Stórkostlegur bakaður sjávarréttapastaréttur - Gestakokkur á blogginu mínu

Ég hef oft áður greint frá því hverslags gæðakokkar foreldrar mínir eru. Ég held að ég hafi sagt nokkrum sinnum frá því að þau eru fyrirmyndir mínar í matargerð - algerir matgæðingar. Þessi uppskrift sem á eftir kemur skýrir í raun hvers vegna svo er. Móðir mín bauð í mat á miðvikudagskvöldið síðastliðið og eldaði alveg ljúffengt sjávarréttapasta. Það var eiginlega alveg frábært. Svo gott að ég skoraði á hana að skrifa uppskriftina upp og leyfa mér að setja hana á bloggið. Hún var svo sannarlega til. Mamma hefur áður verið gestakokkur á síðunni en þá sagði hún netverjum frá óborganlegum kjúklingarétt með sérstakri sósu - hana er að finna á netinu.

Þessi réttur er fengin úr ansi góðri matreiðsubók sem heitir The complete Italian cooking encyclopedia. Þetta er bók sem mér þykir alltaf mjög vænt um. Það er auðvelt að elda úr henni og það er gaman að skoða hana. Hvert skref matreiðslunnar er sýnt þannig að það er auðvelt að ná góðum árangri. Þetta var ein af fyrstu matreiðslubókum sem ég eignaðist. Vinir okkar hjóna, Rakel og Magnús (alltaf kallaður Zúnki), gáfu okkur þessa bók fyrir að vera níu árum síðan. Rakel og Zúnki eru mikið ævintýrafólk, um tíma áttu þau heima á Norður Ítalíu, rétt fyrir utan lítin bæ Nizza Monferato, rétt hjá Asti, sem er í Piemonte héraði. Þetta er mikið vínræktarhérað og var sérstaklega gaman að heimsækja þau, en við fórum til þeirra tvisvar sinnum. Þau eru núna flutt heim og Zúnki starfar sem einn af aðal vínráðgjöfunum í ÁTVR - hef aldrei fengið annað en góð vín hjá honum.

Ég hef einu sinni gert tilraun til að elda þennan rétt. Það er ansi langt síðan og það verður að segjast að hann heppnaðist talsvert betur hjá móður minni. Ég var með of mikið af heimagerðri tómatsósu og eiginlega of lítið af sjávarfangi á móti. Mömmu tókst að finna heppilega millileið í þessum málum og úr varð alveg meiriháttar matur. Eina sem ég saknaði úr hennar rétt var að hún sleppti því að nota krækling í skel eins og hefðin er, en hún var með nóg af öðru í staðinn. Eina sem kræklingurinn hefði bætt við væri að skapa fallegar litaandstæður í réttinum. En henni finnst kræklingar ekki bragðgóðir og því setti hún önnur hráefni í staðinn - ekkert að því.  Hvet fólk eindregið til að reyna þennan rétt.

Núna tekur svo mamma við - mamma, take it away;

Bakað sjávarréttapasta í pökkum með óvenjulegu salati Sjávarréttapastapakkar

Ég fann eftirfarandi uppskrift í biblíu þeirra sem elska ítalska matargerð (The Italian Cooking Encyclopedia, 1997, bls.232 og 438). Ég fór náttúrlega ekki alveg eftir uppskriftinni, bæði vegna þess að ég geri það yfirhöfuð ekki og hins vegar vegna þess að mig langaði ekki í allt sem þar átti að vera. Hér er þá uppskriftin nokkurn veginn eins og hún varð í minni útgáfu.

 Fyrst bjó ég til þessa tómatsósu:

Einn meðalstór laukur smátt niðurskorinn

2-4 hvítlauksrif, gróflega söxuð

Þetta látið steikjast í ólífuolíu í 5-6 mín, má taka smá lit (gefur auka bragð).

Ein dós af maukuðum niðursoðnum tómötum og nokkrum gróft söxuðum basilblöðum blandað saman við, kryddað með nýmöluðum svörtum pipar og góðu salti.

Sósan látin malla í 20 – 30 mínútur, síðan sett í blandara og maukuð.

 Meðan sósan mallaði tók ég sjávarréttina til.

Ég ákvað að nota rækjur, risahörpuskel og svo kallaðan súpuhumar, en þetta átti ég allt til í frystinum. Rétturinn átti að vera fyrir fjóra þannig að ætli ég hafi ekki notað

ca 300 gr. rækjur

8 stk. risahörpuskeljar

ca 12 humarhala

Auðvitað má hafa meira eða minna af þessu hráefni.

 

Ég snöggsteikti þrjú pressuð hvítlauksrif í heitri olíu, henti hörpuskeljunum út á pönnuna, steikti í ca 2 mín og tók þær frá. Steikti svo hreinsaða humarhalana á sömu pönnu, einnig í ca 2 mín og tók þá frá. Þá hitaði ég olíuna betur, steikti humarskeljarnar í vel heitri olíunni, kryddaði með nýmöluðum svörtum pipar, góðu salti, klippti um fjórar greinar af steinselju yfir - og bætti svo ca 2 dl af vatni út í. Lét þetta sjóða aðeins niður. Úr þessu varð til úrvalssoð.

 

Á meðan soðið mallaði sauð ég spaghetti fyrir fjóra þar til al dente.

 

Nú var tómatsósan tilbúin og blandaði ég fyrrnefndu soði vandlega saman við hana. Rækjurnar voru settar út í tómatsósuna, ásamt risahörpuskeljunum og humrinum og blandað varlega saman. Saltað og piprað eftir smekk. Hæfilegt magn af spaghettíi var svo látið saman við allt þetta, - maður þarf eiginlega að leyfa auganu að ráða magninu!

 

Þá er komið að því að búa til pakkana. Smjörpappír er settur í fjórar skálar (þetta er gert til að varðveita vökvann í réttinum á meðan pakkinn er útbúinn), ein örk í hverja, og réttinum skipt í fjóra jafna hluta. Pakkanum er lokað með því að rúlla jöðrunum upp, og snúið upp á endana sitt hvoru megin. Pakkarnir teknir úr skálunum, settir í eldfast fat og bakað við 175 gráður í ofni í 8 – 10 mín. Reyndar urðu til fimm skammtar hjá mér sem kom sér vel fyrir þá sem vildu ábót. JEinn óopnaður pakki er svo settur á hvern disk. Gott er að rífa parmesan-ost yfir heitan réttinn.

 Óvenjulega salatið

12 hvítlausrif (ekki flysjuð) eru böðuð ólívuolíu og bökuð í 190 gráðu heitum ofni í ca 15 mín eða þar til þau eru farin að dökkna á brúnunum.

Volg hvítlauksrifin eru sett í skál, ásamt um 400 gr af hreinsuðu spínati og um 50 gr af ristuðum furuhnetum. Blanda saman. Kreista hálfa sítrónu yfir, ásamt skvettu af ólífuolíu og salta. Mala svartan pipar yfir og blanda vel saman. Um að gera að leyfa matargestum sjálfum að kreista mjúkan hvítlaukinn yfir salatið. (Næst ætla ég að bæta tómötum í salatið, þá verður það fallegra J).

 

Með þessu var einnig borið fram hvítlauksbrauð sem er útbúið þannig að heitar, ristaðar brauðsneiðar eru raspaðar snögglega með hvítlauksrifi, smurðar strax með smjöri og skornar á ská. (Einnig má nota ólífuolíu, en mér finnst betra að nota smjör).

 

Verði ykkur að góðu!

bakað sjávarréttapasta


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Guð minn almáttugur hvað þetta er örugglega gott. Ég VERÐ að prófa þetta.

Hvað þýðir "al dente" nákvæmlega ?

Er það "tilbúið" eða "næstum tilbúið" ?

Danni (IP-tala skráð) 14.8.2007 kl. 22:20

2 identicon

Halló!

Þetta er algjörlega minn smekkur, verður fljótlega í matinn.

EN..afhverju er betra/nauðsynlegt að baka þetta saman í 8-10 mín? má ekki skella sósunni yfir spaghetti-ið þegar hvort tveggja er tilbúið?

Takk fyrir þetta.

Guðrún (IP-tala skráð) 12.9.2007 kl. 13:03

3 Smámynd: Ragnar Freyr Ingvarsson

Bökunin skerpir aðeins á áferðinni. Einnig ef maður er að nota sjávarfang sem maður hefur ekki þegar eldað eins og krækling og svoleiðis.

Ragnar Freyr Ingvarsson, 12.9.2007 kl. 14:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband