Stórkostlegur humar vinterdor - með gullosti, rjómaosti og dijon á salatbeði - sælgæti

 

 

Við höfum verið í Ölpunum núna í vikutíma - og dvalið eins og svo oft áður hjá vinum okkar Dodda og Þurí á Skihotel Speiereck. Ég held að við séum búin að koma hingað ellefu eða tólf sinnum síðustu tíu árin. Sumir myndu spyrja af hverju maður breyti aldrei til, en ástæðan er einföld; það er vegna þess að hingað er ótrúlega gott að koma með fjölskyldunnni. Börnin una sér ljómandi vel bæði á hótelinu og svo í skíðaskólanum. Öll börnin okkar hafa lært að skíða í St. Michael Schischule. Núna síðast Ragnhildur Lára sem í dag skíðaði með okkur alveg vandræðalaust með bros á vör. Í þessa ferð vantaði þó frumburðinn okkar, Valdísi Eik, sem ekki komst með vegna skólans. Við söknuðum hennar mikið! 

 

 

Svo elska ég að fara í skíðafrí - þar sem maður fær að leika sér allan daginn. Vakna snemma, borða góðan morgunmat og fara út að leika sér allan liðlangan daginn í snjónum. Það er dásamleg tilfinning að líða niður brekkurnar - einhver barnaleg tilfinning sem heldur manni gangandi allan daginn. Ég held að við séum búin að skíða rúma tvö hundruð kílómetra þessa vikuna. Maður á því inni að borða góðan mat og skála í ljúffengum bjór! Proscht! 

 

En að öðru, þennan rétt eldaði ég helgina áður en við fórum í frí. Ég hafði keypt talsvert af humar fyrir jólin og gerði góðan díl á tæpum þremur kílóum af humri. Ég átti því afgang í frystinum sem þurfti að huga að. 

 

Humar vinterdor - með gullosti, rjómaosti og dijon á salatbeði - sælgæti

 

 

Þessi réttur var í bókinni minni, Veislunni endalausu, sem kom út árið 2014. Þá kallaði ég réttinn Humar um sumar - og var mín útgáfa af Humar Thermidor sem er fræg frönsk uppskrift. Þessi réttur varð til á veitingastaðnum Marie's í París árið 1894. Hann var gerður til heiðurs leikstjóranum Victorien Sardou en hann hafði þá frumsýnt leikverkið Thermidor. Titill verksins er vísan í mánuðinn Thermidor - júlí - en eftir frönsku byltinguna breyttu byltingamenn heitum mánaðanna eftir sínu höfði til að afmá áhrif fyrri valdhafa. 

 

Þessi uppskrift er að sjálfsögðu aðeins breytt - nóg til að skipta um titil. Að þessu sinni ákvað ég að nota uppáhaldsostinn minn - gullost. Gullostur og humar saman geta ekki orðið annað en eitthvað dásamlegt - og það varð það, fullkomlega dásamlegt. 

 

Hráefnalisti 

 

Fyrir fimm sem léttur forréttur

 

10 stórir humarhalar

2 msk rjómaostur

1 msk sýrður rjómi

1 msk mæjónes

1 tsk djion sinnep

50 gr smátt saxaður gullostur

1/2 tsk cayenne pipar

2 eggjarauður

salt og pipar

1 msk smátt skorin steinselja

3 msk brauðmylsna

 

 

 

Blandið eggjarauðum, sinnepinu, mæjónesinu, sýrða rjómanum og rjómaostinum saman í skál. Bætið cayenne pipar saman við.

 

 

Skerið ostinn fínt niður og saxið steinseljuna og hrærið saman við. Smakkið til með salti og pipar. Geymið í kæli á meðan hugað er að humrinum. 

 

 

Hafið 11 ára metnaðarfullt og vandvirkt afsprengi til taks og látið það sjá um að sinna humrinum. 

 

 

Kennið afsprenginu hvernig á að opna humarinn, hreinsa görnina út og stilla upp þannig að humarinn haldi fyllingunni og hún renni ekki út. Líkur á því að afsprengið finni sér maka hafa nú aukist um 15% - að minnsta kosti. 

 

 

Smyrjið fyllingunni í humarskelina. 

 

 

Stráið brauðmylsunni yfir í nokkuð jöfnu lagi. 

 

 

Setjið undir blússheitt grillið og grillið í 3-4 mínútur þangað til mylsnan hefur tekið lit. 

 

 

 

Leggið á disk með nokkrum grænum laufum. 

 

 

Það er ekki úr vegi að skála í smá kampavíni. Ég bauð upp á Mumm Demi Sec kampavín - sem er auðvitað frá Champagne héraðinu - annars mætti það ekki heita kampavín. Þetta vín er frá svæðum í kringum Reims - sem er aðeins norðan við Epernay (höfuðstaður kampavínsins). Þetta vín er blanda úr Pinot Meunier (50%), Pinot Noir (35%), Chardonnay (15%) - og úr verður fallega fölleit freyðandi vín sem ilmar af ávöxtum og er létt og frískandi á tungu. 

 

Þetta lyftir manni upp á vetrarkvöldi. 

 


Bloggfærslur 5. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband