Ofngrillaður þorskhnakki með ansjósu- og kaperssmjöri & gómsætu kartöflusalati

þorskur

Okei! Það eiga sennilega ekki margir eftir að lesa þessa færslu. Ég hef lært það á því að hafa bloggað í núna rúmlega fimm ár að "fisk"færslur fá alltaf færri heimsóknir en kjötfærslur. Bökunar- og jólafærslur fara hinsvegar í gegnum þakið! Svo hafa ansjósur ótrúlega slæma ímynd - og algerlega að ósekju. Ansjósur sem eru marineraðar í jómfrúarolíu eru ótrúlega ljúffengar! Þær hafa líka þann kostinn að hafa bragðaukandi áhrif, svipað og þriðja kryddið (mónósódíum glútamat) nema það er fullkomlega náttúrulegt. Og þegar fiskurinn hefur steikst í smjörinu gefur það sérlega gott bragð - ekki fiskibragð eins og margir ímynda sér. Það er mjög gott að lauma ansjósum í ýmsa pastarétti og kássur - sjáiði til!

En fisk og ansjósur (sem er líka fiskur) í sömu færslunni. Ég er heppinn ef fleiri en 10 lesa alla færsluna!

En fyrir ykkur sem lesið alla færsluna og við þann sem síðan eldar réttinn vil ég segja: "You are in for a treat" - þar sem niðurstaðan var algerlega stórkostlega. Þorskurinn er góður einn og sér - en með ansjósu- og kaperssmjöri, það voru einfaldlega allir í skýjunum! Bókstaflega í skýjunum. Meira að segja börnin voru ánægð! 

Ofngrillaður þorskhnakki með ansjósu- og kaperssmjöri & gómsætu kartöflusalati

 Þorskur eitt 

Fyrst var að sjóða kartöflur - ég hafði fengið nýjar kartöflur útí búð - sem ég sauð í ríkulega söltuðu vatni í u.þ.b 15 mínútur. Síðan var vatninu hellt af og þær fengu að kólna. Þá hrærði ég saman 3 msk af sýrðum rjóma, 1 msk af dijon, 1 msk af hlynsírópi, 1 smátt saxaðan, lítinn rauðlauk, handfylli af hakkaðri ferskri steinselju - salt og pipar saman við. Sett inn í kæli.

Þá skolaði ég þorskhnakkastykki sem ég hafði keypt frosin hjá Gallerí fiski og þurrkaði. Penslaði með bræddu smjöri og saltaði og pipraði.

Þá bræddi ég 100 gr af smjör í potti og þegar smjörið var farið að hitna setti ég 5 flök af söxuðum ansjósum saman við og bræddi í smjörinu, þá 2 msk af kapers, svo 2 msk af saxaðri steinselju, salt og pipar og safa úr 1/4 sítrónu.

Hitaði grillið á fullt - 275 gráður og grillaði fiskinn í 8-10 mínútur þangað til að hann var eldaður í gegn.

two oceans 

Með matnum drukkum við smá hvítvínsdreitil. Hafði keypt hvítvínsbúkollu eftir ráðleggingum vínkonsultants Sydsvenskan (mest lesna dagblað á Skáni) Andrési Fagerström. Að þessu sinni hafði ég keypt vín frá Suður Afríku, Two Oceans Sauvignion Blanc frá 2010. Þetta er heldur þurrt vín, með talsverðum ávaxtakeim, eplum og létt á bragðið. Ljómandi sopi. Það er svo gott að geta seilst inn í kæli á heitum kvöldum eftir smá hvítvínstári

Þorskur nærmynd 

Svo var bara að raða á disk. Fiskbiti - matskeið af smjöri á hvern bita. Væn skeið af kartöflusalati. Smáræði af fersku salati.

Bon appetit! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þegar ég var lítil, árin 1945-50 þá herti afi minn þorskhausa á sína vísu. Grjóthart var þetta, búið að setja í saltpækil sem síðan þurfti að afvatna og sjóða. Ég var ekki hrifin af þessum mat. Mest allt bein eða brjósk. Aldrei varð ég södd af þessum óþverra. Dauðhrædd við að kyngja því sem upp í mér var. Kannske er þetta misminni, en að það sé matur í þorskhausum, þá hafa smáir stækkað. Næst þegar ég kem til Íslands þá vil ég endilega biðja bloggareiganda að bjóða mér í svona mat. En þínir pistlar eru skemmtilega skrifaðir og ég er hrifin af þeim.

Kær kveðja Jóhanna

Jóhanna (IP-tala skráð) 31.7.2012 kl. 22:04

2 identicon

Athyglisverð uppskrift

Elísabet Weisshappel (IP-tala skráð) 1.8.2012 kl. 10:37

3 identicon

Geysi spennandi uppskrift, fyrir utan ansjósurnar... En hefurðu grillað þetta á útigrilli? Mig langar að prófa það og gera bara öðruvísi sósu. Næst þegar þú kemur til Íslands skaltu kíkja á Snaps við Óðinstorg ef þú hefur tíma og bragða saltfiskinn þar. Hann er ótrúlega góður, í spænskri tómatsósu með nýjum, ljúffengum kartöflum... Nammi, namm!!! Best að taka fram að ég á þar engra hagsmuna að gæta, en þetta er sennilega besti saltfiskréttur sem ég hef smakkað, ég var svo lengi að venjast því að borða saltfisk öðruvísi en með hamsatólg og rúgbrauði...

Nanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 1.8.2012 kl. 11:43

4 Smámynd: Ragnar Freyr Ingvarsson

Sæl Jóhanna

Þorskhnakkinn er gómsætur - oft er það sá hluti fisksins sem er í boði á góðum veitingastöðum! Sjálfur hef ég aldrei bragðað þorskhaus - nema kinnina (gella) sem mér finnst vera alveg ljúffengur biti! Takk fyrir heimsóknina!

Sæl Elísabet. Uppskriftin er gott betur en athyglisverð - hún er líka ljúffeng!

Sæl Nanna.

Ég hef ekki prófað þessa á grilli - en það væri alveg hægt að reyna, þá með fiskinn á bakka eða á álpappír þar sem þorsknum er hætt á því að detta í sundur (flaky). Hvet þig til að gefa ansjósum sjéns - sjálfur fílaði ég ekki ansjósur í upphafi en núna get ég borðað þær einar! Þetta er lært bragð. Meira segja þeir sem ekki kunna við ansjósuna eina og sér - finnst oft matur með ansjósum sem hráefni góður á bragðið. Eins og ég nefndi þá er lyftir ansjósan bragði annarra hráefna upp, bragðaukandi! Alveg eins og fiskisósa Thailendinga, Nam Pla!

Takk fyrir að kíkja á síðuna mína!

Bestu kveðjur, Ragnar

Ragnar Freyr Ingvarsson, 1.8.2012 kl. 15:56

5 identicon

Prófaði þessa uppskrift og get staðfest að hún er verulega ljúffeng. Auk salats bar ég með fiskinum kartöflumús og vel þroskað avokadó með sítrónu og salti. Þetta sló í gegn. - Og takk fyrir að deila þessum uppskriftum, ég hef oft leitað í þína smiðju eftir góðri uppskrift.

gudlaug (IP-tala skráð) 7.8.2012 kl. 20:31

6 identicon

Gríðalega spennandi fiskréttur og ansjósan er vanmetin sem bragðbætir almennt hjá okkur Íslendingum.....tekur líklega nokkra áratugi í viðbót að læra að meta....ítalir eru duglegir við að nota hana..............í margskonar rétti,,,,,,,,,,,,,,,

Er búinn að fylgjast með þér,,,,,líklega frá upphafi.....tek þetta oftast í slumpum og les mér til ánægju og yndisauka............Ástríðukokkar eru í uppáhaldi hjá mér svo ég segi ekki annað............

Sigfús Almarsson (IP-tala skráð) 28.8.2012 kl. 15:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband