Stórgóð steikt klausturbleikja með pækluðu gúrkusalati, sýrðrjómasósu og gulrótamauki

 

Við komum heim frá Íslandi fyrir rúmri viku síðan eftir frábæra en annasama daga á Íslandi. Það var virkilega gaman að kynna bókina mína fyrir fólki. Það kom fjöldi fólks í útgáfuveisluna mína í Eymundsson og svo kom líka heilmikið af fólki við í Líf og List í Smáralindinni daginn eftir. Þar bauð ég upp á nautalund "sous vide" með klettasalati og parmaosti. Held að ég hafi deilt út nærri sexhundruð bitum af nautakjöti og ég gat ekki séð betur en að fólk kynni vel að meta smakkið. Ég vona að því líki líka við bókina mína. Ég er alltént afar stoltur af henni! Og það var gaman að sjá að bókin hafnaði á metsölulista Eymundsson fyrstu vikuna í sölu!

Þessa fallegu klausturbleikju fékk ég hjá vini mínum í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum morguninn sem við lögðum af stað frá Íslandi fyrir rúmri viku síðan. Það var ekki leiðinlegt að fara með nokkra splúnkunýja fiska með í töskunni til að elda á næstu vikum. Eins og ég hef sagt frá margoft áður þá er hægt að jafna saman íslenskum fiski og þeim sem er í boði hér í Svíþjóð. Og meira að segja það sem er gott í bestu fiskbúðunum hér fölnar í samanburði við hráefnið sem fæst í fiskbúðum á Íslandi.

 

Og það kemur mér líka spánskt fyrir sjónir að heyra fólk kvarta yfir verðinu. Jú, ég veit, að margir minnast þess þegar fiskur var ennþá ódýrari og sakna þess tíma - og hver vill ekki fá ódýran mat? En fiskur er ennþá ódýr í samanburði við flest kjöt og er síðan miklu ódýrari en hjá okkur í Svíþjóð og öðrum löndum á meginlandinu. Ætli ég þurfi ekki að punga út að lágmarki tvisvar sinnum meira fyrir flakið í búðinni hér en heima á Fróni!

 

Stórgóð steikt klausturbleikja með pækluðu gúrkusalati, sýrðrjómasósu og gulrótamauki

 

Fyrir fjóra til sex

 

6 bleikjuflök

salt og pipar

safi úr hálfri límónu

3-4 msk hveiti (bragðbætt með salti og pipar)

 

Fyrir sósuna

 

1 dós sýrður rjómi

1 vorlaukur

1 hvítlauksgeiri

1 msk sítrónumelissa

1 tsk hlynsíróp

safi úr hálfri límónu

 

Gúrkusalat

 

1/2 krukka pækluð gúrka (t.d. frá Friðheimum)

1/2 gúrka

1 msk graslaukur

salt og pipar

safi úr hálfri sítrónu

 

Fyrir gulræturnar

 

600 gr gulrætur

75 g smjör

4 msk rjómi

salt og pipar

 

 

 

Byrjið á því að gera sósuna. Setjið sýrða rjómann í skál, skerið vorlaukinn í þunnar sneiðar, hakkið sítrónumelissuna smátt og blandið í skál. Bragðbætið með límónussafa, hlynsírópi, salti og pipar og látið standa í ísskáp í a.m.k. 30 mínútur á meðan maturinn er undirbúinn. 

 

 

Skerið gúrkuna í strimla með mandólíni og setjið í skál, blandið pækluðu gúrkunni saman við. Skerið graslaukinn smátt og hrærið saman við ásamt sítrónusafa og salti og pipar. 

 

 

Flysjið og sjóðið gulræturnar í söltuðu vatni. Hellið því svo frá og hellið rjóma saman við. Skellið smjörklípunni með og saltið og piprið.

 

 

Svo er ekkert annað að gera en að mauka þetta saman með töfrasprota!

 

 

 

Skolið af bleikunni, þurrkið og leggið á disk. Saltið og piprið og setjið smá límónusafa á hvert flak. 

 

 

Látið smjörið bráðna á heitri pönnunni. Það er líka ágætt að kasta mæðinni í eldamennskunni og gæða sér á hvítvínstári. Maturinn verður bara betri fyrir vikið. Var með flösku af áströlsku Lindemans Chardonnay bin 65 sem er alveg ljómandi fínn hvítvínssopi! 

 

 

Velti bleikjunni síðan upp úr örlitlu abragðbættu hveiti!

 

f

 

Hún var svo að sjálfsögðu steikt upp úr nóg af smjöri! 3 mínútur á roðinu!

 

 

Og svo tæplega tvær mínútur á hinni hliðinni. 

 

 

Lagt á heitan disk sem ég hafði látið vera inn í 100 gráðu heitum ofni í 15 mínútur til að halda fiskinum heitum! 

 

 

Svo er bara að setja á diskinn. Smá gulrótarmauk, fallegt bleikjuflak, sósu og smá gúrkusalat.

 

Veislan er endalaus!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband