Steiktar svínakótilettur með chevre chaud, nýjum aspas, ofnbökuðum kartöflum og rauðvínsglasi

Eiffel

Við hjónin brugðum okkur til Parísar í rómantíska helgarferð síðastliðna helgi. Það er búið að vera lengi á döfinni að fara og njóta "La Ville-Lumière - the city of light". Og núna gafst tækifærið. Síðastliðin helgi var löng helgi í Svíþjóð, á fimmtudaginn var uppstigningadagur og svo núna á mánudaginn var þjóðhátíðardagur Svíþjóðar. Við bættum bara við sumarleyfisdegi á föstudaginn og þá vorum við til í slaginn. Við flugum til Parísar á miðvikudagskvöldinu eftir stressandi vinnudag og gistum á litlu hóteli rétt við Eiffel turninn á bökkum Signu. Við náðum því að eiga fimm ljúfa daga í Borg ljósanna og nutum alls sem borgin hefur upp á að bjóða. 

porkTil að hita upp fyrir ferðina þá eldaði ég fransk-innblásna máltíð helgina áður. Eins og ég hef nefnt áður í einhverri færslunni þá hef ég mikið verið að lesa matreiðslubækur Stephané Reynauds sem er vinsæll franskur matreiðslumaður. Fyrsta bók hans, Pork and Sons, kom út árið 2007 og varð afar vinsæl. Síðan hefur hann gert nokkrar aðrar matreiðslubækur sem allar eru sérlega smekklegar. Þó finnst mér sú fyrsta alltaf best. Sú bók fjallar einvörðungu um rétti sem innihalda svínakjöt og er bókin í raun óður til svínsins. Inngangur bókarinnar, þar sem farið er í gegnum slátrunarferlið, setur tóninn fyrir uppskriftirnar sem eru ákaflega girnilegar. Eftir að hafa skoðað bókina - varð þessi uppskrift til. 

svínakótilettur 

Það var líka gaman að fara í bæinn til að versla fyrir þessa máltíð. Við hjóluðum niður í Saluhallen og keyptum svínakótilettur hjá vinum mínum í Holmgrens, ég gat ekki látið vera að kaupa eina sneið með beininu á. Svo rölti ég yfir til ostabásinn og keypti nokkrar sneiðar af frönskum geitaosti - Chevre. Geitaostur er auðvitað ekki allra en mér finnst hann sérstaklega góður, sér í lagi ef hann hefur verið eldaður - chevre chaud.

Núna á vorin og snemmsumars er aspastími hérna í norðanverðri. Þá er aspasinn bestur. Nálægt Lundi eru margir bændur sem rækta aspas. Maður getur hljólað til þeirra og verslað hann beint af bóndanum - alveg splunkunýjann. Það er auðvelt að læra þekkja ferskan aspas - stofninn er ennþá ferskur og ekki trénaður eins og þegar maður kaupir hann á veturna. 

aspas 

Í þessa færlsu skelli ég einu lagi úr myndinni Amelie - rétt svona til að setja mann í réttar stellingar fyrir Frakkland... og París og jafnvel Montmartrehverfið - en myndin gerist að mestu þar.  

Steiktar svínakótilettur með chevre chaud, nýjum aspas, ofnbökuðum kartöflum og rauðvínsglasi

 Ég byrjaði á því að setja svínakótiletturnar í pækil í 2-3 klukkutíma. Það er bæði til þess að bragðbæta kjötið en ekki síður til þess að færa vökva aftur inn í vöðvann - svo að það haldi sér meyru og góðu. Að útbúa pækil er afar einfalt. 3 lítrar af vatni, 1/2 bolli sykur, 1/2 bolli salt og svo krydd eftir eigin smekk. Ég setti krydd sem mér finnst sóma svínakjöti vel; nýmöluð fennelfræ, lárviðarlauf, salvía og nokkur piparkorn. Setti svo Svínakótiletturnar í og lét inn í kæli í 2-3 klukkustundir. 

pækill 

Að þeim tíma liðnum voru þær teknar upp úr pæklinum, þurrkaðar. Ég skar aðeins inn í fituröndina áður en þær voru steiktar til að flýta fyrir elduninni. Margir myndu skera eitthvað af fitunni af. Ég held þó að það sé betra að elda kjötið með fitunni, þannig hindrar maður einnig að kjötbitinn þorni upp, og svo getur maður valið hvort að maður skeri hana af á eftir. Steikt svínafita er líka ári góð þannig að fyrir syndaseli er gott að hafa hana meðferðis.

svín 

 Síðan var ekkert annað að gera en að bræða smá smjör/olíu á pönnu og steikja í stutta stund við miðlungshita þar til létt brúnaðar að utan. Setti kótiletturnar síðan í eldfast mót og inn í 180 gráðu heitan ofn í 15-20 mínútur. 

 aspas

Næsta skref var að grilla aspasinn á pönnu. Rétt áður hafði ég velt aspasnum upp úr smáræði af jómfrúarolíu, saltað og piprað og setti síðan á blússheita grillpönnu. Síðan er lítið annað að gera en að færa aspasinn á disk og jafnvel rífa smávegis parmaost yfir. 

aspas-1 

Við gerðum einnig ofnbakaðar kartöflur með matnum og fórum í öllu og einu eftir því sem ég skrifaði í færslu hérna um daginn. Sjá hér. Í stuttu máli gengur það út á að; flysja, forsjóða í 6 mín, vatn frá, sáldra hveiti yfir, salt og pipar, steikja í ofnskúffu og baka síðan í ofni í 45 mínútur.  Við höfðum keypt nýjar kartöflur frá Båstad. Það er ekkert betra en ný uppskera!

kartöflur 

 Þá var næsta skref að steikja chevre ostinn. Chevre osturinn sem ég keypti var hefðbundinn franskur geitaostur. Chaud þýðir bara að maður ber hann fram heitann - að þessi sinni steiktur á pönnu! Hann var skorinn niður í rausnarlegar sneiðar og settur á þurra pönnu. Þetta er fremur feitur ostur sem bráðnar vel þannig að það þarf ekkert að bæta fitu á pönnuna. 

chevre og salvía 

teyssier

Þegar búið var að steikja ostinn þá steikti ég nokkur salvíulauf upp úr smá olíu, bara í eitt augnablik, þau poppast aðeins og vera stökk á nokkrum sekúndum. Matnum var svo raðað fallega upp. Fyrst svínakótiletta á diskinn, svo ein sneið af að chevre geitaosti og svo nokkur salvíulauf. Þessi brögð, svínakjöt, chevre og salvía passa einkar vel saman!

Með matnum drukkum við auðvitað franskt vín með matnum. Að þessu sinni vorum við með flösku sem ég er búinn að eiga síðan í fyrra þegar við vorum á ferð okkar um Frakkland. Chateu Teyssier Grand Cru frá því 2006. Þetta er vín frá St. Emillion sem er í Bordeauxhéraði sem liggur í suðvesturhluta Frakklands. Við vorum þó ekki á ferðinni um þetta svæði í fyrra en það er engin afsökun fyrir að ekki smella sér á nokkrar flöskur af þessu ágætisvíni. Vínið, sem er unnið að mestu úr Merlot þrúgum og svo lítilræði af Cabernet Franc, er bragðgott vín. Dökkt vín, lyktar af þroskuðum ávöxtum og eik og sama er að finna í bragðinu. 

 svínogchevre

 Bon appetit!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Daði Hrafnkelsson

Sæll Ragnar,,

ég les bloggið þitt reglulega,, og finnst gaman,  ég hef lengi verið sjúkur í franskan mat og þessa uppskrift ætla ég að prófa um næstu helgi,, af góðum frönskum bókum mæli ég  með french cooking for pleasure, e mary reynolds,,

Daði

Daði Hrafnkelsson, 13.6.2011 kl. 19:02

2 Smámynd: Ragnar Freyr Ingvarsson

Saell Dadi

Takk fyrir ad kikja vid!

Var ad skoda bloggid thitt og skammast min fyrir ad segja ad eg hef ekki sed thad adur - er graenn af öfund. Hvilikur baer sem thu byrd a!

Hlakka til ad lesa i gegnum thad...en nuna sjuklingamottaka!

mvh, Ragnar

Ragnar Freyr Ingvarsson, 14.6.2011 kl. 06:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband