Ljómandi kjúklinga tagine með kanil, þurrkuðum apríkósum og couscous með hvítvínssopa

img_2899.jpg 

Eitt af hliðarverkefnum Frakklandsferðarinnar var að finna verslun sem seldi Le Creuset Tagine. Í Bruges í Belgíu sá ég eina í lítilli verslun í einni af hliðargötum borgarinnar. Reyndist heldur dýr, 129 evrur, þannig ég var viss um að ég myndi fá hana á betra verði í einhvers staðar í Frakklandi. En allt kom fyrir ekki. Ég sá ekki einn einasta Le Creuset pott í þeim fjölmörgu verslunum sem ég stakk nefinu inn í, ekki nokkur staðar í þeim borgum sem við stoppuðum í - ekki einn einasta!

Ég hafði því gefið upp alla von að finna mér svona pott en var svo heppinn að detta inn á götumarkað í Strassborg þar sem ég fann þessa fínu, marokósku tagínu. Og hún var ódýr. 37 evrur! Sparaði fullt af pening. Sölumaðurinn gaf mér ýtarlegar leiðbeiningar hvernig átti að meðhöndla pottinn. Fyrst í bað í sólarhring, síðan fylla hana af mjólk og láta liggja í nokkra klukkustundir, skola vel og smyrja síðan með olíu. Fara varlega þegar hún er hituð upp. Fullt af reglum. Alltént hún lítur vel út.

Annars hef ég lengi haft hug á því að kaupa mér tagine. Og hvað er tagine nú eiginlega? Tagine er ákveðin tegund af potti/pönnu venjulega gerð úr þungum leir, terracotta, sem er með einkennandi loki sem oftast hefur keilulaga útlit. Svona eldunarílát eru ákaflega algeng í Norður Afríku; Marokkó, Líbíu, Túnis en ekki eins algeng í Evrópu. Það er þó eitthvað að fara að breytast. Evrópsk pottafyrirtæki hafa nýverið byrjað að framleiða svona potta, bæði Le Creuset, Emily Henri og Staub. Í síðasta hefti matartímarritsins Bon appetit var grein um ágæti þessarar tegundar eldunaríláta.

Og hvað er svona sérstakt við þessa potta? Það er kannski erfitt að lýsa því. Sumir færa rök fyrir því að lögunin geri það að verkum að vökvi safnist á annan hátt í lokið sem síðan þéttist aftur og fellur niður í kássuna sem verið er að elda - og þannig verður maturinn ekki eins þurr. Tagine þykir afar hentugt til langeldunar. Það er einnig hugsað að vera hentugt ílát til að bera matinn á borð í. Svo er hún auðvitað sniðin að matarhefðum þessa svæðis, þannig að auðvelt er að taka matinn upp úr tagínunni með höndunum eða brauðhleif eins og við á.  

img_2974.jpg

Ljómandi kjúklinga tagine með kanil, þurrkuðum apríkósum og couscous með hvítvínssopa 

Ætli ég hafi ekki notað samtals 1,5 kíló af kjúklingaleggjum og upplærum. Fyrst skar ég af alla fitu og jafnvel alla húð. Síðan hitaði ég varlega olíu/smjör í tagínunni og þegar það var bráðið bætti ég við kryddunum; 2 tsk af kanil, 2 tsk af þurrkuðum engifer, 1 tsk af svörtum nýmuldum pipar, hálf teskeið af ceyenne pipar. Steikti kryddið um stund - lyktin í eldhúsinu verður auðvitað alveg dásamleg. Þá setti ég tvo lauka, niðursneidda, út í olíuna og steikti í nokkrar mínútur. Þá var kjúklingum bætt saman við og hann brúnaður í nokkrar mínútur á hvorri hlið. Þá er 400 ml af góðu kjúklingassoði bætt saman við og svo 250 gr af gróft niðurskornum þurrkuðum apríkósum bætt saman við. Og síðan 3 msk af góðu hunangi hrært saman við og að lokum eru nokkrar vænar kóríandergreinar (auðvitað með laufunum á) lagðar ofaná. Þá er saltað vel og piprað og lokið sett á og þessu leyft að sjóða við lágan hita í tæpa klukkustund.

img_2976_1034501.jpg 

Rétt áður en maturinn er tilbúinn útbjó ég couscous eins og fram kemur á pakkanum og bar fram með matnum. Ég blandaði saman við couscous-ið nokkrum smátt skornum tómötum, agúrku, rauðlauk og nokkrum smátt skornum klettasalatsblöðum. Rétt áður en maturinn var borin fram, tók ég koríander greinarnar úr og henti og setti í stað þess nokkur fersk smátt skorinn lauf. Síðan sáldraði ég nokkrum ristuðum möndlum yfir og bar fram!

Með matnum vorum við með ljómandi gott hvítvín. Vín sem ég fékk mér seinast í fyrra. Eitt af mínum uppáhalds Chardonnay-um. Gullið og fallegt í glasi. Talsverður sætur ávöxtur kemur í ilminum. Ávaxtaríkt á tungu, þykkt og smjörkennt. Ljómandi gott.

Þetta var einn af fyrstu réttunum sem ég eldaði eftir að við komum heim úr Frakklandsferðinni. Og var alveg frábær. Engin vafi að ég eldi þennan aftur. 

img_2967.jpg 

Bon appetit! 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ragnar takk fyrir gott og fróðlegt sem alltaf er gagn og gaman af

Langar að vita seturðu Le Creuset á hellu eða í ofn

sæmundur (IP-tala skráð) 14.10.2010 kl. 21:49

2 Smámynd: Ragnar Freyr Ingvarsson

Sæll Sæmundur

Le Creuset má setja á gas, span, keramík og í ofn. Frábær eldunartæki. Og líka falleg að mínu mati.

mbk, Ragnar

Ragnar Freyr Ingvarsson, 15.10.2010 kl. 05:25

3 identicon

Potturinn fæst líka í IKEA...

http://www.ikea.is/products/4579

Elín (IP-tala skráð) 17.10.2010 kl. 22:23

4 identicon

algjör snilld, langar að prófa!

Annars erum við að elda "Hreindýragúllas veiðimannsins á vindasömu haustkvöldi" - spennt að smakka!

Kíki alltaf fyrst á síðuna þína ef ég er að elda úr hreindýri eða vantar bara innblástur :)

kær kveðja,

Kristín Jóna (IP-tala skráð) 18.10.2010 kl. 22:59

5 identicon

Sæll Ragnar

Geturu sagt mér hvort Le Creuset má fara á venjulega eldavélarhellur ?

Ég held að Ormson hafi líka verið að selja þá í Emile Henry línunni.

Bryndís (IP-tala skráð) 19.10.2010 kl. 14:12

6 Smámynd: Ragnar Freyr Ingvarsson

Sael Bryndis

Thad ma setja Le Creuset a hvada eldavel sem er, gas, span, keramik, og venjulegar hellur og inn i ofn.

Gangi ther vel i eldhusinu.

mbk, Ragnar

Ragnar Freyr Ingvarsson, 20.10.2010 kl. 13:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband