Seiðandi vanillupannacotta með íslensku jarðaberjacoulis og ferskum jarðarberjum

 

Það er ekki á hverjum degi sem ég blogga um eftirrétti eða sætmeti. Ég verð eiginlega að viðurkenna að það kemur heldur sjaldan fyrir að ég bjóði upp á eftirrétti. Yfirleitt upplifi ég að það sé hreinlega nóg að bera fram forrétt og aðalrétt þegar maður er með gesti í mat. En það eru ekki allir sammála því - og stundum brýt ég út af vananum.

 

Og þá finnst mér best að gera klassíska eftirrétti; pavlovu, creme brulée, sabayon, eplaköku með vanilluís, heimagerðan ís, perur Helenu fögru - eða eitthvað eins og í þessum dúr - Pannacotta.

Þetta er lygilega einfaldur eftirréttur - sem er hreint út sagt ótrúlega ljúffengur!

 

Hann byggir auðvitað á einföldum hráefnum - sem verða að vera í toppformi. Auk rjómans sem er auðvitað í forgrunni skiptir máli að nota góða vanillu - þá bestu fær maður í Krydd og tehúsinu í Þverholtinu - kraftmikil og ljúffeng, pökkuð af bragði.

 

Seiðandi vanillupannacotta með íslensku jarðaberjacoulis og ferskum jarðarberjum

 

Þetta er ítalskur eftirréttur eins og nafnið gefur til kynna, en það fór ekki að bera á þessum rétti í matreiðslubókum á Ítalíu fyrr en á sjötta áratug síðustu aldar. Eitthvað þessu líkt var þó eldað löngu fyrr en þá undir öðru nafni, Latte Inglese. Þessi uppskrift á rætur að rekja til Piedmonte héraðs og er þar skráð sem einn af þeim réttum sem einkenna svæðið.

 

Fyrir sex

 

Fyrir pannacotta

 

5 dl rjómi

3 dl nýmjólk

100 g sykur

5 gelatínblöð

1 stór vanillustöng

 

Fyrir jarðaberjacoulis

 

700 g jarðaber

1/2 krukka ósæt jarðarberjasulta

100 ml vatn

 

 

Byrjið á því að leggja gelatínblöðin í kalt vatn í nokkrar mínútur svo þau verði mjúk. 

 

 

 

Hellið rjómanum í pott ásamt nýmjólkinni og hitið.

 

 

 

 

Næst er að kljúfa vanillustöngina og hreinsa út fræin. Setjið þau saman við rjómann og mjólkina og hrærið vel.

 

 

 

Það er ágætt að setja sjálfa vanillustöngina með, einnig á meðan rjóminn er hitaður þar sem það gefur aukið bragð.

 

 

Hitið að suðu, lækkið undir og látið standa í nokkrar mínútur til að vanillan bragðbæti rjómann eins mikið og unnt er.

 

 

Hrærið svo gelatínplötunum saman við þannig að þær leysist alveg upp í vanillurjómanum.

 

 

Látið svo kólna í smástund og hellið svo yfir í mót eða glös. Setjið í kæli í 4 klukkustundir svo að búðingurinn nái að stífna. 

 

 

Næst eru það jarðarberin. Skolið þau, skerið laufin af, saxið gróflega og setjið í pott með vatninu. Hleypið upp suðunni.

 

 

Bætið sultunni saman við og og sjóðið niður (í 20-30 mínútur við lágan hita) þannig að úr verði þykkur grautur. Látið kólna aðeins og hellið honum svo í gegnum sigti þannig.

 

 

Þá eruð þið búin að útbúa coulis sem má í raun nota í hvað sem er. Með skeið setjið þið coulisinn varlega ofan á stífann búðinginn.

 

 

 

 

Svo er bara að skreyta með sneiddu jarðarberi og njóta.

 

Njóta fram í fingurgóma.

 

Bon appetit!

 

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 6. júní 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband