Sumarveisla; Insalata Tricolore með heimagerðum mozzarella í forrrétt og pönnusteiktur kjúklingur með nýjum kantarellum


norway.gif

Maður hefur auðvitað eins og allur heimurinn horft dofinn af hryllingi yfir því sem átti sér stað föstudagseftirmiðdaginn þann 22. júlí í Noregi síðastliðinn. Að svona atburðir skulu geta átt sér stað í Noregi er erfitt að skilja! Maður fyllist þó lotningu og von þegar maður horfir á viðbrögð Norðmanna við þessum skelfilega atburði - hvernig þeir hafa staðið saman og sýnt að svona ofbeldi mun ekki brjóta þá á bak aftur. Ég mun aldrei gleyma setningu sem var sögð í kjölfarið - "Om en man kan visa så mycket hat, tänk hur mycket kärlek vi alla kan visa tillsammans" - Og þeir sýna kærleikann í verki. Lífið verður auðvitað að halda áfram. Við verðum að efla lýðræðið, opna okkar samfélög og tala gegn því hatri sem Norðmenn, kannski við öll, urðum fyrir. 

Við höfum verið í sumarleyfi saman hérna í sunnanverðri Svíþjóð. Við erum búin að vera saman í sumarfríi síðan í byrjun júlí. Við höfum tekið því all rólega - ætluðum að njóta veðurblíðunnar sem vanalega er á þessum tíma árs. En veðrið hefur ekki beint leikið við okkur. Það hefur eiginlega verið skýjað og rignt stanslaust seinustu vikurnar - með tilheyrandi gleði. Einhver veðurfræðingur sagði í sjónvarpinu núna á föstudagskvöldið að Lundur hefði fengið versta sumarveðrið í júlí. Og ekki ljúga veðurfræðingar - sama hvað Bogomil Font og Flís hafa um þau mál að segja.

emilogyda.jpg

Við höfum reynt að vera dugleg. Ég fór pílagrímsför til Kaupinhafnar í uppáhaldsbúðina mína, hwl.dk, sem selur græjur í eldhúsið og verðlaunaði mig fyrir að hafa verið tvær vikur í héraði. Við hjónin erum að reyna að læra á línuskauta með Valdísi dóttur okkar. Við fórum með tengdamúttu á Ales steinanna við Kåseberga, fengum gamla vini okkar, Rakel og Zúnka í heimsókn, fórum með krakkana í skemmtigarðinn í Bakken, og svo brugðum við okkur til Smálandanna, með ömmu Lilju og afa Ingvari, í seinustu viku og skoðuðum garð Astridar Lindgren. Mér fannst hann alveg stórkostlegur. Þegar maður hefur vaxið upp við bækurnar hennar var meiriháttar að fá að ganga í gengum Þyrnirósargarð frá Kirsuberjadal. Skoða Mattíasarkastala og sjá Ronju og Birki leika sér í skóginum. Ég held að ég hafi skemmt mér jafnvel og grísirnir mínir! 

kantarella.jpg

Ég hef líka reynt að sinna eldhúsinu mínu eftir fremsta megni sem og nýja áhugamálinu mínu, sveppatýnslu. Ég hef reykt beikon, plokkað kantarellur og karljóhann sveppi, gert kjúklingasoð, tekið upp kartöflur, sinnt garðinum, tekið til í bílskúrnum, sett saman nýtt Weber grill, eldað á hverju kvöldi. En hef samt verið latur að blogga - en það stendur allt til bóta. 

Já, og meðan ég man; Mig langar líka til að nota tækifærið og óska eftir athugasemdum. Fátt gleður manns heimska hjarta meira en þegar lesendur skilja eftir athugasemdir, vangaveltur eða spurningar um matinn eða eigin uppskriftir. Mér þætti vænt um að fleiri myndu skilja eftir nokkur orð hérna á síðunni minni.

Sumarveisla; Insalata Tricolore með heimagerðum mozzarella í forrrétt og pönnusteiktur kjúklingur með nýjum kantarellum

valdistricolore.jpg

Ég og Valdís höfum lengi ætlað að búa til mozzarellaost. Einhver hvíslaði því að okkur að slíkt væri ákaflega einfalt. Og það reyndist alveg hárrétt. Ég pantaði hráefni (sítrónusýru og ostasalt - ekki joðsalt) og bók frá www.cheesemaking.com. Fyrst setti ég 3,5 lítra af nýmjólk í pott og bætti saman við 1,5 tsk af sítrónusýru (leyst upp í 100 ml af vatni) og hrærði vel saman. Hitaði síðan upp í 32 gráður. Þá bætti ég við 1/4 töflu af rennet, uppleystri í 70 ml af vatni, og blandaði varlega saman við. Lét síðan blönduna standa í 5-10 mínútur og síðan skar í sundur osta"curdinn" og hitaði svo aftur upp, núna í 40 gráður. Hrærði saman og núna sér maður að osturinn hefur skilið sig frá "whey-inu". Osta-curdinn er síðan veiddur upp úr vökvanum og settur í skál. Vökvanum er hellt að mestu frá. Ég valdi síðan að setja ostinn í örbylgjuofninn í eina mínútu, hnoða síðan ostinn, hella vökvanum sem skilst frá úr skálinni. Endurtók þetta tvisvar sinnum, en hitaði ostinn minna í hvert sinn - 30 sek. Þegar osturinn fer að teygjast án þess að slitna er hann tilbúinn. Settur inn í kæli. Ég gerði ostinn nákvæmlega eftir leiðbeiningum Ricki Carroll - sem sýnir sína aðferð í vídeoinu hérna fyrir neðan.

Osturinn var síðan skorinn niður í þykkar sneiðar og raðað ofan á þykkar sneiðar af tómötum og svo skreytt basillaufi. Góðri jómfrúarolíu sáldrað yfir, smá balsamikedikskremi og svo auðvitað saltað og piprað. 

tricolore_1101318.jpg

Kantarellurnar höfðum við týnt um morguninn í skógunum í kringum Sjöbo sem er á miðjum Skáni. Þar fundum við bæði kantarellur og kóngssveppi og nokkra aðra skilda pípusveppi. Við vorum ansi stolt af veiðunum. 

 kantarellur_1101320.jpg

Við fundum að minnsta kosti 2 1/2 líter af fallegum stórum kantarellum.

karljohan.jpg

Og svo nokkrar tegundir af pípusveppum - Nokkra geysistóra karljóhann sveppi. Stærðina má sjá af pennanum á myndinni.

 brunsopp_1101323.jpg

Nokkra - Boletus Badíus (brunsopp á sænsku).

 sandsopp.jpg

Og einnig nokkra sandsoppa (sandpíplusvepp? - á latínu Suillus variegatus) 

Ég er búinn að vera að lesa um sveppatýnslu í nokkrum bókum - The Complete Mushroom Book eftir Antonio Carlucci, Mushrooms eftir John Wright og tilheyrir bókaseríu The River Cottage Handbooks og svo hef ég einnig stuðst við forrit í símanum sem ég keypti og kallast Svampguiden. Ég þekki núna fjóra sveppi með nokkru öryggi sem ég hef týnt mér til matar og hafa smakkast dásamlega. Fái einhver innblástur til sveppatýnslu af þessum lestri - þá þarf alltaf að fara varlega. Það er til heill hellingur af eitruðum sveppum sem ber að varast. 

 kantarelluraponnu.jpg

En víkjum nú aftur að matargerðinni. Fyrst var að hreinsa kantarellurnar og skera niður lítillega - en þó mikilvægt að hafa ágæta bita, þannig njóta sveppirnir sín betur. Steikti smátt skorinn lauk, ásamt nokkrum smátt skornum hvítlauksrifjum í smá olíu á miðlungs heitri pönnu. Bætti síðan sveppunum saman við og steikti þangað til að þeir voru mjúkir. Saltaði og pipraði. Lagði til hliðar. 

kjuklingur_1101326.jpg

Tók nokkrar kjúklingabringur og lamdi út þangað til að þær voru um 1,5 sentimetra þykkar. Saltaði og pipraði og raspaði góðu lagi af parmaosti yfir. Steikti síðan á pönnu upp úr klípu af smjöri/olíu í fimm mínútur á hvorri hlið. Þegar kjúklingurinn var eldaður var hann lagður til hliðar í volgan ofn á meðan haldið var áfram með sósuna sem gerð var á pönnunni. Smávegis hveiti var hellt á pönnuna og hrært í til að búa til roux (smjörbollu), síðan skvettu af hvítvíni - sauð niður áfengið, svo bætti ég við 2-3 dl af nýju heitu kjúklingasoði á pönnuna og hræðri saman. Sveppunum var hellt út á pönnuna, 2-3 dl af rjóma, saltað og piprað. Soðið upp, smakkað til og bragðbætt eins og smekkur manns segir til. Síðan er kjúklingabringunum aftur bætt útí - hitað í gegn og borið fram í pönnunni.

isosunni.jpg

Með matnum vorum við einnig með nýjar kartöflur úr garðinum sem við höfðum tekið upp saman daginn áður. Það er meiriháttar, finnst mér, hvað grísirnir mínir höfðu gaman að því að taka upp kartöflurnar með mér.

_kartoflur.jpg

Kartöflurnar voru soðnar í söltuðu vatni í sex mínútur. Síðan settar í ofnskúffu með heitri andafitu og steiktar í smá stund, saltað og piprað og síðan sett inn í 200 gráðu heitan ofn í 30 mínútur. 

 salat_1101329.jpg

Með matnum gerði Valdís dóttir mín þetta fallega salat. Græn salatlauf úr garðinum, rauðar papríkur, vínber, rauðlaukur og svo niðurskorinn heimagerður mozzarellaostur. Smá olía, salt og pipar og balsamedik.

maturabor_um-1.jpg

Við drukkum gott vín með matnum. Terrazas de los Andes Malbec Reserva frá því árið 2008 sem er argentískt vín. Þetta vín er dökkt í glasi. Talsverður ávöxtur og krydd í nefið sem kemur líka fram í bragðinu. Gott eftirbragð - jarðbundið og langt. Gott vín sem er líka ágætt á veskið. 

Bon appetit!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mjög girnilegt og skemmtilegt blogg! Hef oft eldað eftir uppskriftunum hérna inni og alltaf heppnast vel (Kjúklingabringur í grófkorna dijon sinnepi og sýrðum rjóma eru í sérstöku uppáhaldi) Kíki alltaf reglulega inn, spennt hvort það sé komið eitthvað nýtt! Stundum sakna ég svolítið að þú segir hvernig þér fannst maturinn.. Eins og Mozarella osturinn leit út fyrir að heppnast vel, en fannst þér hann góður og myndirðu mæla með að prófa svona heima, t.d. borið saman við þennan keypta?

 En annars þakka ég fyrir mig og frábært og skemmtilegt íslenskt matarblogg! 

p.s það er pínu flókið að kommenta útaf þessu email-veseni.. gæti verið ástæðan fyrir kommenta skorti sem þú átt svo sannarlega ekki skilið. 

Helena (IP-tala skráð) 31.7.2011 kl. 22:07

2 Smámynd: Ragnar Freyr Ingvarsson

Sæl Helena.

Takk fyrir að líta við. 

 Osturinn heppnaðist ansi vel. Ég reyni að hafa það fyrir reglu að blogga bara um þann mat sem mér finnst hafa lukkast í eldhúsinu - það er nú lítið fjör að skrifa um eitthvað sem klúðraðist!

Osturinn varð aðeins í seigari kantinn miðað við búðarkeyptan. Ég hafði kannski tekið of mikin vökva frá honum - prófa að gera aðeins minna næst. En hann var mjög bragðgóður og frískandi - maður virkilega fann að maður var að gæða sér á ferskum ljúffengum nýjum osti...og svo var þetta nauðaeinfalt!

Ragnar Freyr Ingvarsson, 31.7.2011 kl. 22:29

3 identicon

Mikið er gott að fá að njóta afraksturs tilrauna þinna! Takk fyrir að deila þessu með okkur hinum.  Kem hér oft inn og les og prufa mínar útgáfur af þínum uppskriftum og hef gert frá því ég veit ekki hvenær :-)

Kveðja frá fastagesti!

Sigríður (IP-tala skráð) 1.8.2011 kl. 13:20

4 Smámynd: Birna Jensdóttir

Heill og sæll.Ég er fasta gestur á þessari síðu.Hef aldrei prófað neitt af uppskriftunum þínum.Ég fyllist hálfpartinn lotningu við að lesa þessi matarblogg þín og fyndist það vanhelgun að vera að setja út á eða breyta einhverju frá þér.'Ég myndi vilja koma í mat til þín einhverntíma við tækifæri og sjá þig elda eitthvað lostæti,en það er ekki hægt að bjóða öllum í mat sem lesa matrbloggið þitt,það yrði nefnilega u þ b helmingur þjóðarinnar ef ekki fleiri.Takk fyrir mig.

Birna Jensdóttir, 1.8.2011 kl. 13:54

5 identicon

Sæll Ragnar Freyr - ég hef lesið bloggið þitt í e-r ár, eldað fullt eftir síðunni og kommentað amk tvisvar:)  Mér finnst frábært hvað dóttir þín tekur mikinn þátt í eldamennskunni, eins og það er nú gaman og róandi að elda að þá er ekkert skemmtilegra en að hafa litla aðstoðarmenn. Póstarnir frá ferðalögum þínum eru snilld, ef þú átt leið um París á næstunni þá mæli ég með http://www.thelittlepariskitchen.com/ eða http://www.facebook.com/thelittlepariskitchen

hef ekki farið sjálf en heyrt að maturinn sé algjört bliss:)

Hrafnhildur Mooney (IP-tala skráð) 1.8.2011 kl. 14:49

6 identicon

Sæll,

Hef lesið matarbloggið þitt talsvert lengi. Fengið þar innblástur og hef gaman af þeirri ástríðu í matargerð sem þú býrð yfir.

En vildi alla vegana þakka þér fyrir og kvitta fyrir þ.a. það sé ljóst að það er fólk sem hefur virkilega gaman af þessu framtaki þínu þó við mættum vera mun duglegri að commenta og spyrja :).

kveðja,

Bjarki Magnússon (IP-tala skráð) 4.8.2011 kl. 11:31

7 Smámynd: Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir

Sæll,

Ég hef fylgst með þessu ferðalagi þínu í gegnum heim bragðlaukanna í einhvern tíma. Bíð alltaf með eftirvæntingu eftir næstu færslu og fæ vatn í munninn við lesningu.

Gerði loksins heimagert sushi eftir að ég las færsluna um sushi veisluna þína og tókst bara vel. Einnig eldaði ég 7 tíma lambalæri og fór alveg eftir leiðbeiningunum í færslunni þinni. Tókst alveg feikivel og fólkið sem var í mat hæstánægt.

Bestu þakkir fyrir girnileg blogg.

Kveðja.... 

Gunnhildur

Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir, 4.8.2011 kl. 14:29

8 identicon

Sæll Ragnar. Ég hef litið reglulega við síðasta árið og hef alltaf gaman af því að sjá hvað þú ert að sýsla í eldhúsinu :)

Nanna (IP-tala skráð) 7.8.2011 kl. 22:59

9 identicon

Heill og sæll Ragnar,

takk fyrir þessa frábæru síðu og uppskriftir. Ég er ekki mikill kokkur en er svo heppin að vera vel gift. Uppáhald okkar hjóna eru hreindýraborgararnir, maðurinn minn hefur verið svo heppinn að fá hreindýr í gegnum tíðina og því nóg af slíku kjöti í frystinum.

Ég les þetta blogg mjög reglulega, keep up the good work!

Sigrún Birna (IP-tala skráð) 8.8.2011 kl. 14:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband