Heimagert plómuchutney úr villtum mirabelle plómum og portúgalskt pisteou - góð kvöldstund í eldhúsinu!

hjola_i_sveitinni.jpgSkánn er fallegur um þessar mundir. Það er að koma haust í Suður Svíþjóð. Næturnar eru farnar að verða kaldari og morgnarnir svalari en samt minnir eftirmiðdagurinn ennþá á sumarið! Heitt og hlýtt. Svona dagar eru frábærir til þess að bregða sér út og njóta þess síðasta af sumrinu. Þennan sunnudag gerðum við einmitt það. Við brugðum okkur í hjólreiðartúr út í sveit. Það hljómar eins og þetta hafi verið langur túr, að hjóla úr í sveit, en það var það ekki, hverfið okkar liggur á jaðri Lundar og enginn bara spöl í burtu. Dásamlegt.

Annars hef ég verið latur að elda nýja rétti og hvað þá að blogga upp á síðkastið. Kenni því um að þurfa að vakna rúmri klukkustund fyrr á morgnanna án þess að vera nógu skarpur að fara klukkustund fyrr að sofa. Þetta bætir því á bara á þreytureikninginn. Þegar maður er þreyttur þá verður maður eitthvað svo ónenninn að gera eitthvað sniðugt og þá endurtekur maður bara gamla takta. Núna er maður að ná jafnvægi aftur og hlýtur innblásturinn að koma að nýju.

Kjartan bróðir hafði komið frá Kaupmannahöfn helgina áður og við vorum búnir að leggja á ráðin með þessa uppskrift daganna á undan. Við höfðum helgina áður reynt að gera sultu úr þessum sömu plómum enn það gekk erfiðlega að fá hana til þess að þykkna, þrátt fyrir góð ráð úr Matarást Nönnu og bók Helgu Sigurðar. Alltént varð plómusaft lokahráefnið í þeirri tilrauninni. Sem var alveg prýðisgóður svona sem bland útí sódavatn. 

mirabelle_plomur.jpgHeimagert plómuchutney úr villtum mirabelle plómum og portúgalskt pisteou - góð kvöldstund í eldhúsinu!

Við fundum þessar plómur - mirabelle - við lestarteinana útí við Vallåkra eftir næstum 40 mínútna hjólatúr. Allir hjálpuðust að að týna, meira að segja Vilhjálmur sonur minn var spenntur yfir þessu. Maður rekst á ýmislegt á þessum hjólatúrum, jafnvel brómberjarunna, eplatré eru hérna útum allt og eftir einum stígnum í nærlægu hverfi eru að minnsta kosti tuttugu perutré - gráperur að ég held. Þær voru ekki alveg tilbúnar til átu. Eiga nokkrar vikur í að verða tilbúnar. 

framlei_sla_a_fullu.jpgKjartan fann uppskrift á netinu til að hjálpa okkur með að reikna út hlutföllin. Annars settum við sennilega aðeins of mikið af rauðvínsediki - ég tek það á mig - hefði mátt vera aðeins sparsamari á það. Fyrst var að kjarnhreinsa 2 kíló af rauðum mirabelle plómum. Leggja til hliðar. Svo var að skera tvo rauðlauka, nokkur hvítlauksrif, ein teskeið af muldu kóríander og svo tsk af kanil. Byrjaði á að steikja laukinn, hvítlaukinn í nokkrar mínútur þar til að hann er mjúkur og glansandi. Þá var að bæta kryddunum útí og auðvitað nóg af salti og pipar. Þá settum við tæplega hálft kíló af hvítum sykri, 200 ml af rauðvínediki og 150 ml af eplaediki. Þá var plómunum skellt útí og þetta fékk að sjóða þangað til að þetta varð að þykkri og bragðgóðri blöndu (næst helmingi minna edik). Lyktin í húsinu þetta kvöld var alveg mögnuð. 

Þegar þetta var búið að sjóða í rúma klukkustund var þetta fært yfir í vel þvegnar og dauðhreinsaðar krukkur, lokað og geymt í ísskáp. Erum þegar búinn að borða þetta með einni indverskri máltíð sem brósi eldaði svo í vikunni á eftir við góðaundirtektir - nema fyrir utan smávægilegar athugasemdir um edikið - réttmætar. 

kanil_laukur_hvitlaukur.jpg

Pisteou er lítið annað en pestó nema hvað að það var engum hnetum bætt saman við. Klassískt pestó á ítalska vísu er gert út fersku basil, hvítlauk, salt, pipar, parmesanosti, ristuðum furuhnetum og góðri jómfrúarolíu. Úr verður klassískt pestó sem allir þekkja. Það er um að gera að breyta frá venjunni og prófa eitthvað nýtt. Breyta út basil í kóríander eða steinselju, hví ekki hundasúrur. Skipta furuhnetum út fyrir möndlur eða cashewhnetur, hvítlauknum fyrir skarlottulauk. Með gott hráefni verður allt gott. 

Ástæðan fyrir því að við gerðum pestó án hneta í þetta sinn var til þess að undirbúa fyrir súpugerð sem átti að eiga sér stað í vikunni á eftir en planið var að gera fræga portúgalska súpu; soppa pisteou sem er í raun klassískt minestrone súpa en í lokin er þessu pisteu bætt í ríkulegu magni saman við og þá fær maður fallega græna súpu sem maður ber fram með grófu brauði. Læt uppskriftina af henni fylgja síðar. Aftur að pisteou-uinu (!); 2-3 basilplöntur, 2 hvítlauksrif, salt, pipar, handfylli af grana padano osti sett í matvinnsluvél, þetta var of mikið magn fyrir mortelið, og blandað saman. Góðri jómfrúarolíu er bætt saman við þangað til að réttri þykkt og áferð hefur verið náð. Erfitt að slá á nákvæmlega á rétt magn - kannski 150-200 millilítrar. Sett í góða krukku og geymt til betri tíma.

pisteou.jpg

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ágæt sósa með hrefnukjöti er einmitt að sjóða chutney úr lauk, sveskjum og rauðum pipar. (soðið í kjötsoði) Sósan er síðan gerð með að setja slettu af þessu í kassarollu og bæta út í rjóma, vatni og maisena. Gefur gott (brennt, beiskt) bragð, sem hentar hvalkjöti mjög vel.

Jón Steinar Ragnarsson, 17.9.2009 kl. 20:50

2 identicon

Sæll og blessaður.

Það er unun að lesa uppskriftirnar þínar! Þakka þér fyrir áhuga þinn á matargerð! Það gleður  og uppörvar okkur hin!

Kv. Ásdis

Ásdís Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 18.9.2009 kl. 12:19

3 identicon

Góð frásögn en ég hnaut um " ....jafnvel brómberjarunna....".

 Það ruglar okkur Íslendinga að brómber eru rándýr í íslenskum sælkerabúðum.  Þau vaxa villt í vegköntum um alla Evrópu eins og hver annar arfi og þykja ekki sérlega fín td í Bretlandi, þó þau séu étin.  

Helgi Briem (IP-tala skráð) 18.9.2009 kl. 13:41

4 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

alltaf gaman að skoða hjá þér

Hólmdís Hjartardóttir, 18.9.2009 kl. 18:24

5 identicon

Sæll. Ég hef stundum dottið inn á síðuna þína og jafnvel prófað nokkrar uppskriftir frá þér sem hafa allar reynst vel. Núna fékk ég 2 kg. af plómum gefins og Googlaði og datt inná þína síðu, eina ferðina enn. Búin að prófa þetta plómuchutney en það  vill ekki þykkna. Ég fór alveg eftri uppskriftinni og setti helmingi minna edik en uppskriftin segir en samt er þetta meira eins og saft. Veistu nokkuð hvað er til ráða, kannski að setja maizena í það til að þykkja, jafnóðum og ég nota það?

Kveðja frá Luxemborg

Magga (IP-tala skráð) 26.9.2009 kl. 10:34

6 Smámynd: Ragnar Freyr Ingvarsson

Sæl Magga

Ég myndi ekki nota Maizene mjöl þar sem það þarf eldun til að þykkna og ég veit ekki hvort að það myndi passa í chutney. 

Mitt var þunnt í byrjun en þykknaði í ísskápnum eftir smá geymslu. 

Þú gætir reynt að kaupa pektín eða gelatín og bæta því saman við. Það fæst í nær flestum verslunum og er mikið notað í sultugerð. 

Gangi þér vel. 

Ragnar Freyr Ingvarsson, 27.9.2009 kl. 19:43

7 identicon

Ég var heldur óþolinmóð, skrifaði þér í miðju kafi í sultugerðinni, þetta þykknaði þegar það kólnaði í ísskápnum.

Bestu þakkir,

Magga.

Magga (IP-tala skráð) 8.10.2009 kl. 10:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband