - Hann var smurður með örþunnu lagi af sultu. 

 

 

Hann var vafinn inn í sex lög af deigi - en eftir á að hyggja þá hefðu þrjú líklega verið feikinóg.

 

 

Auðvitað er hægt að gera sitt eigið smjördeig. Sennilega hefði það verið fljótlegra en að aka á milli þriggja verslana.

 

 

 

Eftir að ég hafði smurt með dijonsinnepinu þá var þess krafist að hafa eitthvað sem væri ögn sætara. Ég notaði því þetta sælkerasinnep sem ég hafði fengið gefins frá henni Svövu fyrir jólin.

 

 

Ég vafði gulostinn með serranoskinku og lagði hann ofan á sinnepið.

 

 

Gullostarbakan var svo pensluð að utan. 

 

 

Amma Lilja hjálpaði mér að búa til blómið sem skreytti ostatertuna. 

 

 

Við gerðum lítil lauf. 

 

 

Mamma sá um að gera miðjuna af blóminu.

 

 

Svo unnum við saman að því að raða þessu saman.

 

 

 

 

Með matnum drukkum við þetta fyrirtaks ástralska rauðvín sem hefur verið í uppáhaldi hjá móður minni um nokkura ára skeið. Peter Lehmann Futures Shiraz frá því 2013 er ekkert síðra en fyrri árgangar. Það er kraftmikið, kirsuberjadumbrautt vín. Með góðri ávaxtaríkri fyllingu, góðu jafnvægi - fínir eikartónar og jafnvel kryddað á tungunni.

 

 

 

 

Ég reyndi að útbúa einshverslags blóm á fílódeigið.

 

 

 

Stráði salti yfir báðar bökurnar. Smjördeigsbakan var bökuð við 200 gráður í 30 mínútur og fílódeigsbakan við 180 gráður í 20 mínútur.

 

 

 

 

Kemur gullin og falleg úr úr ofninum.

 

 

Osturinn vellur út. Borin fram með góðu súrdeigsbrauði, sultu, pestó, balsamic marineruðum perlulauk og góðu salati. 

 

 

 

Smjördeigsbakan kom gullfallega út.

 

 

 

Svo er bara að njóta.

 

Þetta var alger veisla.

 

 


Safaríkur Miðjarðarhafsþorskur með jómfrúarolíu, ólífum, sólþurrkuðum tómötum og hvítlauk og skorðalía kartöflumús

 

Tíminn líður eins og engin sé morgundagurinn. Skömmu eftir áramót varð mér hugsað til þess hversu langt væri þangað til að við færum í skíðafrí - sem verður núna um næstu helgi, þann 25. febrúar. Mér líður eins og ég hafi í raun bara blikkað augunum og nú fljúgum við til Evrópu næsta laugardag. Mikið óskaplega getur tíminn verið fljótur að líða. Ég hitti um daginn eldri herramann sem kom til mín á stofu sem nefndi nákvæmlega það sama, hvað tíminn væri fljótur að líða! Ég vona að hann fljóti ekki hraðar áfram en þetta! 

 

En kannski er það bara teikn þess að maður hafi mikið að gera og að verkefnin sem maður er að sinna séu svo skemmtileg. Og vissulega er gaman. Og á sama tíma krefjandi! Það er ótrúlega gaman að vinna á Landspítalanum þrátt fyrir þau vandræði sem stofnunin stendur frammi fyrir. Það er líka mjög skemmtilegt að byggja upp sjálfstæðan stofurekstur. Kannski er ég bara að lýsa lúxusvandamáli. Lífið er vissulega skemmtilegt. 

 

En á meðan tíminn líður svona hratt er þá gott að hafa fljótlega rétti til að elda. 

 

Safaríkur Miðjarðarhafsþorkur með jómfrúarolíu, ólífum, sólþurrkuðum tómötum og hvítlauk og skorðalía kartöflumús

 

Mörgum finnst fiskur vera hversdagsmatur. Sjálfum finnst mér fiskur herramannsmatur. Kosturinn við fiskmáltíðir eru oftast að þær eru fljótlegar og þurfa ekki mikinn undirbúning. Það er oft þannig með fisk - það þarf svo lítið að gera við hann til að gera hann stórkostlega ljúffengan. Þetta voru þéttir þorskhnakkabitar sem ég sótti til vina minna í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum. 

 

Fyrir sex

 

1,2 kg þorskhnakkar

1 krukka kalamataólívur

75 g sólþurrkaðir tómatar

5 hvítlauksrif

500 ml jómfrúarolía

handfylli steinselja

hveiti

salt og pipar

 

1 kg kartöflur

100 g smjör

75 g spínat

100 ml mjólk 

5 msk hvítlauksolía

salt og pipar

 

 

Ég fékk Snædísi til að hjálpa mér til að skræla kartöflurnar. Lífið er auðveldara með svona góðan félagsskap.

 

 

 

Ég bragðbætti hveitið með hvítlaukssalti.

 

 

Olían var hituð á pönnu þangað til að hún varð 160 gráðu heit.

 

 

Ég notaði þessa ljúffengu olíu. Hún var ekki ofdýr. Svo má auðvitað geyma hana þangað til að maður steikir fisk aftur. 

 

 

Fiskurinn var svo steiktur í olíunni í 5 mínútur á hvorri hlið.

 

 

Svo er fisknum snúið.

 

 

 

Svo er bara að bæta sólþurrkuðum tómötum, ólífum, hvítlauknum á pönnuna og steikja áfram í tvær til þrár mínútur.

 

 

 

Þá er bara að setja fiskinn á diskinn. 

 

 

Svo er það skorðalía kartöflumúsin. Flysjið kartöflurnar og sjóðið í söltuðu vatni í 20 mínútur. Hellið vatninu frá og maukið, blandið saman við smjörinu, mjólkinni, hvítlauksolíunni og saltið og piprið. Hrærið svo spínatinu saman við. Hitinn frá kartöflunum mun svo mýkja spínatið. 

 

 

 

 

Prófið svo þetta ljúffenga vín með matnum, Simonnet Febvre Chablis frá því 2014. Þetta er vín frá Frakklandi - frá svæðunum í kringum bæinn Chablis. Þessi ljúffengu vín eru alltaf gerð úr Chardonnay þrúgum og hefur alla þá kosti sem Chardonnay þrúgur hafa að geyma. Vínið er fallega fölgult í glasi, ilmar af þykkum ávexti, með þéttum smjörkenndum sítrónukeim. Mjúkt eftirbragð.

 

 

 

Þetta var, sko, veislumáltið!

 

Bon appetit!


Ekta vínarsnitzel frá grunni með fjórum gerðum af hvítlaukssmjöri og bökuðum perum með blámygluosti og ristuðum valhnetum

 

Þetta var alveg frábær veisla. Við buðum góðum vinum okkar Sverri og Bryndísi og strákunum þeirra; Hákoni, Pétri og Hauki í Alpaveislu. Við erum öllsömul á leiðinni til Austurríkis þar sem við munum hitta fleiri góða vini - Söru Hlín og Davíð. Þetta er tíunda árið sem við förum á Skihótel Speiereck og gistum hjá Dodda og Þurí sem hafa tekið vel á móti okkur síðastliðinn áratug.

 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég blogga um Vínarsnitzel - fyrir fimm árum hafði ég þetta að segja um snitzelið. Þá gerði ég það úr svínakótilettum og fór að ráðum Tómasar Mandl kollega míns sem á rætur að rekja til Austurríkis. En það er hinsvegar svo að ekta Vínarsnitzel er gert úr kálfakjöti. Og í Austurríki þarf að taka það sérstaklega fram að snitzelið sé ekki gert úr kálfakjöti "vom Schwein" - sé það ekki gert - þá má gera ráð fyrir að um kálfakjöt sé að ræða. Það finnst líka á buddunni - þar sem kálfakjöt er gjarnan aðeins dýrara.

 

Og það er aðeins betra. Vitiði til!

 

Ekta vínarsnitzel "vom kalb" frá grunni með fjórum gerðum af hvítlaukssmjöri og bökuðum perum með blámygluosti og ristuðum valhnetum

 

Það er engin launung að ég elska smjör! Mér finnst það ótrúlega bragðgott og gera nær allan mat betri.

 

Og lengi vel var ég hálfpartinn leiður yfir þessari smjörást, enda læknisfræðimenntaður og lengi vel var smjörið stimplað sem sjúkdómavaldur. En svo er ekki!  Á síðustu árum er búið að hrekja þessar kenningar. Smjörið hefur ekki neikvæð áhrif á heilsuna. Við getum því notið þess með góðri samvisku - alveg eins og smekkurinn og bragðlaukarnir krefjast. Jibbí!

 

Og mér finnst bragðbætt smjör vera fyrirtak með snitzeli. Fyrst þegar ég gerði þennan rétt gerði ég ansjósusmjör sem ég endurtek núna með örlitlum breytingum, auk fjögurra annarra sem mig langaði til að prófa.

 

Fyrir 10

 

2,2 kg kálfakjöt

hveiti

6 egg

brauðmylsna

hvítlaukskrydd

salt og pipar

 

5 stórar perur

1/2 blámygluostur (ég notaði Ljót)

4 msk góð jómfrúarolía

50 g valhnetur

salt og pipar

 

Fjögur mismunandi kryddsmjör (sjá að neðan)

 

 

Fyrir þá sem segja að þeir hati ansjósur - staldrið aðeins við. Vissulega er þetta sardínutegund og hún er afar sölt sé hún borðuð ein og sér. En sem hluti af öðrum hráefnum þá leika þær lykilhlutverk í bakgrunninum og lyfta öðrum bragði á hærra plan - klassísk umami áhrif - hérna er færsla um umami.

 

 

Takið 150 g af mjúku smjöri og blandið saman við það fimm flökum af smátt skornum ansjósum, berki af hálfri sítrónu, safa úr hálfri sítrónu, tveimur msk af smátt skorinni steinselju. Saltið og piprið og blandið vandlega saman. 

 

 

Næsta smjör er alveg geggjað. Fyrst setur maður heilan hvítlauk ofan á álpappír og hellir smá skvettu af olíu yfir hann, saltar og piprar. Því næst vefur maður álpappírnum utan um og bakar í ofni í 45 mínútur við 180 gráður. 

 

 

Þá umbreytist hvítlaukurinn algerlega yfir í þetta sem sést hér á myndinni að ofan. Hann karmelliserast, skerpan og hvítlaukshitinn hverfur og í staðinn kemur sæta; djúsí hvítlaukssæta. 

 

Maður hrærir 150 g af smjöri saman við öll hvítlauksrifin. 

 

 

Auk tveggja msk af ferskum graslauk. Og salti og pipar auðvitað.

 

 

Næsta gerð af hvítlaukssmjöri var svo gerð úr 150 g af smjöri, 80 g af chorizo pylsu, 1/2 smátt söxuðum kjarnhreinsuðum chili, safa úr hálfrí límónu og svo salti og pipar.

 

 

Fjórða var gert úr 150 g af smjöri, þremur msk af góðu hvítvínsediki, tveimur msk af söxuðu fersku fáfnisgrasi, tveimur msk af smátt skornum skalottulauk og svo salti og pipar. 

 

 

Svo var smjörinu skellt á bökunarpappír ...

 

 

... og því vafið upp og sett í kæli í klukkustund.

 

 

Á meðan útbjuggum við kálfakjötið. Það var búið að fletja það aðeins út í Melabúðinni, en ég tók upp hamarinn og flatti það út aðeins meira.

 

Auðvitað þarf að salta og pipra í hverju skrefi.

 

 

Fyrst er að velta kálfinum upp úr hveiti, svo eggjablöndu og að því loknu heimagerðri brauðmylsnu (gerða úr brauðafgöngum heimilisins, t.d. brauði frá Brauð&co - namminamm)

 

 

Svo var að undirbúa perunar. Fyrst flysjaðar, svo velt upp úr góðri jómfrúarolíu, saltað og piprað. Kjarninn var fjarlægður og í staðinn komið fyrir góðum bita af blámygluosti. 

 

Þetta var svo bakað í ofni í 35 mínútur við 180 gráðu hita. 

 

 

Þegar perurnar voru tilbúnar voru þær skreyttar með ristuðum valhnetum og smátt skorinni steinselju.

 

 

Eftir klukkustund var bragðbætta smjörið tilbúið. Frá hægri; Bernaisesmjör, svo hvítlauks- og graslauks smjör, fyrir neðan ansjósusmjör og svo chorízó og chilismjör.

 

 

Kálfakjötið var steikt í smjöri við miðlungshita í tvær til þrjár mínútur á hvorri hlið og svo sett í 150 gráðu heitan ofn í tíu mínútur.

 

 

Með matnum drukkum við þetta ljúffenga vín frá Ítalíu. Maso Campofiorin Nectar sem er blanda af Corvina þrúgum auk Rondiella og svo Molinara. Margir þekkja Masi Campofiorin sem á 50 ára afmæli nú í ár. Þetta vín er á svipuðum nótum - kannski þéttara að mínu mati. Það er gott að umhella því til að lofta um það - og það lyftir bragðtónunum enn frekar.

 

 

 

Þessi matur reyndist algert sælgæti.

 

 

 

 

Ég hvet ykkur til að prófa.

 

Bon appetit!


Dásamleg kjúklingatagína með tómötum, lauk og kjúklingabaunum með ljúffengu kúskús með feta og döðlum og gufusoðnu grænmeti

 

Ég var á vaktinni á sunnudaginn og í fyrsta skipti í langan tíma var heldur lítið um að vera, bæði á deildinni minni, bráðalyflækningadeildinni, sem og á bráðamóttökunni. Og það verður að segja að það var hálf skrítið, hálf einkennilegt - því síðustu vikur hafa verið mjög kaótískar á sjúkrahúsinu sem er fyrir löngu sprungið. Starfsfólkið á sjúkrahúsinu gerir kraftaverk á hverjum degi við þessar ótrúlega bágbornu aðstæður; endalaust pláss- og úrræðaleysi. En það er gott að vinna með svona góðu fólki á hverjum degi - og maður er alltaf að læra eitthvað nýtt!

 

Á laugardaginn var líka viðburður á hinum vinnustaðnum mínum, Klíníkinni í Ármúla, en þar rek ég sjálfstæða læknastofu þar sem ég reyni að hjálpa gigtveiku fólki. Það var skemmtilegt hvað margir komu í heimsókn og voru forvitnir um reksturinn hjá okkur. Það var sérstaklega skemmtilegt að sýna gestum og gangandi hversu vandað hefur verið til verka á þessari læknastöð. Þetta er gott umhverfi til að vinna í. 

 

Svo er það áhugamálið mitt, matreiðslan. Þar er líka nóg um að vera. Í febrúar mun ég byrja aftur með sjónvarpsþætti og að þessu sinni verða þeir á ÍNN. Við erum byrjuð í tökum og munu efnistök þáttanna byggja dálítið á bókunum mínum; Tíma til að njóta, Veislunni endalausu og þegar fer að vora Grillveislunni. Auðvitað verður líka heilmikið af nýjum uppskriftum - þetta er allt í vinnslu. Þættirnir verða teknir upp heima hjá mér í nýja eldhúsinu mínu sem ég er afar stoltur af! 

 

Dásamleg kjúklingatagína með tómötum, lauk og kjúklingabaunum með ljúffengu kúskús með feta og döðlum og gufusoðnu grænmeti

 

Ég hef mjög lengi verið hrifinn af matargerð Norður Afríku og sérstaklega frá Marokkó - ég hef meira að segja eldað á marókóskum veitingastað í Lundi sem vinkona mín, Latifa átti. Til Marokkó hef ég því miður aldrei komið, nema í gegnum sjónvarpsþætti, matreiðslubækur og kannski má segja að ég hafi ferðast þangað á bragðlaukunum. 

 

Með þessari uppskrift kemst maður langleiðina til Marokkó. 

 

Fyrir sex til átta.

 

Hráefnalisti:

 

1,5 kg kjúklingaleggir

2 dósir niðursoðnir tómatar

3 litlir laukar

1 lítil dós tómatpúré

1 dós niðursoðnar kjúklingabaunir

1 tsk kóríanderfræ

1 tsk broddkúmenfræ

1 tsk papríkuduft

1 tsk túrmerik

1 tsk engiferduft

1 tsk súmac

1 kanilstöng

börkur af einni sítrónu

1/2 sítróna

1 tsk kjúklingakraftur

4 msk jómfrúarolía (til marineringar og steikingar)

salt og pipar

steinselja til skreytingar - eða mynta - en hún var bara ekki til í búðinni :( 

 

2 kúrbítar

10 gulrætur

2 msk sítrónuolía

salt og pipar

 

250 g kúskús

500 ml kjúklingakraftur

10 döðlur

1/2 rauð papríka

1/2 krukka dalafetaostur

 

250 ml jógúrt

2 hvítlauksrif

1 tsk hunang

1/2 agúrka

salt og pipar

safi úr hálfri sítrónu

steinselja - þar sem myntan var ekki til :(

 

 

Snædís, eiginkona mín, var nýlega í Englandi og hún færði mér talsvert af kryddi úr búðinni Taj sem er í Brighton. 

 

 

Ristið kóríander- og broddkúmenfræin og steytið í mortéli.

 

 

Hellið smá olíu yfir kjúklinginn og setjið kryddið; steyttu færin auk papríkudufts og túrmeriks, salt og pipar. Ég notaði helminginn af kryddunum í kjúklingamarineringuna.

 

 

Rétt til að lífga réttinn við þá setti ég börk af sítrónu og safa saman við. 

 

 

Þessu var svo leyft að marinerast í ísskáp í klukkustund eða svo. Auðvitað hefði lengri tími verið aðeins betra - en maður verður bara að láta duga það sem býðst.

 

 

Svo var að vinda sér í sósuna. Ég steikti fyrst laukinn, skorinn í fjórðunga ásamt hvítlauknum í nokkrar mínútur í heitri olíu. Svo setti ég sama krydd og ég setti á kjúklinginn. Látið steikjast um stund áður en þið bætið tómötunum og og tómatpuré saman við. 

 

Í margar marókóskar uppskriftir notar maður marineraðar sítrónur. Ég átti engar slíkar eins og stendur en setti í staðinn hálfa ferska sítrónu. 

 

 

Ég notaði líka súmac - sem er krydd sem hefur svona jarðarkennt sítrónubragð.

 

 

Og svo eina kanilstöng. Látið krauma við lágan hita í 20-30 mínútur.

 

 

Á meðan maður er að bíða þá er ágætt að fá sér smá hvítvínstár. Ég átti Brancott Estate Sauvignion Blanc frá 2014. Þetta er vín frá Marlborough frá Nýja Sjálandi. Konan mín hafði dálæti á Chardonnay í mörg ár en hefur núna lagt það á hliðina og um þessar mundir er Sauvignion Blanc málið - sem er sko í lagi af minni hálfu. Þetta vín er fallega gult á litinn, með kröftugan ávöxt í nefi, fína fyllingu og krispí bragð á tungu.

 

 

 

Öllu var svo komið fyrir í eldföstu móti.

 

 

Inn í 180 gráðu heitan ofn í eina klukkustund.

 

 

Á meðan bjó ég til sítrónuolíu: Safi úr einni sítrónu og svo 3 hluta af olíu á móti. Notaði einnig börkinn sem ég skar fínt niður. Saltaði aðeins og hristi vel upp.

 

 

Skar niður kúrbít og flysjaði gulrætur og setti í þar til gerða ofnskúffu til að gufusjóða. Bosch ofninn minn, er með svona gufufúnksjón er ákaflega hentug.

 

 

Smurði sítrónuolíu á grænmetið, saltaði aðeins og pipraði og gufusauð í 20 mínútur.

 

 

Bjútíful!

 

 

Raitan var eins einföld og hefðbundin og hugsast getur; Jógúrt, maukuð hvítlauksrif, kjarnhreinsuð smátt skorin gúrka, salt, pipar, hunang og sítrónusafi. Hrært og látið standa.

 

 

Eftir klukkustund tók ég kjúklinginn út úr ofninum. Ilmurinn var magnaður. Fyllti allt eldhúsið.

 

 

Skreytti með steinselju - hefði vilja nota myntu en hún var ekki til í búðinni (hvað er það eiginlega)

 

 

Gerði síðan eldsnöggt kúskús salat með kjúklingasoði (í stað vatnsins). Blandaði síðan við kúskúsið ferskri papríku, steinselju, smátt skornum döðlum og fetaosti.

 

 

Raðaði grænmetinu á disk. Ég stóðst ekki mátið að setja smá hunang á gulræturnar.

 

 

 

Svo er bara að bera herlegheitin á borð. Og njóta.

 

Umfram allt að njóta!


Dásamlega gott lambafillé "sousvide" með rauðvínsrjómaveppasósu, ljúffengu gratíni og smjörsteiktum strengjabaunum

 

Það hefur verið mikið um að vera síðastliðna viku. Auk þess að hafa unnið á stofunni og svo á bráðamóttökunni í síðustu viku þá sótti ég einnig Læknadaga sem haldnir eru árlega í janúar. Ég var með erindi um mat og mýtur á málþingi um skuggahliðar heilsuæðisins. Þar ræddi ég meðal annars um hvernig við læknar fórum að hræðast mettaða fitu og salt - og hvernig ný þekking hefur sýnt okkur að óþarfi sé að óttast þessar matvörur eldi maður frá grunni.

 

Svo var ég líka í gærkvöldi veislustjóri á árshátíð Læknafélags Reykjavíkur þar sem 500 manns - læknar og makar þeirra skemmtu sér saman. Það var stórgaman - Haukur Heiðar og Haukur Heiðar, heimilislæknar í Hafnarfirði spiluðu fyrir okkur, Mugison kom og æsti upp liðið sem dansaði síðan fram á nótt við undirleik hljómsveitarinnar The Bandaids, sem er skipuð læknanemum, kandidötum og deildarlæknum - þau voru fullkomlega stórkostleg.

 

Mikið var þetta skemmtileg kvöld! Takk fyrir mig.

 

Að öðru;

 

Mér gengur vel með "átakið" sem ég hef verið með síðan um áramótin. Það er að halda áfram að elda hollan og góðan mat. Og máltíð eins og þessi er sannarlega góð. Og hún er líka holl - ég ætla alltént að reyna að færa rök fyrir því. Kjötið, baunirnar og sósan er án efa hollt - fullt af dásamlegum prótínum og hollri fitu.

 

Gratínið var samt á grensunni - enda á maður bara að leyfa sér slíkt nokkrum sinnum ári - blanda af kolvetnum og fitu er kannski ekki það hagstæðasta - en það er til margir hlutir sem eru óhollari en gratín. En sumir hlutir eru hollir fyrst og fremst fyrir sálina, en nóg um það - gratínið er efni í aðra færslu!

 

Dásamlega gott lambafillé "sousvide" með rauðvínsrjómaveppasósu, ljúffengu gratíni og smjörsteiktum strengjabaunum 

 

Ég veit fyrir víst að margir eignuðust hitajafnara (sous vide græju) um þessi jól eða fyrir þau árið á undan. Ég fæ margar fyrirspurnir um sous vide eldamennsku enda hef ég verið að dútla við hana undanfarin fjögur ár. Hægt er að lesa um sous vide eldamennsku á þessari síðu og þar eru einnig tenglar á fjölda uppskrifta á blogginu mínu. Þá er hægt að skoða yfirlit um hitastig og eldunartíma hérna.

 

Hráefnalisti

 

Fyrir sex

 

1,4 kg lambafillé

ferskt timjan

3-4 msk jómfrúarolía

salt og pipar

 

fyrir sósuna

 

250 g sveppir

50 g smjör

2 skalottulaukar

2 hvítlauksrif

2 lárviðarlauf

250 ml rauðvín

500 ml lambasoð

250 ml rjómi

1/2 tsk ferskt timjan

salt og pipar

soð af kjötinu

 

400 g strengjabaunir

50 g smjör

1/2 glas af hvítvíni

2 msk ferskt steinselja

safi úr hálfri sítrónu

salt og pipar

 

 

 

 

Byrjið á því að skola og þerra kjötið. Piprið það svo rækilega.

 

 

Komið því svo fyrir í poka með timjaninu og jómfrúarolíunni. Gætið þess að salta ekki á þessu stigi.

 

 

Lokið pokunum og eldið í tvær  klst við 56 gráður.

 

 

Með matnum drukkum við þetta verðlauna vín frá Valledecen héraðinu í Chile. Þetta er Cabernet Sauvignion  - þetta vín er fallega dökkrúbínrautt í glasi - með miklum ávexti og eik í nefi, sem fylgir þétt í bragðinu - kröftugum ávexti sem dreifist yfir tunguna. Langt og mikið eftirbragð. 

 

Ég virti regluna um þrjá þegar ég var að elda þennan rétt - naut fyrsta sopans á meðan ég stóð yfir hlóðunum. Notaði svo gott vín í matinn líka. Og svo nutum við vínsins með matnum.

 

 

 

Þessi sósa er klassíker og ég hef gert hana oft áður. Skerið laukinn og hvítlaukinn smátt og steikið þangað til að hann er mjúkur. Bætið þá við skornum sveppum og steikið þangað til að þeir hafa brúnast. Hafið tvö lárviðarlauf með í pottinum ásamt timjaninu. Saltið og piprið. 

 

Hellið svo víninu á pönnuna og gætið þess að "deglaze" pönnuna (vínið sýður upp allar litlu brúnu agnirnar sem hafa fests við pönnuna. Sjóðið upp áfengið. 

 

Bætið svo soðinu saman við og sjóðið niður um þriðjung. Hellið þá rjómanum og sjóðið um stund. Þykkið með kartöflumjöli (eða smjörbollu) og bragðbætið með salti, pipar, sultu eða worchestershire sósu eins og við á. 

 

 

Eftir tvo tíma lítur lambið svona út. Það er fullkomlega eldað í gegn og þarfnast núna einvörðungu að brúnast á pönnu í stutta stund. 

 

 

Bræðið smjör á pönnu og leyfið því að brúnast lítillega - beurre noisette - og gefur þá ennþá ljúffengara bragð af matnum. 

 

 

Brúnið kjötið að utan - 30 sekúndur á hverri hlið. Aðeins lengur á fituröndinni.

 

 

Bræðið örlítið af smjöri í annarri pönnu og steikið baunirnar. Þegar þær eru farnar að taka lit, bætið þið hvítvíninu á pönnuna og sjóðið upp áfengið. Bætið svo sítrónusafanum við. Saltið og piprið. 

 

 

Setjið baunirnar á disk og skreytið með rifinni steinselju og kannski ögn af jómfrúarolíu. Að ósekju mætti raspa svolítinn parmaost yfir.

 

 

Sneiðið kjötið niður og raðið á diska. 

 

 

Þessi máltíð var algert sælgæti. Ég elska íslenskt lambakjöt. 

 

 

Kjötið er fullkomlega eldað - alveg áreynslulaust. Það eina sem þarf er tími.

 

Gratínið er svo efni í aðra færslu - en það var eiginlega það besta sem ég hef gert.

 

Bon appetit.


Ljúffengar lambakótilettur í kryddraspi, með fullkomnum gulrótum og kartöflum, grænum baunum og rjómalagaðri sveppasósu

 

Ég hef oft strengt áramótaheit. Eins og hjá flestum þá lýtur það oftast að mat og hreyfingu. Ég hef ætlað að byrja að hlaupa, hreyfa mig meira og borða minna eða borða eitthvað nýtt. Ég hef í tvígang gerst grænmetisæta, einu sinni bara á virkum dögum og svo fyrir tveimur árum alla daga vikunnar - sem var áskorun fyrir alræmda kjötætu eins og sjálfan mig. En það var líka á sama tíma afar lærdómsríkt. Michael Pollan, sem er þekktur blaðamaður og rithöfundur, sagði einmitt að til að halda góðri heilsu ættum við einna helst að borða mat, alvöru mat, og mest af grænmeti. 

 

Ég strengdi engin sérstök heit þessi áramót, en ætla að halda áfram að vera duglegur að hreyfa mig (skvass og líkamsrækt), og borða hollan og góðan mat. Það er erfitt að hefja ný átök - það er betra að reyna að tileinka sér hollan lífstíl og reyna viðhalda honum til lengri tíma. Sjálfur tel ég að það sé happadrýgra til lengdar. 

 

Og svo koma laugardagarnir - og þá fara gjarnan þessi heit, þessi góðu áform út um gluggann. Það er erfitt að færa rök fyrir því að þessi máltíð sé beinlínis holl - en eitt er víst - hún er einstaklega góð! 

 

Ljúffengar lambakótilettur í kryddraspi, með fullkomnum gulrótum og kartöflum, grænum baunum og rjómalagaðri sveppasósu

 

Fyrir 6-8 

 

Fyrir lambakótiletturnar

 

Heill hryggur í 1,5 cm sneiðum

2 bollar ferskur brauðraspur

4 egg

3 greinar af rósmarín

blóðbergssalt og pipar

smjör til steikingar

 

Fyrir sósuna

 

250 g sveppir

1 laukur

3 hvítlauksrif

1 glas rauðvín

500 ml lambasoð

250 ml rjómi

3 lárviðarlauf

salt og pipar

 

Meðlæti

 

1 kg kartöflur

1/2 kg gulrætur

handfylli hveiti

salt og pipar

 

1/2 kg frosnar grænar baunir

750 ml kjúklingasoð

50 g smjör

salt og pipar

 

 

Að gera sinn eigin rasp er eiginlega alveg borðliggjandi. Bara að láta brauð sem er afgangs þorna í viskastykki og mala síðan niður í matvinnsluvél og geyma í krukku þangað til að hans er þörf.

 

 

Saxið rósmarínið vandlega niður. Blandið rósmaríninu, blóðbergssaltinu og pipar vandlega saman við raspið.

 

 

 

 

Brjótið eggin í ílát, bragðbætið með blóðbergssalti og pipar - það er mikilvægt að bragðbæta bæði eggin og raspið. Ef þið mynduð einnig nota hveiti (sem fyrsta lag) ætti einnig að bragðbæta það. 

 

 

Hvílið kótiletturnar í nokkrar mínútur til að tryggja að raspurinn sitji sem fastast. 

 

 

Ég gaf sjálfum mér þessa Le Creuset pönnu í jólagjöf - keypti hana þegar ég var á námskeiði í Boston í byrjun desember síðastliðinn. Passar fullkomlega á spanhelluborðið mitt - sem er frá Bosch og er þeim kostum gætt að að hægt er að gera allan flötinn að stórri hellu. 

 

 

Þegar smjörið er bráðnað, og hefur þagnað, eru lambakótiletturnar settar á pönnuna og steiktar í nokkrar mínútur á hvorri hlið. 

 

 

Það er best að hafa bara miðlungshita undir - annars er hætta á því að raspurinn brenni - og hver vill það? 

 

 

Eins og með allt kjöt þarf það að fá að hvíla í nokkrar mínútur áður en maður gæðir sér á því. 

 

 

Svona gerir maður fullkomnar ofnsteiktar kartöflur og gulrætur; Flysja kartöflur og gulrætur. Forsjóða í söltuðu vatni í 6 mínútur. Hella kartöflum í sigti og hrista til að ýfa upp yfirborðið. Bæta við einni matskeið af hveiti og hrista saman. Steikja upp úr fitu að eigin vali. Ofnsteikja við 180-200 gráður þangað til gullinbrúnar og fallegar. Svo er bara að njóta hinnar fullkomnu ofnsteiktu kartöflu.

 

 

 

 

 

Sósan er einföld - en tekur smá tíma. Fyrst er að bræða smjör í potti og steikja við lágan hita; lauk, hvítlauk, sveppi þangað til að þeir karmelliserast (tekur um 20 mínútur, jafnvel lengur). Gætið að því að salta og pipra og setja lárviðarlaufið með. Þvínæst er víninu hellt á pönnuna og hún "deglazed" (að deglaze pönnuna þegar vökvi fer á heita pönnuna, pott og allt það sem festist við botninn leysist upp -það gefur sósunni bragðið/kraftinn) - og svo er áfengið soðið upp. Þá bætir maður lambasoðinu við og síður niður um þriðjung. Að lokum er rjómanum bætt saman við og soðið aftur niður um þriðjung. Smakkað til með salti, pipar og jafnvel sultu ef þarf.

 

 

Baunirnar eru einfaldar; kjúklingasoð hitað í potti og frosnar baunirnar hitaðar í gegn í nokkrar mínútur. Vatninu hellt frá og smjörinu hrært saman við. Voila!

 

 

 

 

 Svo er bara að raða þessu á disk.

 

 

 

Og ekki gleyma sósunni - hún er punkturinn yfir i-ið.

 

 

 

Við drukkum ákaflega ljúffengt vín með matnum; Piccini Memoro Vintage frá 2010. Þetta er ítalskt rauðvín frá Toskana framleitt úr nokkrum þrúgum; þriðjungur úr Sangiovese, þriðjungur úr Aglianico, þriðjungur úr Cabernet Sauvignon og 10% úr Nero d'Avola. Þetta vín er fallega dökkrautt í glasi. Það er bragðmikið, kryddað; sultuð kirsuber og góð eik á tungunni með löngu og góðu eftirbragði. Passaði svona ljómandi vel með lambinu!

 

Þetta var sannkölluð veislumáltíð!

 

Svona eiga laugardagskvöld að vera!


Heimagerður rjómaís með vanillu, ferskum jarðaberjum og jarðaberjakonfekti

 

Þegar aðfangadagur fellur á laugardag - er um að ræða snörp jól. Þau eru eiginlega búin áður en þau byrja - með algerlega massívu veisluhaldi. Byrja á Þorláksmessu með saltfiski í hádeginu hjá tengdó, svo var skata í skúrnum hjá Viggu og Bassa. Á sjálfan aðfangadag fór fjölskyldan í graut í Sílakvísl, en ég var heima og stóð vaktina í eldhúsinu (það var nú að mörgu að hyggja). Á jóladag var ég svo á vaktinni í Fossvoginum. Mér finnst einstaklega ljúft að ganga stofugang um jólahelgina - það er værð yfir sjúkrahúsinu sem ekki er á öðrum dögum ársins. Um kvöldið voru svo mamma og pabbi með kalkún í Lönguhlíðinni og á annan fékk tengdamamma húsið okkar lánað og bauð stórfjölskyldunni í hangikjöt.

 

Sem betur fer fær maður nokkra vinnudaga áður en næsta hrina dynur yfir - með áramóta og nýársveislum. Og þennan ís er kjörið að gera fyrir áramótin - þegar maður vill klára árið með stæl. 

 

Þessa færslu er líka að finna á heimasíðu mjólkursamsölunnar - Gott í matinn - en ég hef slegist í lið bloggara sem munu leggja þeim reglulega til uppskriftir þar sem mjólkurvörur verða settar á oddinn. 

 

Heimagerður rjómaís með vanillu, ferskum jarðaberjum og jarðaberjakonfekti

 

Allur alvöruís er gerður úr rjóma - auðvitað má líka setja örlítið af mjólk en rjómaís er alltaf langbestur! Og þessi ís er algerlega himneskur - hann er svo góður að meira að segja eiginkona mín, Snædís, sem borðar aldrei ís, fékk sér tvisvar á diskinn. 

 

750 ml rjómi

6 egg

150 g sykur

1 vanillustöng

250 g jarðaber

40 jarðaberjakonfektmolar 

 

 

Aðskiljið eggjarauðurnar frá hvítunum. Setjið eggjarauðurnar í skál. 

 

 

Blandið sykrinum saman við og hrærið vandlega saman. Setjið til hliðar í augnablik á meðan þið sinnið öðrum hráefnum sem eiga að fara í ísinn. 

 

 

Næst er að stífþeyta eggjahvíturnar. Það hjálpar að setja smá sykur saman við þær - einhver sagði mér að þær myndu verða betri við það - en ég sel það ekki dýrara en ég keypti ! 

 

 

Svo er það auðvitað rjóminn - en hann er lykilatriði í þessari uppskrift og ástæða þess að fólk biður um ábót. Takið hann beint úr kælinum og þeytið saman. Gætið þess að breyta honum ekki í smjör. 

 

 

Næst er svo að saxa jarðaberin í litla bita. 

 

 

Svo konfektið - það er eðlilegt að kokkurinn taki smá toll af konfektinu - tíu prósent þykir eðlilegt á flestum heimilum. Ég notaði jarðaberjakonfektmola frá Nóa Síríus - en þeir eru uppáhaldið mitt (auk piparmyntukonfektsins). Hvernig fólk nálgast 40 mola - þarf bara að róta í gegnum nokkra kassa hjá vinum og vandamönnum. Sé viljinn fyrir hendi er allt mögulegt. 

 

 

Svo er lítið annað en að blanda ísnum saman. Hrærið fyrst rjómann saman við eggjarauðurnar, svo eggjahvíturnar. 

 

 

Því næst skafið þið innan úr einni vanillustöng og hrærið vandlega saman við ísinn. Þarna er maður kominn með vanilluís - og í raun hægt að stöðva á þessum tímapúnkti - eða halda áfram með hvaða annað hráefni sem er.

 

 

Ég valdi að blanda jarðaberjunum og konfektinu vandlega saman við.

 

 

Svo var ísnum skellt í ísskálina (sem þarf að geyma í frosti í 15 tíma áður en hún er tekin í notkun). Ísinn er svo hrærður í 15-20 mínútur þangað til að hann verður tilbúinn. 

 

 

Hægt er að gæða sér á honum þá og þegar eða setja hann í mót og geyma í frysti. 

 

 

Það eru mörg ráð við að ná ís úr forminu. Ekki gera eins og ég gerði og setja formið í heitt vatnsbað í 20 sekúndur - þá byrjar ísinn að bráðna (mjög gott - veit það næst) - en það hefur engin áhrif á bragðið - sem er fullkomlega geðveikt. 

 

 

 

Svo setur maður meira að súkkulaðisósu á íssinn (bara bræða saman gott súkkulaði og rjóma - koníak sé maður í stuði). 

 

Svo er bara að knúsa sína nánustu - hvort sem það er fyrir jól eða áramót! 

 

 


Svipmyndir frá aðfangadegi; graflax og svínahamborgarahryggur á tvo vegu - sannkölluð veisla!

Þetta voru, eins og gert var ráð fyrir, góð jól! Eins og ég hef sagt mörgum sinnum áður - þá er það aðfangadagurinn sjálfur sem er mitt uppáhald. Ég hreinlega elska að verja heilum degi í eldhúsinu og undirbúa jólamáltíðina. Fátt finnst mér betra! Jú, kannski eitt - mér finnst eiginlega betra að heyra fólk dásama matinn sem maður hefur borið á borð. Sjá fólk njóta þess sem maður hefur útbúið með ást og kærleik. Það er kannski væmið - en það er satt.

 

Ég fékk margar fyrirspurnir fyrir jólin um hvernig ætti að elda svínahamborgarahrygg sousvide - og þar sem ég hafði aldrei gert það sjálfur var það algerlega ljóst að það varð að prófa það fyrir þessi jól. Ég fór aðeins á stúfana og renndi í gegnum FB hóp á netinu þar sem sousvidarar spjalla hver við annan og deila reynslusögum og þar var af nógu að taka - takk fyrir aðstoðina!

 

Svipmyndir frá aðfangadegi; graflax og svínahamborgarahryggur á tvo vegu - sannkölluð veisla! 

 

Ég var með 10 manns í mat á aðfangadag; auk fjölskyldunnar voru mamma og pabbi, bróðir minn og svo Hrafnhildur tengdamamma og kærastinn hennar Guðmundur.

 

 

Það voru miklar umræður á netinu hvort þyrfti að útvatna svínahrygginn áður en hann væri settur í sous vide og voru leiðbeiningarnar á ýmsa vegu, allt frá því að hann var hafður í vatni yfir nótt og svo ekkert útvatnaður. Það er viss lógík bak við þessar umræður þar sem hryggurinn er pæklaður í salti og er ansi megn. Hættan er að hann tapi miklum vökva við eldunina. Ég fór millileið og hafði hann undir rennandi vatni í klukkustund. 

 

 

Á meðan hitaði ég vatnið upp í 65 gráður. 

 

 

Svínahamborgarahryggur er ljúffengur biti - af hverju borðar maður þetta ekki oftar?

 

 

 

Ég hellti einum bjór í pokann með hryggnum. 

 

 

Ég setti hrygginn í tvo poka - þar sem um langa eldun var um að ræða - 5 klukkustundir - og því hætta á því að pokinn myndi byrja að leka (sem hann gerði þó ekki). Ég notaði IKEA poka og lokaði þeim undir vatnsþrýstingi. 

 

 

Hinn hryggurinn var útbúinn á hefðbundinn hátt (skv. Sigga afa). Ég breytti þó aðeins útaf hans ráðleggingum og hef hann á beði af rauðlauk, með hálfri flösku af rauðvíni, 1 l af kjúklingasoði, lárviðarlaufum og negulnöglum. Hitamæli var stungið í kjötið og hann eldaður í ofni þangað til að kjarnhiti náði 70 gráðum (tók um tvo tíma). Hægt er að lesa allt um þessa aðferð hérna.

 

 

Auðvitað var sósan gerð frá grunni - með mirepoix og heimagerðu soði (það eru nú jólin).

 

 

Ég hafði útbúið graflaxinn nokkrum dögum áður - notaði kryddblöndu frá Jóni í Friðheimum sem ég bætti smá sykri saman við. Var haft í kæli í þrjá sólarhringa og snúið tvisvar á dag. Lét 1 l mjólkurfernu ofan á til að pressa vökvann úr laxinum. 

 

 

Pabbi sá um að skera laxinn niður í örþunnar sneiðar. 

 

 

Brauðið var penslað með hvítlaukssmjöri og ristað í vöfflujárni. 

 

 

Við útbjuggum nokkra diska fyrir myndavélina. Hér var laxinum rúllað upp í blóm. 

 

 

Hér var hann bara flatur. Pabbi sá um að gera sósuna - blanda af sýrður rjóma, majónesi, dijon sinnepi, hlynsírópi og svo fersku dilli, salt og pipar eftir smekk. 

 

 

Snædís sá um að leggja á borðið og tryggja að jólastemmingin væri í fyrirrúmi. 

 

 

Eftir fimm tíma var hryggurinn tilbúinn. 

 

 

Pokinn lak ekki neitt. 

 

 

Hann var að mínu mati fullkomlega eldaður.

 

 

Kjötið var svo penslað með gljáa gerðum úr; Bola bjór, rauðvíni, balsamediki, hlynsírópi, salti og pipar og svo grillað í ofni. 

 

 

Mamma stóð vaktina í sósugerðinni - með smá eftirliti undirritaðs. 

 

 

Báðir voru einstaklega safaríkir. Sá sem var eldaður sousvide var mýkri og safaríkari. 

 

 

En sá sem var ofnbakaður var bragðbetri - þar hjálpaði rauðvínið og negulnaglarnir sem gáfu sérstaklega ljúffengt bragð. 

 

 

 

Og með matnum var að sjálfsögðu ljúffengt vín - ég prófaði nokkrar tegundir fyrir þessi jól og setti á FB síðuna mína. Þessi flaska varð fyrir valinu þessi jól. Marques Casa Concha Merlot 2013. Merlot vín hafa átt á brattann að sækja frá því að bíómyndin Sideways var sýnd en þar sagði aðalpersónan eitt sinn "I ain't drinking any fucking Merlot" - sala á þessum vínum tók dýfu í kjölfarið - fullkomlega að ástæðulausu. Þetta er ótrúlega ljúffengt vín - fallega dökkrautt í glasi með djúpum ávaxtailm, smá reyk og einkar gjöfult á tungu með miklum ávexti, kryddi, vanillu með löngu og gefandi eftirbragði. 

 

 

 

Fyrir mína parta segi ég bara - gleðileg jól. 

 

 

 

 


Bestu sósurnar af blogginu!

Flestir elska að hafa góða sósu með matnum sínum og geta eiginlega ekki hugsað sér veislumáltíðina án þess að hafa dýrindissósu með. Ég hef í gegnum árin prófað ótrúlega margar gerðir af sósum. Þó svo að ég sé íhaldsamur við jólamatinn þá eru margir leitandi að ljúffengum sósum til að hafa með til að lyfta máltíðinni upp

 

Hafið í huga að þegar verið er að gera góða sósu þá skipta hráefnin auðvitað mestu máli. Það skiptir mestu máli að notað sé gott soð í sósunar - hvort sem maður gerir soðið sjálfur frá grunni (sem er eiginlega best) eða vandar vel valið þegar maður er að kaupa kraft út í búð. 

 

August Escoffier, faðir franskrar matargerðar, sagði, 

 

"“Það vill svo til að soð er ALLT í matargerð. Án þess er ekkert mögulegt"

 

Þá skiptir miklu máli að smakka sósuna til á meðan verið er að útbúa hana og bragðbæta eftir því sem bragðlaukarnir kveða á. 

 

Hérna er listi af því sem ég held að séu bestu sósurnar sem ég hef bloggað um í gegnum árin - auðvitað vantar einhverjar - en maður kemst ansi langt á þessum.

 

Bestu sósurnar af blogginu;

 

Rjómalöguð sveppasósa

 

Páskamaturinn: Hefðbundið lambalæri með ekta rjómalagaðri sveppasósu, gulrótarturnum sousvide og blómkálsgratíni

 

Fyrir sósuna

 

250 gr sveppir

1 laukur

3 hvítlauksrif

70 gr smjör

150 ml rjóma

200 ml vatn

1 lambateningur

Allur vökvi af kjötinu

Salt og pipar eftir smekk.

 

 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég blogga um sveppasósur - en það er þróun í þeim hjá mér, þ.e.a.s. mér finnst ég verða betri og betri í að búa þær til og eins og ég nefndi áðan þá finnst mér það hafa mest með það að gera hvernig ég höndla sveppina og svo auðvitað soðið sem lagt er til í sósuna.

 

 

Byrjið á að skera laukinn og hvítlaukinn smátt, sveppina gróft. Bræðið smjörið í pottinum og steikið sveppina, laukinn og hvítlaukinn við lágan hita. Ekkert á að brenna, bara hægt og bítandi að brúnast. Þegar eldhúsið er orðið fullt af dásamlegum sveppailm og hnetukeim er rjómanum, vatninu og teningum hellt saman við og soðið upp, Sjóðið síðan niður þangað til að sósan er af þeirri þykkt sem þið óskið.

 

Þegar lambið er tilbúið er öllu soði af því hellt saman við sósuna. Hrærið vel saman við og smakkið til með salti og pipar. Sætið með sultu ef sá gállinn er á ykkur.

 

 

 

 

Cafe de Paris sósa

Steik með Café de Paris-sósu, bökuðum smákartöflum og aspas

 

 

Café de Paris-smjörsósuna

 

250 g smjör

3 hvítlauksrif

3 ansjósur

2 msk dijon-sinnep

1 msk kapers

1 tsk graslaukur

1 msk fersk steinselja

1 skalottlaukur

1 tsk Lea & Perrins Worchestershire-sósa

80 ml rjómi

1 msk tómatþykkni

 

Bræðið smjörið í potti við lágan hita. Setjið saxaðan hvítlauk, kapers, graslauk, steinselju og skalottlauk út í smjörið og steikið í nokkrar mínútur þangað til hráefnið er mjúkt og ilmar dásamlega. Bætið við hökkuðum ansjósum og eldið í 3-5 mínútur til viðbótar þar til ansjósurnar bráðna saman við smjörið og hverfa. Næst bætið þið við dijon-sinnepi, worchestershire-sósu og tómatþykkni og hitið að suðu. Að lokum hellið þið rjómanum yfir og hitið að suðu á nýjan leik

 

 

Madeirasósa

Gómsætar steiktar grísalundir með sveppum og seiðandi madeirasósu

 

Fyrir sósuna;

 

600 ml dökkt kjötsoð

100 ml madeira

smjörbolla (40 gr smjör/40 gr hveiti)

1 tsk soya sósa

1 tsk góð sulta

1/2 tsk Worchehestershire sósa

50 ml rjómi

salt

pipar

 

Útbúið þið Madeira sósuna. Fyrst hellið þið 50 ml af Madeira á pönnuna sem sveppirnir og kjötið var steikt í til að "deglaze" og ná upp öllu gúmmelaði sem varð til við steikinguna.

 

Hitið 600 ml af heimagerðu kjötsoði (sjá síðu 335 í Lækninum í Eldhúsinu - Tími til að njóta) eða notið teninga. Þykkið með smjörbollu (bræða smjör á pönnu, hellið hveiti saman við og hrærið í bollu) og bætið svo soðinu við. Þeytið vel á meðan. Saltið og piprið og smakkið til með sultu, soya og Worchestershire sósu.

 

 

Balsamic beurre noir

Gómsæt Grilluð nautasteik með balsamic beurre noir og bakaðri kartöflu

 

 

Fyrir sósuna

 

2+4 msk smjör

250 ml balsamedik

1 tsk tómatpúre

1 rauður chili

hlynsíróp eftir smekk

salt og pipar

 

Fyrst bræðir maður 2 msk af smjöri við lágan hita á pönnu, eftir að það byrjar að freyða set ég síðan einn niðursneiddan hvítlauksgeira og steiki áfram við lágan hita - hvítlaukurinn á ekki að brenna en mun taka smá lit af smjörinu.

 

Þegar smjörið hefur brúnast hellti ég 250 ml af góðu balsamikediki saman við og sauð upp. Þegar suðan var komin upp bætti ég kúfaðri teskeið af tómatpúré og einum kjarnhreinsuðum og söxuðum rauðum chilli. Hrært saman. Hitinn er lækkaður en frekar og edikinu leyft að sjóða niður um 2/3. Þá er slökkt undir og fjórum matskeiðum af smjöri hrært saman við. Saltað og piprað eftir smekk. Ef balsamikedikið er mjör súrt þarf að sæta það örlítið með sykri eða sírópi (ég þurfti þó ekki að gera slíkt - var með þokkalegt edik).

 

 

Besta Bernaise allra tíma

Côte de Boeuf "sous vide" með bestustu Bernaise sósu allra tíma!

 

 

 

Fyrir sósuna

 

8 eggjarauður

400 g smjör

2 msk ferskt estragon

2-3 msk bernaise-essens.

 

Bernaise essens

 

300 ml hvítvínsedik

4-5 greinar ferskt estragon

1 skalottulaukur

10-15 létt mulin piparkorn

 

 

Þeytið eggin yfir vatnsbaði, hafið aðra höndina á skálinni til þess að skynja hitann. Verði ykkur heitt á höndinni þá er eggjunum líka of heitt. Takið þá skálina af og þeytið vandlega til að lækka hitann.

 

Hvenær á svo að setja smjörið saman við? Eins og sést á myndinni hér að ofan þá er komið mikið loft í eggjarauðurnar og eggin aðeins farinn að halda sér þegar þau er þeytt, þ.e.a.s. bylgjan helst í smástund.

 

Þá er rétti tíminn til að bæta smjörinu við. Í þunnri bunu, þeyta vandlega á meðan þannig að smjörið þeytist inn í eggjablönduna.

 

Þegar sósan er orðin þykk og glæsileg er fersku estragoni bætt saman við.

 

 

Sett í pott og haldið heitu - hún þolir að bíða í um klukkustund.

Saus Poivre - Piparsósa

Hráefnalisti

 

2 msk saxaður skalottlaukur

1 hvítlauksrif

30 ml bolli koníak

150 ml kjötsoð

2 msk græn piparkorn

75 ml rjómi

2 tsk dijon-sinnep

salt

allur safi af kjötinu

sósujafnari (val)

 

 

Skerið laukinn og hvítlaukinn smátt og steikið í smjörinu þangað til að hann er mjúkur og glansandi. Skellið piparkornunum á pönnuna og steikið í hálfa mínútu eða svo. Hellið svo koníakinu varlega á pönnunua og kveikið í því þannig að áfengið brenni upp (það er tilvalið að hafa gestina í eldhúsinu á þessu stigi, svona rétt til að monta sig!) Svo er að bæta kjötsoðinu saman við. Og svo rjómanum, og auðvitað öllum safanum sem fellur til við eldunina á kjötinu.

 

Bordelaise sósa

Grilluð nautalund - "chateubriand" elduð á tvennan hátt - ”sous-vide” og svo grilluð með bordelaise sósu

 

Fyrir sósuna

 

2 skallotlaukar

100 g smjör

10 mulin piparkorn

 

400 ml rauðvín

400 ml kálfa- eða nautasoð

2 lárviðarlauf

5 tímíangreinar

2 rósmaríngreinar

mergur úr þremur nautabeinum (u.þ.b. 75-100 g mergur)

salt og pipar

 

 

 

Sósan

 

Hellið rauðvíni í pott ásamt niðurskornum skalotlauk og piparkornum, hleypið upp suðunni og látið sjóða niður um þriðjung.

Bætið kjötsoðinu út í ásamt kryddvöndlinum (lárviðarlauf, tímían og rósmarín bundið saman í búnt) og látið krauma í 20-30 mínútur, þangað til sósan hefur þykknað lítillega (nægjanlega til að hjúpa stálskeið).

Skerið smjörið í bita og hrærið það vandlega saman við rauðvínssoðið bita fyrir bita. Saltið og piprið.

Hitið vatn í potti og skellið beinmergnum út í sjóðandi vatnið í fimm mínútur. Þrýstið svo mergnum út með fingrinum eða notið hníf til að ná honum út.

Skerið merginn í sneiðar og steikið í fjórðungi af smjörinu, þangað til hann er farinn að brúnast.

Hellið þá rauðvínssoðinu yfir og látið sjóða í stutta stund. Mergurinn mun bráðna inn í sósuna og gefa frá sér unaðslega kröftugt umami-bragð.

 

 

Bechamél sósa - grunnur að uppstúf

Ekta ítalskt lasagna frá grunni - með ríkulegri bechamél sósu!

 

Fyrir Béchamel-sósuna:

 

1½ l nýmjólk

90 g smjör

90 g hveiti

½ hvítur laukur

3-4 negulnaglar

 

 

 

Bræðið smjör í potti og þegar það hættir að freyða hrærið þið hveitinu saman við (hafið hugfast að þykkingarkraftur smjörbollunnar er mestur í byrjun og minnkar því meira sem bollan er elduð).

 

Hellið mjólkinni varlega út í og hrærið í á meðan. Ekki örvænta – béchamel-sósan er þunn í fyrstu en þegar hún sýður mun hún þykkna. Hrærið í sósunni svo hún brenni ekki við.

 

Lækkið hitann þegar suðan er komin upp og látið malla á lágum hita í tíu mínútur til að elda burt allt hveitibragð af sósunni.

 

Flysjið laukinn og skerið annan helminginn frá. Stingið negulnöglunum í laukinn, leggið í sósuna og látið vera á meðan hveitibragðið er að eldast burt.

 

 

Þó að á þennan lista vanti án efa margar ljúffengar sósur, eins og espagnólsósu og velútesósu (sem eru franskar móðursósur) þá er hérna fjöldinn allur af ljúffengum sósum sem maður ætti að geta notað til að lyfta góðri máltíð ennþá hærra. 


Dásamlegur eftirréttur - Crema Catalana með syndsamlegri karamellusósu

 

Bloggið mitt varð tíu ára nú um helgina. Ég byrjaði þessa vegferð fyrir 3650 dögum síðan. Aldrei hefði mig grunað að áratug síðar væri ég enn að - bloggandi um mat og matargerð. Síðan að ég hóf þessi skrif hef ég skrifað þrjár matreiðslubækur; Tíma til að njóta (2013), Veisluna endalausu (2014) og svo Grillveisluna sem kom út nú í vor. Þá hef ég einnig komið að gerð matreiðsluþátta á Skjá einum, auk þess að hafa birt uppskriftir í flestum íslenskum dagblöðum og nokkrum tímaritum. Þetta hefur verið mér ákaflega gefandi og ég hef lært ótrúlega mikið á þessum árum!

 

Crema catalana -  þetta er eftirrétturinn sem ég bar á borð á dögunum þegar við hjónin buðum vinahjónum okkar í heimsókn. Hægt er að lesa um forréttinn og aðalrétinn í þessari færslu, sjá hérna.

 

Þessi réttur á, eins og nafnið gefur til kynna, uppruna sinn að rekja til Katalóníu á Spáni. Hann er nú vinsæll, ekki bara um allan Spán, heldur um allan heim. Hann er gjarnan borinn á borð á síðasta degi föstunnar.

 

Og þessi réttur er einfaldur - en það þarf að gera hann í nokkrum skrefum - allir ættu að geta gert þennan ljúffenga eftirrétt.

 

Og hann er nógu ljúffengur og fallegur til að bera fram á jólunum.

 

Dásamlegur eftirréttur - Crema Catalana með syndsamlegri karamellusósu

 

Þetta er frábær eftirréttur frá Katalóníu á Spáni. Hann er ekki óskyldur Crème brûlée frá Frakklandi nema hvað Spánverjarnir láta rjómann alveg vera og nota bara venjulega nýmjólk. Niðurstaðan er samt einstaklega seðjandi og bragðgóð, sér í lagi þegar maður kórónar ljúfmetið með heimagerðri karamellu.

 

Þessi eftirréttur krefst þolinmæði. Uppskriftir að Crema Catalana kalla gjarnan á sólarhringsundirbúning ef vel á að takast til. En það er vel hægt að laga þennan eftirrétt á fjórum til sex tímum – fylgið bara þessum leiðbeiningum! Þegar vatnsbað er notað eru eldföstu mótin sett í ofnskúffu og heitu vatni hellt í hana þannig að það nái að minnsta kosti upp að miðju mótanna.

 

Og það er einfaldara en maður heldur að gera karamellu heimavið. Það þarf bara að bræða sykur og blanda rjóma við hann. Og, olé! – dásemdin er tilbúin í pönnunni!

 

Fyrir tólf

 

Fyrir búðinginn

 

1,2 l mjólk

1 vanillustöng

10 egg

50 g sykur

1 tsk vanilludropar

50 g smjör

 

Fyrir karamelluna í botninn

 

300 g sykur

12 msk vatn

 

Fyrir karamellusósuna yfir búðinginn

 

150 g sykur

150 ml rjómi

 

 

 

Raðið 12 soufflé-mótum í ofnskúffu og setjið í 150°C forhitaðan ofn. Setjið sykurinn ásamt vatninu í pott og hitið að suðu.

 

 

 

Hrærið með trésleif þangað til sykurinn er allur uppleystur í vatninu. Hættið að hræra þegar sykurinn er uppleystur og látið sjóða yfir vægum hita þar til hann fer að brúnast en gætið þess að hann brenni ekki.

 

 

Hellið sykursírópinu í heit formin þegar það hefur fengið á sig fallegan, koparkenndan lit og látið kólna við stofuhita. Smyrjið síðan formin með smjöri frá karamellubotninum og upp að brún og raðið þeim í djúpa ofnskúffu.

 

 

Setjið egg, sykur, vanilludropa og fræ úr einni vanillustöng í skál og hrærið vandlega saman. Hitið mjólkina í potti með útskafinni vanillustöng að 60°C, þá er óþægilegt að setja fingurinn í mjólkina en ekki óbærilegt. Hrærið volga mjólkina saman við eggjablönduna. Hellið eggjamjólkinni í mótin. 

 

Bakið í vatnsbaði í 30 mínútur við 150°C.  Takið mótin úr vatnsbaðinu og látið kólna í ísskáp. Til að losa búðinginn úr mótunum er þeim dýft í 10 sekúndur í heitt vatn og svo hvolft í skál. Það gæti þurft að renna hníf með brúnunum til að losa hann alveg.

 

Bræðið sykur á pönnu þar til hann fer að brúnast á jöðrunum. Ýtið því sem bráðið er inn að miðju þegar sykurinn fer að bráðna og haldið því áfram þar til allur sykurinn er uppleystur. Þegar sykurinn er allur uppleystur og farinn að brúnast hellið þið rjómanum saman við og hrærið rösklega.

 

 

Hellið karamellusósunni yfir búðinginn.

 

 

Við bárum að sjálfsögðu fram kaffi og með því með eftirréttinum. Við vorum með Sandemans medium sweet sherry sem passaði vel með þó að eftirrétturinn væri sætur. Þetta er styrkt vín frá Portúgal, fyrirtækið stofnsett 1790 af syni skosks skápasmiðs. Þetta vín er dökkt á lit, með miklu ávaxtabragði og löngu mjúku eftirbragði.

 

 

Njótið – því að þetta er fáránlega ljúffengt!

 

 

 

 

Back to the future: Tvennskonar ostafondú með dásamlegu súrdeigsbrauði, kartföflum og súrum gúrkum

 

Þann níunda desember næstkomandi verða kominn tíu ár frá því að ég byrjaði að blogga. Heil tíu ár! Það er óneitanlega langur tími sama hvernig á það er litið. Og ég gerði mér engan veginn grein fyrir því að þegar ég sló á lyklaborðið í fyrsta skipti á vef moggabloggsins hvaða vegferð ég var að leggja upp í - ekki eina einustu hugmynd. Að það myndi leiða til þess að tíu árum síðar væri ég ennþá að blogga um mat og matargerð. Að ég hefði tekið þátt í að búa til sjónvarpsseríu eða hvað þá að ég hefði skrifað þrjár matreiðslubækur.

 

Ég er eins og flestir vita sem lesa bloggið mitt, læknir fyrst og fremst. Og ég myndi aldrei vilja gera neitt annað. En það er líka gaman að eiga eitthvert annað líf utan vinnunnar. Það eiga margir áhugamál sem eiga hug þeirra allan. Hvort sem það eru fluguhnýtingar, skíðamennska, skák, lestur, hlaup, sjósnd eða fjallgöngur; eitthvert annað áhugamál sem nær að fanga hugann svo maður gleymi amstri hversdagsins.

 

Þannig er eldamennskan fyrir mér. Ég var spurður nýverið í viðtali hvað það væri sem ég kynni best við eldamennskuna. Og svarið er einfalt. Það er í raun að sjá hvernig aðrir bregðast við matnum sem ég er að elda.

 

Ekkert er meira gefandi en að heyra fólk njóta þess sem maður hefur útbúið. Og hvað er betra en að gefa vinum sínum og vandamönnum gott að borða.

 

Ég veit alltént ekkert betra! 

 

Myndirnar hér að ofan eru af dóttur minni Ragnhildi Láru, sem varð fjögurra ára núna í ágúst, skömmu eftir að við fluttum heim til Íslands. Myndin til vinstri og sú sem er í miðjunni notaði ég í fyrstu bækurnar mínar, Tíma til að njóta og svo Veisluna endalausu. Myndin til hægri var tekin fyrir nokkrum dögum síðan. Potturinn er 18 L soðpottur sem hún er hægt og bítandi að vaxa upp úr!

 

Back to the future: Tvennskonar ostafondú með dásamlegu súrdeigsbrauði, kartföflum og súrum gúrkum


Ostafondú voru geysivinsæl fyrir þremur áratugum síðan - jafnvel er lengra síðan - en það þýðir bara að það er löngu tímabært að þau fái endurnýjun lífdaga. Ég meina - ostur er svo góður - og bræddur ostur er bara dásamlega ljúffengur. Og á köldu vetrarkvöldi meikar ostafondú bara sens! 

 

Ég gerði tvennskonar ostafondú. Annars vegar með Stóra Dímon og svo með Gullosti (sem er uppáhalds osturinn minn).

 

Hráefnalisti

 

250 ml hvítvín

1 hvítlauksrif

2 msk hveiti

250 g Ísbúi (eða annar ostur sem bráðnar vel) 

1 gullostur eða stóri dímon

pipar

negull 

hlynsíróp (eða hunang) 

 

Meðlæti

 

dásamlegt súrdeigsbrauð frá Brauð&Co

Soðnar kartöflur

Súrar gúrkur

Sulta (eigið val)

 

 

Það þurfti ekki að biðja hann son minn tvisvar um að hjálpa til í eldhúsinu, en hann er að verða einkar liðtækur! 

 

 

Þeir gera alveg lygilega góð súrdeigsbrauð í þessu bakaríi! Hvet alla til að prófa! 

 

 

Margir segja að íslenskir ostar séu ekki á pari við það sem maður fær erlendis. Ég held að það eigi ekki við rök að styðjast. Alltént ekki þegar maður bragðar Stóra Dímon og Gullost. 

 

 

Stóri Dímon heitir eftir fjalli á Suðurlandi sem er á mörkum Austur Landeyja, Fljótshlíðar og Vestur Eyjafjalla. Þetta er ljúffengur hvít- og blámygluostur.  

 

 

Gullostur er eins og ég sagði að ofan, minn uppáhaldsostur. Hann er bragðgóður og bragðmikill hvítmygluostur. Hann er bestur þegar hann hefur fengið að standa við herbergishita í um klukkustund. 

 

 

Ég notaði Ísbúa sem grunn í sósuna. Fyrirmyndin er sóttt til Danmerkur - Danbo osturinn. Þetta er ostur sem bráðnar auðveldlega. 

 

 

Ég raspaði ostinn niður og blandaði hveitinu vandlega samanvið. 

 

 

Setjið hvítvínið í pott, ásamt mörðu hvítlauksrifi. Hitið að suðu og sjóðið upp áfengið. 

 

 

Blandið svo Ísbúanum samanvið og hrærið þangað til að hann leysist upp. Í annan pottinn setti ég gullostinn.

 

 

Það var eins gert með Stóra Dímon. Hann var skorinn í bita og bætt rólega saman við hvítvínið og Ísbúann. 

 

 

 

Kartöflurnar voru flysjaðar og soðnar í söltuðu vatni. Gúrkurnar voru skolaðar undir köldu vatni.

 

 

Ég veit ekki um ykkur en mér finnst bráðinn ostur vera fallegur. 

 

 

Ljúffengt súrdeigsbrauð og rjúkandi ostur. 

 

 

Kartafla og rjúkandi ostur. Blómkál og brokkál hefði líka sómað sér afar vel. 

 

 

Súr gúrkan kom á óvart. Seltan og feitur osturinn passaði vel saman. 

 

 

Þetta er bara til að kveikja á bragðlaukunum. 

 

Það er bæði skemmtilegt og ljúffengt að prófa ostafondú. Ég hvet ykkur til að prófa. 

 

Bon appetit! 

 

 

 

Dásamleg veisla með gömlum vinum; Rækjukokteill ala mode, Nautakinnar með kartöflupúré og grænkálsmauki

Í gærkvöldi vorum við með gamla og góða vini okkar í heimsókn, Sigrúnu og Freysa og Elvu og Óla. Eftir því sem ég kemst næst buðum við þessu ágæta fólki fyrst í mat 2. mars 2002 - ég fann ljósmyndir af fyrsta matarboðinu fyrir tilviljun um daginn þegar google photos minnti á gamla tíma. Við höfum nú aðeins breyst á síðastliðnum 14 árum - þroskast og breytingarnar svona að mestu til batnaðar! Verður maður ekki annars að segja það? 

 

Allt frá því að við fengum þau fyrst í mat, höfum við skipst reglulega á að bjóða hvert öðru. En þegar að við fluttum út varð þetta hálfbrotakennt svo það er ljúft að taka upp þráðinn að nýju. Ég er farinn að hlakka til að hitta þau aftur.

 

Einhverjir lesendur kannast kannski við uppskriftirnar í þessari færslu en ég studdist við nokkrar uppskriftir úr bókunum mínum - bæði Tími til að njóta (sem kom út 2013) og svo Veislunni endalausu (sem kom út 2014), en auðvitað hafa þær tekið breytingum. Maður lærir alltaf eitthvað nýtt þegar maður er að elda - og vill alltaf breyta og bæta, sérstaklega bæta!

 

Dásamleg veisla með gömlum vinum; Rækjukokteill ala mode, Nautakinnar með kartöflupúré og crema catalana

 

Auðvitað reyndum við hjónin að láta þau finnast eins velkominn og unnt var. Við buðum að sjálfsögðu upp á fordrykk.

 

Gin og tónik er auðvitað klassíker. Þó að kokteilamenningu hafi fleygt fram síðastliðin ár (kannski fyrir tilstuðlan sjónvarpsþáttarins Mad men?) - þá er ég íhaldsmaður þegar það kemur að fordrykkjum og finnst eiginlega ekkert betra en almennilegur gin og tónik.

 

 

Ég er auðvitað að brjóta reglurnar með þessu snubbótta glasi sem sést á myndunum. Það á auðvitað að bera fram þennan drykk í löngu glasi en við erum ekki búin að finna öll glösin okkar eftir flutningana. En hann varð ljúffengur engu að síður. Þetta gin er frá Bombay Distillery og kallast Star of Bombay þar sem búið er að skerpa á bragðinu og bæta við nokkrum bragðtónum við Bombay Sapphire og er alveg einstaklega ljúffengt.

 

 

Þessi rækjukokteill birtist í bókinni minni, Tími til að njóta, en hérna er hann með smá breytingum. 

 

En nýrri rækjukokteill ala mode

 

Fyrir 6 

 

500 g rækjur

1/2 rauðlaukur

2 hvítlauksrif

1-2 cm engifer

1/2 græn papríka

1/2 rauð papríka

1/2 gul papríka

1 avókadó

1/2 rauður chili

1 mangó

handfylli af steinselju/basil 

börkur af einni sítrónu

safi af einni sítrónu

2 msk góð jómfrúarolía

 

200 ml sýrður rjómi

2 msk tælensk-chilisósa

1/2 chili pipar

salt og pipar

 

6 korn tortillakökur

 

Eldamennskan er eins einföld og hugsast getur. Rækjurnar eru settar í skál ásamt smátt skornum rauðlauk, hvítlauk, engifer, papríkum, chili, avókadó, mangó, kryddjurtum. Sítrónan er skafin, gætið þess að skilja hvíta börkinn eftir þar sem hann er bitur á bragðið, og saxið smátt. Kreistið svo safann úr sítrónunni yfir ásamt jómfrúarolíunni. Saltið og piprið. Blandið vel saman og geymið í ísskáp í klukkustund. 

 

Til að búa til sósuna er öllum hráefnum blandað saman. Leggið tortillurnar á kaffibolla og annan stærri ofan á til að þyngja hana. Bakað í ofni í 30 mín. eða þangað til að þær harðna. 

 

 

 

Þetta var svo vel heppnað að mér finnst sjálfsagt að hafa aðra mynd af þessu. 

 

 

 

Með þessum rétt bárum við fram Jacob's Creek Riesling sem er ástralskt hvítvín. Þetta vín er fallega föl gulgrænt í glasi. Í nefi mildur blómakeimur og sítróna sem kemur einnig fram á tungunni. Mildir tónar sem pössuðu vel með þessum forrétt. 

 

Langeldaðar nautakinnar í rauðvíni

 

Hægt er að fá nautakinnar hjá vinum mínum í Kjöthöllinni

 

Fyrir sex til átta

 

2 kg nautakinnar

1 gulur laukur

2 sellerísstangir

3 gulrætur

3 lárviðarlauf

4 hvítlauksrif

1 flaska kröftugt rauðvín

1 l nautasoð

1 dós tómatpúré

3 greinar rósmarín

1 msk timian

ein kanilstöng

50 g smjör

4 msk jómfrúarolía

salt og pipar

 

 

 

Byrjið á því að útbúa mire poix, með því að saxa lauk, sellerí, gulrætur og hvítlauk og steikið í helmingum af smjörinu og olíunni ásamt lárviðarlaufunum þangað til að það er allt mjúkt og glansandi. Saltið og piprið. Setjið til hliðar.

 

 

Skolið og þerrið kjötið, saltið og piprið og brúnið í pottinum, nokkrar kinnar í senn. 

 

 

Þegar allar kinnarnar eru brúnaðar, setjið grænmetið aftur í pottinn og blandið vel saman.

 

 

Hellið svo rauðvíninu saman við og sjóðið upp áfengið áður en þið bætið nautasoðinu við. 

 

 

Bætið kryddjurtunum samanvið ásamt kanilnum. Saltið og piprið. Sjóðið upp sósuna og setjið síðan lokið á pottinn. Setjið pottinn í ofn við 150 gráður í 3-4 klukkustundir. 

 

 

Vilhjálmur var duglegur að hjálpa til í eldhúsinu og sá um að útbúa salatið, ásamt því að leggja á borð og hjálpa mér að taka til eftir matinn. Duglegur ungur maður. 

 

 

Eftir 3 1/2 tíma voru kinnarnar tilbúnar - lungamjúkar og ilmuðu dásamlega. Settar á disk. Allt soðið var síað í pott og fitan síuð frá. Soðið var soðið upp og skvettu af rjóma bætt samanvið. 

 

 

Það þurfti lítið annað að gera við sósuna. 

 

Kartöflumúsin var einföld. Flysjaði og sauð 1,2 kg af kartöflum. Blandaði saman við 200 g af smjöri (yes, 200 g af smjöri) ásamt 150 ml af rjóma. Saltaði og pipraði og maukaði saman í púré með töfrasprota. 

 

Skar niður 200 g af grænkáli sem ég steikti í klípu af smjöri. Setti síðan 1 glas af hvítvíni á pönnuna, sauð upp áfengið, smá sítrónusafa, salt og pipar. 

 

 

Með matnum nutum við þetta ljúffenga vín, Trapiche Gran Medalla Malbec frá 2012. Þetta er argentískt vín frá Mendoza. Dökkkirsuberjarautt í glasi. Þungur ilmur af dökkum berjum, svipuð á tungu en einnig smá súkkulaði og löngu eikuðu eftirbragði. Þrusugott vín sem bætti heilmiklu við matinn. 

 

 

Svo var bara að njóta, spjalla og hlægja í góðra vina hópi. Sum kvöld eru betri en önnur. 

 

Í eftirrétt var svo crema catalana - en það er efni fyrir næstu færslu - svo ljúffengur að ég held að hann gæti orðið jólaeftirrétturinn í ár! 

 

Bon appetit! 

 

 

 


Ljúffengir og langeldaðir lambaskankar með grænkáli, baunum og einföldustu lambasósunni

 

Það hefur talsvert verið um að vera í vinnunni minni á Landspítalanum. Ég fékk nýja stöðu um daginn, þar sem ég var ráðinn sem umsjónarlæknir nýrrar greiningadeildar á sjúkrahúsinu. Markmiðið er að létta á bráðamóttökunni; að greina hratt og örugglega þá sjúklinga sem þurfa að leggjast inn þannig að þeir fái strax rétta greiningu frá því að þeir mæta á bráðamóttökuna og fái örugga meðferð strax í byrjun áður en þeir útskrifast eða þurfa frekari meðferð á öðrum, sérhæfðari deildum. Þetta er spennandi verkefni. Verkefni sem mörg önnur sjúkrahús hafa þurft að glíma við á síðustu árum. Fyrsta verk okkar er einmitt að læra af mistökum annarra, svo að við föllum ekki í sömu gryfjur.

 

Vinur minn, Roger Duckitt, sem rekur sambærilega einingu í Worthing, mun koma á næstu vikum og deila með sér reynslu sinni. Svo er stefnan tekin á Edinborg þar sem er nýstofnuð deild sem við getum líka skoðað og lært af. Ég vona að við getum lært þessum heimsóknum svo við getum sloppið við að hrasa um augsýnilega þröskulda sem í byrjun eru ekki svo augljósir. 

 

Svo er ég líka á fullu að sinna stofunni minni í Ármúlanum. Þar er nóg af verkefnum og af nógu að taka. Það er gaman þegar maður hefur fangið fullt af spennandi verkefnum. 

 

En nóg um það, snúum okkur að eldamennskunni! 

 

Ljúffengir og langeldaðir lambaskankar með grænkáli, baunum og einföldustu lambasósunni 

 

Ég veit eiginlega ekkert betra en að elda um helgar. Fátt eitt veitir manni meiri slökun en að hverfa inn í eldhúsið sitt og prófa sig áfram. Og það er svo auðvelt þegar maður er með gott hráefni. Hvað er meira verðlaunandi en gott lambakjöt? Maður tekur eftir því að sauðfjárbændur hafa verið að ræða í fjölmiðlum um að við neytum ekki nóg af lambakjöti. Kannski er það vegna þess að flestir bitar af lambakjöti þurfa talverða athygli - talsverðan tíma - að við gefum því ekki þann gaum sem það á skilið. Mér hefur alltaf komið það spánskt fyrir sjónir að ekki sé nóg af fljótelduðum bitum á aðgengilegu verði hérna á Íslandi. Hvar er t.d. lambahakkið - það var manni mjög aðgengilegt bæði í Svíþjóð, þar sem við bjuggum í sjö ár, og svo síðasta árið í Englandi. 

 

Hráefnalisti

 

Fyrir 6

 

6 lambaskankar

10 gulrætur

handfylli timjan

handfylli oregano

1 rauðlaukur

3 lárviðarlauf

250 ml rauðvín

75 g smjör

3-4 msk jómfrúarolía

blóðbergssalt og pipar

 

 

Byrjið á því að skræla gulræturnar og sneiða niður í grófa bita. Skellið hluta af jómfrúarólíunni í pottinn, svo gulrótunum, svo rauðlauknum og loks lárviðarlaufinu.

 

 

Setjið svo lambaskankana í pottinn. Saxið niður kryddjurtirnar og dreifið yfir og í kringum lambaskankana.

 

 

Einni til tveimur handfyllum af salti var svo sáldrað yfir. 

 

 

Nóg af salti og svo pipar.

 

 

Setti síðan nokkrar klípur af smjöri á milli lambaskankanna.

 

 

Setjið í ofnin við 180 gráður í tvo og hálfan tíma.

 

 

Það er alveg óhætt að leyfa kjötinu að hvíla í 15-20 mínútur áður en það er borið fram. Takið vökvann til hliðar til að nota í sósuna. 

 

Steikt grænkál og nýrnabaunir 

 

Hráefnalisti

 

5-6 stór grænkálslauf

1 rauðlaukur

1 dós nýrnabaunir

3 hvítlauksrif

30 g smjör

100 ml hvítvín 

salt og pipar

 

 

Saxið hvítlaukinn og rauðlaukinn smátt og skerið grænkálið gróflega niður. 

 

 

Bræðið smjör á pönnu. Bíðið þangað til að það hefur þagnað. 

 

 

Steikið laukinn í nokkrar mínútur þangað til að hann er mjúkur.

 

 

Bætið grænkálinu á pönnuna og steikið í tvær til þrjár mínútur. Veltið því vandlega upp úr lauknum og smjörinu. Bætið hvítvíninu á pönnuna og sjóðið upp áfengið og sjóðið það niður. Skolið baunirnar vandlega upp úr köldu vatninu og bætið þeim á pönnuna og hitið þær í gegn. Saltið og piprið.

 

Lambasoðsósa

 

Hráefnalisti

 

500 ml lambasoð

30 g smjör

30 g hveiti

Vökvi af kjötinu

salt og pipar

klípa af smjöri

 

 

Hér er einföld leið til að útbúa lambasoðsósu. Auðvitað þarf að smakka hana til með salti, pipar, sultu og jafnvel soyasósu.

 

Með matnum drukkum við þennan Spánverja - Campo Veijo Gran Reserva frá því 2009. Þetta er ljúffengt vín sem passar mjög vel með lambakjöti. Þetta vín er fallega rúbínrautt í glasi, ilmurinn er ljúfur - ber og ávextir - smá tannín, smá sýra - góð fylling.

 

 

 

Þetta var sannkölluð veislumáltíð - eitthvað kjörið að hafa í matinn á kjördag! 

 

Ekki gleyma að kjósa - atvæðin skipta máli! 

 

Bon appetit!

 

 


"Oríental" klausturbleikja með snöggsteiktu grænmeti og einfaldri chilisósu

 

Það er óneitanlega gott að vera fluttur heim til Íslands. Þetta ætlaði ég í raun aldrei að gera - skömmu eftir að við fluttum út varð hrunið og öll sú umræða sem fylgdi því. Eftir nokkur ár tókum við þá ákvörðun að flytjast ekki heim aftur. Það var ekki fyrr en í fyrra, þann tíunda október síðastliðinn, að ég skipti um skoðun. Ég flaug til Ísland til að elda í brúðkaupi vinahjóna og um morguninn hafði ég farið og hitt marga vini í sundlaug Vesturbæjar. Í sömu ferð hitti ég mikið af ættingjum mínum og þá þyrmdi það yfir mig að mig langaði til að verða Íslendingur aftur. Mig langaði til að hitta vini mína og vandamenn meira og taka þátt í íslensku samfélagi. Sem betur fer var Snædísin mín sömu skoðunar og því fluttum við heim þann fimmta ágúst síðastliðinn. 

 

Og ég hef ekki séð eftir því í eina mínútu. Það er búið að vera stórgaman að vinna á Landspítalanum þó að sú stofnun sé löngu komin á hnén í því að sinna hlutverki sínu. Spítalinn er fyrir löngu sprunginn (hann var það áður en ég flutti út 2008) og löngu kominn tími til að reisa nýtt sjúkrahús hvar sem það svo verður. Það er líka spennandi að vinna við að byggja upp sitt eigið fyrirtæki í Klíníkinni í Ármúlanum. Það eru því mörg spennandi og skemmtileg verkefni framundan. 

 

Svo elska ég að kaupa fisk á Íslandi - hann er svo dásamlega ferskur. Ég fer alltaf til vina minna í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum og get þar valið úr miklu úrvali af nýveiddum fisk. Högni og Arnar eiga alltaf eitthvað ljúffengt í soðið - eða á pönnuna eins og í þessu tilviki. 

 

"Oríental" klausturbleikja með snöggsteiktu grænmeti og einfaldri chilisósu

 

Þetta er fljótleg máltíð. Var með tvær pönnur í gangi - eina fyrir fiskinn og wok pönnu fyrir grænmetið. Maturinn var tilbúinn á 30 mínútum. 

 

Hráefnalisti 

 

5 bleikjuflök

Smjör/olía til steikingar

1 dl hveiti

1 tsk papríkuduft

1 tsk tandori masala

1 tsk garam masala

1/2 tsk cheyenne pipar

1/2 tsk hvítlauksduft

1/2 tsk túrmerik

1/2 tsk sjávarsalt með þangi

pipar

 

 

 

Þetta er ofureinfaldur réttur. Byrjið á því að blanda öllu kryddinu saman við hveitið og velta fiskinum upp úr hveitinu. 

 

 

 

Ég notaði salt bragðbætt með þangi - ilmurinn er dálítið sérstakur en bragðið hefur mikil "umami" áhrif - bragðaukandi áhrif. 

 

 

Bræðið smjörið/olíuna á pönnu og steikið fiskinn. 

 

 

Roðið verður stökkt og ákaflega ljúffengt.

 

Á sama tíma hugið þið að grænmetinu.

 

Hráefnalisti

 

1/2 kínakálshaus

1 rauð papríka

1 gul papríka

1 stór sveppur 

2 vorlaukar

3 hvítlauksrif

5 cm engifer

1/2 chili pipar

1 gulrót

1 rauðlaukur

2 msk steinselja

1 tsk sambal olaek

1 msk kikkoman soyasósa

1 tsk hunang

 

 

Ég hafði rænu á því að undirbúa grænmetið svo það væri tilbúið á heita pönnuna.

 

 

Grænmetið var allt steikt upp úr heitri olíu. 

 

 

Bragðbætt með sambal og soya. 

 

 

Sælgæti - tók ekki nema nokkrar mínútur að steikja allt grænmetið. 

 

Sósan var líka ofureinföld. 

 

Hráefnalisti

 

2 msk sýrður rjómi

1/2 tsk sambal olaek

1/2 tsk sæt chili sósa

salt og pipar

 

Öllu hrært saman í skál. Easy peasy! 

 

 

 

Það ætti síðan að vera í lagi að lífga upp á þennan mánudag með smá hvítvínstári. Snædís, eiginkona mín, er búin að gefast upp á Chardonnay og því erum við að prófa ólíkar sauvignion blanc tegundir um þessar mundir. Þessi, frá Pata Negra á Spáni, er ljúffengur sopi. Fallega gylltur í glasi, þurr og ávaxtaríkur sopi sem studdi vel við bragðmikinn mánudagsfiskinn. 

 

 

 

Stórkostlega ljúfeng máltíð - lífgaði svo sannarlega upp þetta mánudagskvöld. 

 


Eftirrétta-flatbaka - ljúffeng Bianca með gullosti og íslenskum bláberjum

Ég hóf störf á Landspítalanum strax eftir að við fluttum heim frá Englandi og fyrstu vikurnar stóð ég lyflæknisvaktina, staðsettur á Bráðamóttökunni í Fossvogi, við hliðina á einvala liði starfsfólks sem þar vinnur. Það var ótrúlega skemmtilegt að snúa til starfa aftur eftir átta ára fjarveru og hitta þarna fyrir lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraflutningamenn, móttökuritara og sjúkraliða sem ég kannaðist við frá mínum námsárum sem deildarlæknir á lyflæknissviði LSH á árunum 2005-08. Sá fyrir mér grínþættina, Cheers, þar sem ég gekk inn á vaktina og allsstaðar voru brosandi andlit gamalla samstarfsmanna. Það er eiginlega ótrúlegt að þau skuli hafa þolað að standa þarna vaktina öll þessi ár því að álagið er oftar en ekki ómanneskjulegt. Þarna streymir að veikt fólk úr öllum áttum.

 

Þegar ég yfirgaf Landspítalann haustið 2008 til að fara í framhaldsnám í Lundi í Svíþjóð skrifuðum við nöfn sjúklinga á töflu á vegginn, Í minningunni voru þarna sjaldnast fleiri en 15 sjúklingar í senn. Nú eru nær alltaf meira en 35 og jafnvel 40 þegar á móti blæs. Fráflæðið er líka vandamál þar sem sjúkrahúsið er alltaf yfirfullt af sjúklingum. Og á deildunum er líka vandamál að útskrifa sjúklinga þar sem vistunarúrræði eru afar takmörkuð. Og þó að veggirnir séu að bresta á saumunum stendur þarna fólk vaktina daginn inn og daginn út og heldur þessari stofnun saman. Án þessara starfsmanna væri allt farið í kaldakol. Ef þið þekkið heilbrigðisstarfsmann, þá skulið þið knúsa hann ærlega og þakka honum/henni fyrir - án þeirra væri ekkert heilbrigðiskerfi.

 

Og sem betur fer eru heilbrigðismálin í deiglunni. Ekki veitir af að við setjum okkur almennilega heilbrigðisstefnu. Setjum háleit markmið og náum þeim svo! Stjórnmálamenn og kjósendur verða að gjöra svo vel að spýta í lófana og setja fé í þetta vel verðskuldaða verkefni!

 

Jæja, nóg um það - á morgun er föstudagur!

 

Eftirrétta-flatbaka - ljúffeng Bianca með gullosti og íslenskum bláberjum 

 

Það eru margir með flatböku á föstudagskvöldið. Best er hún heimagerð. Í bókinni minni - Læknirinn í Eldhúsinu, Í Grillveislunni sem kom út núna í vor var ég með nokkrar uppskriftir af flatbökum gerða úr súrdeigi sem er vel þess virði að skoða nánar. Að þessu sinni var ég bara með hefðbundið deig þar sem mér hefur ekki gefist tími til að setja í súrdeig ennþá - en það stendur til!

 

Hráefnalisti

 

700 gr hveiti

300 ml volgt vatn

2 msk jómfrúarolía

25 gr ger

25 gr sykur

2 tsk salt

 

 

 

Aðferðin er einföld. Blandið öllum hráefnum saman og látið hefast í eina til tvær klukkustundir. 

 

 

Skiptið síðan deiginu í nokkrar minni kúlur. Það er líka í góðu lagi að leyfa þeim að hefast aftur í 30-45 mínútur. 

 

 

Næst er að fletja deigið út eins þunnt og hægt er.

 

 

 

Það er um að gera að fá litla gleðipinna til að hjálpa til. Ragnhildur Lára var svo sannarlega til í að leggja til hjálparhönd. 

 

Oft er talað illa um íslenska osta. Ég er ekki sammála þeirri gagnrýni og finnst margir íslenskir ostar vera ljúffengir. Gullostur er þar í sérstöku uppáhaldi hjá mér. 

 

 

Svo þarf bara að pensla flatbökuna ríkulega með heimagerðri hvítlauksolíu. Setja smáræði af rifnum osti ofan á. Einnig þarf að huga að því að börnin borði ekki allan ostinn áður en hann fer á flatbökuna. 

 

 

Svo er bara að setja vænar sneiðar af gullosti ofan á!

 

 

Við gerðum einnig pepperoni flatböku að ósk Vilhjálms Bjarka. 

 

 

Patrekur vildi fá eina bara með skinku. 

 

 

Flatbökur verða alltaf betri með mikilli hvítlauksolíu.

 

 

Snædís vildi eina með nautahakki og ólífum. Auðvitað fékk hún það sem hún vildi. 

 

 

Nýi ofninn minn er algert dúndur þegar kemur að flatböku bökun. Hann er með sérstakri flatböku stillingu sem tryggir blúss- og jafnheitan ofn. 

 

 

 

Og þá fær maður að launum eina svona fegurðadís, skreytta með íslenskum bláberjum sem Vigdís Hrefna vinkona mín gaf mér þegar hún var í heimsókn hjá okkur nýverið. 

 

Með matnum gæddum við okkur á einni svona, Jacobs Creek frá Ástralíu. Þetta er kraftmikið Shiraz vín sem þeir geyma lengur á eikartunnum, enda kallað Reserve fyrir vikið. Þetta er bragðmikið vín, ögn kryddað - smá lakkrís á tungu og ljúft eftirbragð. Mér fannst það sóma sér vel með gullostabökunni minni. 

 

 

Ég hvet ykkur öll til að prófa - enda sælgæti á ferðinni.

 

Bon appetit.


Laugardagsveisla; tveir snöggir forréttir og svo blóðbergsmarinerað lambafile "sousvide" með klassískri sveppasósu og röstikartöflum

Það hefur verið nóg að gera síðastliðnar vikur og það er alltaf gaman. Það hefur verið ferlega spennandi að byrja í nýrri vinnu, bæði á Landspítalanum og að opna nýja stofu í Klíníkinni. Ég er mjög ánægður að bætast í hóp frábærs starfsfólks Landspítalans, auk þess er ég þakklátur kollegum mínum að vísa til mín sjúklingum á stofuna mína í Klíníkinni. Það hefur líka verið nóg að gera hjá Lækninum í Eldhúsinu eins og sjá mátti á síðustu færslu þar sem ég sýndi nokkrar svipmyndir út eldhúsinu mínu sem er svo gott sem tilbúið (alltaf smávegis eftir sem þarf að lagfæra). Það gladdi mig óneitanlega mikið hve margir sýndu þessum framkvæmdum mínum áhuga.

 

En þó að það sé gaman að reisa draumaeldhúsið með öllum tækjum og tólum sem hugurinn girnist þá er það alltaf maturinn sem á að vera í brennidepli. Ég var nýlega með gamla vini í mat og reyndi að gleðja þá í mat og drykk.

 

Laugardagsveisla; tveir snöggir forréttir og svo blóðbergsmarinerað lambafile "sousvide" með klassískri sveppasósu og röstikartöflum 

 

Forréttirnir urðu eiginlega til í hendingu - ég hafði gleymt að hugsa fyrir þeim!

 

Vigdís kom með bláber sem höfðu verið týnd fyrr um daginn og fois gras. Ég náði að nýta gæsalifrina afar vel með því að steikja hana á pönnu í örsnögga stund og steikja síðan brauð upp úr fitunni sem rann af lifrinni í bland við hvítlauksolíu.

 

 

Setti flís af kæfu á nokkrar steiktar hvítlauksbrauðsneiðar og svo nokkur bláber ásamt smáræði af steinselju.

 

 

Ég fann einnig nokkra hörpudiska inn í frysti sem ég afþýddi í köldu vatni. Steikti síðan niðurskorið beikon í smá olíu þangað til að það var stökkt.

 

 

Til að drýgja hörpuskelina var hún skorin í tvennt og svo steikt upp úr beikonfitunni. Raðað saman á disk, einfalt og ljúffengt. Það þrufti ekki að biðja Börk tvisvar um að liðsinna mér í eldhúsinu. 

 

Svo var það lambið. Það vildi þannig til að ég á talsvert að íslensku blóðbergi sem mér áskotnaðist þegar ég fór nýverið í heimsókn í Saltverki. Þeir leystu mig út með talsverðu af blóðbergi til að hjálpa mér með annað verkefni sem ég greini betur frá síðar. 

 

 

Blóðberg er fallegt á litin, með mildan keim og hefur í senn yfirbragð milds svart tes og minnir líka á timian en hefur ekki eins ákveðið og skarpt bragð. 

 

 

Ég nuddaði lambið upp úr jómfrúarolíu og svo þremur til fjórum msk af blóðbergi sem var skipt á milli sex kjötstykkja.

 

 

Þessu var svo pakkað inn í vakúmpoka og sett í vatnsbað sem var 56 gráðu heitt. Kjötið var svo eldað við þennan hita í eina og hálfa klukkustund. 

 

 

Snædís fékk það verkefni að undirbúa röstikartöflurnar. Hægt er að finna uppskriftina af þeim hérna

 

 

Þetta er einföld uppskrift að ljúffengum kartöflurétti. 

 

 

 

Eftir um 90 mínútur var kjötið eldað í gegn og lítið meira að gera við það annað en að brúna það að utan. Það má að sjálfsögðu steikja það á pönnu en ég valdi að brúna það í ofni.

 

 

Sósan var gerð að hætti nafna míns Blöndal - sem er matreiðslumaður sem ég aðstoðaði við tvöfalt sextugsafmæli foreldra minna fyrir sex árum síðan. Sósan er dásamleg og ég hvet alla til að prófa aðferðina hans við að búa hana til. Hægt er að lesa allt um það í þessari færslu.

 

 

Með matnum opnuðum við meðal annars þetta dúndur góða vín sem ég hafði ekki bragðað áður. Eftir að ég fór til Argentínu á læknaþing 2013 hef ég verið heillaður af þessari þrúgu enda leikur hún algert aðalhlutverk í argentínskri víngerð. Þetta vín er frá Trapiche og kallast gran medalla og er frá 2012. Þetta er fallega dökkrautt vín í glasi með miklum djúpum ávexti, jörð og löngu mjúku eftirbragði. Mér fannst þetta vín passa ljómandi vel með lambinu.

 

 

 

 

Lambið þurfti ekki nema 30 sekúndur á hvorri hlið á grillinu - kannski aðeins lengur þegar fituröndin snéri niður. Lambið var lungamjúkt og einkar ljúffengt.

 

Bon appetit!


Svipmyndir úr nýja draumaeldhúsinu mínu!

 

Loksins er eldhúsið okkar tilbúið. Hugmyndin að þessu eldhúsi kviknaði eiginlega strax og ég sá þetta hús á netinu. Inga Dóra, mágkona mín, benti okkur á þetta hús á netinu fljótlega eftir að við ákváðum að flytja heim til Íslands. Við keyptum það af Pétri og Kolbrúnu sem byggðu þetta hús snemma á áttunda áratugnum. Þau höfðu augljóslega lagt alúð í þetta hús enda er svo sannarlega vandað til verka í hvívetna. Guðný Arna, innanhúsarkitekt sem er búsett í Lundi, hjálpaði mér að raða hugmyndum mínum upp í teikningu.

 

Við fengum afhent í júníbyrjun. Byrjað var á því að hreinsa allt út. Upprunalega ætluðum við þó að halda eftir hlut af gömlu innréttingunni en ákváðum síðan að myndi kannski koma eitthvað einkennilega út - þannig út fór hún!

 

Við byrjuðum að hamast fljótlega eftir að við fengum húsið afhent. Og þegar ég segi við þá meina ég Inga Dóra, svilkona mín, sem er ofsi til allra verka. Hún hefur verið verkstýran í þessu verki og séð til þess að það hafi farið vel. Hún er ekki bara nákvæm, heldur líka laghent og svo harðdugleg með eindæmum. Ekkert verk virðist vera henni ofviða!

 

Kolbrún Eva, mágkona mín, var einnig innsti kopur í búri. Og svo faðir minn, Ingvar - sem nennir öllu - öllu. Hann virðist ekki una sér nema að hann sé í eílífum verkefnum! 

 

 

 

Hérna er svo mynd af okkur Ingu Dóru, í einum af mörgum veislum sem ég ætla að halda til heiðurs henni! 

 

 

Inga Dóra tók einnig í gegn gólfið - reif upp parketið sem var fyrir og flísalagði. Settum jafnframt hita í gólfið. 

 

 

Við fluttum síðan heim til Íslands snemma í vor. Og þá var hafist handa við að koma innréttingunni upp. Kolbrún Eva, mágkona mín, hafði þó sett bróðurpartinn af innréttingunni saman. 

 

 

Sverrir Jan, æskuvinur minn (frá fimm ára aldri) og verkfræðingur með meiru, var mér einnig innan handar við að klambra innréttingunni upp.

 

 

Og ótrúlegt en satt þá hefur mér fundist þetta föndur ótrúlega skemmtilegt.

 

 

Ég keypti borðplöturnar frá Fanntófelli. Sigurður og Krissa sem eiga fyrirtækið voru mér einnig innanhandar. Ég hafði verið svo vitlaus að senda þeim röng mál og þau voru ekki lengi að lagfæra mistök mín! 

 

Ég keypti gegnheilar eikarplötur, 32mm þykkar. Eyjan er fjórir metrar að lengd - Sigurður færði mér þó þær sorgarfréttir að þetta var ekki lengsta eyjan á Íslandi. Bæti það bara upp með stemmingunni.

 

Það er líka skemmtilegt að segja frá því að Fanntófell gerði innréttingarnar í móttökunni í Klíníkinni í Ármúla þar sem ég er með læknastofu ásamt góðu gengi kollega, en þær eru sérstaklega vandaðar og fallegar. 

 

 

Ég bað einnig Sigurð að sníða handa mér hillur í eitt hornið í eldhúsinu. 

 

 

Hann smíðaði einnig hillur fyrir matreiðslubókasafnið mitt sem telur tæplega fjögurhundruð bækur eins og sakir standa.

 

 

 

 

 

 

Ljósakrónuna í eldhúsinu hannaði ég sjálfur út frá hugmynd sem ég hafði þróað í Lundi. Þar eru gamalsdagar ljósaperur utan um kopargrind þar sem ég hengdi upp alla koparpottana sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina. 

 

 

Skurðarbrettið færði svo Sigurður og Krissa mér að gjöf - hann getur skorið út skemmtileg mynstur (blóðröndina) í þykkan viðinn. - Ísland á nú við, þegar við erum loksins flutt heim. 

 

'

 

Fleiri svipmyndir af eyjunni! 

 

 

Ég er með þrjá ofna í eldhúsinu. Ég tók Drottninguna með frá Svíþjóð, sem er sex hellugas eldavél frá SMEG en ofninn á henni er eiginlega ekki nógu góður nema en til þess að grilla kjúkling á teini. Ég fékk mér því tvo ofna frá Bosch - annar þeirra er fullkominn gufuofn sem hægt er að hlaða með vatni og spýta gufu yfir matinn, frábært þegar verið er að baka brauð, eða hreinlega til þess að gufusjóða grænmeti. Svo er ég líka með annan aðeins minni sem er blanda af ofni og örbylgju (maður verður nú að geta poppað :) ). 

 

Það er ótrúlega hentugt að vera með tvo fullkomnaofna. 

 

 

Hérna sést svo ljósakrónan mín aðeins betur.

 

 

Ég fékk mér einnig spanhelluborð frá Bosch. Gasmaður eins og ég er eiginlega tregur við að viðurkenna en þegar kemur að hraða þá er spanið eiginlega hraðara heldur en gasið. Þetta helluborð hefur þann kost að það er hægt að virkja allan flötinn þannig að hann verður allur heitur. Þá er hægt að brúna kjötið að utan áður en ofnskúffunni er slengt inn í ofninn til að klára eldunina. 

 

 

Ég fékk kunningja minn til að setja þessa tengla í borðplötuna hjá mér, en þeim er hægt að loka. Það er ekki sjaldan að maður er með fjöldann allann af tækjum, tólum og tölvum á borðinu sem þurfa rafmagn. 

 

 

Ég tók öll tækin frá Bosch en þau hafa fengið lof útum allan heim. Ég er með ísskáp, frysti, uppþvottavél, helluborð, háf og tvo ofna - allt frá sama merkinu. Ég fékk alveg nóg af Electrolux í Svíþjóð sem var alltaf að bila.

 

 

Flísarnar tók ég með mér frá Svíþjóð þegar við fluttum. Þetta er franskar dekor flísar sem Inga Dóra sá um að leggja fyrir okkur. Síðustu tuttugu árin hef ég eignast ógrynni af góðum hnífum sem þarf að ganga vel um. Best fer um þá á seglum.

 

 

Stóru hnífarnir fengu sinn heiðurssess í eldhúsinu. Uppáhaldið mitt er neðst fyrir miðju - Kai Shun Ken Onion 10 tommu kokkahnífur. Hægt er að kaupa Kai Shun hnífa í Prógastró í Ögurhvarfi.

 

 

Eftir að hafa farið í gegnum tvær Rancilio Silva vélar á síðasta áratug - ákvað ég einnig að fá mér kaffivél  - Siemens Series 700 eq 6 - svona fyrst að maður var á annað borð að þessu (hún er á tilboði út mánuðinn). Og ekki sé ég eftir því - hún getur gert vel flesta kaffidrykki sem hugurinn gæti girnst og gerir það með glæsibrag.

 

Ég er allaveganna byrjaður að elda - elda eins og engin væri morgundagurinn.

 

Enda væsir ekki um mig - Bon appetit!

 

Hlakka til að sýna ykkur afraksturinn.


Afmæli Snædísar: Djúpsteiktur humar með chili-sýrðrjómasósu og svo humar- og lúðusúpa með fjölbreyttu hvítlauksbrauði

 

Eiginkona mín, Snædís Eva varð 39 ára á dögunum. Sumir myndu segja að maður ætti aldrei að greina frá aldri kvenna - en þegar maður ber aldurinn svona vel og fríkkar bara með árunum skiptir það í raun bara engu máli.

 

Og ég stend í óendanlegri þakkarskuld við þessa konu. Ekki bara hefur hún þolað mig í öll þess ár - þá hefur líka gert mig að betri manni. Búið mér líf þar sem ég hef fengið að njóta mín og hennar. Gefið mér gleði, tilgang og svo öll þess frábæru börn; Valdísi Eik, Vilhjálm Bjarka og Ragnhildi Láru.

 

Það er skrítið að hafa verið ástfanginn í svona mörg ár. Auðvitað er maður ekki ástfanginn alla daga, stundum elskar maður, stundum þykir manni bara vænt um konuna sína, stundum er maður bara vinur, svo aftur verður maður ástfanginn - svo óvænt aftur,  svo heitt og innilega. Það er erfitt að hugsa lífið án þess að vakna eða sofna við hliðina á þessari manneskju - ástinni minni, Snædísi Evu.

 

 

Við áttum líka brúðkaupsafmæli á dögunum. Þann 11. september 1999 gengum við upp að altari á fallegum septembereftirmiðdegi í Garðakirkju á Álftanesi og giftum okkur fyrir framan vini og vandamenn. Það var virkilega góður dagur, sól, en blés eilítið - bara svona eins og lífið hefur verið.

 

Daginn eftir á Snædísin mín svo afmæli. Og eins og þetta var skemmtilegt þá hefur afmælisdagurinn hennar oft horfið í skuggann á því að við áttum brúðkaupsafmæli daginn áður. Í fyrra stakk ég því upp á að við myndum gifta okkur aftur - einhvern tíma að vori, rétt áður en sumarið lætur á sér kræla. Ég held því að ég biðji hana því að giftast mér aftur - þannig að við náum bæði að njóta brúðkaupsafmælisins fyrir okkur og svo hún afmælisins.

 

Snædís - viltu gifast mér, ...aftur?

 

Afmæli Snædísar: Djúpsteiktur humar með chili-sýrðrjómasósu og svo humar- og lúðusúpa með fjölbreyttu hvítlauksbrauði

 

Þetta er alltént maturinn sem var eldaður í tilefni afmælisins - á ekki að vera fiskur á mánudögum?

 

Vinum mínum í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum fannst það alla veganna, en þeir eru með besta fiskinn í borginni.

 

Hráefnalisti

 

1,5 kg humar (skelbrot)

500 g stórlúða

2 stórar gulrætur

1 gulur laukur

2 sellerísstangir

6 hvítlauksrif

1 dós tómatmauk

500 ml hvítvín

3 l vatn

humarkraftur eftir smekk

worchestershire sósa

600 ml rjómi

1/2 tsk cheyenne pipar

2 handfylli steinselja

safi úr heilli sítrónu

1 púrrlaukur

smjör og olía

salt bragðbætt með þangi

salt og pipar

 

 

 

 

Kolbrún, systir Snædísar, sá um að taka humarinn úr skelinni. Vel gert, Kolbrún - þú ert þá kokkur eftir allt! 

 

 

Skera niður lauk, sellerí, gulrætur, hvítlauk í smjöri og olíu. Handfylli af steinselju, skelbrot og tómatmauk.

 

 

Setja tónlist á fóninn. Muna að fela snúrurnar fyrir næstu myndatöku.

 

 

Hella hvítvíni yfir skelbrotin, sjóða upp áfengið, hella vatni yfir og sjóða í 45 mínútur, sjóða niður um 1/3.

 

 

Skera lúðina í bita. Marinera í olíu og sítrónusafa. Pipar ef vill.

 

 

Sía soðið í öðrum potti, bæta við rjóma. Sjóða niður um annan þriðjung. Salta, pipra, bæta við krafti, víni, worchestirshire sósu. Ein púrra sneidd þunnt niður og bætt saman við. 

 

 

Bragðbæta ennþá meira. Nú með sjávarsalti bragðbættu með þangi. Umami kick!

 

 

Næst  er að útbúa hvítlauksbrauðið. Að þessu sinni bara bagettur úr búð, skornar niður 2/3 í gegn, smurðar með hvítlaukssmjöri og svo ostum raðað í sárin; camenbert, cheddar og piparosti (sem fær mikið diss en er ljúffengur).

 

Djúpsteiktur humar með chili-sýrðrjómasósu

 

500 g humar

3 egg

handfylli hveiti

handfylli brauðmylsna

hvítlauksduft

salt og pipar

 

Sósan

 

1 dós sýrður rjómi

1/2 tsk sambal oelek

1 tsk tómatsósa

safi úr hálfri sítrónu

salt og pipar

 

 

Setti þrjá lítra af olíu í pottinn og hitaði í 160 gráður. Velti humrinum upp úr bragðbættu hveiti, síðan eggjablöndu og loks mylsnunni. Hitastýringin á þessari Bosch plötu er frábær! 

 

 

Svo er bara djúpsteikt - ég elska að djúpsteikja góðan mat! Allt verður betra þegar það er djúpsteikt!!!

 

 

Djúpsteiku humarhölunum var síðan bara dýpt í sósuna (öllu hrært saman) og borðað með fingrunum í forrétt. Sælgæti!

 

 

Hvítlauksbrauðin voru bökuð í 20 mínútur við 180 gráðu hita.

 

 

 Nokkrum humarhölum var raðað á disk. Smá steinselja sett yfir. Lúðan var sett saman við súpuna tveimur til þremur mínútum áður en hún var borin fram. Súpan fékk að krauma vel áður en henni var hellt yfir humarinn sem eldaðist af hitanum af súpunni. 

 

 

Með matnum drukkum við Montes Sauvignion Blanc Reserva frá því 2015. Þetta er vín frá Valle de Curivo í Chile. Þetta er virkilega góður sopi fyrir tunguna sem og budduna. Frísklegt vín, fölgult, létt á tunguna með ríkum ávexti, smá beiskju og ljúfu eftirbragði.

 

 

Ríkleg súpa með djúpu bragði og ferskum sjávarréttum.

 

Alger veisla.

 

Til hamingju með daginn, Snædís Eva.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband