Læknisráð í eldhúsinu: Dúndur hakkabuff með spældu eggi og besta steikta lauknum - nokkur heilræði!

Ég ætti kannski að hefja þessa færslu á því að biðjast afsökunar á því hverju ég er að blogga þessa færslu - hakkabuff og spælegg - common Ragnar! Oftast blogga ég, jú, um veislumat, eitthvað sem best passar á veisludögum, jafnvel til hátíðartilbrigða. En sama hvað maður óskar þess heitt þá er bara helgi tvo daga í viku.

 

Og einhver myndi kannski segja að þetta sé nú full hvunndags til að bera á borð. En því svara ég að þessi réttur er í miklum metum hjá ansi mörgum. Sumir Danir myndu ganga svo langt að kalla þennan rétt sinn eigin. Og þessi réttur er í sérstöku uppáhaldi hjá mér - gott ef ekki hjá föður mínum líka. Þegar ég var að vinna á heilsugæslustöð í Horselunde í Danmörku var það alltaf ákveðinn viðburður að elda þennan rétt í hverri ferð sem ég fór Lollands.

 

Þessi færsla er ekki hugsuð sem uppskrift heldur þrjú ráð um hvernig má taka hversdagslegan mat, sem oft er ansi venjulegur, og hvernig má lyfta honum upp í efstu hæðir. Stundum þarf bara svo lítið annað til en bara smá tíma til að breyta einhverju úr hversdagslegu í eitthvað sem gefur hversdeginum þó ekki nema örlítinn veislubrag! Og hérna eru nokkrar uppástungur!

 

Læknisráð í eldhúsinu: Dúndur hakkabuff með spældu eggi og besta steikta lauknum - nokkur heilræði!

 

Það er ekki alltaf veislumatur á borðum hjá mér. Stundum elda ég líka bara kjötbollur eða steiktan fisk. En eftir því sem maður les meira um matargerð og æfir sig meira þá lærir maður nokkur brögð sem breyta venjulegum mat í eitthvað annað og meira.

 

 

Varðandi laukinn. Til að karmellissera lauk þarf langan tíma. Margar bækur segja 10-15 mínútur en það eru bara helber ósannindi. Það er hreinlega ekki hægt, ekki nema með því að svindla með því að hella sírópi á pönnuna eftir 10 mínútur og steikja með síðustu mínúturnar. Það er í sjálfu sér ágætt svindlbragð til að nota þegar maður er að brenna út á tíma en það er ekki það sama og að steikja laukinn varlega í 35-45 mínútur til að galdra fram hans eigin sykur. Lauksætan er nokkuð einstök. Gefið ykkur nægan tíma. 

 

Annað er að skella einum eða tveimur stjörnuanísum með á pönnunua. Það hjálpar að draga fram umami bragðið í lauknum og lyfta honum ennþá frekar. Hafið ekki áhyggjur - það verður ekkert anísbragð af lauknum. 

 

Steikið laukinn í miklu smjöri og saltið vel og piprið. Og voila - besti steikti laukur allra tíma. 

 

Það má líka halda áfram með laukinn og umbreyta honum í lauksósu eða jafnvel lauksúpu en það er önnur færsla! 

 

 

 

Kaupið gott nautakjöt sem inniheldur 15-20 prósent fitu. Þannig mun það halda mýkt sinni og ekki verða þurrt við eldun. Kjöt sem inniheldur minna en 10 prósent mun gefa síðri niðurstöðu. 

 

Það er um að gera að lauma einhverju inn í hakkabuffið. Mér finnst gott að lauma smá osti inn í buffið. Í þetta sinn notaði ég blámygluost, en stundum nota ég gryere - bara einhvern ostu sem bráðnar og rennur inn í kjötið. Einhverstaðar hef ég lesið um að lauma smjörklípu inn í kjötbolluna, en ég á það eftir. 

 

 

Brúnið kjötið í smjöri að utan. Þetta á ekki að taka langan tíma. Bara að loka því!

 

 

Hugmyndin er að loka kjötinu, leggja það svo í eldfast mót, laukinn yfir og klára það inn í 180 gráðu heitum ofni í 10 mínútur á meðan þið gerið sósuna.

 

 

Besta sósan er gerð á pönnunni sem kjötið var steikt á. Setjið hveiti út á pönnuna til að gera smjörbollu (roux - fyrir 30 g af smjöri notið 30 g af hveiti). Hellið svo á pönnuna góðu kjötsoði og hitið að suðu og sjóðið niður - bætið rjóma saman við! Smakkið til með salti, pipar, sultu og jafnvel smá Worchestershire sósu til að gefa sósunni auka kick!

 

 

Eggin eru best steikt í nóg af fitu. Sérstaklega smjöri - þannig er það nú bara! Einhverjum kann að blöskra þetta mikla smjör, en það er bara ekkert óhollt, þvert á móti!

 

 

Ennþá betra er að hella smávegis af smjörinu yfir eggin til að flýta fyrir elduninni og gefa þeim ennþá betra bragð. Að sjálfsögðu þarf að salta og pipra!

 

Þá er ekkert eftir annað en að setjast að borðum. 

 

Það er alltaf tími til að njóta - líka á þriðjudögum!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

hakkabuff

avj (IP-tala skráð) 21.8.2014 kl. 21:34

2 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Dr. Jane Plant begs to differ - hún væri þér ekki sammála um allt smjörið og ostinn „......þetta mikla smjör, en það er bara ekkert óhollt, þvert á móti!“

Það eru rannsóknir í Harvard og víðar sem styðja þá skoðun hennar auk mannfræðirannsókna í Kína um margra ára skeið - auk pesrónu dr. Jane sjálfrar og síðan prófessors uppi í HÍ sem lýsir sams konar árangri sínum og hún á heimasvæði sínu hjá HÍ.

En að nota smjör í matargerð er afskaplega mikil munúð - af því verður ekki skafið þó það kunni að vera mis-bráðdrepandi.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 22.8.2014 kl. 01:36

3 Smámynd: Ragnar Freyr Ingvarsson

Sæll Predikari

Þakka fyrir athugasemdina.

Allar rannsóknir síðusta árutug á samband mettaðar fitu og hjarta og æðasjúkdóma annars vegar stenst ekki skoðun. Um þetta hefur verið ritað í fjölda læknarita síðustu misseri og fjöldi velgerðra rannsókna sem styður þetta.

Hérna er umfjöllun TIME sem er á mannamáli; http://time.com/2863227/ending-the-war-on-fat/

Ef þú vilt fá heimildir þá get ég vel sent þér þær! Þær eru í tugatali. Nýverið birti SBU (Statens Beredning för medisinsk utvardering)í Svíþjóð niðurstöður sínar um meðferð við offitu. Þar var LKL áhrifaríkasta leiðin til að minnka ofþyngd!

Varðandi rannsóknina frá Kína - The China Study hefur fengið mikla gagnrýni, sérstaklega að gleyma að horfa á áhrif kolvetna í matarræði!

Ég skal kíkja á þessa Jane Plant.

bestu kveðjur, Ragnar

ps. smjör er hollt og gott!

Ragnar Freyr Ingvarsson, 22.8.2014 kl. 08:39

4 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Þökk fyrir þetta.

Já ég deili ekki á fituna sem slíka. Það er kýrmjólkin og hvers vegna kínverjar, nánast allir milljarðar þeirra, þekkja ekki krabbamein, nema í Peking og þessum 2-3 stórborgum sem hafa orðið vestrænar og tekið uppo á því - ólíkt öllum öðrum kínverjum - tekið upp vestrænar matarvenjur og neyta mjólkur og mjólkurafurða. :Þannig eru krabbamein nánast óþekkt í hinu víðfeðma Kína - nema í þessum 3 stórborgum með þessum ósköpum.

Þá nefndi ég dr. Jane Plant sem hefur sögu að segja af sjálfri sér í þessu sem og prófessor í HÍ sem ég man ekki nafnið á eins og er. Ég ætla að leita í smiðju djúpminnis míns að rifja það upp ;)

Kýrmjólk er góð - og nauðsynleg fyrir kálfa í uppvexti.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 22.8.2014 kl. 09:14

5 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Já P.S. : Minnir að Harvard rannsóknin sé nefnd flugfreyjurannsóknin ?

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 22.8.2014 kl. 09:15

6 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Dæmi:

nýmjólk inniheldur gríðarlega mikið af vaxtarþáttum, t.d. IGF (insúlínlíkum vaxtarþætti), sem er mikilvægur fyrir nýlega borna kálfa, sem þurfa að stækka mjög hratt. Fyrir fullorðið fólk er IGF ávísun á óeðlilega frumuskiptingu, sem hæglega getur endað með krabbameini. Kýr, sem árlega eru látnar bera, eru mikinn hluta ársins kálffullar. Það þýðir að í mjólkinni úr þeim er mikið af östrógen hormónum og öðrum hormónum með östrógenvirkni. Ekki er deilt um það að efni með sterka östrógenvirkni örva sum krabbamein, t.d. í brjóstum, móðurlífi, eggjastokkum og blöðruhálskirtli karlmanna, auk nokkurra annarra krabbameina með östrógen viðtaka í frumum.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 22.8.2014 kl. 09:43

7 Smámynd: Ragnar Freyr Ingvarsson

Sæll Predikari

Þessi mýta um að kínverjar fái ekki krabbamein á ekki við rök að styðjast. Ekki frekar en um hákarla! Þeir fá krabbamein eins og við - tíðni var áður lægri en á vesturlöndum. Þess ber líka að geta að skráning og meðferð krabbameina stóð ekki öllum kínverjum til boða á árum áður. Kíktu á þessa heimild um krabbamein í Kína; http://jjco.oxfordjournals.org/content/40/4/281.full - Hún gefur ágæta mynd af þessu.

Ég er búinn kynna mér jarðfræðinginn Dr. Jane Plant. Fullyrðingar hennar halda ekki vatni. Ég er núna síðan að þú nefndi þetta skoðað fjölda greina á pubmed.com og leitað eftir dairy product consumption cancer (og cancer risk) og nær allar benda til að þetta eigi ekki við rök að styðjast - búinn að renna í gegnum úrdrætti af tugum greina sem taka tillit til ólíkra krabbameina! Þyrfti samt að verja meiri tíma í þetta til að voga að fullyrða um þetta ennfrekar.

Hafðu það gott í dag!

Ragnar

Bestu kveðjur

Ragnar Freyr Ingvarsson, 22.8.2014 kl. 09:52

8 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Viðtal í Morgunblaðinu :

http://www.mbl.is/greinasafn/grein/599250/

 

Fréttablaðið :

http://timarit.is/files/8914760.pdf#navpanes=1&view=FitH


 

http://www.gopfrettir.net/gopfrett/hofundar/JanePlant/sagan.htm

 

 

http://www.heilsuhringurinn.is/index.php?option=com_content&view=article&id=72:jane-plant-her-a-islandi&catid=27:greinar&Itemid=22

Þá eru rannsóknir virtra háskóla eins og ég nefndi fyrr sem styðja þetta og hægt er að fletta upp um þetta á hemasíðum þeirra skóla og sjá nöfn þeirra fræðimanna sem þær gerðu

 

 

 

 

 

 

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 22.8.2014 kl. 09:54

9 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Já hárrétt hjá þér með kínverjana. Hún VAR lægri. En síðan skaust hún upp og ástæður þess getur þú lesdið þér til m en rök hafa verið leidd að því að aukning mjólkurneyslu og áróður fyrir henni er mikill. Þetta nefnir hún í Morgunblaðsviðtalinu sérstaklega. En þær rannsóknir sem hún hafði þegar hún var dauðvona og gefnar 3-6 vikur ólifaðar á spítalanum þær rannsóknir voru ekki nýlegar um tíðni krabbameina eins og þú ert núna með.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 22.8.2014 kl. 09:58

10 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Það er að segja, ég er að tala um Kína í síðustu færslu.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 22.8.2014 kl. 09:59

11 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Já þakka þér fyrir, hafðu það sömuleiðis gott í dag.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 22.8.2014 kl. 10:01

12 Smámynd: Ragnar Freyr Ingvarsson

Sæll aftur Predikari.

Tíðnin var lægri sennilega vegna lélegrar skráningar. Ef hún var rétt skráð þá hefur tíðni krabbameina vissulega aukist en margt fleira getur skýrt þá aukningu en bara mjólk. Vestulenskt matarræði hefur fleiri "galla" en bara mjólkina - fof mikla sykurneuyslu.

Það er alltaf gaman af einstaklingssögum. En þær eru alltaf bara sögur. Og ekki hægt að draga neinar sérstakar ályktanir af þeim - en þær geta gefið vísbendingar um hvar skal leita til að finna sannanir fyrir einhverjum orsakatengslum. Og þetta hefur vissulega verið kannað - í tugum stórra rannsókna.

En flestar rannsóknir gerðar á þessu hafa leitt hið öfuga í ljós - þeas að mjólkurvörur eru ekki hættulegar! Þú bendir á grein úr morgunblaðinu þar sem Óskar krabbameinslæknir vitnar í tvær rannsóknir;

"Þannig hefur finnsk rannsókn á neysluvenjum 4.697 kvenna sem fylgt var í 25 ár sýnt fram á að brjóstakrabbameinsáhætta var marktækt minni (58% minnkun) hjá þeim sem neyttu mestrar mjólkur miðað við þær sem neyttu minnstrar. Að sömu niðurstöðu komst ítölsk rannsókn á 5.055 konum. Að mjólk getur haft verndandi áhrif, er líka styrkt af rannsóknum sem benda til að fituefni í kúamjólk (einkum þó svokölluð "conjugated linoleic acid") hafa hamlandi áhrif á vöxt "

Svona niðurstöður trompa allar fullyrðingar eins jarðefnafræðings! Skoðun Jane Plant á ekki við vísindaleg rök að styðjast sama hversu góður jarðefnafræðingur hún kann að vera!

Bestu "smjör"kveðjur!

Ragnar

Ragnar Freyr Ingvarsson, 22.8.2014 kl. 10:09

13 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Eiginmaður dr. Jane Plant er einnig vísindamaður á sviði mannfræði að mig minnir. Þau voru fyrir um 15-20 árum síðan að koma úr 5 ára rannsóknarvinnu í Kína a kínverjum og meðal annars var rannsökuð tíðni krabbameina kínverja á þeim árum. Það voru einmitt rannsóknarskýrslur þeirra sem komu henni fyrst á sporið með þetta.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 22.8.2014 kl. 10:17

14 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Já - by the way - ég er mikill smjör maður í matargerð en hef um margra áratuga skeið forðast mjólkurvörur nánast alveg að frátöldu smjöri í matargerð og rjóma í bland stundum. Fann á líkama mínum að mjólk va ekki að gera mér neitt gott og það var áratugum áður en ég sá eitt eða neitt um dr. Jane.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 22.8.2014 kl. 10:19

15 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sá ekki á flýtilestri mínum á svari þínum áðan að þú nefndir sykru. Sama gerði ég með syku en ég vissi neitt um allar þessar rannsóknir. Man þó að fyr áðurrir um tveimur áratugum sagði dr. Laufey Steingrímsdóttir eitthvað á þá leið að væri sykur þá að koma sem glæný ara á markað yrði hún að líkindum bönnuð ásamt öðrum eitur- eða fíkniefnum.
Svo erstórmerkileg nýleg frétt á visir.is um sykurinn.  Þar ættir þú að hlusta og horfa á myndbandið sem fylgir fréttinni um  niðurstöður vísindamanna og er myndbandið úr kanadískum sjónvarpsþætti að mig minnir.

 http://www.visir.is/sannleikurinn-um-sykur-afhjupadur/article/2014140729095

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 22.8.2014 kl. 10:27

16 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Biðst afsökunar á stafabrengli en það er eitthvað í tölvunni sem ég er í núna sem brenglar innsláttinn hjá mér ;)

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 22.8.2014 kl. 10:28

17 Smámynd: Ragnar Freyr Ingvarsson

Sæl aftur predikari!

Gaman að spjalla við þig um þetta efni - þú fékkst mig til að rifja upp heilmikið um áhættuþátta krabbameina! Takk fyrir það!

bestu kveðjur!

Ragnar

Ragnar Freyr Ingvarsson, 22.8.2014 kl. 17:22

18 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Þökk fyrir - sömuleiðis ;)

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 22.8.2014 kl. 18:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband