Surf & turf; Grilluð nautasteik og glóðaður humar með hvítlaukssósu

Það hefur verið ansi annasamt síðastliðna daga. Ég var að koma heim úr héraði, þar sem var nóg að gera og núna á mánudaginn hóf ég störf á nýrnadeildinni í Lundi. Þar mun ég vinna í sumar og í haust mun ég geta sótt um sérfræðiréttindi í gigtarlækningum. Tíminn líður svo hratt - næsta haust verða fjögur ár frá því að við fluttum til Svíþjóðar og ég byrjaði að vinna á gigtardeildinni í Lundi. Hvað tekur svo við?! 

Sökum þessa anna verður þetta bara svona örfærsla! En hvað þarf maður eiginlega að segja um mat eins og þennan - þetta er bæði einfaldur matur og á sama tíma alveg dásamlegur! Að bara að því gefnu að maður hafi gott hráefni. Þegar maður er að elda svona einfaldan mat þá skiptir höfuðmáli að hráefnið sé eins gott og framast sé kostur. Og ég þurfti ekki að kvarta. Humarinn var keyptur á Íslandi og var frá Höfn í Hornafirði, nautakjötið frá vini mínum í Saluhallen - nautakjöt úr sveitunum hérna í grenndinni. 

Surf & turf; Grilluð nautasteik og glóðaður humar með hvítlaukssósu

surfnturfbonappetit 

Fyrst var að gera hvítlaukssósuna. Ein dós af sýrðum rjóma, 2 hökkuð hvítlauksrif, salt&pipar, smá sítrónusafi, ögn af sírópi og síðan 1 msk af steinselju - að sjálfsögðu ferskri. Hrært saman og geymt í kæli.

Humarinn var klipptur upp að ofan og svo lyft upp á skelina. Penslað með hvítlauksolíu/smjöri og síðan grillað í ofni í nokkrar mínútur. 

Kjötið var bara skolað og þurrkað rækilega með húsbréfi og svo lagt til þerris í augnablik. Þá var það penslað með jómfrúarolíu og svo saltað og piprað. Grillað á blússheitu grilli. 

Borið fram með soðnu spergilkáli og ljúffengu rauðvíni. Að þessu sinni vorum við með Shiraz frá ástralska framleiðandanum Peter Lehmann. Þetta er vín frá því 2009. Þetta er einkar ávaxtaríkt vín með ákveðnu berjabragði - plómum og svo smá súkkulaði. Gott eftirbragð. Og passaði ljómandi vel með steikinni. 

 Surf n turf

Bon appetit! 

P.s. minni aftur á heimasíðuna mína á Facebook: The Doctor in the Kitchen. Verið velkomin!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband