Ótrúlegir indverskir lambaskankar með hrísgrjónapilaf, grilluðu nanbrauði og karmelliseruðum gulrótum og íslenskum bjór

sítrónuroglime 

Var á Íslandi í seinustu viku í stuttri heimsókn. Náði að hitta heilmikið af vinum og ættingjum þrátt fyrir að ég var bara á skerinu í fimm daga. Ég gaf mér þessa íslandsför í 35 ára afmælisgjöf og tók þátt í Íslandsmótinu í skvassi. Það var virkilega skemmtilegt. Því miður náði ég ekki inn í meistaraflokkinn (Takk fyrir það Hilmar) en náði að vinna A flokkinn. Og varð bara nokkuð rogginn - þrátt fyrir að hafa ekki komist í meistaraflokkinn!

Ég fór líka í skoðunarferð um Reykjavík og var glaður þegar ég fór í gegnum miðbæinn. Mikið af fallegum nýjum gamaldags húsum og svo auðvitað Harpan - ég varð alveg orðlaus - þvílík bygging! Svo var veðrið líka ótrúlegt - umhleypingar - 20 ólík veður á einum degi, svona gerist bara á Íslandi! Ég var alveg uppgefinn eftir heimsóknina og það hefur endurspeglast hérna á heimasíðunni minni og ég hef verið latur við uppfærslurnar upp á síðkastið. 

 myntaogkoriander

Annars hefur allt verið á fullu síðan að ég kom heim. Nóg að gera í vinnunni, í garðinum, spila skvass og auðvitað elda. Tengdapabbi, Eddi, hefur verið hérna í heimsókn síðustu vikuna og við höfum reynt að dekra aðeins við hann. Hann hefur greitt með sér, verið duglegur að taka til og ganga frá eftir matinn og séð um að bursta tennurnar í syni mínum. Honum finnst mikið sport að afi hans, tannlæknirinn, sjái um tennurnar í sér. Það er svo sannarlega gott að hafa húskarl! 

Þetta er annars búnir að vera alveg einstakir páskar. Hérna hefur verið glampandi sól og tuttugu stiga hiti síðan snemma í seinustu viku og stefnir í annað eins næstu vikuna. Börnin hafa verið leikandi sér úti allan liðlangan daginn, allir léttklæddir í sólbaði, kynnt hefur verið á grillunum og grilllyktin, ilmur af elduðu kjöti, hefur legið yfir hverfinu. Stemningin hefur verið frábær.

Þessi réttur var gerður á föstudaginn langa. Bróðir minn stóð nærri því alfarið að matseldinni. Ég var honum aðeins innan handar við að skera niður hráefni, grilla nanbrauð og svo elda gulræturnar. En niðurstaðan var svo góð að það var ekki annað hægt en að gera grein fyrir þessu á blogginu. 

 krydd

Ótrúlegir indverskir lambaskankar með hrísgrjónapilaf, grilluðu nanbrauði og karmelliseruðum gulrótum og íslenskum bjór

marinering

Við sóttum lambaskankana í Saluhallen daginn áður enda þurfti að marinera kjötið í sólarhring. Byrjað er á því að stinga lítil göt í lambið svo marineringin geti smogið inn í kjötið. Marineringin er útbúin þannig að; 3 tsk cardamonfræ, 2 gulir laukar, 8 hvítlauksrif,  4 cm engifer, 3-5 græn chilli, 6 tsk cumin, 2 tsk negulnaglar, 2 ½ mtsk sítrónusafi og síðan 400 ml hrein óbragðbætt jógúrt eru sett í matvinnsluvél og maukað. Helmingnum af marineringunni er smurt vel á lambið og það síðan geymt í ísskap í einn sólarhring.  Daginn eftir er hinn helmingur af marineringunni ásamt möndlum, sykrinum og jógúrtinni maukað saman í matvinnsluvél og síðan smurt á lambið. Eldað á vægum hita, 160 gráður í 4 klukkustundir.

lambaskankar 

Borið fram með myntusósu - sem er hreint útsagt ótrúlega frískandi sósa; Hún er gerð á eftirfarandi hátt: tvö búnt af koriander og tvö búnt af myntu, 1 grænt epli (kjarnhreinsað), 1 grænn chilli,  2 msk af hreinni jógúrt, einn laukur, smá sítrónusafa, örlítið af hlynsýrópi, auðvitað salt og pipar. Þetta fær allt að hittast í matvinnsluvél og blandað vel saman. Borið fram í fallegri skál.  

nanbrauð 

Jæja þá að Nanbrauðinu. 500-600 ml af hveiti er sett í skál, smávegis af fínu salti og svo 2 msk af olíu. 3 tsk sykri er leyst upp í volgri mjólk og svo er gerið sett saman við og vakið í mjólkinni. Mjólkurgerblöndunni er svo blandað saman við hveitið og hrært saman. um 200 ml af Ab mjólk (eða jógúrt, eða fiftyfifty mjólk og Ab mjólk) hrært saman við og smávegis mjólk. Deigið er hnoðað þar til það verður mjúkt og meðfærilegt og hætt að klístrast við hendurnar á manni. Látið hefast í 30 mínútur (lengur ef það er hægt). Smábitar eru svo klipnir af deiginu og flattir út með fingrunum í lófastórar þunnar kökur sem eru pennslaðar með hvítlauksolíu og saltaðar með Maldon salti og svo grillaðar á blússheitu grilli.  

gulrætur 

Gerði einnig þennan gulrótarrétt. Flysjaði 5-6 stórar gulrætur og skar síðan niður í munbitastóra bita. Sauð þá þar til mjúkir í gegn í söltuðu vatni - 15 mínútur kannski. Vatninu síðan hellt frá og gulræturnar fá að kólna smávegis. Á meðan er karmella útbúinn í pönnu. Hálfur bolli af sykri er settur á pönnu og yfir hita, matskeið af vatni sett með. Sykurinn leysist fljótlega upp og brúnast lítillega - passa sig að láta þetta ekki brenna (bara yfir meðallágum hita). Þá er einni teskeið af þurrkuðu engifer sett saman við ásamt sama magni af kúmeni. Hrært saman. Gulrótunum þvínæst bætt saman við og brúnaðar í þessari sykurblöndu. Þegar vel hjúpað og klístrað sett í skál og svo smávegis af niðursneiddri steinselju bætt saman við.

salat 

Bárum fram mjög einfalt tómat- og lauksalat. 2 tómatar og laukar eru sneiddir niður næfurþunnt í mandólíni. Raðað á disk. Smá olía og hvítvínsedik sáldrað yfir. Saltað og piprað. Gerðum einnig hrísgrjónapilaf. Smjörklípa leyst upp í pönnu, síðan voru 3 smáttskorinn hvítlauksrif steikt þar til glansandi. Þá var 2 tsk af túrmeriki og 1 tsk af byriani bætt saman við og svo fjórir bollar af forelduðum hrísgrjónum. Steikt þar til hitað í gegn og farið að brúnast lítillega. Saltað og piprað. 

úlfur 

Með matnum fengum við okkur bjór - Íslenskan Úlf frá Bruggsmiðjunni Borg, sem ég hafði tekið með mér frá Íslandi. Þetta er Indian Pale Ale sem mér fannst passa ákaflega vel með indverskum mat, Bjórinn er bruggaður úr "pale" malti. Þessi tegund var fyrst brugguð á sautjándu öld í Englandi, nálægt höfn þar sem flutningsskip á leið til og frá Indlandi lögðust að höfn og var gjarnan flutt út til Indlands og þótti henta vel fyrir langa sjóferð og varð jafnvel betri fyrir vikið. Það skýrir nafngiftina. Úlfur er kraftmikil bjór sem vel þolir að standa við hliðina á bragðsterkum indverskum mat. Þetta er þurr bjór, bragðmikill og jafnvel beiskur - með ávaxtakenndum tónum. Fantagóður. Nafni minn, Ragnar Freyr - bjórmaður hefur einnig fjallað um þennan drykk á síðunni sinni, sjá hér.

matur 

Bon appetit! 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Aðalsteinsdóttir

Girnilegur lestur.  Held ég prófi þetta um helgina. 

Eftir allar girnilegu uppskriftirnar frá þér og innblásturinn datt mér í hug að gefa þér uppskrift að mjög góðu kryddmauki sem fer afar vel með vel krydduðu grilluðu og steiktu kjöti. Ég útbý þetta oft og stundum hef ég gefið þetta í jólagjafir og allir hafa verið hrifnir af því, meira að segja kokkarnir sem ég vinn með.

Ég á því miður ekki heiðurinn af þessari uppskrift, heldur áskotnaðist mér hún einhvers staðar á lífsins leið.

Mexíkó-kryddmauk

1 stk. hvítur laukur, saxaður

75 gr þurrkaðar apríkósur, saxaðar

50 gr sólþurrkaðir tómatar, saxaðir

2-3 fersk chilialdin (fleiri fyrir sterkt bragð)

1 msk. rifinn engifer

3 msk. fljótandi hunang

2-3 tómatar, saxaðir smátt (best að taka kjarnana úr að mestu)

1/2 dl ristaðar furuhnetur

1 msk. söxuð kóreanderlauf

salt og pipar.

Lauk, apríkósum, sólþurrkuðum tómötum, chili, engifer og hunangi blandað vel saman.  Síðan er tómötum, furuhnetum og kóreander blandað saman við og smakkað til með salti, pipar og meira hunangi ef þörf er á.

Fínt að gera þetta með nokkrum fyrirvara fyrir væntanlegt grillpartý, enda geymist þetta alveg ágætlega.

Best finnst mér að saxa þetta niður í höndunum, ég hef prufað að nota matvinnsluvél í sumt saxið, en þá varð þetta meira maukkennt.

Smakkast alveg dásamlega með grillmat á heitum sumardegi.

Verði ykkur að góðu.

Sigrún Aðalsteinsdóttir, 29.4.2011 kl. 22:57

2 Smámynd: Ragnar Freyr Ingvarsson

Sæl Sigrún.

Þakka þér fyrir uppskriftina - hljómar afar girnilega - prófa þetta næst þegar ég er að grilla.

Takk fyrir innlitið, Ragnar

Ragnar Freyr Ingvarsson, 30.4.2011 kl. 08:48

3 Smámynd: Sigrún Aðalsteinsdóttir

Sæll Ragnar.  Þú minnist á að bæta eigi möndlum og sykri út í seinni hluta kryddlagarins, en ég get hvergi séð magnið eða t.d. tegund sykurs?

Kveðja, Sigrún.

Sigrún Aðalsteinsdóttir, 21.5.2011 kl. 16:57

4 Smámynd: Ragnar Freyr Ingvarsson

Sæl Sigrún

Ætli við höfum ekki notað um það bil 100 gr af möndlum og síðan 2 msk af sykri.

Takk fyrir heimsóknina og gangi þér vel!

mbk, Ragnar

Ragnar Freyr Ingvarsson, 24.5.2011 kl. 19:46

5 Smámynd: Sigrún Aðalsteinsdóttir

Held ég hafi sirkað nokkuð vel á þetta, og herlegheitin brögðuðust vel. Notaði reyndar púðursykur.  Takk fyrir uppskriftina

Sigrún Aðalsteinsdóttir, 28.5.2011 kl. 01:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband