Kvæði í kross: Gómsætt grænmetislasagna ala Púkagrandi með hvítlauksbrauði

graenmeti 

Tengdamóðir mín var í heimsókn hjá okkur núna um daginn. Hún hefur nýverið tekið matarræði sitt í gegn og kellan leit barasta vel út (það eru takmörk fyrir því hvað má tala bæði vel/illa um tengdamóður sína). Alltént nefndi hún það að hún væri afar dugleg að borða grænmetisrétti á virkum dögum. Mér finnst grænmeti dásamlegt en það verður að segjast að ég set það sjaldan í hásæti og hef það sem aðalrétt. Yfirleitt alltaf sem meðlæti - og nóg af því en alltaf sem meðlæti.

Þeir sem lesa þessa heimasíðu sjá glögglega að ég er kjötæta - galore - og veit fátt betra. En grænmeti er gott og ekki bara það... það er mjög gott. Við njótum þess hér á Skáni að það er mikill landbúnaður og mikil ræktun á allskonar grænmeti all í kringum okkur. Einnig hef ég  verið að rækta sjálfur; nokkrar tegundir af kartöflum, gulrætur, kúrbít; er með nokkur berjatré, jarðaber, tómata og svo hef ég verið með heljarinnar kryddframleiðslu; steinselju, basil, bergmyntu, margar tegundir af timian, rósmarín, Fáfnisgras, graslauk, lárviðarlauf, salvíu og majorram. Og ég ætla að stækka við mig á næsta ári og bæta við fleiri beðum og fleiri pottum.

rada 

Ég biðst annars velvirðingar á letinni á blogginu mínu. Ég hef reynt að hafa eina bloggfærslu vikulega - einstaka sinnum meira - en hef ekkert látið bæra á mér seinustu tvær vikur. Á því eru góðar skýringar. Ég var að ljúka rannsóknarvinnu sem tók aðeins á og svo var ég á vinnutengdu ferðalagi vikuna sem leið. Það var mikið að gera og engin orka eftir þegar heim var komið á kvöldin - hvorki til að elda né til að blogga. Reyni að gera bragarbót á desembermánuði - sem ég held að verði rólegur og góður.   

Kvæði í kross: Gómsætt grænmetislasagna ala Púkagrandi með hvítlauksbrauði 

Þessi réttur er ágætur svona fyrir jólin. Það er um að gera að reyna að elda léttar og borða nettar þessa daga áður en mesta átveisla ársins hefst. Við áttum mikið af grænmeti; kúrbít, kartöflur, eggaldin og nýpu (parsnip). Grænmetið var allt sneitt niður í mandólíni - þannig að sneiðarnar verða þunnar og eldast betur.

Hvíta sósan var líka gerð úr grænmeti; sauð einn blómkálshaus í söltuðu vatni, síðan var vatninu hellt frá (smá skilið eftir). Því næst hellti ég smá skvettu af mjólk, salt, pipar og síðan bætti við grænmetistening. Þeytt saman með töfrasprota.

rada2 

Svo var að gera tómatsósuna. Fyrst að steikja einn smátt skorinn hvítan lauk og nokkur smátt skorin hvítlauksrif í heitri olíu, salta og pipra. Steikt í nokkrar mínútur þangað til að laukurinn er orðin glansandi og jafnvel þannig að hann fari að karmelliserast - þetta tekur smá tíma og verður að gera við heldur lágan hita svo að laukurinn brenni ekki. Þá er að bæta saman við tveimur dósum af niðursoðnum ítölskum plómutómötum, matskeið af tómatpure. Salt og pipar. Ef sósan er súr - þarf að sæta hana. Það má gera á ýmsa vegu; sykur, hunang, síróp eða tómatsósa. Take your pick. 

 rada3 

Síðan er ekkert annað að gera en að raða þessu í eldfast mót eftir kúnstarinnar reglum; sósurnar fyrst, svo plötur, sósa, grænmeti, sósa, plötur, sósa, grænmeti - þið fattið hvað ég er að fara. Í lokin er ostur raspaður ofan á og eldafasta mótinu síðan rennt inn í forhitaðan ofn og bakað í klukkustund við 180-200 gráður. Ágætt er að stinga í lasagnað til að vera viss um að kartöflurnar séu eldaðar. Eins og sjá má á myndunum setti ég hvítlauksolíu í botninn og síðan reif ég nokkur basillauf og dreifði með á milli laga! 

Bar þetta fram með heimagerðu hvítlauksbrauði, baguette skorið í helminga og smurt með smá hvítlauksolíu og síðan bakað í ofninum þar til gullinbrúnt.

lasagna 

Bon appetit! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband