Örjurtinar frá Snjallbýli Stefáns Karls - hvítlauksglóðuð bruschetta með plómutómötum, mozzarella og ör-basil og svo fjögurra fiska ceviche með ör-kóríander

 

Ég las einhvers staðar að Stefán Karl Stefánsson leikari væri orðinn garðyrkjubóndi. Og ekki bara venjulegur garðyrkjubóndi heldur væri hann búinn að innrétta gám í hrauninu í Hafnarfirði og ræktaði þar "örjurtir" eða microgreens eins og það er kallað á ensku. Hann er augljóslega það heitasta í garðyrkubransanum í dag og var meira að segja til umfjöllunar Kastljóssins, mánudaginn 29. ágúst síðastliðinn. Ég hafði upp á honum á Facebook og spurði hvort að ég mætti ekki koma og kynna mér það sem hann hefði verið að gera!

 

Og af hverju er ég eitthvað að hugsa um þetta? Svarið er einfalt - maður er einfaldlega að sækja sér innblástur. Það er gaman að sjá fólk takast á við áskoranir eins og það að stofna nýtt spennandi fyrirtæki, sérstaklega í matvælaframleiðslu! Það er líka svo áhugavert að sjá hvernig hugmynd sem einhver fær - getur orðið að einhverju - einhverju raunverulegu sem hægt er að horfa á, halda á og í þessu tilfelli - borðað.

 

Ég dvaldi drykklanga stund hjá Stefáni og fékk að smakka ólíkar spírur; baunagrös, karsa, sólfræspírur, sinnepsfræsspírur, kóríander, basil, timian, súrur ásamt mörgum fleiri tegundum sem hann er að rækta um þessar mundir. Stefán leysti mig svo út með nokkrum tegundum af ör-jurtum til að prófa og bæta matargerðina mína.

 

Örjurtinar frá Snjallbýli Stefáns Karls - hvítlauksglóðuð bruschetta með plómutómötum, mozzarella og ör-basil og svo fjögurra fiska ceviche með ör-kóríander

 

Auk þess að nota baunaspírur í salöt, sinnepsfræsspírurnar í kartöflumús og svo karsa í kartöflusalat gerði ég þessar tvær uppskriftir sem mér fannst nauðsynlegt að deila með ykkur. 

 

 

Það fyrsta sem maður sér þegar maður rekur inn trýnið er taflan þar sem vinnuplan vikunnar liggur fyrir - hverju þarf að sá, fyrir hvaða tíma og hvar/hverjum það er afhent. Þar sér maður líka hvurslags fjölbreytni þarna er að finna.

 

 

Allt byrjar þetta með moldinni. Stefán Karl flytur inn mold þar sem engum aukaefnum hefur verið bætt við - engin viðbótarefni! En þar er þó að finna öll næringarefni sem fræið þarf á að halda til að

spíra.

 

 

Bara eftir rúman sólarhring eftir að fræjunum er sáð spíra þau. Þau eru fljót að þroskast þar sem þau skjóta rótum við sérstök skilyrði með hærri hita og stýrðu rakastigi. Þannig eru þau fljótari en ella að ná sér á strik.

 

 

Rétt um 2-3 sólarhringum síðar eru spírurnar teknar úr hitakassanum og færðar í "almenna farrýmið" þar sem þær fá að spretta nokkra daga í viðbót áður en þær eru sendar út í heiminn. 

 

 

 

Eins og nefnt var að ofan er Stefán að rækta heilmikið af ólíkum jurtum sem hann selur mest til veitingastaða á höfuðborgarsvæðinu.

 

 

Það ekki leiðinlegt að sækja sér innblástur í smiðju svona skapandi manna.

 

Fyrsta vers; Hvítlauksglóðuð brúsketta með smágerðum plómutómtöum, mozzarella og örbasil 

 

 

Þetta er svo auðveld matseld að það tekur því varla að skrifa upp hráefnalista.

 

 

Skerið handfylli af smáum plómutómötum í bita og setjið í skál. Hellið tveimur matskeiðum af jómfrúarolíu saman við. Sneiðið mozzarellaostinn í samskonar bita og blandið saman við tómatana. Saltið og piprið. Blandið helmingnum af basilinu saman við og geymið afganginn til skreytingar.

 

 

Penslið niðurskorna baguettu með kröftugri hvítlauksolíu og glóðið í blússheitum ofni. 

 

 

Svo er bara að tylla tómat- og mozzarella blöndunni ofan á sneiðarnar og setja síðan veglega af ör-basil yfir.

 

 

Þetta var einstaklega ljúffengt - "intensívt" og bragðgott.

 

Annað vers; Fjögurra fiska ceviche með melónu og ör-kóríander

 

Þetta er ótrúlega einfaldur og ljúffengur forréttur sem ég útbjó fyrir kollega mína frá Svíþjóð sem komu hingað nýlega í tengslum við norrænu gigtarráðstefnuna sem haldin var í Hörpu liðna helgi.

 

Ég notaði 300 g af hverri fisktegund; lax, hörpuskel, lúðu og smáhumar sem var skorið niður í hentuga bita og sett í skál með safa úr 3 sítrónum, 3 límónum, 5 msk jómfrúarolíu, berkinum af bæði límónunum og sítrónunum. Piprað. Ekki þarf að salta fiskinn á þessu stigi. Bætti einnig handfylli af steinselju saman við. Þetta var svo sett í ísskáp yfir nótt og hrært í þessu nokkrum sinnum.

 

Eftir sólarhring er fiskurinn tilbúinn. Sítrónu og límónusafinn hefur umbreytt fisknum þannig að hann er í raun eldaður. Vökvanum er síðan hellt frá. Skar niður melónu í litla bita og blandaði saman við fiskinn ásamt talsvert af ör-kóríandernum. Saltaði og pipraði eftir smekk.

 

Borið fram með ristuðu hvítlauksbrauði og einfaldri hvítlaukssósu (sýrður rjómi, hvítlaukur, salt og pipar, skvetta af hlynsírópi).  Svo setti ég nóg af ör-kóríander ofan á til skreytingar.

 

Einstaklega ljúffengt!

 

 

Í veislunni með kollegum mínum bar ég fram nokkra rétti og var með að auki; moules marniere, marineraðar og djúpsteiktar gellur (láðist að taka mynd af tilbúnum réttinum) og svo glóðaða þorskhnakka með skorðalía kartöflumús og ansjósusmjöri. Í eftirrétt var svo akút ostakaka (sem kemur á bloggið von bráðar)

 

 

 

Með þessum réttum bar ég fram þetta ljúffenga nýsjálenska vín - Brancott Estate Sauvignion Blanc frá því 2014. Fyrri árgangar þessa víns hafa unnið til verðlauna. Þetta er fallega fölgult vín í glasi. Mjúkur jarðkenndur ilmur og svo mikil ávöxtur í bragðinu með smá kryddi og þægilegu eftirbragði.

Þetta vín passaði ljómandi vel með matnum.


Skelfisksveisla á grillinu: glóðuð hörpuskel og dásamleg Moules marniere

 

Ég veit ekki hversu oft ég hef sagt það en fiskmeti á Íslandi er engu líkt (kannski að Norðmenn og Færeyingar hafi það líka svona gott). Ég borðaði fisk allaveganna þrisvar sinnum í síðustu viku. Fyrst á mánudaginn þegar bróðir minn eldaði spriklandi ferskan steinbít í indverskri sósu. Svo grillaði ég lax á þriðjudeginum og á fimmtudaginn hafði ég þessa ljúffengu veislu.

 

Ég sótti fisk til vina minna í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum. Planið var alltaf að gera krækling á grillinu en þegar ég kom inn í búðina blasti við mér þessi dásemd - íslensk hörpuskel úr Breiðafirðinum. Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé hörpuskel í skelinni ferska í borðinu hjá fisksalanum. Það má vera að þetta sé alvanalegt síðustu misseri, en ég var að flytja til landsins - þannig að fyrir mér var þetta nýtt - dásamlega, ferskt, ilmandi af köldu hafinu. Ég gat auðvitað ekki staðist freistinguna. Mér skildist á fisksalanum mínum að skelfiskurinn kæmi ferskur frá Breiðafirði á hverjum miðvikudegi.

 

Skelfisksveisla á grillinu: Glóðuð hörpuskel og dásamleg Moules marniere

 

Oftast er hörpskel seld frosin - en þegar hún er svona fersk í skelinni þarf aðeins að hafa fyrir hlutunum. En þetta er hið einfaldasta mál - ég fann leiðbeiningar á Youtube og málið var leyst á fjórum mínútum. Skelin er þvinguð upp, skorið með sveigjanlegum hníf eftir botninum á flata hluta skeljarinnar og hún svo opnuð. Gripið er um svarta magasekkinn og hann togaður yfir hörpudiskinn þannig að restin af meltingarfærunum rennur bara af með sekknum. Svo þarf að snyrta aðeins til. Skera hana lausa frá botninum. Einfalt og skemmtilegt.

 

Glóðuð hörpuskelina

 

75 g smjör

25 ml sjérríedik

1 skalottulaukur

1 msk steinselja

1/4 rauður chili

salt og pipar

 

 

 

 

Opnið og hreinsið skeljarnar eins og lýst er hér að ofan. Skolið þær vandlega.

 

 

Bræðið smjörið í potti og steikið smátt skorinn skalottulauk og chili við lágan hita. Bætið svo sjérríediki saman við, ásamt smátt skorinni steinselju. Saltið og piprið.

 

 

Blússhitið ofninn með grillið á fullu og glóðið þannig hörpuskelina í tvær til þrjár mínútur - ekki meir því annars verður hún seig. 

 

 

Það er gott að bera fram smá súrdeigsbrauð með skelinni til að sjúga í sig afganginn af smjörinu sem verður dásamlegt saman. 

 

Moules Marniére

 

Fyrir fjóra til fimm

 

1,5-2 kg splunkuný hörpuskel

2 skalottulaukar

4 hvítlauksrif

1/2-1 rauður chili

100 gr smjör

150 ml hvítvín

250 ml rjómi

handfylli af steinselju

salt og pipar

 

 

Skolið skelina vandlega. Hendið opinni eða skemmdri skel. Ef skelin er smávegis opin er gott að banka aðeins í hana - ef hún lokar sér er hún ennþá lifandi og í lagi að borða hana.

 

 

Skellið wokpönnunni á grillið. Flest Webergrill eru nú með grind þar sem hægt er að taka úr hluta hennar og tylla þar í wokpönnu sem er kjörin til verksins. 

 

 

Skerið laukinn, hvítlaukinn og chilipiparinn smátt og steikið í smjörinu. 

 

 

Hellið svo kræklingum á pönnuna. 

 

 

Veltið honum upp úr lauknum og smjörinu. Steikið í eina til tvær mínútur. Hrærið á meðan.

 

 

Setjið næst vínið í pönnuna og sjóðið upp áfengið. 

 

 

Næst er bætt í rjóma sem hitaður er að suðu. 

 

 

Hrærið vandlega. 

 

 

Þegar kræklingur opnar sig er hann tilbúinn. Þetta ætti ekki að taka nema sjö til átta mínútur í mesta lagi. 

 

 

Svo er bara að skreyta þetta með ferskri steinselju. Einfaldara og ljúffengara getur þetta varla verið. 

 

 

Með þessum réttum fengum við okkur smá tár úr þessari búkollu. Vina Maipo Sauvignion Blanc frá Chile. Þetta er ágætis sopi. Auðvelt, smá epli saman við ávöxtinn og með léttu eftirbragði. Passaði vel með skelinni. 

 

 


Heilgrillaður grís í kveðjuveislu í Lundi með ljúffengu waldorf salati með eplum úr garðinum

 

 

Íslenska sumarið heldur áfram! Allir sem ég hitti á förnum vegi, hvort sem það er í vinnu eða þar fyrir utan segja að þetta hafi verið besta sumar í langan tíma. Og það virðist ekkert slá slöku við, alltént ekki ef litið er til seinustu daga. Í gær var glampandi sól og dásamlegt veður. Það var meira að segja hlýtt þegar við fórum úr húsi á leið í vinnu um morguninn. Eins og ég hef án efa nefnt, þá hef ég hafið störf á lyflækningadeild landspítalans og starfa á bráðalyflækningadeild með hóp reyndra lyflækna og metnaðarfullra námslækna í lyflækningum. Það veitir manni óneitanlega innblástur að vera partur af hópi svo góðra samstarfsmanna. Svo hóf ég einnig rekstur stofu í Klíníkinni í Ármúla með kollega mínum, Hjálmari Þorsteinsyni - bæklunarlækni, en við ætlum að prófa að veita alhliða stoðkerfisþjónustu í Klíníkinni. Þar tökum við á móti fólki með stoðkerfissjúkdóma með beiðni frá öðrum læknum. 

 

 

 

Í gær héldum við líka upp á fjögurra ára afmæli örverpisins, Ragnhildar Láru, sem byrjaði daginn með því að spyrja hvort að afmælisdagurinn hennar væri runninn upp - "is it my birthday today?" og svo "there has to be a celebration!" Við héldum upp á lítið afmæli í dag en svo verður blásið til almennilegs fjölskylduafmælis á sunnudaginn. Meira um það síðar. Hún var allaveganna afar ánægð með að vera stjarna dagsins - fékk pakka, köku og ís og var alsæl. Vonandi verður hún líka ánægð með afmælið sitt.

 

 

 

Við höfum líka unnið hörðum höndum heimavið. Snædís hefur verið á fullu að pakka upp úr kössum og koma okkur fyrir. Þrátt fyrir að við eigum sæg af dóti hefur hún þurft að fara, að því að virðist, endalausar ferðir í Ikea til að kaupa smáræði sem vantar fyrir hitt og þetta. Eldhúsinu miðast vel og ef fer sem horfir verður það tilbúið innan viku. Öll raftæki eru tengd, gaseldavélin er klár (en það á eftir að þrífa hana almennilega). Ljósin eru á leiðinni upp ásamt bókahillum, myndum og öðru smálegu. Svo á eftir að flísaleggja einn vegg - og þá verður þetta komið. Draumaeldhúsið mitt er að verða tilbúið! Það verður skemmtilegt að vinna í því og segja ykkur frá uppátækjum mínum! 

 

 

 

Heilgrillaður grís með fersku nuddi í kveðjuveislu í Lundi með ljúffengu waldorf salati með eplum úr garðinum

 

 

 

 

Þetta er veisluréttur að mínu skapi. Þessi uppskrift er kjörin þegar marga gesti ber að garði! Og það er ekkert mál að elda eftir henni; það eina sem þarf er vilji og nægur tími. Eldunartíminn er auðvitað háður stærð gríssins sem og veðri og vindum. Það má reikna með að minnsta kosti fimm klukkustundum og jafnvel meira. – Hvað er betra en að fá að eyða heilum sumardegi við grillið?

 

Hér skiptir undirbúningurinn höfuðmáli. Það þarf að byrja á að verða sér úti um heilan grís, sem er í sjálfu sér ekki snúið. Leggið bara inn pöntun hjá kjötkaupmanni. Þeir eru sem betur fer fáeinir eftir á Íslandi (ég ræði alltaf við vini mína hjá Kjöthöllinni). Svo þarf auðvitað að grafa holu, eiga nóg af kolum eða eldivið og ekki má gleyma spjótinu – sem að mínum dómi er aðalmálið. Spjót er þó ekki eina aðferðin við að elda grís. Það væri hægt að útbúa stóran kolaofn (nóg af leiðbeiningum á netinu) á nokkuð auðveldan hátt – en ég held að grísinn verði alltaf bestur sé hann eldaður á spjóti (teini).

 

Grísir eru nánast alltaf seldir með hausinn áfastan, ólíkt lambinu. Sumum finnst óhugnanlegt að sjá hann þannig en besta kjötið af grísnum er einmitt í höfðinu. Grísakinnarnar eru umluktar þéttri fitu sem bráðnar við eldun og umlykur kjötið sem meyrnar og verður guðdómlega ljúffengt svo það bráðnar í munni.

 

Heill grís – 18-25 kg

2 bollar fantagott ferskt svínanudd (sjá hérna að neðan)

eplaskvetta/eplasmjör


Eplaskvetta

1 hluti eplaedik
1 hluti eplasafi

Blandið saman í sprautuflösku. Geymist svo vikum skiptir.

 

 

 

Viku fyrir veisluna hringið þið í kjötkaupmanninn – þetta er vara sem þarf að panta. Á degi grillveislunnar skolið þið og þerrið grísinn. Þetta er best að gera utanhúss, t.d. úti á palli með grísinn hengdan upp. Kveikið upp í kolunum/eldiviðnum. Nuddið grísinn vandlega upp úr olíu og svo ferska svínanuddinu bæði að utan og inn í kviðar- og brjóstholið. Þræðið upp á spjótið og skorðið grísinn vandlega.

 

 

Setjið grísinn yfir eldinn og snúið reglulega eða hafið hann á spjóti með mótor.

 

 

Eldið grísinn þar til kjarnhiti nær að minnsta kosti 70°C. Meðan á eldun stendur er mikilvægt að úða grísinn reglulega með skvettum svo hann haldist vel rakur allan eldunartímann.

 

 

 

Þetta er verk sem tekur bróðurpartinn úr degi og því ekki vitlaust að kokkurinn fái eitthvað fyrir sinn snúð – einn fyrir kokkinn og einn fyrir grísinn!

 

Fantagott ferskt svínanudd

 

 

 

Sumt krydd passar betur með svínakjöti en annað. Þegar ég fer að hugleiða krydd með svínakjöti fljúga salvía og fennel alltaf fram á sjónarsviðið. Og til að lyfta því aðeins hærra er um að gera að nota nóg af sítrónuberki, og auðvitað salt og pipar.

 

Börkur af 7-8 sítrónum

1 salvíuplanta

2 msk af ristuðum fennelfræjum

4 msk salt

2 msk nýmalaður pipar

 

Skafið börkinn af sítrónunni (bara þetta gula), saxið smátt og setjið í skál. Ristið fennelfræ á pönnu og setjið svo í mortél og steytið í duft og bætið saman við sítrónubörkinn ásamt smátt saxaðri salvíu. Blandið við salti og nýmöluðum pipar. Best er að nota þetta nudd strax en það geymist eflaust í nokkra daga í lokuðu íláti.

 

 

Waldorfsalat

 

 

Með þessari dásemd finnst mér gott að bera fram waldorfsalat sem er klassíker með svínakjöti.

 

Fyrir sex

5 lítil epli

2 sellerístangir

75 g valhnetukjarnar

100 g rauð vínber

100 ml þeyttur rjómi

50 ml majónes

safi úr ½ sítrónu

 

 

 

Skolið eplin vandlega og kjarnhreinsið (ég flysjaði ekki mín epli þar sem þau eru alveg ómeðhöndluð) og skerið í grófa bita. Setjið í skál, kreistið sítrónusafann yfir. Skolið selleríið vandlega, sneiðið í bita og blandið saman við eplin. Skerið valhneturnar gróft og hrærið saman við, ásamt vínberjum sem hafa verið skorin í tvennt. Þeytið rjómann og hrærið saman við ásamt majónesi.

Látið standa í ísskáp í 30 mínútur (geymist vandræðalaust í hálfan dag).

 

 

Það er um að gera að fá nágranna til að vinna aðeins fyrir matnum!

 

 

Haukur Logi, sonur vinahjóna okkar, var mjög spenntur yfir grísnum og kom meira að segja með epli til að setja í kjafinn á grísnum. 

 

 

Svo var bara að skera niður ofan í allan mannskapinn. 

 

 

 

Þegar marga gesti ber að garði er ágætt að kaupa búkollu. Það er bæði hagkvæmt og svo eru mörg góð vín í þessum umbúðum. Ég hef keypt þetta vín mörgum sinnum á flösku og verið afar hrifinn af því og þess vegna var þetta augljóst val. Þetta er ljómandi sopi - ágætis fylling, með ljúfum berjum, þurrt, ögn kryddað með góðu eftirbragði. 

 

 

Bon appetit! Grillveislan getur verið alveg stórkostleg! 


Beikonvafin djöflabuff með grænmeti, pepperoni og sterkum cheddarosti og ljúffengri avjarsósu

 

Nú erum við búin að vera heima á Íslandi í rétt rúma viku. Við flugum heim snemma morguns á föstudaginn var og lentum á Keflavíkurflugvelli í blíðskaparveðri. Við byrjuðum strax að reyna að koma okkur fyrir. Reyndar höfðu ættingjar okkar undirbúið komuna og okkar biðu uppábúin rúm. Dásamlegt! Strax á laugardagsmorgun vöknuðum við snemma og skelltum okkur í sund - engin betri leið til að hefja daginn.

 

Snædís vatt sér strax í að undirbúa svefnherbergin og er komin langt á leið. Ég, ásamt Ingu Dóru, föður mínum Ingvari og Sverri æskuvini mínum brettum upp ermar og byrjuðum að vinna í eldhúsinu. Við höfðum reyndar lagt hita í gólfin í eldhúsinu áður en við fluttum og svo bauðst svilkona mín, Inga Dóra, til að leggja fyrir mig flísarnar (hún er náttúrubarn þegar kemur að öllu handverki). Satt best að segja hefur hún verið verkstjórinn í þessari eldhúsframkvæmd og hjálpað mér að koma hugmyndunum mínum í framkvæmd. Það er þó ennþá talsvert í land.

 

Ég byrjaði svo í nýrri vinnu á mánudagsmorguninn. Ég starfa á Landspítalanum sem sérfræðingur í lyflækningum á bráðalyflækningadeildinni í Fossvogi. Það má með sanni segja að tekið hafi verið vel á móti mér. Það var sérstaklega ánægjulegt að hitta gamla samstarfsmenn og kynnast þeim sem bæst hafa í hópinn. Það er augljóst að mikið uppbyggingarstarf hefur átt sér stað á Landspítalanum þrátt fyrir krappan kost - en betur má ef duga skal - margur tækjakostur er auðvitað fáranlega úr sér genginn og veruleg þörf á bráðum endurbótum. Það verður stórkostlegt þegar nýr spítali verður tekinn í notkun. Svo mun ég einnig starfrækja stofu í Ármúlanum fyrir þá sem þjást af gigtarsjúkdómum. Ég hlakka mikið til að takast á við öll þessi nýju verkefni.

 

En snúum okkur að matnum!

 

 

Beikonvafin djöflabuff með grænmeti, pepperoni og sterkum cheddarosti og ljúffengri avjarsósu

 

 

 

Þeir sem eru duglegir að grilla og iðnir við að leita sér að nýjungum kannast kannski við þessa uppskrift sem gekk á netinu fyrir nokkrum misserum við góðar undirtektir. Það verður að segjast að hún er svo góð að hún á það skilið að hún sé nýtt og sett í bók. Þess vegna er hún í bókinni minni Grillveislunni.

 

Þetta er dúnduraðferð til að brydda upp á nýjungum þegar unnið er með nautahakk og mann langar í eitthvað annað en hamborgara. Og þar sem buffið er fyllt með steiktu grænmeti, pepperoni og osti er þetta aðalréttur og meðlæti allt í senn. Það að vefja svo beikoni utan um herlegheitin er punkturinn yfir i-ið.

 

Það er þjóðráð að bæta nokkrum viðarbitum á grillið til að fá smá reyk og bragðbæta réttinn enn frekar.

 

Fyrir sex

 

1 kg gott nautahakk

½ græn paprika

½ gul paprika

½ appelsínugul paprika

1 gulur laukur

150 g sveppir

6 sneiðar pepperoni

12 sneiðar beikon

3 msk hvítlauksolía

100 g rifinn ostur

olía til steikingar

salt og pipar

 

Skerið lauk í sneiðar, paprikur í grófa bita, sveppi í sneiðar og steikið í jómfrúarolíu þar til grænmetið er mjúkt og ilmandi. Saltið og piprið.

 

 

Skiptið nautahakkinu í sex þétt buff og mótið þau utan um t.d. kalda bjórdós þannig að úr verði bolli sem auðvelt er að fylla. Vefið beikoni utan um bollann og fjarlægið svo bjórdósina.

 

 

Fyllið nú hvern bolla fyrir sig með steiktu grænmeti, pepperoni og svo osti.

 

 

Penslið buffin að utan með hvítlauksolíu og setjið á heitt grill.

 

 

 

Grillið við óbeinan hita í 45-60 mínútur þar til buffin eru fallega gullin.

 

Eldrauður avjar – dásamleg paprikusósa

 

 

Þessi sósa á sér áhugaverða sögu. Avjar er tyrknest orð yfir kavíar – sem kemur þó þessari sósu ekkert við! Sósan varð hins vegar til á Dónárbökkum og henni var ætlað að koma í staðinn fyrir kavíar. Einhvern tíma seint á nítjándu öld varð nefnilega brestur á kavíarframleiðslu og til að bregðast við því varð þessi uppskrift til. Hún var svo seld á veitingahúsum í Belgrad sem „serbneskur kavíar“.

 

Lykillinn að sósunni er að grilla paprikurnar og chilipiparinn. Þannig dempar maður hitann í chiliinu en heldur seiðandi bragðinu og fær að auki ögn af reyktu bragði við eldamennskuna. Og það er í góðu lagi að húðin brenni – hún er þá einfaldlega fjarlægð.

 

3 rauðar paprikur

2 rauðir chilipiparbelgir

1 eggaldin

4 msk jómfrúarolía

1 rauður laukur

4 hvítlauksrif

safi úr ½ sítrónu

salt og pipar

 

 

 

 

 

Veltið heilum rauðum paprikum (eða bitum) og rauðum chili upp úr jómfrúarolíu og grillið á blússhita þar til húðin á paprikunum fer að brenna.

 

 

Eldið eggaldinið á sama hátt. Skerið lauk og hvítlauk afar smátt (t.d. í matvinnsluvél). Takið brenndu húðina af chilipiparnum og paprikunum og setjið þær í matvinnsluvélina með lauknum. Skafið innan úr eggaldininu og blandið saman við. Blandið sítrónusafa saman við og smakkið til með salti og pipar.

 

 

Sósan geymist vandræðalaust í ísskáp í tvo til  daga. En það er auðvitað ljómandi gott að gæða sér á henni strax.

 

 

Ég keypti þessa búkollu fyrir helgina og naut hennar vel. Þetta er Cabernet Sauvignion frá 2014 sem kemur frá Chile. Þetta er vín sem margir þekkja enda er þetta ljúfur sopi sem passar vel með grillmatnum (og mörgu öðru auðvitað!). Þetta er kraftmikið vín með ágætri fyllingu. Berjabragðið kemur vel í gegn og er létt eikað á tungu með fínu eftirbragði.

 

 

Þetta er stórkostleg máltíð! 

 

Þessa uppskrift og margar fleiri er að finna í bókinni minni sem hægt er að nálgast í öllum betri bókabúðum. 


Hin heilagi kaleikur bandarískrar grillmennsku; Ljúffengur brisketborgari með nýju hrásalati

 

Þessi biti er einn af hornsteinum bandarískrar grilleldamennsku. Það eru til óteljandi uppskriftir og myndbönd á youtube um hvernig á að meðhöndla þennan annars ólseiga kjötbita og umbreyta honum í dásemd eins og þess. Ég hef gert atlögu að þessum bita nokkrum sinnum og það tók mig nokkur skipti að læra að ná tökum á uppskrifinni. En ég held að ég hafi hitt í mark með þessari aðferð. 

 

Ég verð að fá vitrari menn/konur en mig til að hjálpa mér að íslenska nafnið á þessum kjötbita - Brisket - sem kemur af framanverðu nautinu. Myndin hér að ofan sýnir vel hvaðan hann er tekinn af kúnni. Vöðvinn inniheldur meðal annars brjóstvöðvann af kúnni og er, sé hann snöggeldaður, afar seigur undir tönn. En með því að langelda hann við lágan hita í hálfan dag eða svo umbreytist hann í lungamjúkan bita sem er ljúffengur, safaríkur og seiðandi undir tönn. Prófiði bara. 

 

Annars hefur verið nóg um að vera hjá okkur síðustu daga. Við erum að undirbúa flutning til Íslands. Tengdamóðir mín, Hrafnhildur, flaug til okkar fyrir rúmri viku síðan og hefur heldur betur verið okkur innan handar. Hún hefur séð um yngstu dótturina auk þess að byrja að pakka búslóð okkar í Englandi niður í kassa. Það er gott að eiga hauk í horni. Og við eigum marga slíka. Svo hefur svilkona mín, Inga Dóra, og mágkona mín, Kolbrún, sannarlega verið okkur góðar. Inga Dóra hefur haft auga með iðnaðarmönnum sem hafa verið að vinna í húsinu okkar í Ártúnsholtinu. Hún er meira að segja að flísaleggja eldhúsgólfið hjá okkur. Foreldrar mínir hafa líka verið ótrúlega duglegir. Þau skipulögðu móttöku á innbúinu okkar frá Svíþjóð í fjarveru okkar. 

 

Ég keypti Bosch rafmagstæki í eldhúsið sem ég hlakka til að sýna ykkur þar sem að við áttum engin (allt slíkt er selt með fasteignum í Svíþjóð) auk þess sem ég er að láta sérsmíða borðplötur hjá Fanntófell á eldhúsinnréttinguna og eyjuna sem við erum að hanna. Ég hlakka svo til að komast í að elda í alvöru eldhúsi aftur sem er hannað eftir mínum þörfum. Það verður gaman að sýna ykkur í komandi bloggfærslum hvernig miðar. 

 

Hin heilagi kaleikur bandarískrar grilleldamennsku; Ljúffengur brisketborgari með nýju hrásalati

 

Eldamennskan sem um ræðir er í raun ofureinföld þó að hún taki talsverðan tíma. Til að verkið verði leikur einn þarf bara að raða kolunum upp með ákveðnum hætti og svo sér tíminn eiginlega bara um restina. 

 

Fyrir sex til átta

 

2 kg nautabrisket

2 msk jómfrúarolía

4 msk uppáhalds grillnuddið ykkar

150 ml grillsósa að eigin vali

hamborgarabrauð

laukur, tómatar, pæklaðar gúrkur eftir smekk. 

 

Fyrir hrásalatið

 

1/2 haus hvítkál

2 gulrætur

1 mangó

3 sellerísstangir. 

3 msk majónes

2 msk sýrður rjómi

75 ml appelsínu/eplasafi

safi úr heilli sítrónu

börkur af heilli sítrónu

salt og pipar

 

 

Nuddið kjötið með jómfrúarolíu.

 

 

Útbúið grillnuddið. 

 

 

Nuddið kjötið vandlega með kryddblöndunni.

 

 

 

 

 

Bindið svo kjötið upp í rúllu.

 

 

Njótið svo útsýnisins. Þetta er fallegur biti. Og á eftir að verða alveg sérstaklega gómsætur. 

 

 

Raðið svo kolunum upp í "snák" eins og hérna að ofan. Kveikið svo upp í öðrum endanum. Þannig munu kolinn brenna allann daginn án þess að þið þurfið að hafa af því nokkrar áhyggjur. 

 

 

Eftir um 4-5 klukkustundir er kjötið tilbúið. Þó að það sé dökkt þá er það ekki brunnið, því fer fjarri. Þetta kallast börkur (bark) og er ótrúlega bragðgott! 

 

 

Svo er bara að byrja að skera kjötið niður. 

 

 

Hakkið það vandlega niður.

 

 

Blandið svo grillsósunni saman við kjötið.

 

 

Í raun bara eins mikið og þið viljið. 

 

 

Staldið við og njótið útsýnisins. Smakkið og saltið og piprið eftir smekk. 

 

 

Hakkið niður hvítkálið, gulræturnar og selleríið í matvinnsluvél. Skerið mangóið niður smátt og blandið vel saman ásamt majónesi og sýrður rjóma. Skafið börkinn af sítrónunni og saxið niður og hrærið saman við. Smakkið til með sítrónusafanum og salti og pipar.

 

 

 

Svo er bara að raða þessu saman. Slíkt er auðvitað leikur einn. Og næsta skref er bara að njóta með vinum og/eða vandamönnum.

 

 

Tjékkið endilega á bókinni minni. Hún er full af ljúffengum ævintýrum á grillið.


Ekta barnsley kótiletta með magnaðri myntusósu

 

Í gegnum tíðina hefur bresk matargerð ekki haft neitt sérstaklega gott orð á sér. En að mínu mati á það á ekki við rök að styðjast. Það má kannski vera að slíkt hafi verið reyndin á árum áður en í dag er það fjarri sanni. Gríðarleg vakning hefur verið síðastliðna tvo áratugi gagnvart mat og matarmenningu, hvernig dýrahaldi skuli háttað og hvernig best sé farið með skeppnurnar. Og auðvitað er það sjálfsagt. 

 

Ég hef lagt mig eftir því, hvar sem ég hef búið á undanförnum árum, að reyna að kynnast kjötkaupmanninum í grenndinni. Í Svíþjóð skipti ég gjarnan við Holmgrens í Saluhallen í Lundi, í Englandi hef ég einvörðungu keypt kjöt hjá Bramptons í St. Georgsstræti í Kemptown í Brighton og á Íslandi hef ég sótt mínar kjötvörur til vina minna í Kjöthöllinni sem hafa alltaf lagt sig í framkróka við að hjálpa mér að nálgast það sem mig hefur vantað hverju sinni! Og af hverju skiptir það máli. Svarið er einfalt - kjötkaupmaðurinn getur hjálpað manni að nálgast hvað sem er sem mann kann að vanhaga um þegar kjöt er annars vegar. Það sem sést í borðinu er bara brot af því sem hægt er að nálgast. 

 

Myndin hérna að ofan sýnir kótilettu. En ekki það sem kalla má venjulega kótilettu, heldur er þetta þekkt í Englandi sem The Barnsley Chop eftir bænum Barnsley í Yorkshire í Norður Englandi. Eins og með flesta hluti þá greinir fólki á um hver uppruninn í rauninni er - en almennt er talið að þessi biti hafi fyrst litið dagsins ljós í Brooklands hótelinu í sama bæ. Og hvað er svona sérstakt við þessa kótilettu - jú, lundin er með og svo er hún skorin aðeins þykkari en gengur og gerist með kótilettur. Og það gerir hana sérstaklega girnilega. 

 

*af einhverri ástæðu sjást ekki ljósmyndir með færslunni á moggablogginu - hægt er að skoða færsluna í heild sinni hérna.

Ekta barnsley kótiletta með magnaðri myntusósu

 

Og þessi uppskrift er einföld. Myntusósa er ljúffeng sósa sem bróðir minn kenndi mér að búa til. Hún er einstaklega fersk og lífleg á bragðið og passar vel með öllum mat – sérstaklega lambakjöti. Hún kitlar bragðlaukana en léttir þó um leið á hitanum. Finnist manni grænum chili í þessari sósu ofaukið er um að gera að sleppa honum, sósan berekki skaða af.

Fyrir sex

 

6 þykkar Barnsley kótilettur

3-4 msk góð jómfrúarolía

Salt og pipar

 

Fyrir myntusósuna. 

 

2 plöntur fersk mynta

1 planta ferskt kóríander

handfylli steinselja

2 stk grænn chilipipar

1 grænt epli

2 hvítlauksrif

2 tsk hlynsíróp

1 msk jógúrt

2 msk jómfrúarolía

¼ tsk worcestershiresósa (Lea & Perrins)

½ msk indverskt nudd (nota má garam masalaí staðinn)

salt og pipar

 

 

 

Penslið kótiletturnar með jómrúarolíu og saltið og piprið eftir smekk. 

 

 

Það lekur auðvitað fita af lambinu. Gætið þess að kveikja ekki í þeim. Ein til tvær mínútur á hvorri hlið dugar þegar hitinn er mikill.

 

 

Setjið myntu, kóríander og steinselju í matvinnsluvél, ásamt grænum chili (kjarnhreinsuðum), hvítlauk og gróft hökkuðu epli (einnig kjarnhreinsuðu). Brytjið vandlega í vélinni. Blandið hlynsírópi, jógúrti og olíu saman við. Smakkið sósuna til með worcestershiresósu, indversku nuddi og salti og pipar.

 

 

Svo er bara að skreyta með smátt skorinni myntu og steinselju. 

 

 

Þetta er Spánverji sem er mörgum kunnugur. Þetta er Coto de Imaz Rijoa Gran Reserva frá 2008. Þetta vín er unnið úr Tempranillo þrúgum eins öll Rioja vín. Og þessi flaska hefur verið í uppáhaldi hjá mér lengi, enda ekki skrítið þar sem það er ljúffengt. Fallega djúprautt á litinn, ilmur af þungum ávexti og sultu, á bragðið ávextir og sulta og eftirbragðið eikað og langt. Ekki skrítið að vínið hafi unnið gyllta glasið! 

 

 

Svo er ekkert annað að gera en að njóta saman.

 

Það er ekki flókið að elda fyrir grillveislu!

 

 

Skál!


Stolt Suðurríkjanna – „sundrað“ svínakjöt (pulled pork) með pækluðum rauðlauk

 

 

Þessa uppskrift er að finna í bókinni minni, Grillveislunni, sem kom út byrjun sumars. Satt best að segja þá er þetta eitt af bestu uppskriftunum í bókinni. Að langelda svínakjöt er eitt af því besta sem kemur af grillinu hvort sem það eru svínarif, svínasíða eða eins og hérna svínabógur. Þessari uppskrift var líka deilt með lesendum Fréttatímans núna fyrir helgi. Um að gera að leyfa henni að njóta sín á blogginu mínu líka.

 

Sundrað svínakjöt er mín þýðing á réttinum pulled pork, sem flestir vanir grillarar þekkja vel. Og þetta er ekki flókin uppskrift; það eina sem þarf er tími – en það þarf nóg af honun. Varlega áætlað sex til átta klukkustundir. Þetta er því verkefni fyrir ljúfan helgardag eða þegar maður er í sumarleyfi og vill verja deginum við grillið.

 

Eftir að kjötið er síðan komið á grillið þarf ekki mikið að hafa fyrir því – í raun bara bíða – og ef sólin skín er það ekki svo slæmt. Maður dútlar eitthvað eða sinnir fjölskyldunni í rólegheitum vitandi að veisla bíður manns.

 

Það eru nokkrar leiðir í mark við þessa eldamennsku. Í fyrsta lagi má grilla kjötið á gasgrilli við lágan hita – þá þarf að beita einhverjum brögðum til að fá reykbragðið sem er svo eftirsóknarvert. Hægt er að nota reykbox með bleyttum viði og skipta nokkrum sinnum um hann yfir daginn, eða nota reykt vatn (liquid smoke) og nudda því inn í kjötið áður en það fer á grillið eða pensla því á undir lok eldamennskunnar. Jafnframt væri hægt að nota reykt salt í grillnuddið. Svo er hægt að elda í reykofni sé hann við höndina. Þá þarf að gæta þess að skammta kol eða við yfir daginn til að halda jöfnu hitastigi Ætli auðveldast sé ekki að nota kolagrill og raða kolunum upp í snák (sjá bls. X) og bæta nokkrum viðarbútum við til að hafa jafnan reyk allan eldunartímann. Niðurstaðan verður dásamlega ljúffeng!

 

Hráefnalisti

 

Fyrir 8-10

 

2,2-2,5 kg grísahnakki/frampartur

2 msk jómfrúarolía

4 msk grillnudd af eigin vali

eplaskvetta á brúsa

8-10 hamborgarabrauð

100 g klettasalat

4 msk majónes eða rjómaostur

pæklaður rauðlaukur

heimagerð BBQ-grillsósa

 

 

Skolið og þerrið svínakjötið. Nuddið það vandlega með jómfrúarolíu og dreifið grillnuddinu jafnt yfir. 

 

 

Raðið kolunum upp í snák og kyndið upp. 

 

 

Hafið vatnsbakka beint undir kjötinu svo það eldist við óbeinan hita. Þegar grillið er komið í um 135°C er kjötið sett á grillið. 

 

 

 

Eftir fjóra til fimm tíma er kominn myndarlegur „börkur“ á kjötið og efsta lagið farið að rofna lítillega. Þá er eplaskvettunni sprautað jafnt yfir allt kjötið. 

 

 

Vefjið kjötið vandlega inn í álpappír (tvöfalt lag svo það rifni síður) og eldið í tvær til þrjár klukkustundir í viðbót (kjarnhiti 85-90°C).

 

 

Gætið þess þegar þið takið álpappírinn utan af að tapa ekki vökvanum – blandið honum saman við kjötið. 

 

 

Færið kjötið yfir á stórt fat eða skúffu og rífið það í sundur. Það hreinlega dettur í sundur. 

 

 

Rífið kjötið eins mikið og ykkur listir - en nógu vandlega þannig að auðvelt sé að tylla því ofan á brauð. 

 

 

 

Berið fram í brauði smurðu með majónesi eða rjómaosti og pækluðum rauðlauk, sé hann til, ásamt klettasalati og að sjálfsögðu heimagerðri grillsósu.

 

Fyrir pæklaða laukinn

 

120 ml sítrónusafi

50 ml hvítvínsedik

1 tsk sjávarsalt

1 tsk óreganó

1½ tsk sykur

1 stór rauðlaukur

 

 

Pæklaður laukur

 

Blandið sítrónusafa, ediki, salti og sykri saman og hrærið vel. Sykurinn og saltið á að leysast upp í vökvanum. Sneiðið laukinn, losið í sundur og setjið í löginn ásamt óreganói.

Sótthreinsið hreina krukku með því að setja hana í 100°C heitan ofn í 10-15 mínútur. Hellið blöndunni í krukkuna og lokið. Látið kólna við herbergishita í nokkrar mínútur áður en krukkan er sett í ísskáp. Látið standa í sólarhring áður en laukurinn er notaður.

 

Geymist í kæli í tvær til þrjár vikur.

 

 

 

Ég veit ekki um ykkur en ég myndi væta kverkarnar með ljúffengum bjór. Það bara passar svo vel með máltíðum eins og þessum (og mörgum öðrum auðvitað). Boli Keller var bruggaður með sumarið í huga og passar vel með grillmatnum. Hann er ansi kröftugur (6,5%) þannig að maður verður að ganga hægt inn um gleðinnar dyr - enda er það líka best þannig. 

 

 

Ljúffengur sítrónu-piparkjúklingur með einfaldri sósu og vellaukuðu kartöflusalati

 

Það líður að heimferð. Og við hlökkum öll til að flytja heim til Íslands. Ég verð þó að játa að fyrir nokkrum árum höfðum við hjónin ákveðið að snúa ekki aftur til Íslands, nema sem gestir. Ég var meira að segja harðákveðinn! Svo gerðist eitthvað fyrir tæpu ári - allt í einu togaði bara naflastrengurinn í mig og langaði til að flytja heim aftur. Ætli það hafi verið í einni heimsókninni til Íslands síðastliðið haust þegar ég fór heim til að elda fyrir brúðkaup vinahjóna okkar, Magnúsar og Hafdísar. Í sömu ferð hitti ég mikið af ættingjum og vinum og þá rann það bara upp fyrir mér - þessa hafði ég saknað, eiginlega án þess að hafa gert mér grein fyrir því. 

 

Ákvörðunin hefur verið miserfið fyrir fjölskyldumeðlimi. Við hjónin höfum verið nokkuð samstíga í þessu ferli. Húsið keyptum við á netinu með góðri hjálp mágkonu og svilkonu minnar og svo foreldra minna. Það var skrítin tilfinning að skoða það í síðan eigin persónu í byrjun maí þegar ég kom heim til að fylgja bókinni minni úr hlaði. Valdís Eik man vel eftir Íslandi og á margar góðar vinkonur og frænkur sem taka henni opnum örmum - svo var hún líka að komast inn í Menntaskólann við Hamrahlíð. Ragga Lára er bara þriggja ára og veit lítið um hvað er um að vera. Erfiðast hefur þetta verið fyrir Villa Bjarka sem fluttist til útlanda þegar hann var þriggja ára og þekkir ekkert annað en Svíþjóð og nú England. Fyrir honum er Ísland bara sumarleyfisáfangastaður. En nærvera við frændur sína í næstu götu og svo alla ættingja gerir þetta auðveldara. Við fengum upplýsingar um að nokkrir bekkjarfélagar hans í Ártúnsskólanum búa í götunni okkar. Þetta verður því mjúk lending. Svo verður hreinlega að segjast að árangur íslenska landsliðsins og öll stemmingin sem hefur myndast í kjölfarið, öll samheldnin og fjörið í kringum þetta ævintýri hefur óneitanlega gert mann sérstaklega stoltan yfir því að tilheyra þessari skrítnu þjóð norður í Atlantshafi. Og maður var líka stoltur í kvöld, þó að Ísland hafi beðið lægra haldi gegn frábæru liði Frakka. Ég myndi kalla þetta að tapa með sæmd. 

 

 

 

Myndin hérna efst í færslunni er af eldhúsinu okkar eins og það lítur út núna. Við höfum fengið stórkostlega hjálp frá vinum og ættingjum við heimfluttninginn. Allir vilja leggja okkur lið. Við flugum heim síðastliðna helgi og máluðum húsið að innan, ásamt ættingjum okkar og vinum. Snædís sá þá húsið í eigin persónu í fyrsta sinn - sem betur fer var hún yfir sig hrifin. Við ætluðum líka að tæma gáminn en við náðum honum ekki úr tollinum í tæka tíð þannig að við og foreldrar mínir söfnuðum liði og yfir 20 manns mættu og tæmdu hann í fjarveru okkar. Þvílík gæfa að þekkja svona mikið af frábæru fólki - takk allir!

 

 

Myndin er því miður úr fókus - en gleðin skilar sér á áfangastað - allavega hjá okkur! 

 

Ljúffengur sítrónu-pipar kjúklingur með einfaldri sósu og vellaukuðu kartöflusalati

 

Þetta er einföld uppskrift - eiginlega eins og flestar af þeim uppskriftum sem ég ber á borð. Kjúklingabringur og sítrónupipar passa svo ljómandi vel saman. 

 

Fyrir sex

 

Hráefnalisti

 

6 kjúklingabringur

2 sítrónur

2 hvítlauksrif

3 msk ferskt timian

2 msk hunang

4 msk jómfrúarolía

salt og nóg af pipar

 

Fyrir kartöflusalatið

 

1 kg nýjar kartöflur

1 rauðlaukur

1 vorlaukur

2 skalottulaukar

150 ml sýrður rjómi

100 ml majónes

1 tsk dijon sinnep

1 tsk hlynsíróp

sítrónusafi

handfylli fersk steinselja

handfylli ferskur graslaukur

salt og pipar

 

Ofureinföld sósa með sítrónu og steinselju

 

50-75 ml majónes

75-100 ml sýrður rjómi

safi úr einni sítrónu

börkur af sítrónunni

handfylli af steinselju

1 tsk djion

2 tsk hvítlauksolía

salt og pipar

 

 

 

Við kaupum kjúklingin frá slátraranum okkar. Þá vitum við að við erum að kaupa almennilegan kjúkling sem hefur fengið gott uppeldi. 

 

 

Skerið í kjötið - passið að fara ekki of djúpt.

 

 

Þetta er bæði til að fuglinn marinerist betur og eldist hraðar. 

 

 

Saxið ferskt timian, hvítlauk og börkinn af sítrónunni. Gætið þess að taka bara það gula, því hvítan af berkinum er beisk og bragðvond. Kreistið sítrónuna yfir ásamt jómfrúarolíunni og hunanginu. Saltið og piprið. 

 

 

Marinerið í klukkustund - það þarf ekkert meira en það.

 

 

Grillið yfir óbeinum hita í 20-30 mínútur til að elda fuglinn í gegn og brúnið hann svo yfir beinum hita til að karmellisera hann. 

 

Það er svo auðvelt að finna ljúffengt vín nú til dags. Held barasta að það sé erfiðara að vinna vont vín. Þetta er franskt Syrah frá La Baume - fallegt á litinn í glasinu. Kraftmikill ilmur - krydd og ávextir með sama keim á tungu með þéttu eftirbragði. 

 

 

 

Kartöflusalatið er einfalt. Hreinsið og sjóðið kartöflurnar upp úr söltuðu vatni og látið síðan kólna í skál. Saxið laukana smátt og blandið saman við kartöflurnar ásamt sýrða rjómanum, majónesinu, sinnepinu og hlynsírópinu. Skerið kryddjurtirnar smátt og hrærið samanvið. Saltið og piprið vandlega. 

 

 

Sósan er ennþá einfaldari. Bara að hræra saman sýrða rjómanum og majónesinu. Blanda hvítlauksolíunni og sinnepinu saman við. Raspa börkinn af sítrónunni og hræra saman við ásamt sítrónusafanum og smátt skornum kryddjurtum. Salta og pipra eftir smekk. 

 

Svo er ekkert annað að gera en að njóta fram í fingurgóma - þetta er auðvitað alveg himneskt. 

Bókin mín - Læknirinn í Eldhúsinu - Grillveislan er fáanleg um land allt. 


Dásamlegar andabringurúllur með kúrbít og sætum kartöflum

Ég og bróðir minn sátum á nærlægum pöbb í Brighton í gær og fylgdumst með leiknum. Allir gestir knæpunnar héldu með Íslandi og sumir höfðu meira segja veðjað á niðurstöðu leiksins! Skemmtilegast var að sjá að presturinn hoppaði hæð sína þegar íslenska liðið skoraði mark á lokasekúndunum og tryggði okkur sigurinn. Mikið rosalega var gaman að fylgjast með leiknum!

 

Ég verð þó að játa að ég hef aldrei verið neitt sérstaklega hrifinn af fótbolta en á stundum sem þessum er erfitt annað en að hrífast með - og þó að íslenska liðið eigi allan heiður skilinn fyrir frammistöðuna finnst mér eiginlega skemmtilegast að fylgjast með myndum af íslensku aðdáendunum - frábærar myndir af glöðu, samheldnu fólki að syngja saman - það nær sérstaklega til mín! Maður verður stoltur að tilheyra þessum hópi!

 

Við hjónin hlökkum mikið til helgarinnar. Við erum á leiðinni til Íslands þar sem Snædís er að fara að sjá húsið okkar í fyrsta sinn með eigin augum. Við ætlum að reyna að mála neðri hæðina og vonandi fáum við gáminn okkar á mánudaginn og getum tæmt hann inn í húsið áður en við setjumst niður yfir fótboltaleiknum!

 

Þessi uppskrift er úr bókinni minni - Grillveislan - og birtist einnig á síðum Morgunblaðsins fyrir rúmum mánuði síðan. Þá gefur það auga leið að maður verður að deila þessu!

 
Dásamlegar a
ndabringurúllur með kúrbít og sætum kartöflum

 

 

 

Andabringur þykja með fínni hráefnum. Þær eru oft eldaðar til hátíðabrigða – en þær henta eins vel á grillið. Látið því ekki hefðbundinn hátíðleika hindra ykkur. Hér er ein leið til að djassa þær aðeins upp. Með því að skera þær langsum í þunna strimla og vefja þær svo upp með grænmeti má létta aðeins á þeim – og kannski gera þær aðgengilegri og jafnvel minna hátíðlegar.

 

Eins mætti auðvitað gera með kjúkling, kalkúnabringur og gæs. Sleppið ímyndunaraflinu bara lausu. Með þessari ofureinföldu köldu sinnepssósu verður rétturinn ennþá ljúffengari.

 

Fyrir fjóra

 

4 andabringur

½ kúrbítur

¼ sætar kartöflur

¼ gulrót

4 tsk dijonsinnep

salt og pipar

 

 

Skolið og þerrið andabringurnar og skerið þær með beittum hníf í þunna strimla langsum.

Flysjið grænmetið og skerið í þunnar sneiðar langsum. Leggið andabringusneiðar á skurðarbretti, tvær í lengju. Látið endana mætast þannig að þeir liggi aðeins hvor ofan á öðrum. Smyrjið með þunnu lagi af sinnepi. Leggið grænmetissneiðar ofan á, svo andabringusneið, haldið áfram þar til komin eru tvö til þrjú lög af önd og tvö til þrjú lög af grænmeti.

 

 

Rúllið lengjunni upp í vöndul og bindið um þannig að hún haldist í gegnum eldamennskuna. Saltið og piprið.

 

 

Endurtakið fjórum sinnum.

 

 

Hitið grillið og eldið í þrjár til fjórar mínútur á hvorri hlið á beinum hita og setjið svo til hliðar á grillinu og eldið á óbeinum hita þar til kjarnhiti hefur náð að minnsta kosti 60°C.

 

 

Bæti við auka mynd af öndinni á grillinu - bara af því að mér finnst það svo fallegt!

 

 

 

Ég á í erfiðleikum með að þykja þetta eitthvað annað en gullfallegt! 

 

 

Besta sinnepssósan sem passar með öllu

 

Þessi sósa er ekki bara fljótleg, heldur er hún stórkostlega góð. Hún passar mjög vel með ýmsum grillmat - kjúklingi, nautasteik eða jafnvel andabringu!

 

Þegar verið er að gera einfaldar sósu gildir í raun bara ein regla, að hráefnið sem er notað sé gott. Ég mæli með því að kaupa gott, gróft sinnep, sjálfur er ég afar hrifinn af Edmond Fallot sinnepi frá Dijon í Frakklandi sem hefur veri framleitt síðan 1840.

 

3 msk majónes

3 kúfaðar msk sýrður rjómi

1 msk gróft sinnep

1 msk hlynsíróp

safi úr hálfri sítrónu

salt og pipar

 

Setjið majónes í skál og hrærið sýrða rjómanum saman við.

Blandið sinnepinu saman við (það má vel auka magnið).

Smakkið síðan til með hlynsírópi, sítrónusafa, salti og pipar.

 

Geymist í ísskáp í nokkra daga.

 

 

Ég segi það og skrifa - þessi sinnepssósa passar með næstum því öllum grillmat. Ég hef 100% rétt fyrir mér 60% af tímanum! :)

 

 

 

Með mat eins og þessum væri fullkomið að njóta góðs rauðvíns eins og til dæmis þessu frá Chile, Montes Pinot Noir frá 2012. Ég hef lengi verið hrifinn af vínum frá þessum framleiðenda. Þetta er ljúft og gott rauðvín með ljúffengum berjakeim sem passar svona ljómandi vel með öndinni.

 

 

Njótið vel!


Þjóðlegt og ljúffengt; Moðsoðið kryddlegið lambalæri með rósmarínkartöflum

 

Síðustu dagar hafa verið annríkir. Um helgina fórum við til Svíþjóðar þar sem við pökkuðum niður föggum okkar og settum í gám. Það hefði ekki verið hægt nema með hjálp góðra vina - það hlýjar manni um hjartarætur að eiga vini sem erum manni innan handar þegar á þarf að halda. Ástarþakkir fyrir alla hjálpina og stuðninginn! 

 

Og við skiljum sátt við Svíþjóð - eins og ég nefndi í síðustu færslu - héðan eigum við gnægð af góðum minningum, höfum eignast fullt af vinum sem við eigum eftir að halda góðu sambandi við - það verður gaman að fá þau í heimsókn og sýna þeim landið okkar. 

 

Ég hlakka meira og meira til að flytjast heim. Þar bíða heilmikið af spennandi verkefnum. Og við fáum líka hjálp frá vinum og vandamönnum við heimkomuna. Mág- og svilkona mín hafa hjálpað okkur að undirbúa húsið í Ártúnsholtinu áður en við komum heim, málað loftið og tekið niður eldhúsið - þvílíkir englar. Tengdamútta sló meira segja grasið í garðinum núna um síðustu helgi. Guðmundur var líka innan handar í niðurrifsstarfssemi í eldhúsinu. 

 

Fyrir utan að byrja að vinna á Íslandi á Landspítalanum og á Klíníkinni, ætli ég hlakki ekki mest til að útbúa nýja eldhúsið mitt. Það er næstum því 30 fermetrar, opið inn í stofu og svo aðgengi út á pall þar sem ég verð með útieldhús. Ég er búinn að panta borðplötur frá Fanntófell en ég er að láta sérsmíða fyrir mig plötu á innréttinguna og þá sérstaklega eyjuna mína. Við þurftum að kaupa öll raftæki - þar sem öll tæki fylgja húsum í Svíþjóð - og því áttum við ekki nein tæki í nýja húsið. Eftir smá rannsóknarvinnu á netinu ákvað ég að taka alla línuna frá Bosch - ísskáp, frysti, uppþvottavél, háf, örbylgjuofn, spanhelluborð og svo gufuofn sem ég er mjög spenntur fyrir því að prófa. Sýni ykkur græjurnar þegar fram líða stundir. 

 

Þjóðlegt og ljúffengt; Moðsoðið kryddlegið lambalæri með rósmarínkartöflum

 

 

 

Í grunninn er hér um að ræða gamalkunna en jafnframt frábæra íslenska leið til að elda lambalæri. Moðsuða var gjarnan viðhöfð á heimilum á öldum áður þegar eldiviður var af skornum skammti. Á mörgum heimilum voru moðsuðukassar úr tré þar sem hey, ull, hálmur, fiður, segl eða tjöld voru notuð til einangrunar, eða hvaðeina sem mátti nota til að spara eldiviðinn. Maturinn var settur í einangraðan kassann og kassinn nálægt hitagjafanum. Og svo var bara beðið.

 

Þessi aðferð er enn einfaldari – lambalærið er umlukt ferskum kryddjurtum, pakkað inn í álpappír, sett beint á kolin og grasþaka lögð yfir. Einfalt.

 

Fyrir fjóra til sex

1 lambalæri

1 hvítlaukur

1 msk ferskt timían

1 msk ferskt/þurrkað blóðberg

½ msk rósmarín

½ msk majoram

5 msk jómfrúarolía

salt og pipar

 

 

 

Brjótið álpappírinn saman nokkrum sinnum þannig að hann þoli að liggja á berum kolum.Nuddið lambalærið upp úr olíu og saltið og piprið. „Spekkið“ lærið með hvítlauknum með því að stinga nokkur göt í það með stuttum hníf og troða hvítlauknum í sárið. Leggið þriðjung af kryddjurtunum á álpappírinn og svo lambalærið ofan á jurtirnar. Setjið þriðjung af jurtunum ofan á lærið og síðasta þriðjunginn með hliðunum.

 

 

 

Pakkið lærinu vandlega inn og grillið á heitum kolum í 1½-2 klst eftir stærð lærisins. Snúið á hálftíma fresti.

 

 

Leggið grasþöku ofan á lærið - og moðsjóðið.

 

Takið svo lærið af grillinu og látið það hvíla í 30 mínútur áður en þið opnið álpappírinn. Á meðan lambið hvílir blússhitið þið grillið.

 

 

 

Penslið lambið að 30 mínútum liðnum með smáræði af jómrúarolíu, saltið aðeins og brúnið það síðan að utan á funheitu grillinu. Það þarf ekki nema mínútu á hvorri hlið þar sem það er þegar eldað í gegn. Gætið þess að halda vökvanum í álpappírnum til haga og nota í sósuna!

 

Fyrir rósmarínkartöflurnar

 

800 g nýjar kartöflur

4 msk góð jómfrúarolía

2-3 greinar ferskt rósmarín

1 hvítlaukur

sjávarsalt og pipar

 

Rósmarínkartöflurnar

 

 

Takið hvítlaukinn sundur í geira, setjið með kartöflunum í eldfast mót (eða álbakka) og veltið upp úr olíunni. Raðið rósmaríngreinum á milli og saltið vel og piprið.  Bakið við óbeinan hita í um klukkustund þar til kartöflurnar eru gullnar að utan.

 

 

Það er eitthvað fallegt við þessar kartöflur - nett stökkar að utan, mjúkar, fluffí, að innan. 

 

 

Með þessum mat myndi ráðleggja þetta ljúfenga Cabernet Sauvignion frá Chile - Marques Casa Concha frá 2013. Þetta vín passar vel með lambi eins og þessu. Það kröftugur ilmur af berjum og eik, þétt á tungu - með svipuðum tónum og á nefi - mjúkt með ríkulegu eftirbragði. 

 

Til hamingju með afmælið Ísland! 

 

Hægt er að finna þessa uppskrift og margar aðrar ljúffengar grilluppskriftir í bókinni minni - Læknirinn í Eldhúsinu - Grillveislan. 


Ljúfar lambapítur með grilluðum haloumi, avókadó og „ekta“ pítusósu

 

Ég flaug frá London á föstudaginn eftir að hafa sótt stóra og mjög svo áhugaverða gigtarráðstefnu til Lundar til að afhenda húsið okkar. Það eru næg verkefni fyrir höndum en við eigum eftir að pakka öllum föggum okkar niður og setja í gám sem við fáum til okkar á mánudaginn. Dagurinn í dag hefur þó gengið vonum framar og við erum langt komin með verkið. 

 

Það verður þó að játast að það er ögn tregablandið að yfirgefa Lund. Hér höfum við átt mjög svo góð ár. Lært, lifað, notið, ferðast, borðað og hlegið. Fjölskyldan hefur vaxið og dafnað. Veðrið hefur líka verið dásamlegt - glampandi sól og heitt, samt ekki of heitt. Garðurinn og gatan í blóma. 

 

En heima á Íslandi bíður fjöldinn allur af spennandi verkefnum fyrir alla fjölskyldumeðlimi. Sú yngsta, Ragnhildur er komin í leikskóla, Villi fer í Ártúnsskóla og ætlar að æfa fótbolta, Valdís stefnir á að reyna að komast inn í MH, Snædís mun ljúka verknámi og opna stofu. Ég mun vinna á Landspítalanum og opna stofu í Klíníkinni í Ármúlanum. Ég ætla að byrja að spila skvass aftur í Veggsport og njóta lífsins út í æsar. 

 

Ljúfar lambapítur með grilluðum haloumi, avókadó og „ekta“ pítusósu

 

 

Þessa uppskrift er að finna í nýju bókinni minni sem kom út núna fyrir að verða mánuði síðan. Ég er þakklátur fyrir móttökurnar. Hún náði að vera á metsölulista fyrstu vikurnar og var bók mánaðarins hjá Eymundsson. Ég er líka þakklátur fyrir athugasemdirnar sem mér eru sendar. Þær gleðja mann alveg óendanlega. 

 

Með þessum rétti er gerð sósa sem margir kannast við – pítusósa. Hún er lygilega einföld að útbúa og ekki nokkur einasta ástæða til að kaupa tilbúna sósu út úr búð, gleymið henni. Ég sá eina tegund sem innihélt erfðabreytta soyaolíu - hvílíkt ógeð - ódýrara og óhollara hráefni er varla hægt að hugsa sér.

 

Pítur draga heiti sitt af brauðinu sem þær eru bornar fram í. Saga þessa brauðs er löng og nær aftur til Mesópótamíu 2.500 árum fyrir Krists burð. Það er ekki sérlega flókið að baka þessi brauð sjálfur en hér stytti ég mér leið og kaupi þau hálfbökuð út í búð – þá þarf bara að hressa þau aðeins við. Best er að væta brauðin aðeins með vatni og setja rök inn í blússheitan ofn eða á rjúkandi grillið.

 

Oftast er okkar ljúffenga lambakjöt snætt í heilum steikum, en lambahakk unnið úr framparti eða slögum getur sannarlega lagt grunninn að góðri veislumáltið eins og hér er gert.

 

Fyrir sex til átta

 

800 g lambahakk

3 hvítlauksrif

1 tsk broddkúmen

1 tsk kóríander

1 tsk paprikuduft

1 msk mynta

1 msk steinselja

3-4 msk jómfrúarolía

salt og pipar

 

1 avókadó

1 haloumiostur

sólþurrkaðir tómatar

1 rauður laukur

nokkrar radísur

blandað salat

6-8 pítubrauð

 

„Ekta“ pítusósa

 

4 msk majónes

2 msk sýrður rjómi

1 tsk óreganó

1 tsk majoram

1 tsk ferskt timían

hlynsíróp ef vill

salt og pipar

 

 

 

 

Setjið lambahakk í skál og blandið saman við það möluðu broddkúmeni, kóríanderdufti, paprikudufti og maukuðum hvítlauk. Blandið smátt söxuðum kryddjurtum, jómfrúarolíu, salti og pipar saman við og hnoðið vandlega saman.

 

 

Hafið meðlætið tilbúið á diski svo kjötið og brauðið þurfi ekki að bíða. Mótið kjötið í buff og grillið þar til það er eldað í gegn (tvær til fjórar mínútur á hvorri hlið – háð þykkt buffsins). Leggið til hliðar. Skerið ostinn í sneiðar, penslið með jómfrúarolíu og grillið í 30-60 sekúndur á hvorri hlið (háð þykkt). Vætið pítubrauðin og skellið á grillið. Eldið þar til þau blása upp.

 

Fyrir pítusósuna

 

Setjið majónes í skál ásamt sýrðum rjóma. Látið óreganó, majoram og timían saman við. Smakkið til með salti og pipar (stundum þarf að sæta svona sósur lítillega og þá er gott að nota hlynsíróp).

 

 

Þessar og margar aðrar ljúffengar uppskriftir er að finna í bókinni minni - Læknirinn í Eldhúsinu - Grillveislan.


Keisaraafbrigði á grillinu; kjúklinga- og beikonsalat með sítrónuaioli

 

 

Sumarið er rétt að byrja og spáin lítur vel út. Þó að það sé gaman að grilla allt árið getur það stundum verið ansi krefjandi á veturna - þegar vindurinn kemur úr öllum áttum og kuldinn sækir að. En nú er komið sumar og útlitið fyrir næstu daga er lofandi. Og þá er ekkert annað en að grípa gæsina þegar hún gefst. 

 

Þessi uppskrift er ótrúlega einföld. Hún varð eiginlega til þegar var verið að róta í ísskápnum á mánudagskvöldið! En sama kvöld viðraði einnig vel til grilleldamennsku. Sól, smá rok - en hægt að finna skjól í garðinum. 

 

Og uppskriftin sem var höfð til fyrirmyndar var Cesarssalat - en það vantaði eiginlega það helsta til elda það almennilega - þess vegna verður þetta bara kallað keisaraafbrigði. Og fljótlegt var það - en það sem er mikilvægara, það var alveg einstaklega ljúffengt. 

 

Keisaraafbrigði á grillinu; kjúklinga- og beikonsalat með sítrónuaioli

 

Hráefnalisti 

 

Fyrir sex

 

6 kjúklingabringur

10-12 beikonsneiðar

100 g blandað salat

2 papríkur

300 g tómatar

jómfrúarolía

safi úr hálfri sítrónu

salt og pipar

 

Fyrir aiolið

 

2 eggjarauður

1 tsk djion

2 hvítlauksrif

200 ml góð jómfrúarolía

safi úr heilli sítrónu 

handfylli fersk steinselja

 

 

Að gera aioli er einfaldara en margur heldur. Og það sem skilur aiolið frá mayjónesinu er í raun bara hvítlaukurinn. Og byrjið á því að hræra eggjarauðurnar, hvítlaukinn, sinnepið og smá salt og pipar saman vandlega þannig að það sé vel blandað og farið að aukast aðeins í rúmmáli. 

 

 

Það skiptir máli að blandan sé farin að "taka sig" áður en byrjað er að hella olíunni. Henni er síðan hellt varlega saman við og þeytt af áfergju. Ein eggjarauða getur fituþeytt (emulsify) ansi mikilli olíu, jafnvel meira en einum lítra. Ég setti tvær eggjarauður bara til að gefa aiolíinu meiri fyllingu, gera það ríkulegra.

 

 

 

 

Ragga Lára, yngsta dóttir mín, lét sig ekki vanta við eldamennskuna - en hún hefur mikin áhuga á því að hjálpa föður sínum í eldhúsinu. Hér sat hún og gaf góð ráð við grillmennskuna. 

 

 

Kjúklingurinn er penslaður með jómfrúarolíu, saltaður og pipraður og svo skellt á heitt grillið, brúnaður að utan á báðum hliðum og svo látinn eldast við óbeinan hita til að elda í gegn. 

 

 

Svo var bara að steikja beikonið á grillinu. Beikon verður einhvern veginn ennþá ljúffengara á grilli, sérstaklega þegar það er grillað yfir viðarkolum. 

 

 

Og það var ekki af verri endanum vínið sem við smökkuðum með matnum. Baron de Ley Tres Vinas frá 2010. Þetta er spánskt Rioja sem er gert úr þremur mismunandi þrúgum. Það er fallega gullið í glasi, ilmurinn heldur eikaður, með þéttum ávexti á tungu, smá vanillu og eik á tungu, með löngu eftirbragði. Ekki skrítið að þessu víni hefur verið vel tekið!

 

 

Svo var bara að raða öllu saman. Setja kjúklingabringurnar á salatið á milli niðursneiddra tómata og papríku, dreifa beikoni á milli og svo aioli yfir.

 

Mánudagsgrillið getur líka orðið að veislu!

 

Njótið vel!

 

 


Foodloose námskeið - Matur sem lækning - Fjölbreyttur matseðill, frábærir þátttakendur og spennandi fyrirlesarar

 

Ég brá mér til Íslands í síðustu viku til að taka þátt í ráðstefnunni Foodloose, sem haldin var í Hörpunni síðastliðinn fimmtudag. Vinur minn og kollegi, Guðmundur Freyr Jóhannsson, fékk þá hugmynd í fyrra að spennandi væri að halda ráðstefnu af þessu tagi. Hann fékk til samstarfs einvala fólk til að hjálpa sér með skipulagninguna - Ara Frey, Axel, Auði og svo Tommy

 

Fjöldi gesta sótti ráðstefnuna. Ég gat ekki betur séð en að Eldborg hafi verið þéttsetin. Enda er áhugi á mat og áhrifum hans á heilsu okkar gríðarlega mikil um þessar mundir og fer vaxandi.

 

Og fyrirlesararnir voru ekki af verri endanum; Tim Noakes er læknir og prófessor, þekktur langhlaupari sem greindist með sykursýki fyrir nokkrum árum. Hann fór á kaf í næringarfræði og rannsóknir og ræddi um mikilvægi lágkolvetnamatarræðis við meðferð ýmissa lífsstílssjúkdóma. Aseem Malhotra er breskur hjartalæknir sem hefur síðustu árin barist með kjafti og klóm í ræðu og riti gegn þeim sykuraustri sem er að finna í matvælaiðnaði og hvernig hann hefur leikið stórt hlutverk í þróun margra lífsstílssjúkdóma. Gary Taubes er bandarískur blaðamaður sem hefur varið stærstum hluta af sinni starfsævi að skoða heilbrigðismál og hvernig við komum okkur í þær ógöngur sem við erum í í dag. Axel Sigurðsson hjartalæknir fór á djúpið um þátt matarræðis í hjarta- og æðasjúkdómum og um þátt kólesteróls. Denise Minger er bloggari og rithöfundur og hefur lengi verið mjög áhugasöm um mataræðisráðleggingar og hvaðan þær eru sprottnar. Tommy Wood er læknir og doktorsnemi í Osló, sem ræddi um áhrif ýmissa lífstílsþátta eins og streitu, svefns og hreyfingar á áhættuþætti fjölda lífstílssjúkdóma. Maryanne Demasi er þekktur ástralskur fréttamaður sem hefur gert fjölda heimildamynda um mat og heilsu og stýrði fundinum. Dorrit Moussaieff var verndari hátíðarinnar!

 

Þetta er ótrúlega spennandi dagur. 

 

Og svo fékk ég meira að segja að vera með. Og minn hlutur var að stýra námskeiði í matargerð þar sem áhersla væri á mat þar sem kolvetni væru í lágmarki en nautn í hámarki. Við höfðum fengið Salt Eldhús til afnota, en þar hef ég staðið fyrir námskeiði einu sinni áður! Fyrirlesarar voru þáttakendur í námskeiðinu og ég held hreinlega að við höfum náð að blanda saman gleði, fræðslu, samveru og ljúffengum mat og svo auðvitað smá léttvínstári. 

 

Foodloose námskeið - Matur sem lækning - fjölbreyttur matseðill, frábærir þátttakendur og spennandi fyrirlesarar

 

 

 

Og það var fjölbreyttur matseðill sem var í boði. Við byrjuðum á því að bjóða þáttakendum upp á glóðaða humarhala með hvítlaukssmjöri, salti og pipar.

 

 

 

Með humarhölunum fengum við okkur Piccini Prosecco. Piccini hefur hingað til verið þekkt fyrir að framleiða Chianti vín en setti á markað þetta vín í fyrra. Það er gert úr Glera og Chardonnay þrúgum frá Trivento. Þetta er þurrt og bragðgott freyðivín með nettum peru- og eplakeim. 

 

Ég skipti hópunum í fernt og fékk hver hópur að gera ólíkar uppskriftir þar sem notað var ólíkt hráefni, ólíkar aðferðir og svo fjölbreytt meðlæti. Svo fengu allir að smakka hvað hinir höfðu verið að elda. 

 

Við gerðum tvennskonar fiskrétti; 

 

Konfíteraður lax með grænbaunamauki með beikonbitum, ristuðum papríkum og einföldu dillaioli 

 

(Smellið hér fyrir uppskriftina)

 

 

Laxinn var marinerður í sítrónuberki, dilli og fennel.

 

 

Áður en laxinn var settur í olíuna var hann hreinsaður vel. 

 

 

Laxinn var svo eldaður í olíu við 45-47 gráður í tæpa hálfa klukkustund. 

 

 

Áferðin verður engu lík! Algert sælgæti! 

 

Annar hópurinn sá um að útbúa;

 

Þverskorin lúða með heitum límónum, smjörsteiktu fennel, pækluðu hnúðkáli/gulrótum/agúrku og límónu og kóríander hollandaise

 

(Smellið hérna fyrir uppskriftina)

 

 

Spriklandi fersk lúða pensluð með bráðnu smjöri, salti og pipar.

 

 

Til að smjörsteikja fennel og fá það dásamlega mjúkt og lokka fram náttúrulegu sætuna sem í því er þarf að steikja það í 30-45 mínútur við lágan hita. 

 

 

Það þurfti ekki nema tíu mínútur undir heitu grilli til að lúðan væri algerlega dásamlega ljúffeng. Síðan var heitur límónusafinn kreistur yfir. 

 

Með fisknum vorum við með tvennskonar vín; 

 

 

Með lúðunni bar ég fram Matua Sauvignion Blanc frá Nýja Sjálandi. Þetta er vín frá 2013. Fullt af ávexti, smá krydd og léttri sýru, þurrt og hressilegt vín. Þetta var í fyrsta sinn sem ég smakkaði þetta vín og það kom mér skemmtilega á óvart. Með laxinum var ég svo með klassíker - Lindemans Chardonnay frá 2013. Þetta er ávaxtaríkt vín - smjörkennt og þétt eins og Chardonnay vín eiga að vera! 

 

 

 

Fyrirlesarar héldu stutt erindi og hjálpuðu til við eldamennskuna. Til vinstri er Christopher Kelly og dóttirinn Ivy, Maryanne Demasi, Tommy Wood og svo til hægri er Aseem Malhotra.

 

Þriðji hópurinn fékk svo í hendurnar lambarifjur;

 

Lambarifjur sous vide með smjörhnetu- graskersgratíni, strengjabaunum og einfaldri sósu

 

(Smellið hérna til að sjá uppskrift)

 

 

 

Lambarifjurnar voru settar í poka með smjöri, pipar og svo fersku timian og svo eldaðar með "sous vide" aðferð í 1,5 tíma. 

 

 

Í staðinn fyrir að gera hefðbundið kartöflugratín gerðum við það úr graskeri og notuðum fullt af osti - bæði parma- og hvítmygluosti. Namminamm. 

 

 

Lambarifjurnar voru síðan saltaðar og pipraðar ríkulega og snöggsteiktar í smjöri rétt til að fá fallegan lit á þær (og auðvitað ljúffengt bragð). 

 

Fjórði hópurinn fékk svo að tækla þessa uppskrift;

 

Lambalundir í sambal, engifer og kóríander með blómkálstabbuleah, feta og ristuðum kryddfræjum, tómat og lauksalati með jógúrtsósu með myntu og límóni

 

(Smellið hérna til að sjá uppskrift)

 

 

Lundirnar voru marineraðar upp úr sambal olaek, chili, engifer og hvítlauk.

 

 

Við gerðum síðan tabbuleah sem heppnaðist rosalega vel. Í staðinn fyrir að nota bulgur eins og vaninn er þá notuðum við blómkál sem var rifið niður.

 

 

Lambalundirnar voru grillaðar í ofni í 15 mínútur þangað til að kjarnhiti náði 54 gráðum. Með þessu var borin fram einföld jógúrtmyntusósa.

 

 

Við vorum með tvenns konar rauðvín til að bera fram með kjötréttunum. Með lambarifjunum bauð ég upp á Ramon Bilbao Crianza frá því 2012 sem er Rijoa vín frá Spáni. Þetta er dökktrautt og kraftmikið rauðvín. Mikið og jafnt berjabragð - smá lakkrís og þétt eftirbragð. Með lambalundunum valdi ég með Valiano 6.38 Gran seleezione sem er ítalskt vín frá Toskana héraði. Þetta er blanda af Sangiovese og Merlot þrúgum og með kraftmikið bragð - eikað og jafnvel smá vanilla. Góður sopi.

 

 

 

Þátttakendur námskeiðsins voru afar áhugasamir um bæði matinn og fyrrlestrana.

 

 

Ég gat ekki betur séð en að þetta hafi heppnast stórvel.

 

Ég fór alltént saddur og glaður af námskeiðinu, reynslunni ríkari, og mun fróðari. Það er alveg ljóst að við getum notað mat okkur til lækninga!

 

Hlakka til að halda þetta námskeið aftur á næsta ári. Sjáumst.


Ljúffeng kjúklingaspjót með ananas, papríku og einfaldri ananasraitu

 

Ég er fullur tilhlökkunar. Í næstu viku verð ég á faraldsfæti, en þá mun ég bregða mér aftur til Íslands í tengslum við Foodloose ráðstefnuna sem verður í Hörpunni næstkomandi fimmtudag, þann 26. maí. Að ráðstefnunni lokinni munum við Tommi, útgefandinn minn, standa við grillið og bjóða ráðstefnugestum upp á grillað ljúfmeti og brjóstbirtu. Á föstudeginum verð ég með námskeiði í paleo/lágkolvetna-matargerð ásamt ráðstefnuhöldurum og nokkrum fyrirlesurum. Það á eftir að verða alveg meiriháttar - ég er alveg sannfærður um það! 

 

Á sama tíma mun ég einnig fá húsið sem við vorum að kaupa afhent. Það verður þann 1. júní. Húsið er í ljómandi góðu standi, á góðum stað í Reykjavík, í Ártúnsholtinu. Ég ætla ekki að breyta miklu en auðvitað þarf ég að breyta eldhúsinu eftir mínum þörfum. Ég mun að sjálfsögðu greina frá því á blogginu. Það verður líka spennandi verkefni. Eins og marga væntanlega grunar, þá er eldhúsið uppáhalds herbergið mitt í öllum húsum. Þar er kjarni og hjarta heimilisins. 

 

Ljúffeng kjúklingaspjót með ananas, papríku og einfaldri ananasraitu

 

 

Það er svo merkilegt, að þegar maður sökkvir sér niður í eitthvað viðfangsefni, þá er eins og fjöldi dyra opnist fyrir manni. Ég hef síðastliðinn áratug verið fremur duglegur við að grilla - bara svona eins og margir. En þegar við ákváðum að gera þessa grillbók mína, sökkti ég mér ennþá meira í lestur og tilraunir með grillið. Og það er ljóst að það er hægt að grilla hvað sem er. Meira að segja ávexti. 

 

 

Fyrir sex

 

1,2 kg kjúklingabringur

5/6 hluti af ferskum ananas (afgangurinn fer í sósuna)

3 papríkur

1 rauður chili

4 msk jómfrúarolía

salt og pipar

1/2 poki blandað salat

250 g kirsuberjatómatar

 

Fyrir ananassósu

 

300 ml jógúrt

1/6 hluti af ananasinum (það sem eftir er af honum)

1 msk hlynsíróp

1/2 rauður chili

2 msk jómfrúarolía

handfylli ferskur kóríander

salt og pipar

 

 

 

 

Það er sennilega rétt að byrja á því að gera sósuna. Hún þarf klukkustund til að öll bragðefnin nái að taka sig almennilega. Og hún er eins einföld og hægt er að hugsa sér. Fyrirmyndin er indverska sósan raita sem oftast er gerð með hvítlauk og gúrku, en það er auðvitað hægt að setja hvað sem er í sósuna. Eins og til dæmis því sem ég sting upp á í dag - ananas.

 

Setjið jógúrtina skál, skerið ananasinn niður smátt og hrærið saman við ásamt smáttskornum chili. Hræið jómfrúarolíunni saman við og saltið og piprið eftir smekk. Látið standa í kæli á meðan þið útbúið og grillið kjúklingaspjótin. Skreytið svo með ferskum kóríander áður en sósan er borin á borð (það má líka hakka smá kóríander saman við sósuna en á mínu heimili eru deildar meiningar um kóríander þannig að því er bætt við eftir þörfum hvers og eins).

 

 

Skerið kjúklingabringurnar í bita, sem og ananasinn, ásamt papríkunum, og þræðið upp á grillspjót (séu viðarspjót notuð þarf að bleyta þau í klukkustund áður svo ekki kvikni í þeim við eldamennskuna). Penslið með jómfrúarolíu, sáldrið smátt skornum chilli yfir og saltið og piprið. 

 

 

Svona yfirlitsmyndir eru ekkert annað en listaverk.

 

 

Og ekki er þessi síðri! :)

 

 

Hellið salatinu á trébretti (eða disk), skerið tómatana í tvennt og dreifið yfir. Sáldrið smá jómfrúarolíu yfir og saltið og piprið. 

 

Leggið svo kjúklingaspjótin á salatið og berið á borð. 

 

Njótið! Fram í fingurgóma! 

 

Margar aðrar ljúffengar uppskriftir er að finna í bókinni minni - Læknirinn í Eldhúsinu - Grillveislan

 


Kryddhjúpaðar svínalundir með gremolata með ostarösti

 

Eins og oft áður þá er nóg um að vera. Við erum búin að kaupa flugmiða til Íslands - one way ticket - fyrir fjölskylduna þann 5. ágúst næstkomandi. Við erum öll spennt og full tilhlökkunar yfir þessum breytingum. En það er ekki hlaupið að því að undirbúa flutning frá tveimur löndum samtímis. Eins og ég hef án efa nefnt áður þá erum við búin að festa kaup á fallegu húsi í Ártúnsholtinu og erum búin að selja húsið okkar í Svíþjóð. Við erum að vinna í því að finna smiði til að gera það litla sem þarf að gera áður en við flytjum inn. Svo eigum við eftir að skella okkur til Svíþjóðar og tæma húsið okkar. 

 

Þá erum við líka búin að undirbúa flutning frá Englandi. Búið er að semja við flutningsaðila og þetta lítur allt út eins og þetta muni ganga upp. Bráðum fer maður að anda léttar. Þá er ég á leiðinni til Íslands eftir 10 daga til að taka þátt í Foodloose ráðstefnunni sem verður haldin í Hörpunni þann 26. maí næstkomandi. Þar munu stíga á stokk þekkustu fyrirlesarar í heimi hvað varðar næringu og heilbrigði og það er stórgaman að fá að taka þátt í þessu. Á fimmtudeginum mun ég sitja fyrirlestra eins og aðrir ráðstefnugestir en við munum svo bjóða til grillveislu að ráðstefnu lokinni - hvað er meira paleo en að heilgrilla? Á föstudeginum er ég svo með námskeið í Salt eldhúsi, þar sem nokkrir fyrirlesarar munu taka þátt og fræða nemendur um næringarfræðilega læknisfræði (culinary medicine) á sama tíma og við eldum dýrindismáltið saman. Ég hlakka mikið til! Mér skilst að uppselt sé á námskeiðið. 

 

En að matnum. Faðir minn bauð frænda sínum, Ingvari Bjarnasyni og Kötu konunni hans, í mat á Walpole road. Við feðgarnir sáum um matseldina en þau hjónin buðu upp á vínið - sem var, sko, ekki af verri endanum. Meira um það síðar í færslunni. 

 

Kryddhjúpaðar svínalundir með gremolata og kryddblöndu með ostarösti og toskanabaunum

 

Uppskrift svipaða þessari er að finna í matreiðslubókinni minni, Grillveislunni, sem kom út nú á dögunum, nema hvað að þarna er ég að blanda tveimur uppskriftum saman. Einnig er það svo að þegar faðir minn grillar, þá er alltaf meira á borðum, en bara ein tegund kjöts. Hann er mikill aðdáandi - mixed grill - og þess vegna vorum við líka með nautakjöt og pylsur þó svo að svínakjötið hafi verið í aðalhlutverki.

 

 

Hráefnalisti 

 

Fyrir svínakjötið

 

Fyrir sex

 

1,5 kg grísalundir

börkur af heilli sítrónu

3 hvítlauksrif

4 msk steinselja

4 msk basil

4 tsk mjög góð jómfrúarolía

 

salt og pipar

 

 

Skerið grísalundina þannig að þið byrjið að skera í hana neðarlega, gætið þess að skera ekki alveg í gegn. Flettið síðan lundinni upp eins og bók, skerið áfram inn í þykka hluta lundarinnar, bara ekki alveg í gegn. Haldið áfram (háð þykkt lundarinnar) og fletjið hana út. 

 

Skerið börkinn af sítrónu (bara gula hlutann – ekki þann hvíta, þar sem hann er rammur og bragðvondur). Hakkið börkinn og blandið saman við kryddjurtirnar og smátt saxaðan hvítlaukinn. 

 

 

Nuddið grísalundina upp úr jómfrúarolíu, svo kryddjurtum. Saltið og piprið. Bindið lundina upp með snæri. 

 

 

Grillið á meðalháum hita þar til kjarnhiti nær a.m.k. 60°C (margir miða við 72°C fyrir svínakjöt). Látið síðan hvíla í nokkrar mínútur áður en þær eru bornar fram. 

 

 

Við grilluðum líka eina cote de beouf sem við höfðum eldað í 3 tíma í sousvide- hægt að lesa allt um það hérna! Svona til að fullkomna grillið.

 

Og svo voru að rösti kartöflurnar!

 

Fyrir osta-rösti

 

1½ kg nýjar kartöflur

75 ml jómfrúarolía

2 gulir laukar

8 hvítlauksrif

250 g rifinn port salut-ostur

Fullt af steinselju - helst ferskri

50 g smjör

handfylli af viðarspæni

 

 

Flysjið og raspið kartöflurnar smátt og setjið á viskastykki.

 

Lokið viskastykkinu og kreistið það eins vel og unnt er svo það mesta af vökvanum renni úr kartöflunum. Setjið kartöflurnar í skál.

 

Bætið olíu, smátt söxuðum lauk og maukuðum hvítlauk saman við og blandið vandlega með sleif (eða bara með höndunum).

 

Raspið port salut-ostinn út í kartöflurnar, bætið við fullt af smátt saxaðri, ferskri steinselju, blandið vandlega saman og og raðið í mót (sjá mynd).

 

Raspið smjörklípu ofan á kartöflurnar og grillið á óbeinum hita við 200°C. Setjið reykbox með bleyttum viði á grillið.

 

 

 

 

Maður var ansi stoltur að bera svona veislu á borð. Pylsurnar kaupi ég hjá slátraranum, Bramptons, niðri á St. Georg street. 

 

 

 

Með matnum drukkum við svo vín sem frændi minn og eiginkona hans komu með. Chateu Hosanna Pomerol frá því 2006. Þetta vín er frá Bordeaux í Frakklandi. Þessi framleiðandi á sér ekki langa sögu en vínekran hefur verið við líði. Rétt fyrir aldamótin seinustu festi Christian Moueix sér vínekruna og hóf framleiðslu á tveimur vínum - þrúgurnar frá bestu og elstu vínviðunum fara í framleiðslu á þessu víni - Hosanna. Þetta vín gat sér strax gott orð og hefur verðmæti þess aukist mikið á seinustu árum. Enda er það algerlega ljúffengt. Vínið er dumbrautt í glasi - þéttur ilmur af þroskuðum ávexti og blómum. Bragðið með ríkulegum ávexti og ljúfum tannínum með löngu og flauelsmjúku eftirbragði. 

 

 

Kjötið heppnaðist ótrúlega vel. Dásamlega safaríkt! 

 

Læknirinn í Eldhúsinu - Grillveislan - fæst í öllum betri bókabúðum og stórmörkuðum. 

 

 

 


Strandar-grillveislan - Kjúklingabitar, suðurafrísk nautapylsa og fullt af meðlæti

 

Það má óhætt segja að sumarið hafi komið nú síðustu helgi hjá okkur í Suður Englandi. Þegar ég kom úr ræktinni á laugardagsmorguninn biðu mín textaskilaboð frá Roger, vini mínum og kollega, þar sem hann stakk upp á því að við myndum skella okkur á ströndina strax eftir hádegi og grilla saman. Hann hafði kallað til nokkra af vinum sínum og vildi fá okkur með í hópinn. Og auðvitað vorum við "geim". 

 

Ég gerði nú lítið annað en að kaupa nokkra bjóra og vínflöskur til að leggja í púkkið. Roger og fleiri úr hópnum sáu um matargerðina, en ég reyndi að standa vaktina við grillið. Þannig að þessi færsla er meira svona dagbókarfærsla um það sem á daga manns hefur drifið síðustu daga ;) 

 

 

Strandar-grillveislan - Kjúklingabitar, suðurafrísk nautapylsa og fullt af meðlæti

 

Roger og félagar hans höfðu byrjað um morguninn að undirbúa. Þeir snöruðu kjúklingum í netta marineringu gerða úr olíu, hunangi, djion, salti og pipar. Svo forelduðu þeir hann í ofninum þannig að þegar gestina bar að garði þurfti lítið annað að gera en að karmellisera þá fallega að utan.

 

 

Jakob Pétur, bekkjarbróðir minn og kollegi, búsettur í London, kom suður til að vera með okkur á þessum fallega degi.

 

 

Roger og Kevin ræða grillaðferðir! 

 

 

Roger Wellesly Duckitt, sem á rætur að rekja til Suður-Afríku, fluttist til Englands að loknu læknanámi, keypti þessa dýrindis kraftmiklu nautapylsu. Sumum finnst þetta form pylsu óhuggnarlegt - en ég er ósammála. Mér finnst hún ekki bara falleg heldur líka girnileg.

 

 

Við vorum með þrenns konar grill við höndina, einnota, þessa tunnu og svo Weber ferðakolagrill. Það þarf varla að taka það fram að Weber grillið var langbest! 

 

 

Kjúklingurinn var fullkomlega eldaður í gegn og svo karmelliseraður að utan (örlítið brenndur) en þannig er að grilla! Það heppnast ekki alltaf fullkomlega! 

 

 

Meðlætið var af ýmsum toga; hvítlauksbrauð, maískólfar, tvenns konar fersk salöt og svo hrásalatið hans Rogers sem er gert úr rauðkáli - ekki svo ósvipað og ég er með í bókinni minni - Veislunni endalausu. 

 

 

Logan og hundurinn Bronx, ásamt Jakobi. 

 

 

Fullt af góðu fólki - yfir góðu grilli.

 

 

Hvernig er annað hægt en að elska að grilla í góðra vina hópi? 

 

Eins og Gandhi sagði - þar sem er grill, þar er ást! 

Njótið vel! 

 


Dásamlegt heilgrillað lamb - herbes de provance! Grillveislan hefst næsta laugardag!

 

Tíminn líður hratt og helgin nálgast óðfluga. Sjálfur er ég ferlega spenntur og hlakka til að kynna bókina fyrir öllum. Og það er allt að verða tilbúið! Það er búið að panta lambið - sem hangir á góðum stað - grillnuddið komið, mætir hjálparkokkar bókaðir, meðlætið er ákveðið og það er búið panta drykkjarföng, allt nema pakka ofan í tösku. Bjarga því annað kvöld! 

 

 

-

Útgáfu-grillveisla 

 

Laugardaginn 30. apríl 

Klukkan 17:00 

Eymundsson - Skólavörðustíg

Allir eru velkomnir!

mbk,
Læknirinn í Eldhúsinu

-

 


Heilgrillað lambalæri - herbes de Provance

 

 

Að heilgrilla skepnu, hvort sem það er lamb eða grís hlýtur að vera ein besta leiðin til að matreiða fyrir heilan her svangra karla og kvenna. Og það er einfaldara en margan grunar þó að það krefjist vissulega nokkurrar vinnu og viðveru.

 

Fyrst þarf að grafa holu fyrir eldiviðin eða kolin. Svo er reist einhvers slags grind eða hölda til að bera uppi dýrið. Næst þarf að festa það á spjót svo að það liggi alveg skorðað. Spjót er hægt að kaupa tilbúin á netinu, eða gera það sjálfur með leiðbeiningum sem hægt er að finna á sama stað. Góður blikksmiður getur vitaskuld bjargað málum.

 

 

Fyrir þá sem eru að grilla skeppnu í heilu lagi í fyrsta skipti þá er lamb kjörið viðfangsefni – þar sem það þolir vel að vera borið fram bæði „rare“ og upp í „ well done“.

 

Hér er lambið kryddað með kryddblöndu sem kennd er við Provance í Suður Frakklandi – herbes de Provance - og er blanda af af savory, marjoram, rósmarín, timjan, og óregano.

 

 

Þessa uppskrift eldaði ég í ágústbyrjun í fyrra í tilefni þrítugsafmælis góðrar vinkonu okkar hjóna, Sofie Jeppsson. Hún hafði boðið vinum og vandamönnum í afmælisveislu í garðinum sínum og veðrið lék við okkur. Ég mætti sex klukkustundum fyrr í veisluna til að undirbúa lambið og koma því á eldinn.

 

1 lamb

500 ml jómfrúarolía

safi úr 5 sítrónum

2 bollar franskt grillnudd (herbes de Provance)

Salt & pipar

 

 

Skolið og þerrið lambið rækilega og festið á spjótið svo það sé vel skorðað.

 

 

Charlie, maðurinn hennar Sofie, útbjó þetta eldstæði í garðinum af miklum myndarbrag.

 

 

Nuddið það vandlega með þirðjung af jómfrúarolíunni og dreifið svo helmingnum af franska grillnuddinu jafnt bæði utan á og innan í lambið. Piprið ríkulega.

 

 

Útbúið kryddolíu með því að hella því sem eftir er af jómfrúarolíunni í skál og blandið saman við það afgangingum af franska grillnuddinu, ásamt sítrónusafanum.

 

 

Setjið lambið yfir grillið, og penslið það reglulega með kryddolíunni á meðan það eldast.

 

 

Eldið þangað til að kjarnhiti hefur náð 55-60 gráðum (eftir smekk).

 

 

Og þá er ekkert eftir en að sneiða niður herlegheitin fyrir gestina. 

 

 

Fullkomlega eldað! 

 

 

Dásamlega stökk húð sem var alveg einstaklega ljúffeng á bragðið.

 

Á laugardaginn næstkomandi ætlum við að bera fram lamb með Norður Afrísku hætti með dásamlega ljúffengu grillnuddi, hummus, chilitómatsósu, grænmeti og svo skola þessum dásemdum niður með íssköldum Bola. 

 

Hlakka til að sjá sem flesta til að fagna með mér! 

 

Grillveislan hefst klukkan 17 - Eymundsson Skólavörðustíg. 

 

Allir velkomnir.

 


Grillveislan: Grísakótilettur með gráðosti, puru og eplasósu

 

 

 

Það eru spennandi tímar framundan. Á föstudaginn næstkomandi eftir vinnu mun ég skunda til Heathrow og bregða mér til Íslands - og mér finnst ástæðan vera ansi góð. Við ætlum að fagna útgáfu þriðju matreiðslubókarinnar minnar - Læknirinn í Eldhúsinu - Grillveislan. 

 

Hún mun koma út laugardaginn 30. apríl 2016. Við munum blása til útgáfuveislu í Eymundsson á Skólavörðustíg. Við kveikjum undir grillinu fyrr um daginn og bjóðum alla velkomna til að að fagna með okkur klukkan 17. Það verður boðið upp á heilgrillað lamb og auðvitað meðlæti og svo ljúffengan bjór, Bola, til að væta kverkarnar! 

 

Bókin hefur verið í vinnslu síðan fyrir ári. Þetta atvikaðist þannig að  ég brá mér í kaffi til Tomma og Önnu Margréti, útgefendanna minna, en þau voru þá búsett í Lundi. Tommi hafði nýlega keypt sér fallega sænska grillbók og spyrði svona hálfkæringslega hvort það væri einhver vandi að henda í eina grillbók! 

 

Og svarið var einfalt! Það var stórskemmtilegt að elda og skrifa þessa bók. 

 

 

-

Útgáfu-Grillveisla 

Laugardaginn 30. apríl 

klukkan 17:00 

Eymundsson - Skólavörðustíg

Allir eru velkomnir!!!

-

 

En þó að þessi bók - Læknirinn í Eldhúsinu - Grillveislan, hafi átt hug minn allann síðustu mánuði þá hefur heilmikið verið um að vera. Við erum búinn að fjárfesta í húsi á Íslandi og í seinstu viku keyptum við flugmiða til Íslands - aðra leið. Ég er að fara að vinna á Landspítalanum og svo verð ég einnig með stofu í Klíníkinni í Ármúla í samstarfi við fleiri kollega. Snædís getur tekið hluta af sínu starfsnámi á Íslandi og mun ljúka námi strax eftir áramótin. Börnin eru skráð í skóla, Valdís er búinn að sækja um menntaskóla, Villi er kominn í Ártúnsskóla og Ragga Lára er á biðlista fyrir leikskóla. 

Við erum að undirbúa flutning frá tveimur löndum, förum til Svíþjóðar í júní til að setja búslóðina okkar í gám. Svo þurfum við einnig að koma nokkrum hlutum í skip hérna í Englandi. Það er sko nóg að gera - og svei mér þá - ef það er ekki bara skemmtilegt!

 

Jibbí!

 

Grísakótilettur með gráðosti, puru og eplasósu

 

 

Grísakótilettur eru frábærar á grillið – sérstaklega þegar maður er að flýta sér. Og það er mikilvægt að hafa væna fiturönd á svíninu – það er bæði gott á bragðið og svo verndar það líka sjálft kjötið frá því að þorna á meðan það er eldað.

 

Hér er byrjað að elda kótilettuna á miklum hita í mínútu á hvorri hlið og svo eru þær settar til hliðar og grillaðar áfram á óbeinum hita þangað til að þær eru tilbúnar. Mér finnst erfitt að meta hvenær svínakjöt er tilbúið og þar af leiðandi finnst mér best að nota kjöthitamæli. Og ég leyfi kjötinu ekki að fara hærra en 70 gráður. Munið að kjötið heldur áfram að eldast í nokkrar mínútur eftir að það er tekið af grillinu.

 

Í nafngift þessarar uppskriftar aðskil ég kótilettuna frá purunni þar sem hún er tekin af kjötinu og elduð sér, þar sem það tekur lengri tíma að fá hana fullkomna en tekur að elda kótilettuna. 

 

Fyrir sex

6 sneiðar grísakótilettur með purunni

150 gr stilton ostur (eða annar ljúffengur blámygluostur)

2‒3 msk jómfrúarolía

1 grein rósmarín

salt og pipar

 

Eplasósan

 

4 epli

75 ml vatn

2-3 msk hlynsíróp

1 kanilstöng

 

 

 

Skerið puruna af kótilettunni og látið hana þorna í ísskáp í eina klukkustund. Nuddið hana svo upp úr olíu, saltið ríkulega og setjið í 200 gráðu heitan ofn þangað til að hún poppast (15‒20 mínútur).

Nuddið grísakótiletturnar upp úr jómfrúarolíu, smátt skornu rósmaríni og salti og pipar.

 

 

Blússhitið grillið og grillið sneiðarnar í eina mínútu á hvorri hlið þannig að þær karmelliserist vel. Setjið þær á óbeinan hita.

 

 

 

Skerið ostinn í sneiðar og raðið ofan á hverja kótilettu. Grillið þangað til að kjarnhiti hefur náð 70 gráðum. Hvílið í 5 mínútur.

 

 

 

Það er eitthvað fallegt við ost sem er að bráðna á heitri steik! 

 

 

Það er lygilega einfalt að fá puruna vel heppnaða - þessi varð alveg eins og kex! 

 

 

 

Eplasósan er ákaflega einföld. Flysjið eplin og skerið í grófa bita og setjið í pott, ásamt kanilstönginni, og hitið þangað til að eplin fara að taka smá lit. Hellið sírópinu og vatninu og sjóðið vökvann niður. Eldið eplin þangað til að þau eru orðin mjúk í gegn. Stappið þau gróflega niður með sleif og látið kólna í ísskápnum. Vel er hægt að gera eplasósuna áður þar sem hún geymist vandræðalaust í ísskápnum í nokkra daga.

 

Með matnum drukkum við þetta ljúffenga rauðvín - Trivento Golden Reserve Malbec frá því 2013. 

 

 

Þetta vín er frá Argentínu - Mendoza dalnum og hefur unnið til verðlauna. Þetta vín er dökkrautt, eiginlega rúbinrautt í glasi. Ilmurinn með þéttum ávaxtailm. Bragðið kraftmikið með sultuðum ávexti, kryddað, jafnvel súkkulaðikeimur. Ljómandi eftirbragð. 

 

 

 

Hlakka til að sjá sem flesta á laugardaginn næsta! 

 

Bon appetit!


Grillveislan hefst: Lambarifjur með myntu og hvítlauk, með blómkálstabbouleah, haloumi og appelsínusalati og klassískri raitu

 

Það var sko ástæða til að fanga. Þriðja bókin mín fór í prentun nú í vikunni. Það vildi svo skemmtilega til að útgefendur mínir, Tómas og Anna Margrét, voru stödd í Englandi á bókamessu í London. Þau skelltu sér í lestina og brugðu sér suður til Brighton. Og það var virkilega fallegur dagur. Svona dagur þar sem maður er viss um að það sé komið vor og sumarið er handan hornsins. Dagur þegar maður sér trén laufgast og ilmurinn í loftinu verður eins og nýr og ferskur og það léttir yfir öllu. 

 

Og þegar að sólin skín á vorin hugsa ég bara um eitt - að grilla. Og sem betur fer var ég undirbúinn, ég hafði haft rænu á því að panta fullt af kolum, nýjan kolastartara og bursta frá Weber þannig að ég var til í tuskið. Snædís hafði skellt sér til vina okkar hjá Bramptons Butcher niðri á St. George stræti og sótt lambakótilettur, rétt snyrtar, svo að beinið var skafið og minnti á sleikipinna - lambasleikjó - ekki slæmt það! 

 

 

Grillveislan hefst: Lambarifjur með myntu og hvítlauk, með blómkálstabbouleh, haloumi og appelsínusalati og klassískri raitu

 

Hráefnalisti

 

Fyrir 10

 

Lambið

2,3-2,5 kg lambakótilettur

4 msk jómfrúarolía

6 hvítlauksrif

handfylli mynta

salt og pipar

 

Blómkálstabbouleh

1 blómkálshöfuð

1 rauðlaukur

1 papríka

1 kúrbítur

2 tómatar

150 g fetaostur

handfylli steinselja 

handfylli kórínader

5 msk jómfrúarolía

safi úr heilli sítrónu

1 tsk broddkúmen

1 tsk kóríanderfræ

salt og pipar

 

Haloumi og appelsínusalat

100 g blandað salat

300 g haloumiostur (hefur fengist í Melabúðinni)

2 gulrætur

1 rauðlaukur

2 msk gulur maís

1 appelsína

1/2 rauður chili

jómfrúarolía

salt og pipar

 

Klassísk raita

250 ml grísk jógúrt

1/2 agúrka

handfylli fersk mynta

1 hvítlauksrif

safi úr 1/2 sítrónu

1 msk síróp

salt og pipar

 

 

 

Það er fátt betra en að geta eldað úti í sólinni. 

 

 

Allt lítur betur út í sólarljósi! Falleg fersk mynta!

 

 

Penslið lambarifjurnar með olíu og nuddið maukuðum hvítlauk, myntu, salti og pipar í kjötið.

 

 

Blússhitið grillið.

 

 

Svo er bara að skella lambarifjunum á grillið. Það er mikill hiti á grillinu þannig að það þarf ekki langan tíma til að brúna lambið að utan. Ég sneri því reglulega til að það myndi ekki brenna. Þegar það voru komna fallega rendur á kjötið var það sett til hliðar og látið eldast á óbeinum hita í nokkrar mínútur.

 

 

Lambið var svo sett á bretti og skreytt með meira af ferskri myntu og smáræði af smátt skornum rauðum chili.

 

 

 

Raita er ofur einföld jógúrtsósa; Setjið jógúrt í skál og blandið saman við maukuðu hvítlauksrifi, smátt skorinni myntu, saxaðri kjarnhreinsaðri gúrku, sírópi, salti og pipar. Smakkað til!

 

 

Og þá er það blómkálstabbuleah. Rífið blómkálið í matvinnsluvél þannig að það minni á hrísgrjón og setjið á disk. Skerið allt grænmetið niður í smáa bita og raðið ofan á. Skreytið með kryddjurtum og myljið ostinn yfir. Dreifið olíunni og sítrónusafanum. Saltið og piprið. Ristið kóríanderfræin og broddkúmenið á þurri pönnu, malið í mortéli og dreifið yfir. Blandið öllu lauslega saman. 

 

 

Og loks salatið. Setjið grænu laufin á disk. Rífið gulræturnar með skrælara og leggið ofan á. Sneiðið haloumiostinn og grillið í skotstund þannig að þið fáið fallegar rendur og raðið ofan á. Flysjið appelsínuna og skerið í bita og raðið ofan á ásamt gulu baununum og chilipiparnum. Sáldrið smáræði af jómfrúarolíu yfir. Saltið og pipar 

 

 

 

Þar sem verið var að fagna drukkum við þennan dásemdarsopa. Baron de Ley Siete Vinas Reserva frá því 2007. Þetta vín er frá Spáni og er frábrugðið að því leyti að það er blanda úr sjö mismunandi þrúgutegundum. Og eftir því sem ég komst næst þá er það blandað bæði ú rauðvíns- og hvítvínsþrúgum. Bragðið verður því dáldið margslungið en á sama tíma ljúffengt með tannínum, dökkum berjum og kryddi og góðu eftirbragði.

 

 

Bon appetit!

 

Grillveislan er að hefjast.


Frá afgöngum í veislumáltið! Tvær ljúffengar eggjakökur - frá Mexíkó og Miðjarðarhafi!

Það er frábært að halda góðar matarveislur - fátt finnst mér vera skemmtilegra! Þeir sem fylgjast með blogginu mínu og bókunum ættu ekki að hafa farið á mis við það! En stór hluti af því að halda matarveislu er að gera afgöngunum góð skil. Það er fátt sorglegra en að henda mat, sérstaklega góðum, fullkomlega ljúffengum mat.

 

Og matarsóun er stórt vandamál í heiminum í dag. Sums staðar er talið að allt að 40% af þeim mat sem sendur er í verslanir endi á haugunum. Hvílík endemis sóun. Ekki bara er það sorglegt í ljósi þess hversu margir svelta í heiminum í dag, heldur ekki síður vegna umhverfisáhrifa. Það er ákaflega sorglegt að hugsa til þess að dýri sé slátrað til þess eins að enda á haugunum. Dýrin okkar, grænmetið, á betra skilið en að enda á haugunum.

 

Auðvitað er hægt að hita mat að nýju og njóta hans vel - en það er líka skemmtilegt að breyta einni ljúffengri máltíð í eitthvað allt annað - og álíka, ef ekki ennþá ljúffengara.

 

Afgangaveisla! Tvær ljúffengar eggjakökur - frá Mexíkó og Miðjarðarhafi! 

 

Mexíkósk eggjakaka

 

Fyrir fjóra til sex

 

6 egg

50 ml rjómi

salt og pipar

1 rauðlaukur

1 græn papríka

2 hvítlauksrif

10 msk kjötsósa (td. af Bolognese sósu)

15-20 jalapenósneiðar

150 g rifin ostur

6 tsk sýrður rjómi

3 msk kóríander

 

Miðjarðarhafs eggjakaka

 

6 egg

50 ml rjómi

salt og pipar

200 g lambakjöt (af lambalæri eða lambaframparti)

10 kirsuberjatómatar

10 kalamata ólívur

10 grænar ólívur

100 g feta ostur

2-3 msk jómfrúarolía

 

 

Allt byrjar með eggjunum. Það er alltaf þess virði að nota góð egg - ég kaupi oftast lífræn, en ávallt frá hænum sem hafa fengið að ganga frjálsar! Mér finnst það skila sér í bragðinu. 

 

Hrærið eggin saman við rjómann og saltið og piprið. 

 

 

Byrjum á að gera Mexíkóeggjakökuna. Skerið laukinn og hvítlaukinn smátt, skerið papríku í strimla og steikið í olíu eða smjöri þangað til að grænmetið er mjúkt og glansandi. Saltið og piprið. 

 

 

Takið grænmetið af pönnunni og bætið smjörklípu á pönnuna. Þegar smjörið er þagnað hellið þið eggjunum á pönnuna og leyfið eggjunum aðeins að taka sig. Raðið þá lauknum og papríkunni á ofan eggin, svo kjötsósunnni. Raðið þvínæst jalapenó pipar á pönnuna og sáldrið ostinum yfir. Látið eggin eldast næstum því eldast í gegn. Setjið undir grillið í ofninum til að leyfa ostinum að brúnast. 

 

 

Skreytið með sýrðum rjóma og ferskum kóríander.

 

 

Næst er svo Miðjarðarhafseggjakakan. Byrjið á því að skera utan af lambalærinu og sneiðið í smáa bita. Raðið í smurt eldfast mót. Setjið næst helmingaða kirsuberjatómata og ólívur með lambinu. Saltið og piprið. 

 

Hrærið eggin saman við rjómann, saltið og piprið og hellið saman við eggin. Brjótið svo fetaostinn yfir, dreifið tveimur til þremur msk af jómfrúarolíu yfir og bakið í 30 mínútur í 200 gráðu heitum ofni. 

 

 

Þegar ofnbakaða eggjakakan kemur út ofninum þarf bara að skreyta hana með ferskri steinselju eða með myntu sé hún við hendina.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband