Afmæli Snædísar: Djúpsteiktur humar með chili-sýrðrjómasósu og svo humar- og lúðusúpa með fjölbreyttu hvítlauksbrauði

 

Eiginkona mín, Snædís Eva varð 39 ára á dögunum. Sumir myndu segja að maður ætti aldrei að greina frá aldri kvenna - en þegar maður ber aldurinn svona vel og fríkkar bara með árunum skiptir það í raun bara engu máli.

 

Og ég stend í óendanlegri þakkarskuld við þessa konu. Ekki bara hefur hún þolað mig í öll þess ár - þá hefur líka gert mig að betri manni. Búið mér líf þar sem ég hef fengið að njóta mín og hennar. Gefið mér gleði, tilgang og svo öll þess frábæru börn; Valdísi Eik, Vilhjálm Bjarka og Ragnhildi Láru.

 

Það er skrítið að hafa verið ástfanginn í svona mörg ár. Auðvitað er maður ekki ástfanginn alla daga, stundum elskar maður, stundum þykir manni bara vænt um konuna sína, stundum er maður bara vinur, svo aftur verður maður ástfanginn - svo óvænt aftur,  svo heitt og innilega. Það er erfitt að hugsa lífið án þess að vakna eða sofna við hliðina á þessari manneskju - ástinni minni, Snædísi Evu.

 

 

Við áttum líka brúðkaupsafmæli á dögunum. Þann 11. september 1999 gengum við upp að altari á fallegum septembereftirmiðdegi í Garðakirkju á Álftanesi og giftum okkur fyrir framan vini og vandamenn. Það var virkilega góður dagur, sól, en blés eilítið - bara svona eins og lífið hefur verið.

 

Daginn eftir á Snædísin mín svo afmæli. Og eins og þetta var skemmtilegt þá hefur afmælisdagurinn hennar oft horfið í skuggann á því að við áttum brúðkaupsafmæli daginn áður. Í fyrra stakk ég því upp á að við myndum gifta okkur aftur - einhvern tíma að vori, rétt áður en sumarið lætur á sér kræla. Ég held því að ég biðji hana því að giftast mér aftur - þannig að við náum bæði að njóta brúðkaupsafmælisins fyrir okkur og svo hún afmælisins.

 

Snædís - viltu gifast mér, ...aftur?

 

Afmæli Snædísar: Djúpsteiktur humar með chili-sýrðrjómasósu og svo humar- og lúðusúpa með fjölbreyttu hvítlauksbrauði

 

Þetta er alltént maturinn sem var eldaður í tilefni afmælisins - á ekki að vera fiskur á mánudögum?

 

Vinum mínum í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum fannst það alla veganna, en þeir eru með besta fiskinn í borginni.

 

Hráefnalisti

 

1,5 kg humar (skelbrot)

500 g stórlúða

2 stórar gulrætur

1 gulur laukur

2 sellerísstangir

6 hvítlauksrif

1 dós tómatmauk

500 ml hvítvín

3 l vatn

humarkraftur eftir smekk

worchestershire sósa

600 ml rjómi

1/2 tsk cheyenne pipar

2 handfylli steinselja

safi úr heilli sítrónu

1 púrrlaukur

smjör og olía

salt bragðbætt með þangi

salt og pipar

 

 

 

 

Kolbrún, systir Snædísar, sá um að taka humarinn úr skelinni. Vel gert, Kolbrún - þú ert þá kokkur eftir allt! 

 

 

Skera niður lauk, sellerí, gulrætur, hvítlauk í smjöri og olíu. Handfylli af steinselju, skelbrot og tómatmauk.

 

 

Setja tónlist á fóninn. Muna að fela snúrurnar fyrir næstu myndatöku.

 

 

Hella hvítvíni yfir skelbrotin, sjóða upp áfengið, hella vatni yfir og sjóða í 45 mínútur, sjóða niður um 1/3.

 

 

Skera lúðina í bita. Marinera í olíu og sítrónusafa. Pipar ef vill.

 

 

Sía soðið í öðrum potti, bæta við rjóma. Sjóða niður um annan þriðjung. Salta, pipra, bæta við krafti, víni, worchestirshire sósu. Ein púrra sneidd þunnt niður og bætt saman við. 

 

 

Bragðbæta ennþá meira. Nú með sjávarsalti bragðbættu með þangi. Umami kick!

 

 

Næst  er að útbúa hvítlauksbrauðið. Að þessu sinni bara bagettur úr búð, skornar niður 2/3 í gegn, smurðar með hvítlaukssmjöri og svo ostum raðað í sárin; camenbert, cheddar og piparosti (sem fær mikið diss en er ljúffengur).

 

Djúpsteiktur humar með chili-sýrðrjómasósu

 

500 g humar

3 egg

handfylli hveiti

handfylli brauðmylsna

hvítlauksduft

salt og pipar

 

Sósan

 

1 dós sýrður rjómi

1/2 tsk sambal oelek

1 tsk tómatsósa

safi úr hálfri sítrónu

salt og pipar

 

 

Setti þrjá lítra af olíu í pottinn og hitaði í 160 gráður. Velti humrinum upp úr bragðbættu hveiti, síðan eggjablöndu og loks mylsnunni. Hitastýringin á þessari Bosch plötu er frábær! 

 

 

Svo er bara djúpsteikt - ég elska að djúpsteikja góðan mat! Allt verður betra þegar það er djúpsteikt!!!

 

 

Djúpsteiku humarhölunum var síðan bara dýpt í sósuna (öllu hrært saman) og borðað með fingrunum í forrétt. Sælgæti!

 

 

Hvítlauksbrauðin voru bökuð í 20 mínútur við 180 gráðu hita.

 

 

 Nokkrum humarhölum var raðað á disk. Smá steinselja sett yfir. Lúðan var sett saman við súpuna tveimur til þremur mínútum áður en hún var borin fram. Súpan fékk að krauma vel áður en henni var hellt yfir humarinn sem eldaðist af hitanum af súpunni. 

 

 

Með matnum drukkum við Montes Sauvignion Blanc Reserva frá því 2015. Þetta er vín frá Valle de Curivo í Chile. Þetta er virkilega góður sopi fyrir tunguna sem og budduna. Frísklegt vín, fölgult, létt á tunguna með ríkum ávexti, smá beiskju og ljúfu eftirbragði.

 

 

Ríkleg súpa með djúpu bragði og ferskum sjávarréttum.

 

Alger veisla.

 

Til hamingju með daginn, Snædís Eva.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég þekki þig ekki neitt Ragnar en mér sýnist þú vera gæðadrengur mikill, það sést á því hvernig þú talar um konuna þína! Ég hef haft mikið gaman af skrifum þínum um mat og vil þakka þér innilega fyrir þau frábæru skrif! Svo áttu líka greinilega dásamlega fjölskyldu!! Sannkallaður gæfumaður!....:-)))....

Kveðja,

Jón Kristjánsson

Jón Kristjánsson (IP-tala skráð) 13.9.2016 kl. 19:18

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Já gullfalleg fjölskylda.

Helga Kristjánsdóttir, 14.9.2016 kl. 04:04

3 identicon

Svo skulum við ekki gleyma því að hann er óhræddur við að nota íslenskt smjör til matargerðartongue-out

Sigurður Bjarklind (IP-tala skráð) 15.9.2016 kl. 15:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband